Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 701/2018

Nr. 701/2018 21. júní 2018

REGLUR
um doktorsnám og doktorspróf við Háskólann á Akureyri.

1. gr.

Markmið.

Markmið doktorsnáms við Háskólann á Akureyri er að doktorsnemar öðlist þá þekkingu og færni sem er nauðsynleg til að stunda sjálfstæð vísindastörf og afla sér nýrrar þekkingar. Doktorsnámið hefur einnig þann tilgang að efla rannsóknir við Háskólann á Akureyri.

Lærdómsviðmið námsins eru í samræmi við kröfur til doktorsnáms sem fram koma í viðmiðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um æðri menntun og prófgráður, nr. 530/2011.

Hægt er að stunda doktorsnám á fræðasviðum þar sem nauðsynleg aðstaða og sérþekking er fyrir hendi og heimild til doktorsnáms er til staðar.

2. gr.

Akademískur titill.

Að fenginni doktorsgráðu er viðkomandi heimilt að nota akademíska titilinn Philosophiae Doctor ásamt skammstöfuninni PhD.

3. gr.

Miðstöð doktorsnáms og doktorsnámsráð.

Miðstöð doktorsnáms við Háskólann á Akureyri heyrir beint undir skrifstofu rektors og fer með málefni doktorsnáms við háskólann. Stjórn Miðstöðvar doktorsnáms hefur yfirumsjón með fram­kvæmd doktorsnáms, fylgir eftir settum viðmiðum og gæðakröfum um námið og er vettvangur fyrir umræðu og samráð. Í stjórninni sitja sex fulltrúar skipaðir af rektor. Þeir eru forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms, þrír fulltrúar fræðasviða háskólans, einn frá hverju sviði, einn fulltrúi háskólaskrifstofu og einn fulltrúi doktorsnema sem tilnefndur er úr þeirra hópi. Skipa skal vara­fulltrúa fyrir hvern og einn. Gæta skal kynjajafnvægis við skipan fulltrúanna. Fulltrúar fræðasviða skulu vera akademískir starfsmenn með hæfismat og með hæfni til að leiðbeina nemum til doktorsgráðu ásamt því að hafa víðtæka þekkingu á doktorsnámi. Æskilegt er að fulltrúi háskóla­skrifstofu hafi doktorspróf.

Rektor skipar forstöðumann Miðstöðvar doktorsnáms við Háskólann á Akureyri og setur honum erindisbréf. Forstöðumaður er formaður stjórnar Miðstöðvar doktorsnáms. Forstöðumaður skal hafa doktorspróf og akademískt hæfi sem prófessor, hafa hæfni til að leiðbeina nemum til doktorsgráðu ásamt því að hafa víðtæka þekkingu á doktorsnámi. Forstöðumaðurinn tekur saman upplýsingar um doktorsnámið og gefur út rafræna handbók með öllum nauðsynlegum upplýsingum fyrir doktors­nema og leiðbeinendur. Forstöðumaðurinn vinnur náið með sviðum, deildum, gæðaráði og stjórn­sýslu háskólans. Háskólaskrifstofa, sviðin og aðilar sem veita rannsóknaþjónustu, sinna stjórnsýslu­verkefnum fyrir Miðstöð doktorsnáms.

Stjórn Miðstöðvar doktorsnáms, sem hér eftir kallast doktorsnámsráð, fjallar um umsóknir og með­ferð þeirra, samþykkir eða hafnar umsóknum um doktorsnám og fylgist náið með framkvæmd og gæðum náms og kennslu. Við atkvæðagreiðslur í doktorsnámsráði skal meirihluti ráða og hefur for­maður oddaatkvæði falli atkvæði jöfn. Doktors­námsráð undirbýr tillögur varðandi inntöku doktors­nema og skipun leiðbeinenda, doktorsnefnda, matsnefnda og andmælenda. Doktorsnámsráð veitir háskólaráði umsagnir um hæfni fræðasviða/undirflokka til að bjóða upp á doktorsnám.

