I. KAFLI.
Almennt.
1. gr.
Rekstraraðilar stafrænna vettvanga sem miðla viðskiptum um leigu fasteigna og lausafjár og/eða sölu á vörum og þjónustu skulu veita Skattinum, eða eftir atvikum viðeigandi skattyfirvöldum innan Evrópska efnahagssvæðisins, upplýsingar á því formi sem óskað er samkvæmt þeim fyrirmælum sem fram koma í reglugerð þessari.
II. KAFLI
Skilgreiningar.
Tilkynningarskyldur rekstraraðili stafræns vettvangs.
2. gr.
- Stafrænn vettvangur (vettvangur): Hvers konar hugbúnaður, þ.e. vefsetur eða hluti vefseturs og smáforrit, þ.m.t. fartækjasmáforrit, sem er tiltækur fyrir notendur og gerir seljendum kleift að verða tengdir við aðra notendur með það fyrir augum að framkvæma viðeigandi starfsemi, beint eða óbeint, fyrir viðkomandi notendur. Hugtakið nær einnig yfir mögulegt fyrirkomulag til að innheimta og greiða endurgjald í tengslum við viðeigandi starfsemi.
Hugtakið nær ekki yfir hugbúnað sem, án þess að leggja neitt annað til viðeigandi starfsemi, aðeins gerir eftirfarandi mögulegt:
- meðhöndlar greiðslur í tengslum við viðeigandi starfsemi,
- gerir notendum kleift að skrá eða auglýsa eftir viðeigandi starfsemi, eða
- beinir notendum eða yfirfærir þá yfir á vettvang.
- Rekstraraðili vettvangs: Eining sem gerir samninga við seljendur um að allur eða hluti vettvangs verði til afnota fyrir hlutaðeigandi seljendur.
- Undanþeginn rekstraraðili vettvangs: Rekstraraðili vettvangs sem þarf ekki að gefa skýrslu um seljendur enda hafi hann fyrir fram og árlega sýnt því yfirvaldi í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, sem hann myndi annars skila skýrslu til, að viðskiptalíkan vettvangsins sé þannig að hann hafi ekki seljendur sem gefa skal skýrslu um.
- Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs: Allir rekstraraðilar vettvangs aðrir en undanþegnir rekstraraðilar sem a.m.k. eitt eftirfarandi atriði á við:
- Rekstraraðili vettvangs hefur skattalega heimilisfesti á Evrópska efnahagssvæðinu eða uppfyllir eitt af eftirfarandi skilyrðum:
- Rekstraraðili vettvangs er skráður í samræmi við lög ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu.
- Rekstraraðili vettvangs hefur höfuðstöðvar, þ.m.t. raunverulega stjórn, á Evrópska efnahagssvæðinu.
- Rekstraraðili vettvangs hefur fasta starfsstöð á Evrópska efnahagssvæðinu og er ekki hæfur rekstraraðili vettvangs utan svæðisins.
- Rekstraraðili vettvangs hefur hvorki skattalega heimilisfesti né er skráður í eða er stjórnað frá aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða hefur fasta starfsstöð þar en hefur milligöngu um viðeigandi starfsemi fyrir seljendur sem gefa skal skýrslu um eða hefur milligöngu um viðeigandi starfsemi sem varðar útleigu á fasteignum á Evrópska efnahagssvæðinu, auk þess er rekstraraðili vettvangs ekki hæfur rekstraraðili vettvangs utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Hæfur rekstraraðili vettvangs utan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins: Rekstraraðili vettvangs sem hefur milligöngu um viðeigandi starfsemi sem einnig er hæf viðeigandi starfsemi. Þar að auki skal rekstraraðili vettvangs hafa skattalega heimilisfesti í hæfri lögsögu utan Evrópska efnahagssvæðisins eða uppfylla eina af eftirfarandi kröfum ef hann hefur ekki skattalega heimilisfesti í hæfri lögsögu utan Evrópska efnahagssvæðisins:
- Rekstraraðili vettvangs er skráður í samræmi við löggjöf í hæfri lögsögu utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Rekstraraðili vettvangs hefur höfuðstöðvar, þ.m.t. raunverulega stjórn, í hæfri lögsögu utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Hæf lögsaga utan Evrópska efnahagssvæðisins: Lögsaga utan Evrópska efnahagssvæðisins sem er ríki að gildandi skilyrtu samkomulagi, sem hefur tekið gildi, við lögbær yfirvöld í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem eru skilgreind sem lögsaga sem skal tilkynna um í samræmi við lista sem lögsagan utan Evrópska efnahagssvæðisins hefur birt opinberlega.
- Gildandi skilyrt samkomulag milli lögbærra yfirvalda: Samkomulag milli lögbærra yfirvalda í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögsögu utan aðildarríkja þess sem inniheldur sjálfvirk upplýsingaskipti sem jafngilda þeim sem tilgreind eru í III. kafla samnings um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 74/1996.
- Viðeigandi starfsemi: Starfsemi sem fer fram gegn endurgjaldi og felur í sér eitt af eftirfarandi:
- Útleigu á hvers konar fasteignum og bílastæðum.
