1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til biðlista og forgangsröðunar umsókna á biðlista eftir þjónustu skv. 8. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og meðferð umsókna á biðtíma. Reglugerð þessi nær til nýrra umsókna um þjónustu og áður samþykktra umsókna þar sem þjónusta fellur niður tímabundið, svo sem vegna mannabreytinga.
Reglugerð þessi gildir ekki um biðlista eftir húsnæðisúrræði skv. 9. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
2. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að biðtími eftir samþykktri þjónustu verði sem minnst íþyngjandi fyrir notanda og að unnið sé með virkum hætti að því að samþykkt þjónusta hefjist sem fyrst. Ef fyrirséð er að þjónusta geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þá þjónustu og úrræði sem í boði eru á biðtíma.
3. gr.
Biðlistar.
Ef ekki er unnt að veita samþykkta þjónustu innan þriggja mánaða skal tilkynna umsækjanda um ástæður tafanna og hvenær fyrirhugað sé að þjónusta geti hafist. Þá skal setja umsókn á biðlista. Þegar umsækjanda er tilkynnt um að hann sé kominn á biðlista skal unnin áætlun um hvenær samþykkt þjónusta geti hafist og hvaða þjónusta standi umsækjanda til boða á biðtíma.
Ástæður sem geta réttlætt tafir á að samþykkt þjónusta hefjist eru mannekla, nægjanlegt fjármagn er ekki fyrir hendi á umsóknarárinu samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins eða önnur úrræði eru ekki til staðar, svo sem pláss í skammtímadvöl eða hjá stuðningsforeldrum/fjölskyldum.
4. gr.
Röðun á biðlista.
Raða skal á biðlista eftir sömu sjónarmiðum og koma fram í matsviðmiðum sveitarfélaga. Sveitarfélög skulu kveða skýrt á um það í reglum sínum á hvaða matsviðmiðum skuli byggja, hvernig samþykktum umsóknum skuli forgangsraðað eftir þörf viðkomandi, lengd biðtíma eftir þjónustu og þeim úrræðum sem standa til boða á biðtíma. Við mat á þörf og forgangi skal sveitarfélag meðal annars líta til eftirfarandi atriða:
- Hversu brýna þörf umsækjandi hafi fyrir þjónustu.
- Félagslegra aðstæðna umsækjanda.
- Færni og styrkleika umsækjanda.
- Hvaða afleiðingar töf á veitingu þjónustu hafi fyrir umsækjanda.
- Samfélagsþátttöku, valdeflingu og virkni umsækjanda.
5. gr.
Samráð og úrræði á biðtíma.
Sveitarfélag skal tryggja reglubundið samráð við umsækjanda á biðtíma. Umsækjandi skal þá upplýstur um stöðu á biðlista, áætlaða lengd biðtíma og þau úrræði sem standa honum til boða á biðtímanum. Ef fyrirséð er að þjónusta sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um önnur úrræði á biðtíma. Veita skal umsækjanda aðra viðeigandi þjónustu, svo sem í formi notendasamnings, meðan beðið er eftir að þjónustan sem samþykkt hefur verið hefjist.
6. gr.
Kæruheimild.
Heimilt er að kæra tafir á málsmeðferð, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bið eftir að þjónusta hefjist til úrskurðarnefndar velferðarmála.
7. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 34. og 40. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, öðlast gildi 7. nóvember 2018.
Velferðarráðuneytinu, 7. nóvember 2018.
Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ellý Alda Þorsteinsdóttir.
|