Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1295/2020

Nr. 1295/2020 7. desember 2020

REGLUR
um upplýsinga- og aðvörunarskyldu lánveitanda vegna fasteignalána til neytenda sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til lánveitenda fasteignalána til neytenda sem tengjast erlendum gjald­miðlum, sbr. 13. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda. Þær fela í sér nánari útfærslu á upplýsinga- og aðvörunarskyldu lánveitenda skv. 1. og 2. mgr. 33. gr. sömu laga.

 

II. KAFLI

Upplýsinga- og aðvörunarskylda lánveitanda.

2. gr.

Skráð gengi í samningi um fasteignalán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.

Lánveitandi skal skrá í lánssamningi gengi gjaldmiðils lánsins gagnvart gjaldmiðli þess aðildar­ríkis, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 118/2016, sem neytandi er búsettur í eða, ef um sama gjald­miðil er að ræða, gagnvart þeim gjaldmiðli sem neytandi ætlar til endurgreiðslu lánsins. Miða skal við gengi eins og það var einum virkum degi fyrir umsóknardag lánsins eða þegar greiðslumat er framkvæmt, eftir því hvort er hagfelldara neytanda.

Við upplýsingagjöf og aðvörun skal horft til breytinga á gengi gjaldmiðils láns gagnvart gengi gjald­miðils þess aðildarríkis þar sem neytandi er búsettur við lántöku. Sé um sama gjaldmiðil að ræða skal horft til breytinga á gengi gjaldmiðils láns gagnvart gengi gjaldmiðils sem tekjur neyt­anda eða eignir sem hann ætlar til endurgreiðslu lánsins eru í.

 

3. gr.

Árleg upplýsingagjöf.

Lánveitandi skal a.m.k. einu sinni á ári upplýsa neytanda um gengisbreytingar fasteignaláns sem tengist erlendum gjaldmiðlum, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 118/2016.

Árleg upplýsingagjöf skv. 1. mgr. skal að lágmarki vera einu sinni á 12 mánaða tímabili. Lán­veitanda er heimilt að samræma það tímamark og miða við sömu dagsetningu árlega fyrir öll fast­eignalán lánveitanda sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.

 

4. gr.

Aðvörun.

Lánveitandi skal senda neytanda aðvörun innan þriggja virkra daga þegar eftirstöðvar láns eða reglulegar endurgreiðslur breytast um 20% miðað við gengi í samningi um fasteignalán eða um 20% frá síðustu aðvörun.

 

5. gr.

Formskilyrði árlegra upplýsinga og aðvörunar.

Upplýsingar og aðvörun skulu send neytanda á pappír eða öðrum varanlegum miðli, svo sem í netbanka lánastofnunar sem uppfyllir skilyrði um varanlegan miðil. Skulu þar koma fram, eftir því sem við á:

  1. Breyting á heildarfjárhæð sem neytandi skal greiða og áætluð fjárhæð næstu reglulegu endur­­greiðslu eða, ef við á, umreiknað á þann gjaldmiðil sem neytandi ætlar til endur­greiðslu lánsins.
  2. Upplýsingar um rétt neytanda til að breyta eftirstöðvum lánsins í fasteignalán sem tengist ekki erlendum gjaldmiðlum.
  3. Upplýsingar um tryggingar eða aðrar varnir, sbr. 2. og 3. tölul. 21. gr. laga nr. 118/2016, sem neytandi hefur lagt fram.

Lánveitandi skal veita neytanda upplýsingar um tímasetningu árlegrar upplýsingagjafar og tilhögun árlegar upplýsingagjafar og aðvörunar.

 

III. KAFLI

Eftirlit, málsmeðferð, viðurlög og gildistaka.

6. gr.

Eftirlit Neytendastofu.

Neytendastofa fer með eftirlit með reglum þessum og beitir viðurlögum þegar það á við, sbr. 7. gr.

 

7. gr.

Málsmeðferð og viðurlög.

Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga nr. 57/2005, um eftir­lit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. 52. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalána til neytenda.

Um viðurlög, ábyrgð á greiðslu sektar o.fl. fer nánar samkvæmt XV. kafla laga nr. 118/2016.

 

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 5. mgr. 33. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda, og öðlast gildi 1. febrúar 2021.

 

Neytendastofu, 7. desember 2020.

 

Þórunn Anna Árnadóttir.

Matthildur Sveinsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 21. desember 2020