- Persónulega þjónustu.
- Vörusölu.
- Útleigu á hvers konar samgöngutæki.
Hugtakið „viðeigandi starfsemi“ nær ekki yfir starfsemi sem seljandi, sem kemur fram sem starfsmaður rekstraraðila vettvangs eða einingar sem tengist rekstraraðila vettvangs, framkvæmir.
- Hæf viðeigandi starfsemi: Hver sú viðeigandi starfsemi sem fellur undir sjálfvirk upplýsingaskipti í samræmi við gildandi skilyrtan samning milli lögbærra yfirvalda.
- Endurgjald: Hvers konar endurgjald að frádregnum gjöldum, þóknunum eða sköttum sem skilaskyldur rekstraraðili vettvangs á inni eða innheimtir og sem kemur til greiðslu eða er eignfært á seljanda í tengslum við viðeigandi starfsemi og er þekkt stærð eða er af sanngirni mögulegt að vænta að rekstraraðili vettvangs þekki.
- Persónuleg þjónusta: Þjónusta sem felur í sér tíma- eða verkefnavinnu sem unnin er af einum eða fleiri einstaklingum, sem koma fram sjálfstætt eða fyrir hönd einingar, og sem er framkvæmd annaðhvort á netinu eða efnislega utan netsins samkvæmt beiðni notanda, eftir að hafa verið miðlað með milligöngu vettvangs.
Seljendur sem skila skal skýrslu um.
- Seljandi: Notandi vettvangs sem er annaðhvort einstaklingur eða eining sem er skráð á vettvanginn á hverjum þeim tíma sem fellur innan skýrslugjafartímabilsins og sem framkvæmir viðeigandi starfsemi.
- Virkur seljandi: Hver sá seljandi sem annaðhvort framkvæmir viðeigandi starfsemi innan skýrslugjafartímabilsins eða fær greitt eða eignfært endurgjald í tengslum við viðeigandi starfsemi innan skýrslugjafartímabilsins.
- Seljandi sem gefa skal skýrslu um: Hver sá seljandi sem annaðhvort framkvæmir viðeigandi starfsemi innan skýrslugjafartímabilsins eða fær greitt eða eignfært endurgjald í tengslum við viðeigandi starfsemi innan skýrslugjafartímabilsins.
- Undanþeginn seljandi: Hver sá seljandi sem er:
- Opinber eining.
- Eining með hluti skráða á viðurkenndum verðbréfamarkaði sem regluleg viðskipti eiga sér stað með eða eining sem tengist einingu með hluti skráða á viðurkenndum verðbréfamarkaði sem regluleg viðskipti eiga sér stað með.
- Eining sem rekstraraðili vettvangs hefur miðlað viðeigandi starfsemi fyrir í fleiri en 2.000 skipti, í formi útleigu fasteignar (eignar) innan skýrslugjafartímabilsins.
- Seljandi sem rekstraraðili vettvangs hefur miðlað viðeigandi starfsemi fyrir, í formi vörusölu, í færri en 30 skipti og þar sem samanlagt endurgjald, sem er greitt eða viðskiptafært, fer ekki yfir 2.000 evrur á skýrslugjafartímabilinu.
Aðrar skilgreiningar.
- Eining: Lögaðili eða lagalegt fyrirkomulag, t.d. fyrirtæki, samvinnufélag, fjárvörslusjóður eða sjóður.
Eining telst tengd annarri einingu ef önnur eininganna hefur yfirráð yfir hinni eða ef einingarnar tvær lúta sameiginlegri stjórn. Yfirráð teljast í þessu samhengi beint eða óbeint eignarhald á yfir 50% af atkvæðum og virði einingar. Við óbeina þátttöku skal meta uppfyllingu á kröfunni um yfir 50% eignarhald á eigin fé hinnar einingarinnar með því að margfalda hlutfall eignarhalds í gegnum þrep eignarhalds. Aðili sem ræður yfir meira en 50% atkvæðisréttar telst ráða yfir 100%.
- Opinber eining: Ríkisstjórn ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða annarrar lögsögu, hvers konar sjálfstjórnarhérað ríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða annarrar lögsögu, sem tekur til ríkis, héraðs, sýslu eða sveitarfélags, eða yfirvald eða stofnun sem er að fullu í eigu ríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða annarrar lögsögu eða að fullu í eigu eins eða fleiri af áðurnefndu (hver um sig „opinber eining“).
- Skattkennitala: Skráningarnúmer fyrir skattskylda aðila, sem er útgefið af ríki Evrópska efnahagssvæðisins, eða samsvarandi ef ekki er um að ræða skattkennitölu.
- Virðisaukaskattsnúmer: Einkvæmt númer sem tilgreinir skattskyldan aðila sem er skráður á virðisaukaskattskrá eða einingu sem ekki er skattskyld.
- Lögheimili: Heimilisfangið þar sem seljandi á lögheimili, ef hann er einstaklingur, og heimilisfang sem er skráð heimili seljanda, ef hann er eining.
