Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 247/2017

Nr. 247/2017 8. mars 2017

REGLUR
um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til venslaðra aðila.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til venslaðra aðila.

Reglurnar gilda einnig um samstæðu þar sem móðurfélagið er fjármálafyrirtæki, blandað eignarhaldsfélag eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

 

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglum þessum merkir:

Framkvæmdastjóri: Einstaklingur sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga eða laga um fjármálafyrirtæki, burtséð frá starfsheiti að öðru leyti.

Fyrirgreiðsla: Lánveiting, verðbréfaeign, eignarhlutir, veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis, afleiðusamningar og aðrar skuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækinu eða lánveiting til þriðja aðila með tryggingu í fjármálagerningum útgefnum af einum eða fleiri aðilum sem eiga virkan eignarhlut í því.

Lykilstarfsmaður: Einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu fyrirtækisins.

Náin tengsl: Náin tengsl teljast vera til staðar þegar einstaklingar og/eða félög tengjast með einhverjum eftirfarandi hætti:

  1. með hlutdeild í formi beins eignarréttar eða yfirráðum sem nemur 20% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðavægi félags,
  2. með yfirráðum eða
  3. með varanlegum tengslum þeirra við sama þriðja aðila í gegnum yfirráðatengsl.

Venslaðir aðilar: Tengdir aðilar samkvæmt settum reikningsskilareglum, sbr. lög um ársreikninga, þ.m.t. stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, lykilstarfsmenn, þeir sem eiga virkan eignarhlut í félaginu, nánir fjölskyldumeðlimir þeirra og aðilar í nánum tengslum við framangreinda aðila, sbr. 2. mgr. 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Til venslaðra aðila geta einnig talist aðrir aðilar sem Fjármálaeftirlitið metur að eigi beinna og skyldra hagsmuna að gæta vegna starfsemi fjármálafyrirtækis.

Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.

Yfirráð: Tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og félags.

II. KAFLI

Fyrirgreiðsla til venslaðra aðila skv. 2. mgr. 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

3. gr.

Takmörkun á samtölu fyrirgreiðslna.

Fjármálafyrirtæki er óheimilt að veita stjórnarmanni, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanni eða þeim sem á virkan eignarhlut í því, og nánum fjölskyldumeðlimum þeirra eða aðila í nánum tengslum við framangreinda aðila, fyrirgreiðslu nema gegn traustum tryggingum. Samtala fyrirgreiðslna sem heimilt er að veita hverjum og einum aðila og nánum fjölskyldumeðlimum hans og aðila í nánum tengslum við þá skv. 1. málsl. má hæst vera 200 millj. kr. að teknu tilliti til takmarkana skv. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Takmörkun 1. mgr. á fyrirgreiðslum gildir ekki um lánveitingar til eigenda virkra eignarhluta ef eigandi virks eignarhlutar er ríki eða sveitarfélag. Fyrirgreiðslur skv. 1. mgr. taka ekki til innláns í eigu annars fjármálafyrirtækis.

Fjármálaeftirlitið getur veitt tímabundna undanþágu frá fjárhæðartakmörkun skv. 1. mgr. í sérstökum tilvikum, sbr. 3. mgr. 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

4. gr.

Útreikningur á samtölu fyrirgreiðslna.

Við útreikning á samtölu fyrirgreiðslna skal leggja saman fjárhæð lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta, veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis, afleiðusamninga og annarra skuldbindinga gagnvart fjármálafyrirtækinu, og, eftir atvikum, lánveitinga til þriðja aðila með tryggingu í fjármálagerningum útgefnum af einum eða fleiri aðilum sem eiga virkan eignarhlut í því eða aðila í nánum tengslum við þá.

Við útreikning á samtölu fyrirgreiðslna er heimilt að draga frá fjárhæð trygginga skv. c- og f-liðum 1. mgr. 5. gr.

Fjárhæð afleiðusamninga skal vera grundvallarfjárhæð, þ.e. sú fjárhæð sem er margfölduð með áhættuhlutfalli í útreikningi á útlánaígildi samkvæmt 273. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sbr. 48. gr. reglugerðar um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017.

5. gr.

Traustar tryggingar.

