Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1200/2019

Nr. 1200/2019 18. desember 2019

REGLUR
um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands.

1. gr.

Markmið.

Með tilvísun til 1. mgr. 7. gr. og 38. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands hefur Seðla­bankinn sett eftirfarandi reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja (lánastofnana) við Seðlabankann.

Markmið reglna þessara er að skýra réttarsamband Seðlabankans og þeirra fjármálafyrirtækja sem átt geta viðskipti við Seðlabankann. Um viðskipti þessara aðila fer eftir reglum þessum og skil­málum settum samkvæmt þeim.

2. gr.

Gildissvið.

Eftirfarandi fjármálafyrirtæki geta átt viðskipti við Seðlabankann:

  1. Fjármálafyrirtæki (lánastofnanir) sem fengið hafa starfsleyfi skv. 1. og 2. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
  2. Útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem fengið hafa staðfestu og samsvarandi starfsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002 og starfa hér á landi.
  3. Útibú erlendra fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa heimild Fjármálaeftirlitsins skv. 33. gr. laga nr. 161/2002, enda hafi fyrirtækið hliðstætt starfsleyfi og 1. og 2. tl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga kveður á um í heima­ríkinu, starf­semin sem fyrirtækið hyggst stunda hér á landi sé sambærileg og að starfsemi fyrirtækisins sé háð sambærilegu fjármálaeftirliti og lög nr. 87/1998 kveða á um í heima­ríkinu.

3. gr.

Skilgreining hugtaka.

Bundin innlán: Bundnar innstæður fjármálafyrirtækja í Seðlabankanum í umsaminn tíma.

Daglán: Lán veitt til næsta viðskiptadags gegn veði í fjárhagslegri tryggingarráðstöfun sem Seðla­bankinn metur hæf til tryggingar.

Endurhverf verðbréfaviðskipti: Samningur um kaup/sölu Seðlabankans á verðbréfum af/til fjármála­fyrirtækis þar sem fjármálafyrirtæki öðlast jafnframt rétt og skyldu að tilteknum tíma liðnum til að selja/kaupa aftur verðbréfin eða jafngild verðbréf á tilteknu verði. Endurhverf verðbréfa­viðskipti fara fram með kaupum og sölu verðbréfa á skipulögðum verðbréfamarkaði sem Seðlabank­inn sam­þykkir.

Fjárhagsleg tryggingarráðstöfun: Framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu eða veð­setning á fjárhagslegri tryggingu til tryggingar efndum á skuldbindingum fjármálastofnunar við Seðla­bankann.

Gjaldeyrisskiptasamningar: Samningur um kaup eða sölu gjaldeyris sem gengur til baka eftir til­greindan tíma með andhverfum viðskiptum í samræmi við samning.

Innstæðubréf: Rafrænt skilríki fyrir innstæðu hjá Seðlabanka Íslands, gefið út til fjármála­fyrirtækis.

Markaðsvirði: Nafnverð fjárhagslegrar tryggingar margfaldað með viðmiðunarverði.

Sértryggt skuldabréf: Skuldabréf eða önnur einhliða, óskilyrt, skrifleg skuldarviðurkenning sem nýtur sérstaks fullnusturéttar í tryggingasafni útgefanda og gefið er út samkvæmt lögum nr. 11/2008.

Veðlán: Lán sem veitt eru gegn veði, í verðbréfum sem Seðlabankinn metur hæf til tryggingar.

Viðmiðunarverð: Dagslokaverð verðbréfa á síðasta viðskiptadegi áður en mat verðbréfa fer fram, á skipulegum verðbréfamarkaði eða viðurkenndum upplýsingaveitum sem Seðlabankinn hefur sam­þykkt.

Viðskiptadagur: Virkur afgreiðsludagur viðskiptabanka og sparisjóða frá mánudegi til föstu­dags.

4. gr.

Gjaldmiðill viðskipta.

Viðskipti og daglán Seðlabankans fara fram í íslenskum krónum. Seðlabankinn getur heimilað við­skipti í erlendri mynt.

5. gr.

Viðskiptareikningar.

Það er skilyrði fyrir viðskiptum við Seðlabankann samkvæmt reglum þessum að viðkomandi fjár­mála­fyrirtæki hafi stofnað viðskiptareikning við Seðlabankann.