- Skýrslugjafartímabil: Almanaksár sem skýrsla er gefin um skv. IV. kafla.
- Eign: Sérhver fasteign með sama heimilisfang, í eigu sama eiganda, sem sami seljandi býður til leigu á vettvangi.
- Reikningsauðkenni: Einkvæmt auðkennisnúmer eða tilvísunarnúmer sem rekstraraðili vettvangs hefur aðgang að fyrir þann bankareikning eða annan sambærilegan greiðslureikning sem endurgjaldið er greitt inn á eða eignfært á.
- Vörur: Hvers kyns áþreifanlegar eignir.
III. KAFLI
Áreiðanleikakönnun.
Almennt.
3. gr.
Beita skal verklagsreglunum samkvæmt þessum kafla þegar skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skal auðkenna þá seljendur sem gefa skal skýrslu um.
Þessi kafli á við um rekstraraðila vettvangs sem skila skýrslum sem falla undir 1. málsl. 25. gr. eða velja að láta skrá sig hjá skattyfirvöldum skv. 2. málsl. 25. gr. og 27. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs getur valið að framkvæma áreiðanleikakönnun í samræmi við 4.–14. gr. aðeins að því er varðar virka seljendur.
Seljendur sem ekki skal kanna.
4. gr.
Til þess að skera úr um hvort líta skal á seljanda sem er eining sem undanþeginn seljanda, eins og lýst er í a- og b-lið 15. tölul. 2. gr., getur skilaskyldur rekstraraðili vettvangs byggt á opinberum upplýsingum eða staðfestingu frá hlutaðeigandi seljanda.
Til þess að skera úr um hvort líta skal á seljanda sem undanþeginn seljanda, eins og lýst er í c- og d-lið 15. tölul. 2. gr., getur skilaskyldur rekstraraðili vettvangs lagt upplýsingarnar í skrám sínum til grundvallar.
Söfnun upplýsinga um seljanda.
5. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs safnar eftirfarandi upplýsingum um hvern seljanda sem er einstaklingur og sem ekki er tilgreindur sem undanþeginn seljandi skv. 4. gr.:
- Eiginnafn og kenninafn.
- Lögheimili.
- Hvers konar skattkennitölu sem hlutaðeigandi seljandi hefur fengið úthlutað, þ.m.t. aðildarríki úthlutunar. Ef viðkomandi seljandi hefur ekki skattkennitölu skal safna upplýsingum um fæðingarstað viðkomandi seljanda.
- Virðisaukaskattsnúmer ef um slíkt er að ræða.
- Fæðingardag.
6. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs safnar eftirfarandi upplýsingum um hvern seljanda sem er eining og sem ekki er tilgreindur sem undanþeginn seljandi skv. 4. gr.:
- Lögheiti.
- Heimilisfang.
- Hvers konar skattkennitölu sem hlutaðeigandi seljandi hefur fengið úthlutað, þ.m.t. ríkið sem úthlutar.
- Virðisaukaskattsnúmer ef um slíkt er að ræða.
- Skráningarnúmer fyrirtækis (kennitala).
- Tilvist sérhverrar fastrar starfsstöðvar þar sem viðeigandi starfsemi er stunduð innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, ef um slíka starfsstöð er að ræða, þar sem tilgreint er hvert ríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem slík föst starfsstöð er staðsett.
7. gr.
Þrátt fyrir 5. og 6. gr. er skilaskyldum rekstraraðila vettvangs ekki skylt að safna upplýsingunum sem taldar eru upp í b–e-lið 5. gr. og b–f-lið 6. gr. ef hann byggir upplýsingasöfnunina á beinni staðfestingu á auðkenni og heimili með notkun auðkennisþjónustu sem veitt er af ríki Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA eða Evrópusambandsins með það fyrir augum að ákvarða með fullri vissu auðkenni og skattalega heimilisfesti seljanda.
Þrátt fyrir c-lið 5. gr. og c- og e-lið 6. gr. er skilaskyldum rekstraraðila vettvangs ekki skylt að safna skattkennitölu eða fyrirtækjaskráningarnúmeri ef:
- aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem seljandi hefur staðfestu gefur ekki út skattkennitölu eða fyrirtækjaskráningarnúmer til seljandans eða
- ef aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem seljandi hefur staðfestu krefst þess ekki að upplýsingum sé safnað um skattkennitölu sem útgefin er til seljandans.
Athugun upplýsinga um seljanda.
8. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skal ákvarða hvort upplýsingarnar sem safnað er í samræmi við 4. gr., 5. gr., a–e-lið 6. gr. og 13. gr. eru áreiðanlegar með hjálp allra þeirra upplýsinga og gagna sem tiltæk eru í skrám hans, ásamt öllum þeim rafrænu upplýsingasíðum sem ríki Evrópska efnahagssvæðisins leggur til ókeypis til að sannreyna gildi skattkennitölu og/eða virðisaukaskattsnúmers.
9. gr.
