Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1581/2020

Nr. 1581/2020 16. desember 2020

REGLUR
um viðbótarnám á meistarastigi (diplómanám) í endurheimt vistkerfa og sjálfbærri landnýtingu við Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir nemendur Landgræðsluskóla GRÓ.

1. gr.

Um námið. Markmið.

Reglur þessar eru viðbótarreglur við reglur um meistaranám við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) nr. 1580/2020. Þær styðjast einnig við reglur fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 366/2020, lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 og lög um háskóla nr. 63/2006.

Diplómanám LbhÍ í endurheimt vistkerfa og sjálfbærri landnýtingu er 30 ECTS viðbótarnám á meistarastigi (þrep 2.1 í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður, reglugerð nr. 530/2011). Það byggir á sex mánaða námi Landgræðsluskóla GRÓ (GRÓ LRT) og er markmið þess að efla þekk­ingu og færni starfandi sérfræðinga við samstarfsstofnanir Landgræðsluskólans í þróunarlöndum.

Landgræðsluskólinn er hluti af GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar skv. reglu­gerð nr. 1260/2019. Starfsemi GRÓ er að mestu fjármögnuð með framlögum úr ríkissjóði í sam­ræmi við fjárlög en fellur þar undir sér fjárlagalið á málefnasviði 35 um opinbera þróunar­sam­vinnu.

Landgræðsluskólinn er starfræktur hjá LbhÍ í nánu samstarfi við Landgræðsluna. Námið er alfarið kostað af GRÓ LRT með fjárframlögum frá GRÓ. Í samráði við GRÓ LRT geta samstarfs­stofnanir hans einnig greitt fyrir sérfræðing(a) til að stunda nám við Landgræðsluskólann.

 

2. gr.

Ábyrgð á náminu. Tengsl við framhaldsnámsnefnd LbhÍ.

Í samræmi við 26. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sem heimilar háskóla að semja við aðra stofnun um kennslu og ráðningu kennara, viðurkennir Landbúnaðarháskóli Íslands sex mánaða nám GRÓ LRT sem einingabært nám við LbhÍ.

GRÓ LRT hefur umsjón með skipulagi og framkvæmd námsins og inntöku nema í umboði deildar náttúru og skógar og framhaldsnámsnefndar LbhÍ og í samstarfi við kennsluskrifstofu LbhÍ. GRÓ LRT ber jafnframt að tryggja að námið uppfylli þær gæða- og námskröfur sem gerðar eru til náms á meistarastigi við LbhÍ.

Forstöðumaður GRÓ LRT, sem gegnir hlutverki brautarstjóra diplómanámsbrautarinnar, tekur sæti og hefur atkvæðisrétt í framhaldsnámsnefnd LbhÍ þegar fjallað er um málefni sem tengjast diplóma­­náminu.

 

3. gr.

Inntökuskilyrði. Inntaka nemenda.

Til að innritast í sex mánaða nám GRÓ LRT þarf nemandi að hafa lokið viðurkenndu bakkalár­prófi og hafa að minnsta kosti eins árs starfsreynslu á sínu fagsviði. Viðkomandi þarf að vera starfs­maður við samstarfsstofnun GRÓ LRT í þróunarlandi og þarf jafnframt að búa yfir góðri ensku­kunnáttu. Miðað er við að nemendur séu ekki eldri en 40 ára.

Starfsmenn GRÓ LRT eru í forsvari fyrir inntöku nema. Nemendur eru valdir úr hópi kandídata, tilnefndum af samstarfsstofnunum GRÓ LRT í þróunarlöndum. Starfsmenn GRÓ LRT taka viðtöl við tilnefnda kandídata og ganga úr skugga um að þeir uppfylli öll inntökuskilyrði. Valdir kandídatar fá boð um þátttöku í sex mánaða nám GRÓ LRT, sem jafnframt gefur þeim nemendum sem klára námið og skila öllum skylduverkefnum með fullnægjandi árangri kost á diplómaskírteini frá LbhÍ.

Ekki er tekið á móti almennum umsóknum í diplómanámið.

 

4. gr.

Einingafjöldi, tímalengd og samsetning náms.