Viðskipti fjármálafyrirtækja eru eignfærð eða skuldfærð af Seðlabankanum á viðskiptareikning þeirra eftir því sem við á samkvæmt reglum þessum og skuldbindur fjármálafyrirtæki sig til að ráðstöfunarfjárhæð reiknings þess, sé ávallt nægjanleg.

6. gr.

Reglulegir viðskiptadagar Seðlabankans.

Viðskiptadagar reglulegra viðskipta, sbr. 7. gr., eru virkir afgreiðsludagar viðskiptabanka og sparisjóða. Sé efndadagur ekki viðskiptadagur getur Seðlabankinn ákveðið með að minnsta kosti 5 daga fyrirvara hvaða dagur skuli vera efndadagur og breytist þá efndatíminn samkvæmt því. Sé ekkert annað ákveðið færist efndadagur til næsta viðskiptadags á undan og styttist þá efndatíminn sem því nemur. Gamlársdagur telst ekki reglulegur viðskiptadagur.

7. gr.

Regluleg viðskipti.

Til reglulegra viðskipta Seðlabankans, með þann efndatíma sem Seðlabankinn ákveður, í þeim til­gangi að auka eða draga úr framboði lausafjár teljast:

  1. Lán gegn fjárhagslegri tryggingarráðstöfun sem Seðlabankinn metur gilda, sbr. 10. gr.
  2. Innstæðubréf Seðlabanka Íslands, þ.e. skuldabréf sem Seðlabankinn gefur út til fjármála­fyrirtækja.
  3. Bundin innlán.
  4. Víxlar gefnir út af Seðlabanka Íslands.
  5. Gjaldmiðlaskiptasamningar.
  6. Endurhverf verðbréfaviðskipti með verðbréf sem Seðlabankinn metur hæf til tryggingar, sbr. 10. gr.

8. gr.

Tilhögun og kjör viðskipta.

Vextir í viðskiptum við Seðlabanka Íslands eru samkvæmt vaxtatilkynningum Seðlabankans sem birtar eru á vefsíðu bankans.

Seðlabankinn getur takmarkað hversu hátt hlutfall þeirrar fjárhæðar sem bankinn býður til við­skipta rennur til einstaks fjármálafyrirtækis. Seðlabankinn getur hafnað einstaka eða öllum til­boðum.

Seðlabankinn birtir á vefsíðu sinni upplýsingar um tilhögun og önnur kjör viðskipta og skilyrði fjárhagslegra tryggingarráðstafana.

9. gr.

Samningar um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir í viðskiptum fjármálafyrirtækja við Seðlabankann fer skv. lögum nr. 46/2005.

Samning um fjárhagslega tryggingarráðstöfun skal gera skriflega eða með rafrænum hætti þannig að sanna megi stofnun tryggingarráðstöfunarinnar með lögformlegum hætti.

Í samningi skal tilgreina til hvaða skuldbindinga og trygginga samningurinn nær.

10. gr.

Fjárhagslegar tryggingarráðstafanir í viðskiptum við Seðlabankann.

Eftirfarandi tryggingar eru hæfar í viðskiptum við Seðlabankann:

  1. Bundin innlán fjármálafyrirtækja við Seðlabankann.
  2. Innstæðubréf gefin út af Seðlabankanum.
  3. Víxlar gefnir út af Seðlabanka Íslands.
  4. Skuldabréf gefin út af ríkissjóði Íslands í íslenskum krónum.
  5. Skuldabréf með ríkisábyrgð í íslenskum krónum.
  6. Sértryggð skuldabréf en tryggingasafn sértryggðs skuldabréfs skal eingöngu samanstanda af skuldabréfum tryggðum með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi. Fjármálafyrirtæki getur lagt fram til tryggingar allt að 3 ma.kr. að markaðsvirði af eigin útgáfu sértryggðra skulda­bréfa.
  7. Einstaka skuldabréf gefin út af Lánasjóði sveitarfélaga eða Reykjavíkurborg sem Seðla­bankinn samþykkir hæf til tryggingar.

Verðbréf skv. 2.-7. tölul. 1. mgr. skulu uppfylla öll eftirtalin skilyrði:

  1. Vera rafrænt skráð í verðbréfamiðstöð sem Seðlabankinn viðurkennir.
  2. Hafa viðskiptavaka annað hvort á skipulegum verðbréfamarkaði eða í upplýsingaveitu sem Seðlabankinn viðurkennir þar sem sýnd eru bæði kaup- og sölutilboð.
  3. Útgefið markaðsvirði skal vera yfir 5 ma.kr. og staðfest að það magn hafi selst.

