Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 705/2020

Nr. 705/2020 13. júlí 2020

REGLUR
Hafnarfjarðarkaupstaðar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Grundvöllur notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Reglur Hafnarfjarðar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk grundvallast á 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, og reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð, nr. 1250/2018.

Við framkvæmd reglna þessara skulu ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þ.m.t. ákvæði er lúta að viðeigandi aðlögun, höfð að leiðarljósi.

Innleiðing notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar skal eiga sér stað á tímabilinu 2019 til 2022. Fjöldi samninga sem gerðir verða á innleiðingartímabilinu miðast við það fjárframlag sem ríkissjóður hefur ákveðið að ráðstafa í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hlutfall af fjárhæð samninga sem sveitarfélögin gera, sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Í ljósi þess verða þeir í forgangi fyrir þjónustuna sem hafa einstaklingsbundnar þarfir sem ekki hefur verið hægt að koma til móts við á annan hátt og fyrir liggur faglegt mat á því að notendastýrð persónuleg aðstoð sé hentugt form til að mæta þjónustuþörfum þeirra.

 

2. gr.

Inntak notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Notendastýrð persónuleg aðstoð byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf og er markmiðið að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks svo að það megi lifa sjálfstæðu og virku lífi og hafi val um hvernig aðstoðinni við það er háttað.

Notendastýrð persónuleg aðstoð er skipulögð á forsendum notandans og er ætíð undir verk­stýringu og verkstjórn hans og eftir atvikum með stuðningi aðstoðarverkstjórnanda. Notendastýrð persónuleg aðstoð felur í sér mánaðarlegar greiðslur til umsýsluaðila og er þeim ætlað að greiða launa­kostnað aðstoðarfólks, starfsmannakostnað og umsýslukostnað.

 

II. KAFLI

Skilyrði fyrir notendastýrðri persónulegri aðstoð.

3. gr.

Skilyrði fyrir því að umsókn um notendastýrða persónulega aðstoð verði samþykkt.

Til þess að notandi eigi rétt á þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar verða öll eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt:

 1. Umsækjandi hafi náð 18 ára aldri. Forsjáraðili fatlaðs barns getur sótt um þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir barn sitt, uppfylli það skilyrði 2. og 3. tl. 1. mgr. 3. gr. reglna þessara skv. faglegu mati sérfræðinga.
 2. Umsækjandi  teljist fatlaður í skilningi laga um þjónustu við fatlað fólk með lang­varandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.
 3. Umsækjandi þurfi daglega aðstoð sem nemur meira en15 klukkustundum á viku.
 4. Umsækjandi  búi í sjálfstæðri búsetu. Þeir sem búa í sértæku húsnæðisúrræði, þ.e. íbúðarhúsnæði sem gert hefur verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir tiltekinn hóp fatlaðs fólks, geta átt rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð sé stefnt að flutningi í sjálfstæða búsetu. Búseta einstaklings í foreldrahúsum fellur undir sjálfstæða búsetu. Einstaklingar sem búa á hjúkrunar­heimili eða stofnun og þar sem greidd eru daggjöld frá ríkinu eiga ekki rétt á þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Til þess að þjónusta í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar geti hafist skal umsækjandi eiga lögheimili í Hafnarfirði. Notandi skal eiga lögheimili í Hafnarfirði á meðan þjónusta er veitt í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Samþykktar umsóknir um þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar raðast eftir forgangsröð hverju sinni. Fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðar ber að upplýsa notanda um þá þjónustu sem honum stendur til boða á meðan beðið er eftir þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

 

4. gr.

Afgreiðsla umsóknar.

Ákvörðun um veitingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar er tekin á fundi stuðnings- og stoðþjónustuteymis í samráði við sviðsstjóra og með hliðsjón af gildandi fjárhagsáætlun.

Við afgreiðslu umsóknar skal liggja fyrir faglegt mat starfsmanna fjölskyldu- og barnamálasviðs í samráði við notanda á því að notendastýrð persónuleg aðstoð sé hentugt fyrirkomulag til að mæta þjónustuþörfum umsækjanda sem hefur mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, s.s. við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi. Horft skal sérstaklega til þeirra umsækjenda sem hafa einstaklingsbundnar þarfir sem ekki hefur verið hægt að koma til móts við á annan hátt með þjónustu af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Verði umsækjanda ekki veitt þjónusta í formi notendastýrðrar persónulegar aðstoðar af hálfu stuðnings- og stoðþjónustuteymis mun umsókn hans halda gildi sínu og verður umsækjanda leiðbeint um önnur þau úrræði sem honum kunna að standa til boða.

