Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 660/2016

Nr. 660/2016 5. júlí 2016

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs, í Borgarbyggð.

2. gr.

Skilgreiningar og gildissvið.

Borgarbyggð annast meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð, á þann hátt og með þeim takmörkunum sem leiða af samþykkt þessari, lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum.

Umhverfis- og skipulagssvið Borgarbyggðar fer með stjórn meðhöndlunar úrgangs. Um eftirlit fer samkvæmt lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Til sorpsöfnunar telst hirðing almenns heimilisúrgangs (sorps) frá íbúðarhúsnæði og stofnunum sveitarfélagsins. Til meðhöndlunar úrgangs telst m.a. söfnun, geymsla, pressun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting eða urðun.

Móttökustöð er í landi Borgarbyggðar við Sólbakka í Borgarnesi. Þar er tekið á móti úrgangi sem fellur til í Borgarbyggð. Grenndarstöðvar eru gámaplön sem starfrækt eru af Borgarbyggð utan aðalstarfsstöðvar við Sólbakka í Borgarnesi og ætlað er að taka á móti úrgangi frá dreifbýli Borgarbyggðar. Sveitarstjórn ákveður í hverju tilfelli fyrir sig hvaða sorpflokkum er tekið á móti á grenndarstöðvum innan þeirra marka sem starfsleyfi kveður á um.

3. gr.

Markmið.

Markmið samþykktarinnar er:

a. að lágmarka það úrgangsmagn sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs,
b. að lágmarka kostnað samfélagsins við meðhöndlun úrgangs og
c. að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem úrganginum veldur.

Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs er lögð til grundvallar samþykkt þessari.

4. gr.

Skyldur verktaka.

Verktakar sem annast sorpsöfnun samkvæmt samningi við Borgarbyggð skulu uppfylla ákvæði samninga um meðhöndlun úrgangs og hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar Vesturlands til starfsemi sinnar, samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Sama gildir um verktaka sem sinna hirðingu rekstrarúrgangs hjá fyrirtækjum í Borgarbyggð.

II. KAFLI

Meðferð heimilisúrgangs.

5. gr.

Fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi.

Heimilisúrgangur skal hirtur með reglulegum hætti frá íbúðareigendum. Sveitarstjórn Borgar-byggðar ákveður í samráði við heilbrigðisnefnd Vesturlands hvaða ílát og hvaða aðferðir skuli nota til sorpsöfnunar. Eigendum og umráðamönnum íbúðarhúsnæðis í Borgarbyggð er skylt að nota þau ílát og þær aðferðir við geymslu og meðferð úrgangs sem sveitarstjórn ákveður. Nr. 660 5. júlí 2016

Borgarbyggð leggur íbúum til viðeigandi sorpílát samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar. Fyrir viðbótarílát greiðist gjald samkvæmt gjaldskrá. Þar sem stærri ílát henta betur, svo sem við fjölbýlishús og við stofnanir sveitarfélagsins, getur sveitarstjórn ákveðið notkun þeirra.

Borgarbyggð setur í samráði við heilbrigðisnefnd upp sorpílát í nánd við sumarhúsahverfi. Þar sem eru fleiri en 20 sumarhús í hverfi er staðsetning sorpíláts sem næst hverfinu og/eða þannig að hentugt sé að losa í það í leið frá hverfinu. Sorpílátin eru til staðar á því tímabili sem almennt er dvalist í húsunum í hverfinu og skal aðgangur að sorpílátum vera greiður, m.t.t. tegundar úrgangs.

6. gr.

Skyldur húsráðenda.

Sorpgeymslur skulu uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar. Sorpgeymslur skulu vera aðgengilegar fyrir starfsmenn sorphirðu og standa sem næst aðkomu að lóð. Þær skulu staðsettar saman ef um fjölbýlishús er að ræða. Húsráðendur skulu halda sorpílátum hreinum, hreinsa snjó frá sorpgeymslum á vetrum og halda greiðfærri leið að þeim svo unnt sé að annast hreinsun. Þar sem lokuðum sorpgeymslum er ekki viðkomið skal festa sorptunnurnar með vandaðri festingu við vegg til að koma í veg fyrir að tunnurnar fjúki.

7. gr.

Notkun sorpíláta.

