Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1374/2023

Nr. 1374/2023 1. desember 2023

AUGLÝSING
frá ríkisskattstjóra um skil á skattframtölum og skilamáta skattframtala vegna álagningar opinberra gjalda á árinu 2024 á tekjur ársins 2023 og upplýsinga um eignir og skuldir í lok þess árs.

Skilafrestir.

1. gr.

Framtölum einstaklinga skal skila rafrænt á vefsíðunni skattur.is til Skattsins eigi síðar en 14. mars 2024. Hið sama á við um skil á framtölum vegna þeirra einstaklinga sem látist hafa á árinu 2023.

 

2. gr.

Framtalsskyldir lögaðilar skulu skila framtali rafrænt á vefsíðunni skattur.is. Stærri lögaðilar skulu skila eigi síðar en 31. maí 2024, og sama á við um minni lögaðila, sem ekki eru skráðir á skilalista fagaðila sem annast mun skil á skattframtali. Skattframtölum fyrir dánarbú, þar sem skiptum hafði ekki verið formlega lokið í árslok 2022, skal skila til Skattsins eigi síðar en 31. maí 2024.

Fagaðilum sem annast framtalsskil fyrir minni lögaðila samkvæmt skráningu viðskiptamanna á skilalista á vef Skattsins er heimilt á árinu 2024 að skila skattframtölum umbjóðenda sinna allt til 30. september á því ári, enda sé skattframtölum skilað jöfnum höndum, sbr. 5. gr. Með minni lögaðilum er átt við lögaðila sem eru með veltu undir 600 milljónum kr. og eignir undir 300 milljónum kr. Til stærri lögaðila teljast því eðli máls samkvæmt þeir sem eru yfir framangreindum mörkum. Gera skal grein fyrir rekstri sameignar-, samlags- og samlagshlutafélaga, sem eru ósjálf­stæðir skattaðilar, með framtölum eigenda.

Skráningu á viðskiptamönnum fagaðila á skilalista skal lokið á vef Skattsins fyrir 1. apríl 2024.

 

3. gr.

Þeir lögaðilar, sem fengið hafa heimild til að hafa annað reikningsár til skattskila en almanaks­árið, skulu skila framtali rafrænt á vefsíðunni skattur.is eigi síðar en 5 mánuðum eftir lok reiknings­árs.

 

4. gr.

Þeir framteljendur sem af óviðráðanlegum ástæðum geta ekki skilað framtali sínu innan ofan­greindra fresta, svo sem vegna veikinda eða tilfallandi dvalar erlendis, skulu skila framtali sínu svo fljótt sem auðið er, rafrænt á vefsíðunni skattur.is, og gera grein fyrir ástæðum síðbúinna skila með athugasemd á skattframtalinu.

 

5. gr.

Skil endurskoðenda, lögmanna, viðurkenndra bókara eða fyrirtækja fagaðila, sem í atvinnuskyni annast bókhald og framtalsskil fyrir viðskiptavini sína, sæta sérstökum skilmálum, sem birtir eru fagaðilum árlega. Skilmálar þessir um skil umfram almenna fresti ráðast m.a. af fyrri efndum og taka þannig einungis til þeirra aðila sem stóðu við jöfn og reglubundin skil skattframtala fyrir lok skila­frests á fyrra ári. Með jöfnum skilum er átt við jöfn skil frá upphafsdegi skila til lokadags, þ.e. 1. febrúar til 30. september 2024. Áréttað skal að hámark skila í júlí og ágúst skal aldrei fara fram úr 20% hvorn mánuð fyrir sig. Þá mega skil í september ekki fara fram úr 20%. Veruleg frávik frá settum skilmálum leiða til þess að viðkomandi fagaðili - óháð breytingu á því rekstrarformi sem starfað er undir - fær ekki framlengdan frest til skila ári síðar. Fagaðili, sem brotið hefur skilmála við skil á fyrra ári, er því bundinn af því að skila skattframtölum viðskiptavina sinna í almennum skila­fresti á næstkomandi álagningarári, ella munu þau framtöl teljast of seint framkomin og sæta því eftir atvikum kærumeðferð skv. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

 

Form og skilamáti framtala.

6. gr.

Einstaklingar skulu gera grein fyrir tekjum sínum á árinu 2023 og eignum í lok þess árs með eftir­farandi hætti á skattframtali 2024:

  a) Á rafrænu skattframtali 2024 (RSK 1.01) á þjónustusíðu á vefsíðunni skattur.is.
  b) Með dulrituðu og undirrituðu skeyti úr framtalsforritum 2024, sem vottuð hafa verið af Skattinum.
  c) Á skattframtali 2024 (erlendir starfsmenn) RSK 1.10 (enska) eða RSK 1.13.

Rafrænu skattframtali einstaklings í atvinnurekstri skal fylgja ársreikningur auk tilskilinna raf­rænna fylgiskjala, sbr. 7. gr.

 

7. gr.