Fjármagn sem til ráðstöfunar er byggir á samþykktri fjárveitingu frá ríkissjóði, sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.

 

5. gr.

Verkstjórnarhlutverk.

Notandi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar skal vera í verkstjórnarhlutverki í lífi sínu, geta ákveðið hvað hann vill gera á degi hverjum og hvernig hann vill að aðstoðarfólk nýtist. Þurfi notandi aðstoð við að koma þörfum sínum á framfæri skal skilgreint í einstaklingssamningi um notendastýrða persónulega aðstoð með hvaða hætti verkstjórnarhlutverk hans er tryggt, s.s. með aðstoð túlks, aðstoðarverkstjórnanda eða persónulegs talsmanns ef við á og/eða forsjáraðila ef um börn er að ræða.

 

6. gr.

Þjónustuþættir notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Eftirtalin þjónusta verður hluti af notendastýrðri persónulegri aðstoð og fellur þá þjónusta af hálfu fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar niður við gildistöku samnings:

 1. Stuðningsþjónusta, sbr. VII. kafli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.
 2. Stoðþjónusta, sbr. 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Þá geta aðrir töluliðir 1. mgr. 8. gr. framangreindra laga einnig átt við.
 3. Þjónusta stuðningsfjölskyldna, sbr. 15. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.
 4. Skammtímadvöl, sbr. 17. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðnings­þarfir, nr. 38/2018.

Að jafnaði fellur eftirtalin þjónusta ekki niður við ákvörðun um þjónustu í formi notenda­stýrðrar persónulegrar aðstoðar og fellur því samsvarandi fjöldi tíma niður samkvæmt samkomulagi um vinnustundir. Umsækjandi getur óskað eftir því að eftirfarandi þjónusta falli niður og skal taka mið af því í samkomulagi um vinnustundir.

 1. Vernduð vinna, hæfing og dagþjónusta, sbr. 24. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.

Heimahjúkrun er ekki hluti af samkomulagi um vinnustundir. Það sama gildir um aksturs­þjónustu, sbr. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

 

III. KAFLI

Umsóknir og mat.

7. gr.

Umsóknir og fylgigögn.

Umsókn um þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar skal vera skrifleg. Umsókn skal vera á sérstöku eyðublaði sem hægt er að nálgast á heimasíðu Hafnarfjarðarkaupstaðar, www.hafnarfjordur.is og í þjónustuveri Hafnarfjarðar, Strandgötu 6.

Með umsókn skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir, eftir því sem við á:

 1. Örorkumat eða umönnunarmat.
 2. Staðfesting á fötlun, s.s. með læknisvottorði.

 

8. gr.

Heildstætt mat á stuðningsþörf.

Fjölskyldu- og barnamálasvið skal í samráði við umsækjanda eða persónulegan talsmann, þegar við á, vinna heildstætt mat á stuðningsþörf með hliðsjón af þjónustuþörf umsækjanda og þeirri þjónustu sem þegar er veitt. Samráð skal haft við umsækjanda og persónulegan talsmann ef hann kýs að hafa viðkomandi aðila með sér í matsferlinu. Við matið er tekið mið af óskum og þörfum umsækjanda og mati fjölskyldu- og barnamálasviðs á þörf umsækjanda fyrir þjónustu. Matið skal sýna þörf umsækjanda fyrir stuðning þar sem fram kemur sá tímafjöldi þjónustu sem umsækjandi þarf að jafnaði á mánuði. Skal þörf fyrir þjónustu vera að lágmarki 60 tímar á mánuði en að hámarki sólarhringur eða 732 tímar á mánuði.

Í mati á stuðningsþörf skal meta hvort umsækjandi hafi þörf fyrir þjónustu sem er á ábyrgð ríkisins, s.s. aðstoð í framhaldsskóla, háskóla eða á vinnustað. Heimilt er að semja við hlutaðeigandi stofnanir um aðkomu þeirra að áætlun um stuðning með fjárframlagi eða veittri þjónustu.

 

IV. KAFLI

Framkvæmd.

9. gr.

Samkomulag um vinnustundir.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að veita umsækjanda þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar skulu umsækjandi og fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar gera með sér samkomulag sem kveður m.a. á um fjölda vinnustunda sem aðstoðarfólk skal vinna fyrir umsækjanda. Samkomulagið er undirritað af umsækjanda og fjölskyldu- og barnamálasviði.

 

10. gr.

Fjárhæðir og meðferð fjármagns.

