Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1212/2013

Nr. 1212/2013 20. desember 2013
SAMÞYKKT
um búfjárhald í Bolungarvíkurkaupstað.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Markmið þessarar samþykktar er að tryggja sem best skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Bolungarvíkurkaupstað, koma í veg fyrir ágang búfjár á lóðir bæjarbúa og gæta þess að hús fyrir búpening og önnur aðstaða sé þrifaleg og í samræmi við vilja bæjarstjórnar og gildandi lög hverju sinni.

2. gr.

Umsjón.

Umsjón með málefnum varðandi búfjárhald, í umboði bæjarstjórnar, er í höndum umhverfismálaráðs Bolungarvíkurkaupstaðar og eftirlitsmanns með búfjárhaldi, að svo miklu leyti sem hún er ekki öðrum falin að lögum.

3. gr.

Takmörkun á búfjárhaldi og skilyrði.

Búfjárhald, svo sem alifugla, geita, hrossa, kanína, loðdýra, nautgripa, sauðfjár og svína, er óheimilt öðrum en ábúendum lögbýla í Bolungarvíkurkaupstað, nema með leyfi bæjar­stjórnar að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

 

a)

Að umráðamaður búfjár hafi fullnægjandi aðstöðu til þess að halda búfé, bæði hvað varðar húsakost, beitarland og fóður. Eftirlitsmaður með búfjárhaldi skal fylgjast með því að reglur þessar séu haldnar.

 

b)

Að aðbúnaður búfjár og meðferð þess sé jafnan í fyllsta samræmi við ákvæði laga og reglugerða um búfjárhald og dýravernd. Þá er umráðamanni búfjár skylt að hlíta hvers konar fyrirmælum um hreinlæti og heilbrigðishætti.

 

c)

Að búfé sé ávallt í öruggri vörslu umráðamanns þess, sbr. 7. gr.

4. gr.

Búfjárhald á lögbýlum.

Í Bolungarvíkurkaupstað er búfjárhald heimilt ábúendum lögbýla. Skilyrði til búfjárhalds samkvæmt 3. gr. skulu þó vera uppfyllt til að búfjárhald teljist leyfilegt. Ábúendur lögbýla skulu tilkynna bæjarstjórn um búfjárhaldið þegar það hefst og þegar því lýkur.

5. gr.

Leyfisveiting og gjaldtaka.

Sá sem hefur í hyggju að halda búfé samkvæmt 3. gr. skal sækja um leyfi á þar til gerðum eyðublöðum til bæjarstjórnar, sem tekur afstöðu til umsókna að fenginni tillögu umhverfismálaráðs. Telji bæjarstjórn skilyrði 3. gr. fullnægt, skal hún veita leyfi til búfjárhalds. Leyfi til búfjárhalds skuldbindur ekki bæjarfélagið til að sjá leyfishöfum fyrir beitilandi eða annarri aðstöðu til búfjárhalds.

6. gr.

Leyfi til búfjárhalds.

Leyfi til búfjárhalds skal gefið út á nafn og kennitölu umsækjanda til þriggja ára í senn og er ekki framseljanlegt. Í leyfisbréfi skal koma fram til hvaða tegundar búfjár leyfið nær og hámarksfjöldi búfjár.

Óski umráðamaður búfjár eftir að halda annan búfénað en þann sem um getur í leyfis­bréfi, eða ef óskað er eftir yfirtöku búfjárhalds sem leyfi hefur verið veitt fyrir, skal sótt um nýtt leyfi.

7. gr.

Lausaganga búfjár og handsömun.

Lausaganga búfjár er óheimil innan bæjargirðingar samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti.

Bolungarvíkurkaupstaður skuldbindur sig í samvinnu við landeigendur til að tryggja sem best að girðingar um þéttbýlissvæðin séu fjárheldar samkvæmt reglugerð nr. 748/2002, um girðingar.

Búfé sem gengur laust, skal handsama og koma í vörslu eftirlitsmanns með búfjárhaldi. Eiganda skal tilkynnt um gripi sína með sannanlegum hætti og gert að sækja þá og greiða áfallinn kostnað, svo sem vegna tjóns og kostnað við handsömun. Hafa skal hlið­sjón af ákvæðum í 7. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breyt­ingum.

8. gr.

Viðurlög við brotum.

Um viðurlög við brotum á samþykkt þessari fer samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum. Alvarleg eða endurtekin brot gegn samþykkt þessari geta varðað sviptingu leyfis til búfjárhalds í sveitarfélaginu hvort sem um er að ræða leyfisskylt búfjárhald samkvæmt 3. gr. eða búfjárhald á lögbýli samkvæmt 4. gr.

9. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi, sem bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar hefur samið og samþykkt, staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem við gildistöku þessarar samþykktar hafa í umsjá sinni búfé sem fellur undir ákvæði hennar skulu innan sex mánaða frá gildistöku samþykktarinnar tilkynna búfjár­hald sitt og sækja um leyfi fyrir því.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 20. desember 2013.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kristinn Hugason.

Sigríður Norðmann.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 30. desember 2013