Óheimilt er að láta garðúrgang, jarðefni eða grjót í almenn sorpílát. Jarðefni, þar með talið grjót og múrbrot, skal farið með á tilgreindan móttökustað. Óheimilt er að losa í almenn sorpílát spilliefni, önnur hættuleg efni eða efni sem sprengihætta getur stafað af, þunga málmhluti eða tærandi efni.

Spilliefnum, öðrum hættulegum úrgangi, rafeindabúnaði og öllum endurvinnanlegum úrgangi skal skilað aðgreindum á sorpmóttökustað við Sólbakka í Borgarnesi.

8. gr.

Tíðni sorpsöfnunar.

Sveitarstjórn ákveður tíðni sorpsöfnunar í sveitarfélaginu sem skal þó eigi fara fram sjaldnar en á 14 daga fresti. Íbúum skal kynnt tíðni sorpsöfnunar með hæfilegum fyrirvara.

III. KAFLI

Meðferð úrgangs frá fyrirtækjum.

9. gr.

Meðferð rekstrarúrgangs.

Rekstraraðilar bera ábyrgð á söfnun rekstrarúrgangs sem til fellur í starfsemi þeirra og ber að skila rekstrarúrgangi til móttökustöðvar með starfsleyfi. Þeir bera allan kostnað sem af meðhöndlun rekstrarúrgangs hlýst. Söfnun, frágangur og flutningur á úrgangi frá fyrirtækjum og stofnunum skal vera í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar Vesturlands. Ákvæði II. kafla samþykktar þessarar um frágang og umgengni um sorpílát gilda einnig um þau ílát sem fyrirtæki nota undir rekstrarúrgang. Gæta skal fyllsta hreinlætis við söfnun og flutning og tryggja að ekkert fjúki eða falli af flutningatækjum sem óþrifnaði getur valdið.

Borgarbyggð tekur að sér förgun rekstrarúrgangs hjá þeim fyrirtækjum í Borgarbyggð sem þess óska, samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórn setur og auglýsir.

IV. KAFLI

Móttaka úrgangs.

10. gr.

Móttaka úrgangs í söfnunarstöðinni og á grenndarstöðvum.

Borgarbyggð tekur við öllum úrgangi sem til fellur í sveitarfélaginu ýmist í móttökustöð við Sólbakka í Borgarnesi eða á grenndarstöðvum, eftir nánari ákvörðun sveitarstjórnar. Opnunartími söfnunar- og móttökustöðvar skal auglýstur opinberlega.

Úrgangur skal flokkaður við móttöku samkvæmt flokkunarreglum sem gilda á móttökustöðinni og grenndarstöðvunum. Spilliefni, svo sem úrgangsolía og úrgangsvökvar, skulu aðskilin frá öðrum Nr. 660 5. júlí 2016

úrgangi og uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 806/1999, um spilliefni. Heimilt er að undanþiggja gjaldskyldu minni háttar magn, sem komið er með til móttökustöðvar. Ávallt skal leggja gjald á allan rekstrarúrgang.

V. KAFLI

Gjaldtaka.

11. gr.

Almennt sorphirðugjald.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar skal innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Umrætt gjald, almennt sorphirðu- og sorpeyðingargjald, skal standa undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið fellur vegna móttöku úrgangs, sorpsöfnunar, annarrar meðhöndlunar og förgunar úrgangs í samræmi við ákvæði 2. tölul. 1. mgr. og 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Almennt sorphirðugjald skal taka mið af fjölda og stærð íláta, hreinsunartíðni og förgun. Sorphirðugjald innheimtist með sama hætti og fasteignagjöld og á sömu gjalddögum. Kvörtunum vegna álagningar eða innheimtu gjalda skal beint til skrifstofustjóra Borgarbyggðar. Til tryggingar greiðslu sorphirðugjalda samkvæmt gjaldskrá er lögveðsréttur í viðkomandi fasteign í tvö ár frá gjalddaga.

Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Í gjaldskránni skal vísa til þessarar samþykktar.

VI. KAFLI

Viðurlög, brottfall og gildistaka.

12. gr.

Viðurlagaákvæði.

Með brot gegn samþykkt þessari fer samkvæmt ákvæðum 33. og 34. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 68. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

13. gr.

Brottfall og gildistaka.

Samþykkt þessi er hér með staðfest samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 295/2007 um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 5. júlí 2016.

F. h. r.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Laufey Helga Guðmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 19. júlí 2016