Framlagið tekur mið af kjörum aðstoðarfólks samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni. Fjárhæðir eru greiddar fyrir hverja vinnustund. Fyrir samninga sem fela í sér 600 klukkustundir eða fleiri á mánuði er greitt samkvæmt dag-, kvöld- og helgartaxta. Fyrir samninga sem fela í sér 599 klukkustundir eða færri á mánuði er greitt samkvæmt jafnaðartaxta. Upphæð jafnaðartaxta fyrir 2020 er 4.289 kr. sem hækkar samkvæmt launavísitölu 1. janúar ár hvert.

Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar greiðir umsamda fjárhæð samkvæmt samkomulagi um vinnustundir til umsýsluaðila. Notandi getur valið að semja við þann umsýsluaðila sem hann kýs eða sjá sjálfur um umsýsluna enda hafi umsýsluaðili, lögaðili eða notandi sjálfur, starfsleyfi til að annast umsýslu og hafi gert samstarfssamning við fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar.

Umsýsluaðili/notandi skal að jafnaði nýta hverja mánaðargreiðslu í þeim mánuði sem hún er greidd. Umsýsluaðila/notanda er heimilt að færa til greiðslur vegna vinnustunda milli mánaða innan almanaksársins til þess að mæta breytilegum stuðningsþörfum. Ef uppsafnaðar greiðslur vegna vinnu­stunda nema allt að einni mánaðargreiðslu samkvæmt samningi skal umsýsluaðili/notandi upplýsa fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar og veita viðhlítandi skýringar. Ef fullnægjandi skýringar verða ekki veittar af hálfu umsýsluaðila/notanda er fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnar­fjarðar heimilt að endurkrefja umsýsluaðila/notanda um fjárhæðina.

Umsýsluaðili/notandi ber ábyrgð á að ráðstafa fjármagninu í samræmi við heildstætt mat á stuðnings­þörf, sbr. 8. gr. reglna þessara.

Einu sinni á ári skal ársuppgjör unnið miðað við 31. desember og skal því skilað til fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar eigi síðar en 15. febrúar ár hvert. Því fjármagni, sem ekki hefur verið notað á tímabilinu, skal í lok árs skilað í heild sinni til fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar. Ljúki samningi aðila fyrr skal ársuppgjöri skilað 20 dögum eftir að síðustu launagreiðslur til aðstoðarfólks hafa verið inntar af hendi samkvæmt samningi aðila sem er að ljúka.

Umsýsluaðila/notanda ber að upplýsa fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar ef upp koma erfiðleikar við umsjón greiðslnanna.

Notanda ber að upplýsa fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar ef hann fær vitneskju um að umsýsluaðili hafi ekki staðið skil á greiðslum til aðstoðarfólks.

Fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðar er heimilt að stöðva greiðslur tímabundið þegar notandi er ekki fær um að nýta þá þjónustu sem fjármagnið er ætlað til. Í þeim tilvikum þarf að taka tillit til skuldbindinga sem umsýsluaðili/notandi kann að hafa stofnað til í tengslum við þjónustuna.

Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar ber ekki ábyrgð á rekstrarniðurstöðu eða fjárhags­legu tapi umsýslu­aðila/notanda.

Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar getur skoðað bókhald umsýsluaðila/notanda og skal umsýsluaðili/notandi vera til aðstoðar við skoðunina, meðal annars með því að leggja fram allar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við skoðunina. Umsýsluaðili/notandi getur haft sinn eigin endurskoðanda viðstaddan við skoðunina.

 

11. gr.

Ráðning aðstoðarfólks.

Lögð er áhersla á sjálfræði einstaklinga og sjálfstæði þeirra og frelsi þeirra til eigin ákvarðana óháð fjölskyldu sinni. Ekki er gert ráð fyrir að aðstoðarfólk sé maki, sambýlismaður/sambýliskona eða náinn ættingi, sem heldur heimili með notanda.

 

12. gr.

Endurmat.

Stöðumat skal fara fram innan 16 vikna eftir að samningur tekur gildi þar sem kannað er hvernig notendastýrð persónuleg aðstoð nýtist og hvort markmið náist.

Endurmat á stuðningsþörf notanda og inntak samkomulags um vinnustundir þar að lútandi skal framkvæmt að minnsta kosti tvisvar á ári.

Ef um verulega breytingu á stuðningsþörf er að ræða skal endurskoða samkomulag um vinnu­stundir og einstaklingssamning um notendastýrða persónulega aðstoð.

 

13. gr.

Breytingar á aðstæðum notanda.

Notandi skal tilkynna fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðar tímanlega um þær breytingar á högum sínum sem varðað geta framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, þar á meðal um tímabundna dvöl annars staðar en á lögheimili, s.s. sjúkrahúslegu, sem og um lögheimilis­flutning.