Diplómanámið í endurheimt vistkerfa og sjálfbærri landnýtingu við Landbúnaðarháskóla Íslands telur 30 námseiningar (ECTS). Það byggir á sex mánaða námi GRÓ LRT, sem er skipt í tvö 15 ECTS skyldunámskeið fyrir diplómanámsleiðina:  

Endurheimt vistkerfa og sjálfbær landnýting (15 ECTS).

Einstaklingsmiðað rannsóknarverkefni tengt endurheimt vistkerfa og sjálfbærri landnýtingu (15 ECTS).

Námshraði nemenda skal vera 100% og eiga nemar að ljúka námi á sama ári og þeir innritast. Ekki er gefinn kostur á að endurtaka stök námskeið eða námið í heild falli nemandi í námskeiði.

 

5. gr.

Brautarstjóri, umsjónarkennarar námskeiða og leiðbeinendur.

Forstöðumaður GRÓ LRT gegnir hlutverki brautarstjóra diplómanámsbrautarinnar.

Umsjónarkennari námskeiðs skal að jafnaði vera starfsmaður GRÓ LRT og hafa lokið að lág­marki meistaraprófi á sérsviði námsins eða tengdu sviði og hafa reynslu af rannsóknum og kennslu á fagsviði Landgræðsluskólans.

Sérhver nemandi skal hafa a.m.k. einn leiðbeinanda í rannsóknarverkefni sínu. Leiðbeinendur eru valdir eftir verkefni hvers og eins nemanda og eiga að vera viðurkenndir sérfræðingar á sínu fag­sviði. Að minnsta kosti einn leiðbeinandi í hverju rannsóknarverkefni þarf að vera með meistara­gráðu.

Hvert rannsóknarverkefni hefur einn umsjónarmann á meðal starfsmanna GRÓ LRT. Hlutverk umsjónarmanns er að fylgjast með að framgangur rannsóknarverkefnis sé í samræmi við verkefna­áætlun þess og að tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar.

 

6. gr.

Námsmat.

Ekki eru gefnar einkunnir í námskeiðunum heldur einungis staðið/ekki staðið.

Allir nemar skulu kynna rannsóknarverkefni sitt, sem þeir vinna í seinni áfanga námsins, tvisvar sinnum á málstofum sem GRÓ LRT stendur fyrir. Fyrra erindið er haldið þegar nemandinn hefur skilað rannsóknaráætlun. Þar skal gera stutta grein fyrir rannsóknarverkefninu, markmiðum og helstu aðferðum. Annað erindið er haldið þegar hillir undir verklok. Þar skal nemandinn kynna niður­stöður verkefnisins á opinni málstofu. Áfanganum lýkur með skilum á rannsóknarskýrslu. Þarf hún að vera unnin í samræmi við leiðbeiningar GRÓ LRT um rannsóknarverkefni og standast lágmarks­kröfur GRÓ LRT, sem byggja á viðmiðum LbhÍ fyrir MS-rannsóknarverkefni.

 

7. gr.

Prófskírteini, diplóma.

Til að fá námskeið skráð sem staðið hjá LbhÍ þarf nemandi að ná fullnægjandi árangri í öllum skila­verkefnum og uppfylla allar aðrar námskröfur sem tilgreindar eru í námskrá og námskeiðs­lýsingu. Nemandi sem hefur fengið bæði námskeið diplómanámsins skráð sem staðin fær sérstakt próf­skírteini, diplóma, til staðfestingar á að hann hafi lokið diplómanámi í endurheimt vistkerfa og sjálf­bærri landnýtingu við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Allir nemar sem klára sex mánaða nám Landgræðsluskólans fá útskriftarskírteini frá GRÓ LRT. Það á einnig við um þá sem ekki uppfylla lágmarks námskröfur diplómanámsins og eiga þar af leið­andi ekki rétt á ECTS-bæru diplómaprófskírteini frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

8. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði LbhÍ með tilvísun í III. kafla laga um háskóla nr. 63/2006, lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglugerð nr. 1260/2019 um GRÓ – Þekkingar­miðstöð þróunarsamvinnu. Reglurnar hafa verið samþykktar af GRÓ LRT og framhaldsnámsnefnd LbhÍ og endanlega samþykktar af deild náttúru og skógar 7. desember 2020.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

 

Samþykkt í háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, 16. desember 2020.

 

Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor.


B deild - Útgáfud.: 1. febrúar 2021