4. gr.

Félagar í Miðstöð doktorsnáms.

Akademískir starfsmenn og sérfræðingar sem eru hæfir til að leiðbeina doktorsnemum geta sótt um að verða félagar í Miðstöð doktorsnáms. Doktorsnámsráð samþykkir aðild akademískra starfsmanna og sérfræðinga sem félaga að miðstöðinni. Nánar er kveðið á um hlutverk þeirra í 2. gr. í reglum fyrir Miðstöð doktorsnáms.

5. gr.

Námslengd.

Doktorsnám sem hefst að loknu meistara- eða kandídatsprófi er 180–240 ECTS-einingar. Lágmarks umfang rannsóknarverkefnis skal samsvara 180 ECTS-einingum. Umfang námskeiða skal samsvara 0-60 ECTS-einingum. Fullt eins árs nám samsvarar 60 ECTS-einingum. Að jafnaði er hámarks námstími í fullu námi fjögur ár. Heimilt er að skrá doktorsnema í hlutanám (50%) og miðast þá námsframvinda við það hlutfall og er hámarks námstími allt að átta ár. Ef doktorsnema tekst ekki að ljúka námi innan tilskilins tíma, getur hann sótt um undanþágu til doktorsnámsráðs. Heimilt er að taka hlé frá námi, þó að hámarki í eitt ár.

6. gr.

Inntökuskilyrði.

Inntökuskilyrði eru meistara- eða kandídatspróf með a.m.k. fyrstu einkunn eða sambærilegt lokapróf af háskólaþrepi 2 á því fræðasviði sem doktorsnámið mun byggja á eða á sviði því tengdu. Umsækjendur um doktorsnám þurfa að leggja fram staðfestingu á enskukunnáttu sinni í formi TOEFL eða sambærilegs prófs sem doktorsnámsráð metur. Staðfestingin má ekki vera eldri en tveggja ára þegar umsókn er send inn. Nánar er kveðið á um inntökuskilyrði og hæfi doktorsnema í reglum fyrir Miðstöð doktorsnáms.

Doktorsnámsráð sker úr um hvort umsókn falli undir heimild háskólans til doktorsnáms og er ráðinu heimilt að gera ítarlegri kröfur til umsækjenda á ákveðnum sviðum/undirflokkum.

Starfsmenn Háskólans á Akureyri geta ekki stundað doktorsnám við skólann en þetta ákvæði gildir ekki um ráðningar doktorsnema í tímabundnar stöður við Háskólann á Akureyri á meðan á doktors­námi þeirra stendur.

7. gr.

Skil og meðferð umsókna.

Umsóknum um doktorsnám skal skilað á rafrænum eyðublöðum sem aðgengileg eru á vef há­skólans. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað innan sex vikna frá því að hún berst. Umsóknin má vera á ensku eða íslensku.

Ferill umsókna um doktorsnám er eftirfarandi:

  1. Sótt er um inngöngu í doktorsnám á rafrænum eyðublöðum og með umsókn skal fylgja námsáætlun, lýsing á áætluðu rannsóknaverkefni og hvernig það verði fjármagnað, áætluð námskeið, staðfest afrit af prófskírteinum, ferilskrá (CV) umsækjanda og væntanlegs aðal­leiðbeinanda, ásamt meðmælabréfum tveggja ótengdra umsagnaraðila. Ef fyrir liggja umsóknir til aðila sem eiga að fjármagna doktorsnámið skulu útdrættir úr þeim einnig fylgja umsókn.
  2. Forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms metur frumgögn umsóknar samkvæmt gildandi reglum, staðfestir uppruna þeirra, metur gildi prófskírteina og námsgráða og staðfestir að gögn umsækjanda uppfylli formkröfur. Hann leggur síðan niðurstöðu mats á frumgögnum og afrit umsóknar ásamt fylgiskjölum fyrir doktorsnámsráð.
  3. Doktorsnámsráð fer yfir öll umsóknargögn, námsferil umsækjanda og afgreiðir ósk hans um aðalleiðbeinanda. Ráðið samþykkir eða hafnar umsóknum.
  4. Ákvörðun doktorsnámsráðs byggist aðallega á eftirfarandi forsendum:
      Umsókn þarf að vera rétt útfyllt.
      Umsækjandi þarf að uppfylla inntökuskilyrði sem fram koma í reglum þessum.
      Háskólinn á Akureyri þarf að hafa nauðsynlega aðstöðu og tiltæka sérfræðinga á því fræðasviði sem doktorsverkefnið tekur til.
      Tilnefndur aðalleiðbeinandi þarf að hafa hæfi á viðkomandi fræðasviði.
      Fjárhagslegur grundvöllur þarf að vera til staðar vegna doktorsverkefnisins og við­unandi aðbúnaður fyrir hendi.
  5. Miðstöð doktorsnáms tilkynnir umsækjanda niðurstöðuna skriflega.
  6. Innan mánaðar frá því að nám var samþykkt skal doktorsnemi skrá sig hjá Miðstöð doktors­náms og nemendaskrá, ganga frá greiðslu skrásetningargjalds komandi háskólaárs og ganga frá samningi um doktorsnám. Doktorsneminn þarf síðan að skrá sig árlega og greiða skrásetn­ingar­gjald. Skráning og greiðsla skrásetningar­gjalds er forsenda þess að doktors­nemi geti stundað eða haldið áfram námi.

8. gr.

Samningur milli Miðstöðvar doktorsnáms og doktorsnema.

Gera skal samning milli doktorsnema og Miðstöðvar doktorsnáms með þátttöku viðkomandi sviðs og deildar um fyrirkomulag námsins, aðstöðu, réttindi og skyldur nemans og leiðbeinenda og ef við á, aðkomu annarra að doktorsverkefninu. Sérstaklega skal tilgreint hvaða aðstöðu og þjónustu doktorsnemi mun njóta meðan á námi hans stendur. Samninginn skal endurskoða árlega.

9. gr.

Leiðbeinendur og doktorsnefndir.

Leiðbeinendur doktorsnema eru að jafnaði fjórir, einn aðalleiðbeinandi og þrír meðleiðbeinendur og skal að lágmarki einn þeirra vera utanaðkomandi aðili. Saman mynda leiðbeinendurnir doktorsnefnd viðkomandi doktorsnema. Aðalleiðbeinandi skal hafa akademískt hæfi og að jafnaði vera fastráðinn akademískur starfsmaður Háskólans á Akureyri. Heimilt er með samþykkt doktorsnámsráðs að doktorsnemi hafi utanaðkomandi aðalleiðbeinanda en þá skal einn af meðleiðbeinendum vera fastráðinn starfsmaður Háskólans á Akureyri og gegnir hann þá hlutverki tengiliðs gagnvart fræðasviði og deild, sbr. reglur um Miðstöð doktorsnáms. Doktorsnámsráð metur hæfi leiðbeinenda og skipar þá. Leiðbeinendur skulu hafa lokið doktorsprófi á viðkomandi fræðasviði eða tengdu sviði. Þeir skulu einnig hafa reynslu í leiðsögn nema í framhaldsnámi, t.d. með setu í doktorsnefndum, eða umtalsverða reynslu af leiðbeiningu í meistaranámi. Leiðbeinendur skulu einnig vera virkir sérfræðingar á viðkomandi fræðasviði, vera í virku rannsóknasamstarfi við innlent og alþjóðlegt fræðasamfélag, hafa reynslu af öflun rannsóknarstyrkja og hafi birt ritrýnt efni sem tengist verkefni og fræðasviði doktorsnemans.

Doktorsnefndin ber ábyrgð á því að viðkomandi doktorsnám samrýmist viðeigandi lærdóms­viðmiðum og kröfum Háskólans á Akureyri og mennta- og menningarmálaráðuneytis um gæði doktorsnáms. Leiðbeinendur þurfa jafnframt að fylgjast með og stuðla að virkri þátttöku doktors­nemans í fræðasamfélaginu bæði innan Háskólans á Akureyri og alþjóðlega.