Þrátt fyrir 8. gr. getur skilaskyldur rekstraraðili vettvangs, við framkvæmd áreiðanleikakönnunar skv. 2. mgr. 14. gr., ákvarðað hvort upplýsingarnar sem safnað er skv. 4. gr., 5. gr., a–e-lið 6. gr. og 13. gr. séu áreiðanlegar einungis með hjálp upplýsinga og gagna sem eru tiltæk skilaskyldum rekstraraðila vettvangs í leitarhæfum rafrænum skrám.
10. gr.
Ef skattyfirvöld hafa tilkynnt skilaskyldum rekstraraðila vettvangs um að upplýsingar sem falla undir 5.–7. gr. eða 13. gr. geti verið ónákvæmar í samanburði við upplýsingar sem lögbært yfirvald í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins hefur lagt fram til skattyfirvalda í beiðni um upplýsingar varðandi tiltekinn seljanda skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs, þrátt fyrir 8. og 9. gr. og við beitingu á b-lið 3. mgr. 14. gr., biðja viðkomandi seljanda um að leiðrétta mögulegar ónákvæmar upplýsingar ásamt því að leggja fram áreiðanleg skjöl, gögn eða aðrar upplýsingar frá óháðum aðila, t.d.:
- Gilt skilríki sem útgefið er af opinberu yfirvaldi.
- Nýlega útgefna staðfestingu á skattalegri heimilisfesti.
Ákvörðun um heimilisfesti seljanda innan Evrópska efnahagssvæðisins.
11. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skal líta svo á að seljandi hafi staðfestu í því ríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem hann á lögheimili.
Ef ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur gefið út skattkennitölu til seljandans, er annað en ríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem seljandinn á lögheimili skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs líta svo á að seljandi hafi einnig heimilisfesti í því ríki sem gaf út skattkennitöluna.
Ef seljandinn hefur lagt fram upplýsingar um tilvist fastrar starfsstöðvar skv. f-lið 6. gr. skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs líta svo á að seljandinn hafi einnig heimilisfesti í því ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem seljandinn gaf upp að fasta starfsstöðin væri staðsett í.
12. gr.
Nýti skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sér auðkennisþjónustu, sem ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA eða Evrópusambandið leggur til, skv. 1. mgr. 7. gr., í því skyni að auðkenna skattalega heimilisfesti seljenda sinna skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs, þrátt fyrir ákvæði 11. gr., líta svo á að seljandinn hafi staðfestu í hverju því ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem er, sem fyrir milligöngu auðkennisþjónustunnar er tilgreint að seljandinn hafi skattalega heimilisfesti í.
Söfnun upplýsinga um útleigu fasteigna.
13. gr.
Ef seljandi er þátttakandi í viðeigandi starfsemi sem fellur undir a-lið 1. mgr. 8. tölul. 2. gr., þ.e. útleiga fasteigna, skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs safna upplýsingum um heimilisfang hverrar fasteignar sem leigð er út. Ef fasteignaskrárnúmer eða samsvarandi númer hefur verið gefið út fyrir eignina í samræmi við landslög í því ríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem fasteignin er staðsett skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs einnig safna upplýsingum um fasteignaskrárnúmerið eða samsvarandi númer.
Ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs hefur miðlað viðeigandi starfsemi oftar en 2.000 sinnum, í formi útleigu eignar fyrir sama seljanda sem er eining, skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs, í þeim tilgangi að ákvarða hvort seljandi falli undir c-lið 15. tölul. 2. gr., safna saman fylgiskjölum, gögnum eða öðrum upplýsingum sem styðja það að eignin sé í eigu sama eiganda.
Tímasetning og gildi áreiðanleikakönnunar.
14. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skal framkvæma þær áreiðanleikakannanir skv. 4.–13. gr. eigi síðar en 31. desember á skýrslugjafartímabilinu.
Þrátt fyrir 1. mgr. skal framkvæma áreiðanleikakannanirnar skv. 4.–13. gr., að því er varðar seljendur sem þegar hafa verið skráðir á vettvanginn 1. janúar 2025 eða á þeim degi sem eining verður skilaskyldur rekstraraðili vettvangs, eigi síðar en 31. desember á öðru skýrslugjafartímabilinu fyrir skilaskyldan rekstraraðila vettvangs.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur skilaskyldur rekstraraðili vettvangs notað áreiðanleikakannanir sem framkvæmdar eru í tengslum við fyrri skýrslugjafartímabil, að því tilskildu að:
- upplýsingunum um seljandann sem krafist er skv. 5. og 6. gr. hafi annaðhvort verið safnað og þær athugaðar eða staðfestar á síðastliðnum 36 mánuðum og
- skilaskyldur rekstraraðili vettvangs hafi ekki ástæðu til að ætla að upplýsingarnar sem safnað er skv. 4.–7. gr. og 13. gr. séu óáreiðanlegar eða rangar.
Framkvæmd áreiðanleikakannana í gegnum þriðja aðila.
15. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs getur nýtt sér þriðja aðila til að uppfylla skyldurnar varðandi áreiðanleikakannanir sem settar eru fram í þessum kafla, en skyldurnar hvíla þó áfram á skilaskyldum rekstraraðila vettvangs.
