Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1166/2016

Nr. 1166/2016 22. desember 2016

REGLUGERÐ
um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 91. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og kveður á um skyldu til að skila til ríkisskattstjóra ríki-fyrir-ríki skýrslu.

Markmiðið með skilum á ríki-fyrir-ríki skýrslum er að gera skattyfirvöldum kleift að meta hvort verðlagning milli tengdra aðila sé í samræmi við armslengdarviðmið.

Í skýrslunni skal gera grein fyrir tekjum, sköttum og efnahagslegri starfsemi heildarsamstæðunnar í þeim ríkjum þar sem lögaðilar innan hennar hafa skattalegt heimilisfesti. Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við ef tekjur heildarsamstæðunnar voru lægri en 100 milljarðar króna á síðasta reikningsári. Með tekjum er átt við hvers konar tekjur, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Ríki-fyrir-ríki skýrslu skal afhenda í því ríki sem móðurfélag heildarsamstæðu er heimilisfast, sbr. þó 2. mgr. 3. gr., og þaðan skal henni deilt án beiðni til annarra ríkja sem samstæðufélög starfa í á grundvelli upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga.

2. gr.

Skilgreiningar.

Eftirfarandi hugtök skulu hafa þá þýðingu sem fyrir mælir í þessari reglugerð:

Heildarsamstæða (e. group of multinational enterprises): Tvö eða fleiri fjölþjóða félög (e. multi­national enterprises) innan samstæðu með skattalegt heimilisfesti í fleiri en einu ríki eða félag með skattalegt heimilisfesti í einu ríki en er líka skattskylt í öðru ríki vegna starfsemi fastrar starfs­stöðvar í þess eigu. Heildarsamstæða samanstendur af móðurfélagi ásamt dótturfélögum, föstum starfsstöðvum og/eða öðrum lögaðilum.

Móðurfélag innan heildarsamstæðu (e. ultimate parent entity): Lögaðili sem hefur yfirráð yfir öðrum lögaðilum innan samstæðu, hvort sem yfirráðin eru með beinu og/eða óbeinu eignarhaldi eða stjórn­unar­legu eignarhaldi.

Samstæðufélag (e. constituent entity): Lögaðili innan heildarsamstæðu, s.s. móðurfélag, dóttur­félag, eða hver annar lögaðili, þ.m.t. föst starfsstöð.

Leiðbeiningarreglur OECD um milliverðlagningu (e. OECD Transfer Pricing Guidelines for Multi­national Enterprises and Tax Administrations): Leiðbeiningarreglur OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki og skattyfirvöld sem samþykktar voru af OECD árið 1995, með síðari breytingum.

 

3. gr.

Skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu.

Móðurfélagi heildarsamstæðu, sem er skattskylt í samræmi við 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekju­skatt, er skylt að skila ríkisskattstjóra eigi síðar en 12 mánuðum frá lokum reikningsárs ríki-fyrir-ríki skýrslu með þeim upplýsingum, sem kveðið er á um í 4. gr., í þeim ríkjum þar sem samstæðu­félög innan heildarsamstæðunnar hafa skattalegt heimilisfesti.

Skylda til að skila til ríkisskattstjóra ríki-fyrir-ríki skýrslu, sbr. 1. mgr., hvílir á öðrum sam­stæðu­félögum innan heildarsamstæðunnar hafi þau skattalegt heimilisfesti hér á landi þótt þau teljist ekki vera móðurfélag hennar enda sé móðurfélagið erlent og:

  1. hinu erlenda móðurfélagi er ekki skylt að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu, sbr. 1. mgr., í því ríki sem það er heimilisfast í; eða
  2. heimilisfestarríki hins erlenda móðurfélags hefur ekki gert upplýsingaskiptasamning við Ísland er kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á skýrslu skv. 1. mgr.; eða
  3. ríkisskattstjóri hefur tilkynnt hinu íslenska samstæðufélagi að heimilisfestarríki hins erlenda móðurfélags hafi ekki gert upplýsingaskiptasamning í samræmi við b-lið eða skilar ekki ríkisskattstjóra af öðrum ástæðum skýrslu skv. 1. mgr.

Samstæðufélag skv. 2. mgr. skal óska eftir því við hið erlenda móðurfélag að láta því í té allar þær upplýsingar sem þörf er á til að uppfylla skyldu þess til að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu í samræmi við 1. mgr. Ef upplýsingar, sbr. 1. málsl., hafa ekki verið veittar eða hafa ekki verið fullnægjandi svo unnt sé að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu fyrir heildarsamstæðuna skal samstæðufélagið skila til ríkis­skattstjóra skýrslu sem inniheldur allar þær upplýsingar sem félagið býr yfir og gera ríkis­skattstjóra viðvart um að hið erlenda móðurfélag hafi ekki veitt umbeðnar upplýsingar eða þær hafi ekki verið fullnægjandi.

Í tilvikum þar sem 1. og 2. mgr. tekur til fleiri en eins skattaðila skv. 2. eða 4. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu aðilar ákveða sín á milli hver beri ábyrgð á að skila skýrslu skv. 1. mgr. Tilkynna skal ákvörðunina til ríkisskattstjóra við lok hvers reikningsárs heildarsamstæðunnar.

4. gr.

Upplýsingar í ríki-fyrir-ríki skýrslu.

Ríki-fyrir-ríki skýrsla skal innihalda upplýsingar um tekjur hvers samstæðufélags innan heildar­samstæð­unnar, hagnað/tap fyrir tekjuskatt, áfallinn tekjuskatt á yfirstandandi rekstrarári, greiddan tekjuskatt, skráð hlutafé, óráðstafað eigið fé, fjölda starfsmanna ásamt upplýsingum um efnis­legar eignir aðrar en handbært fé.

Í ríki-fyrir-ríki skýrslu skulu jafnframt koma fram efnislegar upplýsingar um samstæðufélögin, þar sem m.a. er upplýst í hvaða ríki hvert og eitt samstæðufélag innan heildarsamstæðunnar hefur heimilisfesti og hver sé aðalstarfsemi félagsins.

5. gr.

Form ríki-fyrir-ríki skýrslu.

Fylla skal út sérstakt eyðublað fyrir skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr.

Eyðublað skal útfyllt á íslensku og ensku.

Tilgreina skal í ríki-fyrir-ríki skýrslunni hver sé gjaldmiðill hinna tölulegu upplýsinga.

6. gr.

Leiðbeiningar við útfyllingu eyðublaðs vegna ríki-fyrir-ríki skýrslu.

Við útfyllingu eyðublaðs, sbr. 5. gr., skal fara eftir sérstökum leiðbeiningum ríkisskattstjóra sem byggja á viðauka III og IV við 5. kafla leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu.

7. gr.

Trúnaðarkvaðir.

Allar upplýsingar, sem skattyfirvöld taka við samkvæmt reglugerð þessari, skulu vera trúnaðarmál og einungis afhentar bærum yfirvöldum á grundvelli upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 91. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, öðlast gildi 1. janúar 2017. 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 22. desember 2016.

F. h. r.

Maríanna Jónasdóttir.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.


B deild - Útgáfud.: 27. desember 2016