Aðalleiðbeinandi veitir nefndinni forstöðu og kallar hana saman eigi síðar en mánuði frá samþykkt umsóknar. Hann hefur umsjón með ritun og skilum doktorsnefndarálits þegar doktorsritgerð telst tilbúin til varnar. Doktorsnefndin kveður nemann á sinn fund að jafnaði einu sinni á misseri meðan á náminu stendur og fylgist með framvindu þess. Doktorsnemi getur óskað eftir fundi í doktors­nefnd.

Ef aðalleiðbeinandi getur ekki sinnt leiðbeiningarskyldum sínum vegna veikinda, fjarveru í lengri tíma eða að viðkomandi hættir störfum skal doktorsnámsráð finna doktorsnemanum annan aðal­leiðbeinanda. Komi upp illleysanlegur ágreiningur á milli leiðbeinenda innbyrðis eða milli aðal­leiðbein­enda og doktorsnema skal ágreiningnum vísað til doktorsnámsráðs sem gerir tillögu að úrlausn.

10. gr.

Námsframvinda.

Miðstöð doktorsnáms heldur námsferilsskrá fyrir hvern doktorsnema þar sem fram kemur m.a. hvenær hann var fyrst skráður og fjöldi eininga sem neminn hefur lokið. Jafnframt skal skráin geyma umsóknargögn, námsáætlanir og rannsóknarverkefni, upplýsingar um leiðbeinendur, fram­vindu­­skýrslur doktorsnema og niðurstöður námskeiðsmats ef við á.

Ef upp kemur sú staða að doktorsnemi geti ekki lokið náminu eða ákveði að hætta, eru tvær mögu­legar útgönguleiðir. Doktorsnemi sem hefur lokið a.m.k. 30 ECTS-einingum getur fengið diplóma­skírteini í samræmi við skref 2.1 í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður, sbr. auglýs­ingu nr. 530/2011. Ef doktorsnámsráð metur að neminn hafi lokið a.m.k. 120 ECTS-einingum, getur neminn útskrifast með meistaragráðu í samræmi við skref 2.2, þó að því tilskildu að hann leggi fram ritgerð sem er að minnsta kosti 30 ECTS-einingar og uppfylli að öðru leyti viðmið fyrir meist­ara­gráðu.

11. gr.

Skyldur doktorsnema.

Doktorsnemi ráðfærir sig við leiðbeinendur um gerð námsáætlunar, skipulag námsins, val nám­skeiða, gerð rannsóknaráætlunar, framkvæmd rannsókna og gerð doktorsritgerðar. Áætlunin er tvíþætt. Annars vegar, skal gerð grein fyrir fyrirhugaðri rannsóknarvinnu doktorsnemans, t.d. aðferðum, gagnaöflun og kenningasmíð og hins vegar skal vera tímaáætlun um námið í heild. Doktors­nefnd þarf að samþykkja áætlunina. Breytingar á námsáætlun eru háðar samþykki doktors­nefndar.

Doktorsnemi skal, í samráði við aðalleiðbeinanda, skila framvinduskýrslu einu sinni á ári til Mið­stöðvar doktorsnáms. Doktorsnámsráð setur verklagsreglur varðandi gerð framvinduskýrslna. Doktors­náms­ráð tekur nám doktorsnemans til athugunar ef hann skilar ekki framvinduskýrslu, sbr. 11. gr., eða ef hún er metin ófullnægjandi.

Doktorsnemi skal taka virkan þátt í því háskólasamfélagi sem doktorsverkefni hans tilheyrir og gert er ráð fyrir að hann kynni verkefni sitt á málstofu að jafnaði einu sinni á misseri.

Ætlast er til samtals eins misseris námsdvalar doktorsnema eða meira, við einn eða fleiri erlenda háskóla. Doktorsnefnd þarf að samþykkja áætlun og skýrslu nema um námsdvölina.

