Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 815/2021

Nr. 815/2021 25. júní 2021

REGLUR
um bókasafnasjóð.

1. gr.

Hlutverk bókasafnasjóðs.

Hlutverk bókasafnasjóðs samkvæmt VI. kafla bókasafnalaga nr. 150/2012 er að efla starfsemi bóka­safna. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreindar rannsóknir og þróunar- og samstarfs­verkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja önnur verkefni til að efla faglegt samstarf bókasafna, m.a. alþjóðleg samstarfsverkefni sem bókasöfn sem falla undir lögin taka þátt í.

 

2. gr.

Stjórn og skipulag.

Bókasafnaráð setur bókasafnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir. Rannís annast umsýslu sjóðsins og tekur við umsóknum á heimasíðu sinni gegnum rafrænt umsóknarkerfi.

 

3. gr.

Auglýsingar og umsóknir.

Bókasafnaráð auglýsir í febrúar ár hvert eftir umsóknum um styrki úr bókasafnasjóði í dag­blöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Í auglýsingu skal greint frá hlutverki sjóðsins og áherslum sem liggja til grundvallar mati á umsóknum. Umsóknarfrestur skal vera 6 vikur. Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfrestur er liðinn koma ekki til mats.

Bókasafnaráð getur ákveðið hvort sjóðurinn leggi áherslu á ákveðna þætti safnastarfs í úthlutun styrkja hvers árs og skal slík ákvörðun kynnt í auglýsingum.

Í umsókn um styrk skal lýsa hvernig umsækjendur hyggjast verja styrknum. Í umsókn skulu eftir­talin atriði koma fram eftir því sem við á:

  1. Upplýsingar um umsækjanda og aðra þátttakendur í verkefni.
  2. Ítarleg lýsing á verkefni í samræmi við matskvarða umsóknar.
  3. Tíma- og kostnaðaráætlun verkefnisins og önnur fjármögnun.

 

4. gr.

Mat á umsóknum.

Bókasafnaráð veitir umsagnir um styrkumsóknir úr bókasafnasjóði og leggur mat á þær skv. mats­kvarða fyrir bókasafnasjóð. Upphæðir og fjöldi styrkja ráðast af fjölda og gæðum umsókna og ráðstöfunarfé sjóðsins. Hafi umsækjandi áður fengið styrk úr sjóðnum þarf að liggja fyrir áfanga­skýrsla hans um framkvæmd fyrri verkefna og ráðstöfun styrkfjárins til að ný umsókn af hans hálfu komi til greina.

Ekki eru veittir styrkir til kjarnastarfsemi eða reglubundins rekstrar bókasafna eða samtaka.

 

5. gr.

Styrkir.

Styrkir úr bókasafnasjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur þessar og matskvarða fyrir bókasafnasjóð. Styrkir skulu veittir til ákveðinna verkefna og að jafnaði ekki lengur en til eins árs í senn.

Öll bókasöfn sem falla undir bókasafnalög geta sótt um styrki, ein eða með öðrum bókasöfnum eða með öðrum aðilum sem hafa það að markmiði að efla bókasöfn í landinu.

Bókasafnaráð sendir tillögu um úthlutun til mennta- og menningarmálaráðherra sem úthlutar styrkjum úr bókasafnasjóði. Tillögur bókasafnaráðs skulu vera skriflegar og greina í stuttu máli frá málsmeðferð við tillögugerðina.

Rannís tilkynnir umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsókna þeirra. Styrkþegum skal jafn­framt tilkynnt um skilyrði sem styrkveiting er bundin, eftirlit sem henni fylgir og endurgreiðslu hafi verk­efni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og reglur.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti annast greiðslu styrkja.

Viðtaka styrkfjár felur í sér viðurkenningu á að styrkþegi fallist á þau skilyrði sem styrkveiting er bundin. Í svarbréfum til styrkþega birtast skilmálar bókasafnasjóðs og upplýsingar um greiðslu­tilhögun.

Styrkir allt að 1,5 milljón kr. eru greiddir út í einu lagi en hærri styrkir greiðast hlutfallslega þ.e. styrkþegi fær 80% styrkupphæðar í upphafi en lokagreiðsla að 20% hlutfalli berst þegar styrkþegi hefur skilað lokaskýrslu samkvæmt skilmálum bókasafnasjóðs.

Niðurstaða úthlutunar bókasafnasjóðs er að jafnaði birt tveimur mánuðum eftir umsóknarfrest, umsækjendur fá svarpóst og listi styrkþega er birtur á heimasíðu Rannís.

Styrkir úr bókasafnasjóði eru undanþegnir tekjuskatti, sbr. 4. mgr. 21. gr. bókasafnalaga.

 

6. gr.

Upplýsingagjöf og uppgjör.

Að verkefni loknu skila styrkþegar lokaskýrslu um árangur og niðurstöður til bókasafnaráðs innan 3ja mánaða frá áætluðum lokum verkefnis. Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, hafi verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum bókasafnasjóðs eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan 3ja mánaða frá áætluðum lokum verkefnisins.

Umsókn um frest skal vera skrifleg og rökstudd. Jafnframt er heimilt að hafna umsóknum við­komandi styrkþega um nýja styrki þar til úrbætur hafa verið gerðar að mati bókasafnaráðs.

 

7. gr.

Kynning á styrktum verkefnum.

Styrkþegar skulu kynna niðurstöður og árangur styrktra verkefna opinberlega í samráði við fag­félög, bókasöfn eða á öðrum viðurkenndum vettvangi, svo sem í bók, tímariti eða á vef.

Við framkvæmd og kynningu, og í niðurstöðum verkefna sem hlotið hafa styrk úr bókasafna­sjóði skal láta þess getið að verkefnin hafi hlotið styrk úr sjóðnum.

 

8. gr.

Gildistaka.

Úthlutunarreglur þessar eru settar með stoð í 3. tölul. 5. gr. og VI. kafla bókasafnalaga nr. 150/2012. Reglur þessar öðlast þegar gildi.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Árið 2021 verður auglýst eftir umsóknum í september.

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 25. júní 2021.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Páll Magnússon.


B deild - Útgáfud.: 12. júlí 2021