Ef annar rekstraraðili vettvangs uppfyllir skyldur skilaskylds rekstraraðila vettvangs varðandi áreiðanleikakannanir, að því er varðar sama vettvang skv. 1. mgr., skal rekstraraðili vettvangs framkvæma áreiðanleikakannanirnar samkvæmt reglunum í þessum kafla. Skyldurnar að því er varðar áreiðanleikakönnun hvíla þó áfram á skilaskyldum rekstraraðila vettvangs.
IV. KAFLI
Skýrsluskil.
Almennt.
16. gr.
Þessi kafli á við um skilaskylda rekstraraðila vettvanga sem falla undir 1. málsl. 25. gr. eða velja að láta skrá sig hjá skattyfirvöldum skv. 2. málsl. 25. gr. og 27. gr.
Tími og aðferð skýrsluskila.
17. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem fellur undir a-lið 4. tölul. 2. gr. skal skila þeim upplýsingum sem kveðið er á um í 23. gr., að því er varðar skýrslugjafartímabilið, eigi síðar en 31. janúar árið eftir það almanaksár þegar seljandi er tilgreindur sem seljandi sem skila skal skýrslu um til lögbærs yfirvalds í því ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem ákvarðað er í samræmi við a-lið 4. tölul. 2. gr.
Ef fleiri en einn skilaskyldur rekstraraðili vettvangs tengist tilteknum vettvangi er hver þessara rekstraraðila vettvangs sem skila skýrslum laus undan þeirri skyldu að leggja fram upplýsingarnar ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs getur sýnt fram á að annar skilaskyldur rekstraraðili vettvangs hafi lagt fram þessar upplýsingar annaðhvort á Íslandi eða í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins.
18. gr.
Ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem fellur undir a-lið 4. tölul. 2. gr. uppfyllir eitt af skilyrðunum sem þar eru tilgreind, í fleiri en einu ríki Evrópska efnahagssvæðisins velur hann eitt af þessum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þar sem hann mun uppfylla skýrslugjafarskyldurnar sem settar eru fram í þessum kafla. Slíkur skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skal leggja fram upplýsingarnar sem kveðið er á um í 23. gr., að því er varðar skýrslugjafartímabilið til þess lögbæra yfirvalds í hinu valda ríki Evrópska efnahagssvæðisins, sem ákvarðað er í samræmi við 2. málsl. 25. gr., eigi síðar en 31. janúar árið eftir almanaksárið þegar seljandi er tilgreindur sem seljandi sem skila skal skýrslu um.
Ef fleiri en einn skilaskyldur rekstraraðili vettvangs tengist tilteknum vettvangi er hver þessara rekstraraðila laus undan þeirri skyldu að leggja fram upplýsingarnar ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs getur sýnt fram á að annar skilaskyldur rekstraraðili vettvangs hafi lagt fram sömu upplýsingar í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins.
19. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem fellur undir b-lið 4. tölul. 2. gr. og er skráður hjá skattyfirvöldum skv. 27. gr. skal eigi síðar en 31. janúar árið eftir það almanaksár sem seljandi er tilgreindur sem seljandi sem gefa skal skýrslu um leggja fram þær upplýsingar sem kveðið er á um í 23. gr. að því er varðar skýrslugjafartímabilið til skattyfirvalda.
20. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 19. gr. er skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem fellur undir b-lið 4. tölul. 2. gr. ekki skyldugur til að setja fram upplýsingar skv. 23. gr. að því er varðar hæfa viðeigandi starfsemi, sem fellur undir gildandi skilyrt samkomulag milli lögbærra yfirvalda, um sjálfvirk skipti á samsvarandi upplýsingum við ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins um seljendur sem skila skal skýrslu um og sem hafa staðfestu í viðkomandi ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
21. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skal tilkynna upplýsingarnar skv. b- og c-lið 1. mgr. 23. gr. til seljandans sem skila skal skýrslu um eigi síðar en 31. janúar árið eftir það almanaksár þegar seljandi er tilgreindur sem seljandi sem skal gefa skýrslu um.
22. gr.
Upplýsingar um það endurgjald, sem er greitt eða eignfært í hefðbundnum gjaldmiðli (valdboðsgjaldmiðli), skal tilkynna í þeim gjaldmiðli sem endurgjaldið er greitt eða eignfært í. Ef endurgjaldið er greitt eða eignfært í öðru formi en sem valdboðsgjaldmiðli skal tilkynna um endurgjaldið í íslenskum krónum, umreiknuðum eða verðlögðum á þann hátt sem skilaskyldur rekstraraðili vettvangs notar að staðaldri.
Upplýsingar um endurgjaldið og aðrar fjárhæðir skulu tilkynntar fyrir þann ársfjórðung innan skýrslugjafartímabilsins sem endurgjaldið er greitt eða eignfært innan.
Upplýsingar sem tilkynna skal.
23. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skal tilgreina eftirfarandi upplýsingar í skýrsluskilum:
- Nafn, skráða skrifstofu, skattkennitölu og kennitölu, leyfisnúmer eða einkvæmt auðkennisnúmer sem úthlutað er skv. 3. mgr. 28. gr. til skilaskylds rekstraraðila vettvangs ásamt fyrirtækjaheiti eða -heitum þess eða þeirra vettvanga sem skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skilar skýrslum um.
- Að því er varðar hvern og einn seljanda sem skila skal skýrslu um og hefur stundað viðeigandi starfsemi, fyrir utan útleigu fasteignar:
- Þær upplýsingar sem afla skal skv. 5.–7. gr.
- Reikningsauðkenni, ef upplýsingar um það eru tiltækar skilaskyldum rekstraraðila vettvangs, nema lögbært yfirvald í því aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem seljandinn sem tilkynna skal um hefur staðfestu skv. 11. og 12. gr. hafi tilkynnt að það óski ekki eftir upplýsingum um reikningsauðkennið.
- Í tengslum við reikningsauðkennið skal veita upplýsingar um nafn eiganda reikningsins sem endurgjaldið er lagt inn á eða eignfært á ef það er annað en nafn seljanda sem gefa skal skýrslu um, sé skilaskyldum rekstraraðila vettvangs kunnugt um það, ásamt öllum öðrum fjárhagslegum auðkennisupplýsingum sem skilaskyldur rekstraraðili vettvangs býr yfir um eiganda reikningsins.
- Hvert aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem seljandinn sem skila skal skýrslu um telst hafa staðfestu skv. 11. og 12. gr.
- Samanlagt endurgjald, sem er greitt eða eignfært, fyrir hvern ársfjórðung skýrslugjafartímabilsins og fjölda viðeigandi starfsemi sem er greitt eða eignfært fyrir.
- Öll gjöld, þóknanir eða skattar sem haldið er eftir eða krafist af skilaskyldum rekstraraðila vettvangs í hverjum ársfjórðungi skýrslugjafartímabilsins.
- Að því er varðar hvern seljanda sem skila skal skýrslu um og hefur stundað viðeigandi starfsemi sem varðar útleigu fasteignar:
- Þær upplýsingar sem afla skal skv. 5.–7. gr.
- Reikningsauðkenni, ef upplýsingar um það eru tiltækar skilaskyldum rekstraraðila vettvangs, nema lögbært yfirvald í ríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem seljandinn sem skila skal skýrslu um hefur staðfestu skv. 11. og 12. gr. hafi tilkynnt að það óski ekki eftir upplýsingum um reikningsauðkennið.
- Í tengslum við reikningsauðkennið skal veita upplýsingar um nafn eiganda reikningsins sem endurgjaldið er lagt inn á eða eignfært á ef það er annað en nafn seljanda sem gefa skal skýrslu um, sé skilaskyldum rekstraraðila vettvangs kunnugt um það, ásamt öllum öðrum fjárhagslegum auðkennisupplýsingum sem skilaskyldur rekstraraðili vettvangs býr yfir um eiganda reikningsins.
- Hvert aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem seljandinn sem skila skal skýrslu um telst hafa staðfestu skv. 11. og 12. gr.
- Heimilisfang hverrar fasteignar, sem ákvarðað er skv. 13. gr., og viðkomandi fasteignaskrárnúmer eða samsvarandi í samræmi við landslög í því aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem eignin er staðsett, ef um slíkt er að ræða.
- Samanlagt endurgjald sem er greitt eða eignfært í hverjum ársfjórðungi skýrslugjafartímabilsins og fjölda viðeigandi starfsemi fyrir hverja eign.
- Öll gjöld, þóknanir eða skattar sem haldið er eftir eða krafist af skilaskyldum rekstraraðila vettvangs í hverjum ársfjórðungi skýrslugjafartímabilsins.
- Ef tiltækt, fjöldi daga sem eignin hefur verið leigð út á skýrslugjafartímabilinu og tegund hverrar eignar.
Skatturinn, eða eftir atvikum skattyfirvöld ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, birta opinberlega lista yfir aðildarríki þar sem tilgreint er hvaða aðildarríki óska ekki eftir upplýsingum um reikningsauðkenni, skv. ii. lið b-liðar 1. mgr. og ii. lið c-liðar 1. mgr.
V. KAFLI
Stjórnsýslu- og eftirlitsráðstafanir.
Reglur um afnám krafna um söfnun og eftirlit skv. III. kafla.
24. gr.
Ef seljandi veitir ekki þær upplýsingar sem krafist er skv. III. kafla eftir tvær áminningar þess efnis í kjölfar fyrstu tilmæla skilaskylds rekstraraðila vettvangs, og liðnir eru minnst 60 dagar, skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs loka reikningi seljandans og koma í veg fyrir að seljandinn verði aftur skráður á vettvanginn eða halda eftir greiðslu endurgjaldsins til seljandans, svo lengi sem seljandinn veitir ekki umbeðnar upplýsingar.
Stjórnsýslumeðferð við val á einu ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem skila skal skýrslu til.