12. gr.

Samsetning náms.

Ekki er heimilt að nota meistararitgerð sem uppistöðu í doktorsritgerð. Doktorsnámið felur fyrst og fremst í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og öflun nýrrar þekkingar. Doktorsnefnd getur falið doktorsnema að sækja ákveðin námskeið, málstofur og lesnámskeið til að undirbyggja doktors­verkefnið. Taki doktorsnemi námskeið í doktorsnámi sínu, skulu þau vera á doktorsstigi og við viðurkennda háskóla.

13. gr.

Kröfur til doktorsverkefnis.

Doktorsritgerð skal vera heildstætt verk, ýmist í formi vísindagreina sem mynda eina heild eða í formi einnar ritsmíðar (monographia).

Ef um er að ræða ritsmíð, sem byggir á vísindagreinum, skal semja sérstakt yfirlit þar sem efni hinna einstöku greina er dregið saman, settar fram heildarályktanir og efni þeirra tengt fræðilega. Að jafnaði skal slík ritsmíð vera byggð á a.m.k. þremur vísindagreinum og þegar doktorsritgerð er lögð fram þurfa tvær af greinunum að hafa verið endanlega samþykktar til birtingar af ritstjórn viðurkenndra ritrýndra tímarita en sú þriðja má vera í umfjöllun hjá ritstjórn. Doktorsnemi skal vera fyrsti höfundur greinanna. Þáttur doktorsnema í viðkomandi greinum þarf ávallt að vera skýr og ber doktorsnámsráð ábyrgð á að sannreyna með doktorsnefnd að þáttur doktorsnema sé fullnægjandi.

Doktorsritgerð í formi einnar ritsmíðar skal vera 50.000-100.000 orð og útgefin af viðurkenndu forlagi.

Doktorsnámsráð getur veitt einstaka undanþágur frá ofangreindum viðmiðum.

14. gr.

Áfangamat.

Eigi síðar en um miðbik áætlaðs námstíma fer fram ítarlegt áfangamat á stöðu verkefnisins og skal doktorsneminn óska eftir matinu með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Áfangamatið er unnið af sérstakri matsnefnd sem í sitja leiðbeinendur og tveir rýnar sem eru utanaðkomandi og sér­fræðingar á viðkomandi sviði. Gert er ráð fyrir að rýnarnir standist þær kröfur sem gerðar eru til andmælenda. Doktorsnámsráð skipar matsnefndina.

Doktorsneminn skrifar stutta samantekt um verkefnið og helstu niðurstöður sem hann sendir til matsnefndar og kynnir og ræðir verkefnið á málstofu. Á grundvelli þessa er metin almenn þekking doktorsnemans og staða verkefnisins með tilliti til þess hvort efniviður sé viðeigandi og nægur fyrir doktorsritgerð.

15. gr.

Mat á doktorsverkefni.

Áður en doktorsritgerð er lögð fram til varnar metur doktorsnefnd ritgerðina og skilar vandlega rökstuddu áliti til Miðstöðvar doktorsnáms um það hvort doktorsritgerðin sé fullnægjandi og hvort neminn sé tilbúinn til doktorsvarnar. Í álitinu skal koma fram listi yfir og stutt lýsing á þeim vísinda­greinum sem verkið byggir á, ef við á, auk yfirlits sem lýsir faglegum ferli doktorsnemans meðan á doktorsnáminu stóð (s.s. kennsla, fyrirlestrar, veggspjöld, skýrslur). Álitið skal undirritað af öllum doktorsnefndarmönnum. Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram staðfest námsferilsyfirlit doktorsnemans.

Doktorsnámsráð getur krafist þess að verkið sé unnið betur. Doktorsnámsráð getur einnig hafnað verkinu alveg.

