Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1147/2024

Nr. 1147/2024 16. október 2024

REGLUR
um úthlutun styrkja á vegum menningar- og viðskiptaráðherra árin 2024-2026 til innleiðingar og hagnýtingar íslenskrar máltækni.

1. gr.

Tilgangur og markmið.

Menningar- og viðskiptaráðherra veitir styrki til verkefna sem fela í sér innleiðingu og/eða hag­nýtingu á íslenskri máltækni, í samræmi við áætlun um íslenska máltækni 2.0 (máltækniáætlun 2). Styrkirnir eru hluti af máltækniáætlun 2, sem er í gildi frá 2024-2026.

Hlutverk styrkjanna er að styðja við innleiðingu nýrrar tækni sem eykur aðgengi Íslendinga að vörum og þjónustu á íslenskri tungu. Einnig styðja styrkirnir við það markmið máltækniáætlunar að auka hagnýtingu á íslenskri máltækni og almenna notkun hennar.

 

2. gr.

Fjármögnun og úthlutanir.

Til ráðstöfunar í verkefnið eru 60 m.kr. árlega af fjárlögum áranna 2024-2027. Menningar- og viðskiptaráðherra úthlutar styrkjunum en umsýsla er í höndum Almannaróms, miðstöðvar máltækni á Íslandi skv. samningi menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Almannaróms þar um, dags. 30. september 2024.

Verkefnastjórn máltækniáætlunar 2, sem ráðherra hefur skipað, gerir tillögur að úthlutunum styrkjanna til ráðuneytisins ár hvert.

Úthlutað er einu sinni á ári.

 

3. gr.

Umsýsla og auglýsing um styrkveitingar.

Almannarómur skal auglýsa eftir umsóknum. Í auglýsingu skal tilgreina þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og fyrir hvaða tíma þær skuli berast.

Verkefnastjórn máltækniáætlunar 2 hefur það hlutverk að meta umsóknir í samræmi við áherslur sem fram koma í reglum þessum og auglýsingu og gera tillögur til ráðherra um veitingu styrkja.

 

4. gr.

Skilyrði fyrir styrkveitingu.

Styrkir eru veittir til lögaðila eða stofnana.

Ekki eru veittir styrkir til kjarnastarfsemi eða reglubundins rekstrar stofnana eða samtaka, til tækjakaupa eða til uppbyggingar aðstöðu, s.s. húsnæðis, eða stakir ferðastyrkir. Ekki eru veittir styrkir til endurtekinna viðburða, s.s. hátíða, nema til komi afgerandi nýbreytni í inntaki, formi eða efnisvali.

 

5. gr.

Umsókn og meðferð umsókna.

Við mat á umsóknum ber að hafa gæði verkefnisins í fyrirrúmi. Því þarf hver umsókn að innihalda greinargóða lýsingu á verkefninu sjálfu og markmiðum þess, aðstandendum og verklagi við framkvæmd þess, ásamt vandaðri tíma- og kostnaðaráætlun. Njóti umsækjandi annarra styrkja eða framlaga vegna verkefnisins skal gera grein fyrir slíkum framlögum eða styrkjum í umsókn. Séu gögn ófullnægjandi skal veita umsækjanda frest til að skila inn fullnægjandi gögnum.

Verkefnastjórn máltækniáætlunar 2 leggur mat á umsóknir með hliðsjón af hlutverki styrkjanna og auglýstum áherslum hverju sinni.

Mat á umsóknum skal einkum byggja á eftirtöldum sjónarmiðum:

Verkefni styðji við meginmarkmið máltækniáætlana stjórnvalda um að gera íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi og að stuðla að aukinni notkun á íslensku í tæknivörum og hugbúnaði.

Verkefnastjórn hefur heimild til að leita álits sérfróðra aðila við mat á umsóknum gerist þess þörf.

 

6. gr.

Hæfi stjórnarmanna.

Stjórnarmaður í verkefnastjórn máltækniáætlunar 2 sem veit um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans við úthlutun styrkja úr sjóðnum skal án tafar vekja athygli formanns stjórnar á því og ber formanni þá að kalla til vara¬mann sem tekur við skyldum aðalmanns við úthlutunina.

 

7. gr.

Upplýsingagjöf og uppgjör.

Við samþykkt umsóknar koma 80% styrksins þegar til greiðslu en 20% eftir að rafræn greinar­gerð um framkvæmd verkefnisins og ráðstöfun styrksins hefur borist stjórn. Heimilt er þó að greiða styrkinn út í einu lagi ef heildarupphæðin er undir 1 milljón króna.

 

8. gr.

Kynningarefni tengt verkefni.

Á öllu útgefnu efni, auglýsingum o.s.frv. sem tengist hinu styrkta verkefni skal koma fram að það sé styrkt af menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

 

9. gr.

Gildistaka og gildistími.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 42. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál og 5. gr. reglu­gerðar nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra. Reglur þessar, sem taka þegar gildi, skal endur­skoða áður en auglýst verður eftir umsóknum um styrkina árið 2025.

 

Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 16. október 2024.

 

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Sigrún Brynja Einarsdottir.


B deild - Útgáfud.: 17. október 2024