Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 377/2021

Nr. 377/2021 23. mars 2021

REGLUR
um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um nánari framkvæmd laga nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 frá 23. júlí 2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfa­miðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012 (hér eftir CSDR), hvað varðar:

  1. Kennistærðir fyrir útreikning á fjársektum vegna uppgjörsbrests og starfsemi verðbréfa­mið­stöðva í gistiaðildarríkjum.
  2. Varfærniskröfur fyrir verðbréfamiðstöðvar og tilnefndar lánastofnanir sem bjóða viðbótar­banka­þjónustu.
  3. Efni tilkynninga um innra uppgjör.
  4. Starfsleyfi, eftirlitskröfur og rekstrarlegar kröfur fyrir verðbréfamiðstöðvar.
  5. Sniðmát og verklag fyrir tilkynningar og sendingu upplýsinga um innra uppgjör í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014.
  6. Stöðluð eyðublöð, sniðmát og verklagsreglur vegna starfsleyfisveitingar, úttektar og mats á verðbréfamiðstöðvum, vegna samstarfs milli yfirvalda í heimaaðildarríki og gistiaðildarríki, vegna samráðs yfirvalda sem taka þátt í að veita starfsleyfi fyrir viðbótarbankaþjónustu, vegna aðgangs í tengslum við verðbréfamiðstöðvar og að því er varðar snið skránna sem verðbréfamiðstöðvar skulu geyma í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014.

 

2. gr.

Tilvísanir og skilgreiningar.

Almennir fjárfestar: Með tilvísunum í reglum þessum til almennra fjárfesta eins og þeir eru skil­greindir í 11. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB er átt við almenna fjárfesta eins og þeir eru skilgreindir í 11. tölulið. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti.

Fagfjárfestar: Með tilvísunum í reglum þessum til fagfjárfesta eins og þeir eru skilgreindir í 10. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB er átt við fagfjárfesta eins og þeir eru skilgreindir í 9. tölulið. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti.

Fjárfestingarþjónusta og starfsemi: Með tilvísunum í reglum þessum til fjárfestingarþjónustu og starfsemi sem fellur undir tilskipun 2014/65/ESB er átt við fjárfestingarþjónustu og starfsemi skv. 6. tölulið. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Fjármálagerningar: Með tilvísunum í reglum þessum til fjármálagerninga sem um getur í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar (ESB) nr. 600/2014 og eru teknir til viðskipta á viðskiptavettvangi innan Sam­bands­ins er átt við hlutabréf, heimildarskírteini, kauphallarsjóði, skírteini og aðra svipaða fjármála­gerninga sem eru í viðskiptum á viðskiptavettvangi.

Framseljanleg verðbréf: Með tilvísunum í reglum þessum til framseljanlegra verðbréfa eins og um getur í a-lið 44. töluliðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB er átt við framseljanleg verðbréf skv. a-lið 2. töluliðar. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti.

Með tilvísunum í reglum þessum til framseljanlegra verðbréfa sem um getur í b-lið 44. töluliðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB er átt við skuldabréf eða önnur tryggð skuldaskjöl, þ.m.t. heimildarskírteini vegna slíkra verðbréfa, önnur en þau sem nefnd eru í ii. lið g-liðar 1. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) 2017/391.

Með tilvísunum í reglum þessum til framseljanlegra verðbréfa sem um getur í c-lið 44. töluliðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB er átt við verðbréf sem unnt er að eiga viðskipti með á fjár­magns­markaði önnur en greiðsluskjöl, hlutabréf í fyrirtækjum og önnur verðbréf sem eru ígildi hluta­bréfa í fyrirtækjum, sameignarfélögum eða öðrum einingum og heimildaskírteini vegna hluta­bréfa, skuldabréf eða önnur tryggð skuldaskjöl, þ.m.t. heimildarskírteini vegna slíkra verðbréfa, sem veita rétt til að kaupa eða selja framseljanleg verðbréf eða leiða til uppgjörs í reiðufé sem ákvarðast með tilliti til framseljanlegra verðbréfa, gjaldmiðla, vaxta eða ávöxt­unar­krafna, hrávara eða annarra vísitalna eða mælikvarða.

Kauphallarsjóðir: Með tilvísunum í reglum þessum til kauphallarsjóða, eins og þeir eru skil­greindir í 46. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB er átt við sjóði þar sem a.m.k. eitt hlut­deildar­skírteini eða einn flokkur hlutabréfa eru í viðskiptum yfir daginn á a.m.k. einum viðskipta­vettvangi og með a.m.k. einum viðskiptavaka sem gerir ráðstafanir til að tryggja að verð hlutdeildar­skírteina eða hlutabréfa hans á viðskiptavettvanginum víki ekki verulega frá verðmæti hreinnar eignar hans og, þegar við á, frá ætluðu verðmæti hreinnar eignar hans.