Seðlabankinn getur ákveðið að víkja frá skilyrðum 2. og 3. tölul. 2. mgr. vegna verðbréfa skv. 2.-5. tölul. 1. mgr.

Seðlabankinn birtir á vefsíðu sinni þá flokka skuldabréfa sem bankinn samþykkir.

11. gr.

Takmarkanir á tryggingarhæfi verðbréfa.

Fjármálafyrirtæki ábyrgist að verðbréf lögð fram til fjárhagslegrar tryggingarráðstöfunar vegna skuldbindinga við Seðlabankann séu veðbanda- og kvaðalaus.

Ekki er heimilt að leggja fram víkjandi skuldabréf til tryggingar.

Útgefanda er ekki heimilt að leggja fram eigin skuldabréf til tryggingar fyrir eigin viðskiptum við Seðlabankann að undanskildum sértryggðum skuldabréfum, sbr. 6. tl. 1. mgr. 10. gr.

Séu verðbréf dregin út, þau falla í gjalddaga eða ef Fjármálaeftirlitið afturkallar leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa sem lögð hafa verið fram til tryggingar skal fjármálafyrirtæki leggja fram nýjar hæfar tryggingar og skal matsverð þeirra vera a.m.k. jafnhátt og matsverð áður framlagðra trygginga.

Seðlabankinn metur tryggingarhæfi viðkomandi verðbréfa í hverju tilviki fyrir sig. Seðlabank­inn áskilur sér rétt til að hafna verðbréfum sem lögð eru fram til fjárhagslegrar tryggingarráðstöfunar leiki vafi á að uppfyllt séu skilyrði um tryggingarhæfi þeirra.

12. gr.

Verðmat tryggingarhæfra verðbréfa.

Liggi viðmiðunarverð verðbréfa ekki fyrir á skipulegum verðbréfamarkaði, eða hjá viður­kenndum upplýsingaveitum sem Seðlabankinn samþykkir, ákveður Seðlabankinn viðmiðunarverðið.

Við mat á verðmæti verðbréfa sem lögð eru fram til tryggingar í viðskiptum við Seðlabankann skal nota frádrag frá viðmiðunarverði. Seðlabankinn ákveður frádrag verðbréfa og er það birt á vefsíðu bankans.

Seðlabankinn getur ef nauðsyn krefur, t.d. vegna markaðsaðstæðna, ákveðið að beita frekara frádragi en áður hefur verið ákveðið og birt á vefsíðu bankans.

Seðlabankanum er heimilt að hafna umsókn um viðskipti náist ekki samkomulag um verðmat trygginga.

13. gr.

Daglán.

Daglán er veitt til næsta viðskiptadags, gegn fjárhagslegri tryggingarráðstöfun sem Seðla­bankinn metur gilda, sbr. 10. gr. Fjármálafyrirtæki getur óskað eftir dagláni geti það ekki uppfyllt bindi­skyldu með öðrum hætti. Einnig getur Seðlabankinn veitt fjármálafyrirtæki daglán til að koma í veg fyrir yfirdrátt á viðskiptareikningi þess í lok viðskiptadags. Seðlabankinn getur veitt daglán í öðrum til­vikum.

Fjárhæð útistandandi daglána má aldrei vera hærri en níutíu hundraðshlutar af markaðsvirði veð­settra verðbréfa sem sett hafa verið til tryggingar þeim.

Seðlabankinn getur breytt kjörum daglána án fyrirvara.

14. gr.

Viðbótartryggingar.

Seðlabankinn endurmetur reglulega verðmæti fjárhagslegra tryggingarráðstafana. Þar sem mark­aðs­virði getur lækkað fyrirvaralaust getur slíkt endurmat leitt til þess að Seðlabankinn krefjist viðbótartrygginga. Kveði reglur og skilmálar á um að verðmæti tryggingar skuli ávallt vera yfir ákveðnu lágmarki, og lækki verðmæti trygginga niður fyrir hið tilgreinda lágmark, skal fjármála­fyrirtæki leggja fram viðbótartryggingu þannig að tilgreindu lágmarki verði náð á ný.

Telji Seðlabankinn þörf á viðbótartryggingu sbr. 1. mgr. skal viðkomandi fjármálafyrirtæki leggja fram fullnægjandi tryggingar þegar í stað.

15. gr.