Fyrirgreiðslur skulu eingöngu veittar gegn eftirfarandi tryggingum:

  1. Íbúðarhúsnæði. Veðsetning skal vera í samræmi við það sem almennum viðskiptamönnum stendur til boða.
  2. Viðskiptahúsnæði. Veðsetning má ekki fara yfir 70% af virði samkvæmt kaupsamningi eða mati sem framkvæmt er af löggiltum fasteignasala ef um fjölnota viðskiptahúsnæði er að ræða, sbr. 37. tölul. 2. gr. reglugerðar um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017. Ef um sérhæft viðskiptahúsnæði er að ræða má veðsetningin ekki fara yfir 50% af virði samkvæmt kaupsamningi eða mati sem framkvæmt er af löggiltum fasteignasala.
  3. Skráð ríkisskuldabréf og skuldabréf með ríkisábyrgð. Veðsetning má ekki fara yfir 90% af markaðsvirði bréfanna.
  4. Auðseljanleg verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og gull samkvæmt c-, d-, f- og g-liðum 1. mgr. 197. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sbr. 40. gr. reglugerðar um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017. Veðsetning má ekki fara yfir 80% af markaðsvirði að undanskildum tryggingum skv. f-lið 1. mgr. 197. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 en veðsetning vegna þeirra má ekki fara yfir 50% af markaðsvirði.
  5. Bifreiðar og rekstrartæki. Veðsetning skal vera í samræmi við það sem almennum viðskiptamönnum stendur til boða.
  6. Innlán hjá fjármálafyrirtæki má veðsetja að fullu en að hámarki 90% í öðru fjármálafyrirtæki.
  7. Aðrar tryggingar enda fari veðsetning ekki yfir 30%.

 

Veðhlutfall skal ávallt vera undir tilskildum mörkum. Við veitingu fyrirgreiðslu skal veðhlutfall skrásett með formlegum hætti. Virði trygginga skal reikna með reglubundnum hætti.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. má samtala fyrirgreiðslna til hvers og eins aðila og náinna fjölskyldumeðlima hans og aðila í nánum tengslum við þá án trygginga vera að hámarki 20 millj. kr. en fyrirgreiðsla til sérhvers aðila án trygginga má þó ekki vera hærri en 5 millj. kr.

6. gr.

Armslengdarsjónarmið.

Viðskipti fjármálafyrirtækis við stjórnarmenn, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmenn eða þá sem eiga virkan eignarhlut í því, og nána fjölskyldumeðlimi þeirra eða aðila í nánum tengslum við þá, skulu lúta sömu reglum og viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum.

Kveðið skal nánar á um viðskipti fjármálafyrirtækis við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn í reglum sem stjórn þess setur á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

7. gr.

Tilkynningarskylda.

Fari fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis yfir mörk skv. 3. gr. eða eru ekki tryggð með traustum tryggingum skv. 5. gr. ber því þegar í stað að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu og gera grein fyrir þeim ráðstöfunum sem það hyggst grípa til af þessu tilefni. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita fjármálafyrirtæki frest til að laga sig að gildandi takmörkunum.

III. KAFLI

Fyrirgreiðsla til annarra venslaðra aðila.

8. gr.

Fyrirgreiðsla til annarra venslaðra aðila.

Um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila, annarra en þeirra sem falla undir 2. mgr. 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, fer skv. 5. mgr. 107. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

IV. KAFLI

Áhættustýring, skýrslugjöf og gildistaka.

9. gr.

Áhættustýring vegna fyrirgreiðslna til venslaðra aðila.

Fjármálafyrirtæki skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína, þar með talið áhættu sem hlýst af fyrirgreiðslum til venslaðra aðila. Fjármálafyrirtæki skal greina, mæla og meta áhættu sem stafar af slíkum fyrirgreiðslum. Hjá fjármálafyrirtæki skulu vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar sem varða áhættuna.

Allar fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til venslaðra aðila, og breytingar á þeim, skulu vera rekjanlegar þannig að unnt sé að hafa eftirlit með þeim.

Fjármálafyrirtæki skal að lágmarki árlega gera athugun á stöðu fyrirgreiðslna til venslaðra aðila.

10. gr.

Skýrslugjöf.

Fjármálafyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu skýrslu um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila samkvæmt formi og tíðni sem stofnunin ákveður.

11. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 3. mgr. 29. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 162/2011 um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna eða þeirra sem eiga virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda.

Fjármálaeftirlitinu, 8. mars 2017.

Unnur Gunnarsdóttir.

Sigurður Freyr Jónatansson.


B deild - Útgáfud.: 24. mars 2017