Lokaverð á markaði: Með tilvísunum í reglum þessum til lokaverðs á markaði sem á best við með tilliti til seljanleika eins og um getur í a-lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 600/2014 er átt við viðmiðunarverð sem birt er víða og markaðsaðilar telja áreiðanlegt viðmiðunarverð.

Peningamarkaðsgerningar: Með tilvísunum í reglum þessum til peningamarkaðsgerninga, ann­arra en ríkisskuldabréfa sem um getur í 61. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB, er átt við þá flokka gerninga sem viðskipti fara venjulega fram með á peningamarkaði, svo sem ríkisvíxla, innlánsskírteini og viðskiptabréf, að undanskildum greiðsluskjölum.

Ríkisskuldabréf: Með tilvísunum í reglum þessum til ríkisskuldabréfa sem um getur í 61. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB er átt við skuldagerninga sem ríkisútgefandi gefur út.

Ríkisútgefandi: Með tilvísunum í reglum þessum til ríkisútgefanda, eins og hann er skilgreindur í 60. tölulið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB er átt við sérhvern eftirfarandi aðila sem gefur út skulda­gerninga:

  1. Sambandið,
  2. aðildarríki, þ.m.t. ráðuneyti, stofnun eða félag aðildarríkis með sérstakan tilgang,
  3. þegar um er að ræða sambandsríki, aðila að sambandsríkinu,
  4. félag nokkurra aðildarríkja með sérstakan tilgang,
  5. alþjóðlega fjármálastofnun sem tvö eða fleiri aðildarríki hafa komið á fót og hefur það mark­mið að virkja fjármagn og veita fjárhagsaðstoð til handa þeim aðilum sínum sem eiga í alvar­legum fjármögnunarerfiðleikum eða sjá fram á slíka erfiðleika eða
  6. Fjárfestingarbanka Evrópu,

Uppgjörsbrestur: Með tilvísunum í reglum þessum til uppgjörsbrests vegna skorts á hluta­bréfum sem hafa, eða hafa ekki, virkan markað í skilningi b-liðar 17. töluliðar 1. mgr. 2. gr. reglu­gerðar (ESB) nr. 600/2014 er átt við markað fyrir fjármálagerning sem viðskipti eru með daglega þar sem markaðurinn er metinn samkvæmt eftirfarandi viðmiðum:

  1. floti (e. free float),
  2. meðalfjölda viðskipta á dag með þessa fjármálagerninga,
  3. meðaldagsveltu þessara fjármálagerninga,

 

3. gr.

Innleiðing EES-reglugerða.

Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi eftirfarandi reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB) sem birtar eru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 24. september 2020, bls. 1-206, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2019, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 48 frá 16. júlí 2020, bls. 36, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:

Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/389 frá 11. nóvember 2016 um við­bætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 að því er varðar kenni­stærðir fyrir útreikning á fjársektum vegna uppgjörsbrests og starfsemi verðbréfamiðstöðva í gisti­aðildar­ríkjum.
Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/390 frá 11. nóvember 2016 um við­bætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um tilteknar varfærniskröfur fyrir verðbréfamiðstöðvar og tilnefndar lánastofnanir sem bjóða viðbótarbankaþjónustu.
Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/391 frá 11. nóvember 2016 um við­bætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 um tæknilega eftirlitsstaðla sem tilgreina frekar efni tilkynninga um innra uppgjör.
Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/392 frá 11. nóvember 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 að því er varðar tækni­lega eftirlitsstaðla um starfsleyfi, eftirlitskröfur og rekstrarlegar kröfur fyrir verðbréfa­miðstöðvar.
Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/393 frá 11. nóvember 2016 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar sniðmát og verklag fyrir tilkynningar og send­ingu upplýsinga um innra uppgjör í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014.
Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/394 frá 11. nóvember 2016 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar stöðluð eyðublöð, sniðmát og verklags­reglur vegna starfsleyfisveitingar, úttektar og mats á verðbréfamiðstöðvum, vegna samstarfs milli yfirvalda í heimaaðildarríki og gistiaðildarríki, vegna samráðs yfirvalda sem taka þátt í að veita starfsleyfi fyrir viðbótarbankaþjónustu, vegna aðgangs í tengslum við verðbréfa­miðstöðvar og að því er varðar snið skránna sem verðbréfa­miðstöðvar skulu geyma í samræmi við reglu­gerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014.

 

4. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt 32. gr. laga nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, upp­gjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, öðlast gildi þegar í stað.

 

Seðlabanka Íslands, 23. mars 2021.

 

  Ásgeir Jónsson 
seðlabankastjóri.
Rannveig Júníusdóttir,
frkvstj. skrifstofu bankastjóra.

B deild - Útgáfud.: 9. apríl 2021