Einstaklingar, sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi á árinu 2023, skulu með skattframtali sínu 2024 gera grein fyrir tekjum sínum og eignum tengdum rekstri á neðangreindum formum er fylgja skulu skattframtali 2024:

  a) Séu tekjur (velta) undir kr. 2.000.000 og eignir í rekstri engar eða óverulegar og fram­teljandi var jafnframt ekki með virðisaukaskattsnúmer á árinu 2023 skal skila rekstrar­yfirlitinu RSK 4.10.
  b) Sé velta á bilinu kr. 2.000.000 til kr. 30.000.000 skal skila rekstrarskýrslu RSK 4.11 ásamt viðeigandi fylgiskjölum, enda sé ekki um að ræða samrekstur, fráviksaðferðir í reiknings­haldi eða byggingarstarfsemi, þar sem beitt er verklokaaðferð. Réttilega útfyllt rekstraryfirlit RSK 4.11, sem uppfyllir jafnframt öll skilyrði III. kafla laga um bókhald, telst fullnægjandi ársreikningur í þessu tilliti. Sé eðli starfseminnar hins vegar þannig að sundurliðun á tekjum, gjöldum, eignum og skuldum samkvæmt RSK 4.11 gefi ekki skýra mynd af henni, s.s. sundur­liðun helstu tekna- og kostnaðarliða, skal sérstakur ársreikningur fylgja framtali ásamt RSK 4.11.
  c) Sé velta yfir kr. 30.000.000 eða um er að ræða samrekstur, fráviksaðferðir í reikningshaldi eða byggingastarfsemi, þar sem beitt er verklokaaðferð, skal skila rekstrar­framtali RSK 1.04 ásamt ársreikningi og viðeigandi rafrænum fylgiskjölum.
  d) Ef einstaklingur á eignarhlut eða er ráðandi aðili í félagi (CFC) í lágskattaríki, skal gera grein fyrir slíkum eignarhlut og tekjum af honum á sérstakri skýrslu, RSK 4.25, í framtals­skilunum.
  e) Ef maður gerir út skip eða bát, sem stundar fiskveiðar, skal gera grein fyrir aflaverðmæti og aflamagni pr. fisktegund og heildarkostnaði við útgerð viðkomandi skips eða báts á sérstöku yfirliti, RSK 4.29, í framtalsskilunum.

 

8. gr.

Vegna búrekstrar skulu neðangreindar skýrslur fylgja rafrænu skattframtali einstaklings eða lögaðila:

  a) Skattframtali einstaklings skal fylgja landbúnaðarskýrsla RSK 4.08, í stað RSK 1.04 eða RSK 4.11.
  b) Skattframtali lögaðila RSK 1.04, sbr. 9. gr., skal fylgja yfirlit vegna landbúnaðar RSK 4.07.

 

9. gr.

Lögaðilar skulu gera grein fyrir tekjum sínum á árinu 2023 og eignum í lok þess árs með eftir­farandi hætti:

  a) Á rafrænu skattframtali 2024 (RSK 1.04) á þjónustusíðu á vefsíðunni skattur.is.
  b) Með dulrituðu og undirrituðu skeyti úr framtalsforritum 2024, sem vottuð hafa verið af Skattinum.
  c) Lögaðilar, sem telja sig undanþegna skattskyldu skv. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eiga þrátt fyrir það að skila skattframtali 2024 í samræmi við ofanritað.
  d) Lögaðilar, sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. tekjuskattslaga, þó að frátöldum aðilum skv. 4. tölul. 4. gr., sbr. c-lið, eiga ekki að skila skattframtali lögaðila RSK 1.04 vegna tekjuskatts, en beri þeim að standa skil á öðrum sköttum og gjöldum við álagningu 2024, þá skal það gert í rafrænum skilum á framtalsforminu RSK 1.06.
  e) Þeir lögaðilar sem eiga í viðskiptum við tengda aðila (e. transfer pricing) og falla undir ákvæði um skjölunarskyldu skv. 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, skulu staðfesta skjölunar­skylduna og skila með framtalinu forminu RSK 4.28.
  f) Ef framteljandi á eignarhlut eða er ráðandi aðili í félagi (CFC) í lágskattaríki, skal gera grein fyrir slíkum eignarhlut og tekjum af honum á sérstakri skýrslu, RSK 4.25, í framtals­skilunum.
  g) Ef framteljandi gerir út skip eða bát, sem stundar fiskveiðar, skal gera grein fyrir afla­verðmæti og aflamagni pr. fisktegund og heildarkostnaði við útgerð viðkomandi skips eða báts á sérstöku yfirliti, RSK 4.29, í framtalsskilunum.

Ársreikningi, þ.m.t. skýringum og sundurliðunum, og öðrum tilskildum fylgiskjölum lögaðila skal skilað á sama tíma og skattframtali og með sama hætti og því er skilað, þ.e. rafrænum. Skylda til að skila ársreikningi með skattframtali tekur þó ekki til þeirra örfélaga, sem nýta sér heimild til að skila efnahags- og rekstraryfirliti til ársreikningaskrár skv. 1. gr. reglugerðar nr. 974/2016, um framsetningu og innhald ársreikninga örfélaga byggt á skattframtölum („Hnappurinn“).

 

10. gr.

Auglýsing þessi er birt skv. 90. og 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tekur þegar gildi.

 

Reykjavík, 1. desember 2023.

 

Snorri Olsen ríkisskattstjóri.


B deild - Útgáfud.: 15. desember 2023