Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 791/2014

Nr. 791/2014 30. maí 2014
SAMÞYKKT
um gatnagerðargjald í Eyjafjarðarsveit.

1. gr.

Almenn heimild.

Af öllum nýbyggingum og stækkunum eldri húsa í Eyjafjarðarsveit skal greiða gatna­gerðar­gjald samkvæmt samþykkt þessari, sbr. 12. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006, enda sé um að ræða eignar- og leigulóðir í þéttbýli.

2. gr.

Ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjaldsins.

Lóðarhafi, eða eftir atvikum byggingarleyfishafi, ber ábyrgð á greiðslu gatna­gerðar­gjaldsins til sveitarsjóðs Eyjafjarðarsveitar samkvæmt gjaldskrá þessari.

3. gr.

Ráðstöfun gatnagerðargjaldsins.

Gatnagerðargjaldi skal varið til gatnagerðar og viðhalds gatna og annarra gatna­mannvirkja í þéttbýli í sveitarfélaginu. Tengi- og heimæðargjöld eru innheimt sérstak­lega og ekki innifalin í gatnagerðargjaldi.

4. gr.

Gjaldstofn gatnagerðargjaldsins.

1.

Sveitarstjórn innheimtir gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli, sbr. 1. gr. Um skil þéttbýlis og dreifbýlis vísast til samþykkts deiliskipulags eða staðfests aðalskipulags á hverjum tíma.

2.

Álagning gatnagerðargjalds tekur mið af tegund byggingar og ákvarðast eins og hér segir:

 

Einbýlishús, með eða án bílgeymslu,

kr. 2.600.000

 

Par-, rað-, tvíbýlis- og keðjuhús, með eða án bílgeymslu,

kr. 1.800.000

 

Fjölbýlishús, með eða án bílgeymslu,

kr. 1.100.000

5. gr.

Greiðsluskilmálar.

1.

Gjalddagi gatnagerðargjalds, sbr. 4. gr. og 2. tl. 5. gr. miðast við dagsetningu til­kynningar um lóðarúthlutunina. Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga.

2.

Heimilt er að semja um greiðslufrest á gatnagerðargjaldi, sbr. 1. tl. skv. eftirfarandi skilmálum:

 

a.

Helmingur gjaldsins greiðist eigi síðar en á eindaga.

 

b.

Eftirstöðvar gjaldsins greiðast með tveimur jöfnum greiðslum þremur og sex mánuðum síðar miðað við dagsetningu tilkynningar um lóðarúthlutunina. Lóðar­hafa er ekki heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en gatnagerðargjaldið hefur verið greitt eða um það gerður skriflegur samningur.

6. gr.

Afsláttur af gatnagerðargjaldi.

Sveitarstjórn er heimilt að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum við sérstakar aðstæður, svo sem vegna þéttingar byggðar, atvinnuuppbyggingar, lítillar ásóknar í viðkomandi lóð eða eftirspurnar eftir leiguhúsnæði, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006. Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að lækka eða fella niður gjöld vegna sérhæfðs félagslegs húsnæðis, svo sem sambýlis fyrir fatlaða, þjónustuíbúða fyrir aldraða og félagslegs leiguhúsnæðis enda sé slíkt húsnæði í eigu stofnana, félagasamtaka eða félaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Þinglýsa skal kvöð á umrætt húsnæði um að greiða skuli gatnagerðargjald af því ef það fellur af einhverjum ástæðum ekki lengur undir ákvæði þetta. Um greiðslu gjaldsins í slíkum tilvikum fer eftir ákvæðum í 2. mgr. 6. gr. tilvitnaðra laga. Sveitarstjórn ákveður hverju sinni hvort nýta beri heimild til lækkunar eða niðurfellingar gatnagerðargjalds af húsnæði sem fellur undir fyrrnefndar skilgreiningar.

Þá getur sveitarstjórn ákveðið að endurgreiða álagt gatnagerðargjald hafi húseigandi eða húsbyggjandi uppfyllt eftirfarandi skilyrði:

  1. að hann hafi lokið við fokhelda byggingu áður en ár er liðið frá því að lóð var úthlutað. Lóðarhafi skal framvísa fokheldisvottorði byggingarfulltrúa um að bygg­ingin hafi verið fokheld fyrir tilskilinn frest til að njóta þessa afsláttar;
  2. að hann hafi lokið frágangi húss að utan og frágangi lóðar (þakin eða sáð) áður en 24 mánuðir eru liðnir frá dags. tilkynningar um lóðarúthlutun. Til að njóta afsláttar skv. þessum lið skal jafnframt liggja fyrir vottorð byggingarfulltrúa um að hús/íbúð sé íbúðarhæf.

Að uppfylltum þessum skilyrðum skal endurgreiðslan nema 10% af álögðu gatna­gerðar­gjaldi fyrir hvorn lið. Ákvæði þessa efnis skulu skráð í lóðarleigusamning.

7. gr.

Innheimta vangreidds gatnagerðargjalds.

Gatnagerðargjald ber dráttarvexti frá gjalddaga samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Gatnagerðargjald, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, er tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði eða aðfararveði í tvö ár frá gjalddaga. Gatnagerðargjald er aðfararhæft án undangengins dóms- eða stjórnvaldsúrskurðar. Sveitarstjórn er heimilt að afturkalla lóðarúthlutun ef lóðarhafi greiðir ekki gatnagerðargjald á tilskildum tíma, enda sé kveðið á um það í úthlutunar- eða byggingarskilmálum (lóðarleigusamningi). Sveitarstjórn skal með 30 daga fyrirvara senda lóðarhafa með sannanlegum hætti viðvörun um fyrirhugaða afturköllun.

8. gr.

Endurgreiðsla gatnagerðargjalds.

Endurgreiða ber gatnagerðargjald innan 30 daga ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð er skilað. Sama gildir um gatnagerðargjald sem lagt hefur verið á í tengslum við samþykkt byggingarleyfis, sbr. 2. tl. 6. gr. Fjárhæð gatnagerðargjalds sem greidd var skal verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Við greiðsludrátt reiknast dráttarvextir á fjárhæðina frá gjalddaga samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

9. gr.

Breytingar á fjárhæð gjalda.

Fjárhæðir gatnagerðargjaldsins taka mið af byggingarkostnaði hvers fermetra í vísi­tölu­húsi fjölbýlis samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987. Byggingarkostnaðurinn er 187.547 kr./m² við gildistöku gjaldskrárinnar og tekur breytingum um áramót eftir byggingarkostnaðinum í janúarmánuði hvers árs.

10. gr.

Kæruheimild.

Aðili máls getur skotið ákvörðun sveitarstjórnar, sbr. samþykkt þessa, til úrskurðar félagsmálaráðherra. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðili fékk vitneskju um ákvörðunina. Kæruheimildin skerðir þó eigi rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum. Komist ráðherra að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sveitarfélags hafi ekki verið í samræmi við lög getur hann ógilt ákvörðunina eða lagt fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun.

11. gr.

Samþykkt og gildistaka.

Gjaldskrá þessi er samin og samþykkt af sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar í samræmi við lög nr. 153/2006, um gatnagerðargjald og öðlast hún gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda.

Samþykkt á fundi sveitarstjórnar, 30. maí 2014.

Stefán Árnason skrifstofustjóri.

B deild - Útgáfud.: 3. september 2014