Þegar doktorsnefnd og doktorsnámsráð hafa samþykkt verkið skal doktorsneminn leggja fram handrit sem sent er til andmælenda. Andmælendur þurfa að hafa fengið ritgerðina í hendur a.m.k. fjórum mánuðum áður en fyrirhuguð vörn á að fara fram. Tveimur mánuðum síðar skulu þeir hafa sent doktorsnámsráði rökstudda umsögn um hvort þeir telji að ritgerðin sé tæk til varnar ásamt ábendingum um nauðsynlegar breytingar, séu þær einhverjar. Doktorsnemi tekur afstöðu til ábendinganna og gerir doktorsnefndinni grein fyrir afstöðu sinni innan eins mánaðar. Að því búnu leggur hann verkið fram samkvæmt þeim staðli sem Háskólinn á Akureyri hefur ákveðið.

Forsendur þess að doktorsvörn sé haldin er að doktorsnemi hafi gert þær lagfæringar sem álitnar voru nauðsynlegar.

16. gr.

Andmælendur.

Andmælendur við doktorsvörn skulu vera tveir óháðir aðilar sem ekki eiga sæti í doktorsnefndinni og skal að minnsta kosti annar þeirra starfa utan Háskólans á Akureyri. Þeir eru skipaðir af doktorsnámsráði að fengnum tillögum doktorsnefndar og með samþykki forseta viðkomandi fræða­sviðs. Andmælendur skulu hafa prófessorshæfi, hafa lokið doktorsprófi eða aflað sér sambæri­legrar menntunar á viðkomandi eða tengdu fræðasviði. Þeir þurfa einnig að vera viður­kenndir sérfræð­ingar á því sviði.

17. gr.

Doktorsvörn.

Doktorsritgerð skal varin opinberlega. Forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms skipuleggur doktors­vörn í samráði við doktorsnámsráð, svið og deild. Doktorsnemi heldur erindi um verk sitt og and­mæl­endur setja fram athugasemdir og rökræða við nemann. Ekki er gefin einkunn fyrir doktors­verkefnið, einungis staðið/fallið. Háskólaráð setur nánari reglur um framkvæmd doktors­varna.

18. gr.

Kröfur um þekkingu, leikni og hæfni við námslok.

Doktorsnámsráð skilgreinir sértæk viðmið fyrir doktorsnám í samræmi við auglýsingu um viðmið um æðri menntun og prófgráður, nr. 530/2011, sem er kerfisbundin lýsing á uppbyggingu náms og prófgráða á háskólastigi. Viðmiðin taka sérstaklega til þekkingar, leikni og hæfni nema við námslok sbr. lög um háskóla nr. 63/2006.

Með hliðsjón af viðmiðum ráðuneytisins skal doktorsnámsráð, í sínum viðmiðum, lýsa inntaki og útkomu einstakra námsleiða í doktorsnámi og þar getur ráðið jafnframt útfært viðmiðin nánar með hliðsjón af sérkennum viðkomandi sviðs/deildar. Með þessu móti geta doktorsnemar séð hvaða þekkingu, leikni og hæfni er vænst að þeir búi yfir við námslok. Einnig verður auðveldara fyrir nýdoktora að fá nám sitt viðurkennt og metið bæði hér á landi og erlendis, hvort sem er til frekara náms eða starfa.

19. gr.

Gildistaka og endurskoðun.

Þessar reglur eru unnar af starfshópi um Miðstöð doktorsnáms, samþykktar af gæðaráði Háskólans á Akureyri og staðfestar af háskólaráði Háskólans á Akureyri. Reglurnar eru settar samkvæmt heimild í 7. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla, 18. og 22. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 3. gr. reglna nr. 387/2009 fyrir Háskólann á Akureyri og taka gildi við birtingu í B-deild Stjórnar­tíðinda.

Endurskoðun þessara reglna skal hafa átt sér stað eigi síðar en tveim árum eftir gildistöku þeirra.

Háskólanum á Akureyri, 21. júní 2018.

Eyjólfur Guðmundsson rektor.

Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir,
varaformaður háskólaráðs.  


B deild - Útgáfud.: 12. júlí 2018