25. gr.
Ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem fellur undir a-lið 4. tölul. 2. gr. uppfyllir skilyrði ákvæðisins á Íslandi skal hann senda upplýsingarnar til skattyfirvalda á Íslandi. Ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs uppfyllir einnig skilyrði a-liðar 4. tölul. 2. gr. í einu eða fleiri öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins en Íslandi skal viðkomandi velja Ísland eða eitt af hinum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem ríki sem viðkomandi leggur upplýsingarnar fram í. Ef Ísland er valið gilda reglurnar í III. og IV. kafla. Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs tilkynnir lögbærum yfirvöldum í viðkomandi ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins um val sitt.
Skráning.
26. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem skal skila upplýsingum til skattyfirvalda skv. 25. gr. skal tilkynna það skattyfirvöldum eigi síðar en átta dögum eftir að hafa fengið stöðuna skilaskyldur rekstraraðili vettvangs.
Tilkynning skv. 1. mgr. skal vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
Óvissa félags eða einingar um það hvort félagið eða einingin sé skilaskyldur rekstraraðili vettvangs leysir félagið eða eininguna ekki undan tilkynningu. Í þeim tilvikum þarf að fylgja tilkynningunni greinargerð um viðskipti tilkynningaraðila og taka þá skattyfirvöld ákvörðun um skráningu.
Við tilkynninguna skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs veita upplýsingar um eftirfarandi:
- Nafn, heimilisfang og sveitarfélag.
- Skattaskráningarnúmer (kennitölu) eða, ef slíku hefur ekki verið úthlutað, skráningarnúmer í viðskiptakerfi skattyfirvalda.
- Dagsetningu skráningar skilaskylds rekstraraðila vettvangs.
- Eiginleika tilkynningarskyldunnar.
Ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs skýrslu hefur hvorki kennitölu né annað skráningarnúmer skal skrá það í þeirri skrá sem hentar og skal Skatturinn úthluta slíku skráningarnúmeri.
Eftir skráninguna senda skattyfirvöld skráningarskírteini sem inniheldur skráðar upplýsingar til skilaskylds rekstraraðila vettvangs.
Ef breyting verður á uppgefnum upplýsingum eftir skráninguna, þ.m.t. ef rekstraraðili vettvangs þarf ekki lengur að skila skýrslum, eða ef villur eru í skráðum upplýsingum skal skilaskyldur rekstraraðili vettvangs tilkynna skattyfirvöldum um það skriflega innan átta daga frá því að breytingin á sér stað eða villan uppgötvast. Skattyfirvöld framsenda síðan nýtt skráningarskírteini og þegar tilkynningarskyldan fellur niður er tilkynnt um að það sé skráð.
Sleppa má breytingu á skráningu skv. 7. mgr. falli tilkynningarskyldan tímabundið niður gegn því að skilaskyldur rekstraraðili vettvangs um viðkomandi tímabil tilkynni skattyfirvöldum að ekki sé um neinar upplýsingar að ræða sem skila þarf skýrslu um.
Stjórnsýslumeðferð fyrir eina skráningu skilaskylds rekstraraðila vettvangs sem staðsettur er utan Evrópska efnahagssvæðisins.
27. gr.
Skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem fellur undir b-lið 4. tölul. 2. gr. skal láta skrá sig hjá lögbæru yfirvaldi í einu af ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þegar skilaskyldur rekstraraðili vettvangs hefur starfsemi sem slíkur.
28. gr.
Ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem fellur undir 27. gr. velur að láta skrá sig á Íslandi skulu eftirfarandi upplýsingar sendar til skattyfirvalda:
- Nafn.
- Heimilisfang.
- Netföng, þar á meðal vefsetur.
- Hvers konar skattkennitala sem gefin er út til skilaskylds rekstraraðila vettvangs, þar á meðal útgáfuland eða útgáfulönd.
- Yfirlýsing með upplýsingum um virðisaukaskattskráningu skilaskylds rekstraraðila vettvangs innan ríkis Evrópska efnahagssvæðisins.
- Þau ríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem seljendur sem gefa skal skýrslu um hafa staðfestu skv. 11. og 12. gr.
Ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem fellur undir 27. gr. velur að láta skrá sig á Íslandi skal hann tilkynna skattyfirvöldum um allar breytingar á upplýsingum sem veittar eru skv. 1. mgr. innan átta daga frá því að breytingin er gerð.
Við skráninguna úthluta skattyfirvöld skilaskylds rekstraraðila vettvangs einkvæmu auðkennisnúmeri. Skattyfirvöldum er heimilt að afhenda skráningarnúmerið til lögbærra yfirvalda í öllum hinum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
Skattyfirvöld geta afskráð skilaskyldan rekstraraðila vettvangs í eftirfarandi tilvikum:
- Rekstraraðili vettvangs tilkynnir skattyfirvöldum að hann stundi ekki lengur starfsemi sem rekstraraðili vettvangs.
- Ef skortur á tilkynningum skv. a-lið gefur ástæðu til að ætla að starfsemi rekstraraðila vettvangs hafi verið hætt.
