Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1116/2021

Nr. 1116/2021 1. október 2021

REGLUR
um breytingu á reglum nr. 198/1983, um réttindi til að stjórna vinnuvélum, með síðari breytingum.

1. gr.

Við 3. gr. reglnanna bætist nýr stafliður, D-liður, svohljóðandi:

 

D. Brúkrananámskeið.

Brúkranar og hlaupakettir með 5 tonna lyftigetu eða meira.

Náms- og þjálfunarkröfur.

Námskeið sem viðurkennt er af Vinnueftirliti ríkisins skv. námskrá er verkefnisráð vinnuvéla­námskeiða setur.

Að loknu prófi og þjálfun, sbr. 6. gr., öðlast þátttakendur rétt til að gangast undir verklegt próf, sbr. 7. gr., sem veitir rétt til að stjórna brúkrönum og hlaupaköttum í C-flokki.

 

2. gr.

4. mgr. 8. gr. reglnanna orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skulu þeir, sem hafa réttindi til að stjórna krana í flokkum A, B, C, D eða P, leggja fram vottorð læknis á 10 ára fresti um að heilsa þeirra uppfylli öryggiskröfur, sbr. ákvæði 7. gr.

 

3. gr.

Við reglurnar bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir D-lið 3. gr. öðlast sá, sem frá 1. janúar 2007 hefur tekið verklegt próf hjá Vinnu­eftirliti ríkisins og fengið staðfestingu stofnunarinnar um hæfni til að stjórna brúkrönum og hlaupa­köttum, gild réttindi til að stjórna brúkrönum og hlaupaköttum í C-flokki án frekari námskeiðs­þátttöku eða próftöku út þann gildistíma sem fram kemur í vinnuvélaskírteini viðkomandi.

Þrátt fyrir D-lið 3. gr. öðlast sá, sem við gildistöku ákvæðis þessa hefur lokið prófi á viður­kenndum námskeiðum sem haldin hafa verið um meðferð og stjórnun brúkrana og hlaupakatta, en hefur eigi lokið verklegri þjálfun eða verklegu prófi, rétt á að sækja verklega þjálfun og gangast undir verklegt próf samkvæmt reglum þessum án frekari setu námskeiða, innan þriggja ára frá gildis­töku ákvæðisins. Standist viðkomandi verklegt próf öðlast hann rétt til að stjórna brúkrönum og hlaupa­köttum í C-flokki. Vinnueftirlit ríkisins gefur þá út vinnuvélaskírteini samkvæmt reglum þessum, enda séu önnur skilyrði reglnanna uppfyllt.

 

4. gr.

C-flokkur viðauka I við reglurnar orðast svo:

C Brúkranar og hlaupakettir með 5 t lyftigetu eða meira.

 

5. gr.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 38. gr., 40. gr., 3. mgr. 49. gr. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, öðlast þegar gildi.

 

Félagsmálaráðuneytinu, 1. október 2021.

 

F. h. r.

Gissur Pétursson.

Bjarnheiður Gautadóttir.


B deild - Útgáfud.: 4. október 2021