Vörslur verðbréfa.

Verðbréf sem lögð eru fram til tryggingar skulu skráð hjá verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi skv. lögum nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Heimilt er að leggja fram verðbréf rafrænt skráð í erlendri verðbréfamiðstöð sem Seðlabankinn viðurkennir.

Verðbréf sem skráð eru í íslenskri verðbréfamiðstöð skulu vistuð á VS reikningi viðkomandi fjármála­fyrirtækis í Seðlabankanum sem jafnframt skal veðsettur Seðlabankanum samkvæmt sér­stakri yfirlýsingu þar að lútandi.

Séu verðbréf skráð í erlendri verðbréfamiðstöð skulu þau vistuð hjá vörsluaðila (reiknings­stofnun) sem Seðlabankinn viðurkennir.

16. gr.

Vanefndir og fullnustuheimildir Seðlabankans.

Bankanum er heimilt að ráðstafa fé af innlánsreikningi fjármálafyrirtækis til greiðslu gjald­fallinna skulda fjármálafyrirtækisins við bankann. Slík skuldfærsla er tilkynnt fjármálafyrirtækinu eins fljótt og auðið er.

Standi fjármálafyrirtæki ekki í skilum með greiðslu á skuldbindingum sínum á gjalddaga skal greiða dráttarvexti af vanskilaskuldinni, sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá gjalddaga til greiðslu­dags.

Seðlabankinn getur innleyst verðbréf sem sett hafa verið til tryggingar og ráðstafað án fyrirvara eða tilkynningar inn á vanefndar skuldbindingar.

17. gr.

Útilokun viðskipta.

Seðlabankinn getur án fyrirvara útilokað fjármálafyrirtæki frá frekari viðskiptum samkvæmt reglum þessum hafi það ekki hlítt ákvæðum þeirra.

Þá getur Seðlabankinn útilokað fjármálafyrirtæki frá viðskiptum uppfylli fyrirtækið ekki ákvæði X. kafla laga nr. 161/2002 um laust fé og eigið fé og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli þeirra lagaákvæða.

18. gr.

Kostnaður vegna viðskipta.

Fjármálafyrirtæki ber allan viðskiptakostnað sem leggst á aðila. Í endurhverfum verðbréfa­viðskipt­um ber fjármálafyrirtæki viðskiptakostnað bæði við kaup og sölu verðbréfa.

19. gr.

Skilmálar um viðskipti við Seðlabanka Íslands.

Seðlabankinn setur skilmála sem lýsa nánar því réttarsambandi sem ríkir samkvæmt reglum þessum milli Seðlabankans og fjármálafyrirtækis og sem fjalla um m.a.:

  1. Skuldbindingu aðila um viðskipti samkvæmt reglum þessum.
  2. Framkvæmd viðskipta og samskiptahætti.
  3. Fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
  4. Ákvæði um vörslur fjárhagslegra trygginga.
  5. Vanefndir og fullnustuheimildir Seðlabankans vegna þeirra.
  6. Upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækis.

Skilmálar um viðskipti við Seðlabanka Íslands eru birtir á vefsíðu bankans.

Um leið og viðskipti milli Seðlabanka Íslands og fjármálafyrirtækis hafa komist á telst fjármála­fyrirtæki hafa samþykkt þá skilmála um viðskipti sem í gildi eru.

Ákveði Seðlabankinn að breyta skilmálum um viðskipti skulu slíkar breytingar taka gildi með að minnsta kosti þriggja viðskiptadaga fyrirvara. Slíkar breytingar taka ekki til útistandandi við­skipta.

20. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka gildi 31. desember 2019. Jafnframt falla þá úr gildi reglur um viðskipti fjármála­fyrirtækja við Seðlabanka Íslands nr. 553 frá 1. júlí 2009. Reglur þessar voru ræddar og sam­þykktar á fundi peningastefnunefndar þann 9. desember 2019.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 3. tölul. 2. gr. reglna þessara geta fjármálafyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi skv. 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki átt viðskipti við Seðla­bankann. Bráðabirgðaákvæði þetta fellur úr gildi frá og með 28. febrúar 2020.

Reykjavík, 18. desember 2019.

Seðlabanki Íslands,

  Rannveig Sigurðardóttir
aðstoðarseðlabankastjóri.
Sturla Pálsson
framkvæmdastjóri.

 

                                                          


B deild - Útgáfud.: 20. desember 2019