- Rekstraraðili vettvangs uppfyllir ekki lengur skilyrðin sem um getur í b-lið 4. tölul. 2. gr.
- Skattyfirvöld hafa afturkallað skráninguna hjá lögbæru yfirvaldi sínu skv. 1. mgr. 30. gr.
Skattyfirvöldum er heimilt að afhenda upplýsingar um skráningu skv. 1. mgr. og afskráningu skv. 4. mgr. til lögbærra yfirvalda í öllum hinum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
29. gr.
Ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu eins fljótt og verða má tilkynna bærum stjórnvöldum í öðrum ríkjum eða eftir atvikum framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um hvern þann rekstraraðila sem fellur undir b-lið 4. tölul. 2. gr. sem hefur starfsemi sem rekstraraðili vettvangs en skráir sig ekki skv. 27. og 28. gr.
30. gr.
Ef skilaskyldur rekstraraðili vettvangs sem er skráður hjá skattyfirvöldum skv. 1. mgr. 28. gr. uppfyllir ekki tilkynningarskyldu sína skv. 19. gr. afturkalla skattyfirvöld skráningu skilaskylds rekstraraðila vettvangs eftir tvær áminningar. Skráningin er afturkölluð eigi síðar en 90 dögum og í fyrsta lagi 30 dögum eftir síðari áminninguna.
Ef skráning skilaskylds rekstraraðila vettvangs hefur verið afturkölluð skv. 1. mgr. eða samsvarandi reglum í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og viðkomandi sækir um endurskráningu er heimilt að setja sem kröfu fyrir endurskráningu skilaskylds rekstraraðila vettvangs að viðkomandi staðfesti skriflega að hann muni uppfylla tilkynningarskyldu sína, þ.m.t. að standa skil á mögulegum útistandandi tilkynningum.
Tilkynning um undanþegna rekstraraðila vettvanga.
31. gr.
Ef rekstraraðili vettvangs hefur fært sönnur á það gagnvart skattyfirvöldum að hann sé undanþeginn rekstraraðili vettvangs skv. 3. tölul. 2. gr. tilkynna skattyfirvöld það lögbæru yfirvaldi í öllum öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Skattyfirvöld tilkynna einnig um mögulegar síðari breytingar.
VI. KAFLI
Viðurlög.
32. gr.
Ef tilkynning um skráningu skv. 26. gr. er ekki lögð fram á réttum tíma geta skattyfirvöld gefið fyrirmæli um tilkynningu um skráningu innan ákveðins frests og um greiðslu dagsekta sem skal greiða eftir að fresturinn er liðinn og þangað til farið er að fyrirmælunum. Einnig skal leggja á dagsektir ef tilkynningarskylda skv. 19. gr. er ekki uppfyllt innan þess tíma sem þar er kveðið á um eða eftir atvikum samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra um skil á gögnum.
VII. KAFLI
Refsiákvæði.
33. gr.
Skilaskyldur rekstraraðila vettvangs, sem af ásettu ráði eða af stórfelldu gáleysi framkvæmir ekki tímanlega áreiðanleikakannanirnar skv. 4.–14. gr., sleppir því að láta skrá sig tímanlega skv. 26. gr. eða sleppir því að uppfylla tímanlega tilkynningarskyldu sína skv. 17.–19. gr., 21. og 22. gr. eða 1. mgr. 23. gr. eða veitir rangar, villandi eða ófullkomnar upplýsingar skal refsað með sekt nema strangari refsingar liggi við brotinu skv. 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Leggja skal sekt skv. 11. gr. á rekstraraðila vettvangs, sem fellur undir b-lið 4. tölul. 2. gr. og hefur milligöngu um viðeigandi starfsemi fyrir seljendur sem gefa skal skýrslu um, sem telst hafa staðfestu á Íslandi eða hefur milligöngu um viðeigandi starfsemi sem varðar útleigu fasteignar sem er staðsett á Íslandi hafi hann ekki látið skrá sig tímanlega skv. 27. gr.
Seljandi sem af ásettu ráði eða af stórfelldu gáleysi veitir skilaskyldum rekstraraðila vettvangs rangar, villandi eða ófullkomnar upplýsingar í tengslum við söfnun rekstraraðilans á upplýsingum skv. 5., 6., 10. og 13. gr. skal refsað með sekt nema strangari refsingar liggi við brotinu samkvæmt lögum.
34. gr.
Reglurnar í 109. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, taka jafnt til brota á reglugerðinni.
VIII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
35. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. og 9. mgr. 92. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Reglugerðin byggist á fyrirmynd Efnahags- og framfarastofnunarinnar um skýrsluskil rafrænna vettvanga hvað varðar seljendur innan deilihagkerfisins, að teknu tilliti til aðlögunar að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 2025 og gildir um skýrslugjöf fyrir almanaksárið 2025 og síðari almanaksár.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 23. desember 2024.
F. h. fjármála- og efnahagsráðherra,
Ingibjörg Helga Helgadóttir.
Vilmar Freyr Sævarsson.
|