Breytingar á aðstæðum notanda geta leitt til endurmats á stuðningsþörf hvort sem er vegna aukinnar eða minnkaðrar stuðningsþarfar.

 

 

V. KAFLI

Eftirlit og upplýsingaskylda.

14. gr.

Skyldur umsýsluaðila/notanda.

Umsýsluaðili/notandi skal skila fjölskyldu- og barnamálasviði mánaðarlega rekstraryfirliti þar sem fram kemur sundurliðun á ráðstöfun samningsfjárhæðar, heildaryfirliti yfir launakostnað og nýtingu vinnustunda og launatengd gjöld, kvittunum vegna starfsmannakostnaðar og reikningi fyrir umsamda mánaðarlega upphæð. Skil á gögnum skulu vera rafræn og send á netfangið [email protected], reikningar skulu sendir á netfangið [email protected]. Umsýslu­aðili/not­andi skal leggja fram og skila til opinberra aðila þeim upplýsingum sem þeir telja sig þurfa til að fullnægja skyldum sínum.

Umsýsluaðila/notanda er skylt að fenginni beiðni að veita fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnar­fjarðar upplýsingar um tímaskrár, vinnuáætlanir og ráðningarsamninga.

Umsýsluaðili/notandi ber vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsfólki sínu og skal sjá til þess að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna sem aðstoða hann, m.a. hvað varðar aðbúnað á vinnustað þeirra, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Sveitarfélag getur afturkallað ákvörðun um umsýslusamning verði misbrestur þar á og hafi ekki verið bætt úr þrátt fyrir ábendingar þar að lútandi.

Að öðru leyti fer um skyldur umsýsluaðila/notanda samkvæmt samstarfssamningi milli umsýsluaðila/notanda og fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar auk reglugerðar um notendastýrða persónulega aðstoð, nr. 1250/2018.

 

15. gr.

Skyldur fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar.

Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar fer með ábyrgð á eftirliti með einstaklings­samn­ingum um notendastýrða persónulega aðstoð.

Hafnarfjarðarkaupstaður skal tilkynna umsýsluaðila/notanda um atriði, t.d. lagabreytingar, reglu­gerðarbreytingar eða breytingar á skipulagi og innihaldi þjónustunnar sem almennt má ætla að skipt geti máli varðandi framkvæmd samnings aðila og taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru af þessum sökum svo unnt sé að efna samninginn.

Hafnarfjarðarkaupstað ber að stuðla að eins auðveldri tilfærslu til nýs umsýsluaðila og kostur er, óski notandi slíkrar tilfærslu.

Starfsfólk sviðsins skal veita upplýsingar varðandi ferli umsókna um notendastýrða persónulega aðstoð ásamt því að veita ráðgjöf og stuðning eftir því sem við á.

Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar mun á gildistíma reglnanna meta framgang og gæði þjónustunnar með hliðsjón af markmiðum og upplifun notenda.

 

VI. KAFLI

Vanefndir og uppsögn samnings.

16. gr.

Vanefndir.

Verði uppi ágreiningur milli fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar annars vegar og/eða umsýsluaðila/notanda hins vegar skal leitast við að jafna þann ágreining.

Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar getur krafist þess að umsýsluaðili/notandi bæti úr vanefndum á eigin kostnað. Vanefnd ber þó ávallt að tilkynna til gagnaðila með sannanlegum hætti og gefa honum kost á að bæta úr. Hæfilegur tímafrestur skal veittur fyrir úrbætur vegna vanefnda. Séu úrbætur ekki gerðar innan þess tíma sem tilgreindur er, getur Hafnarfjarðarkaupstaður krafist þess að umsýsluaðili/notandi greiði þann kostnað sem hlýst við að koma á nauðsynlegum úrbótum.

Hafi umsýsluaðili/notandi ekki notað það fjármagn sem ætlað er til þjónustu eða notað fjármagnið á annan hátt en kveðið er á um í samningi aðila getur Hafnarfjarðarkaupstaður endurkrafið umsýsluaðila/notanda um þá fjárhæð sem úthlutað hefur verið samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar skal þó sjá til þess að ekki verði rof á þjónustu til notanda.

 

17. gr.

Riftun.

Ef um verulegar vanefndir er að ræða geta aðilar rift einstaklingssamningi um notendastýrða persónulega aðstoð fyrirvaralaust og falla þá niður mánaðarlegar greiðslur Hafnarfjarðarkaupstaðar til umsýsluaðila vegna viðkomandi notanda. Fellur þá samkomulag um vinnustundir jafnframt úr gildi og eftir atvikum samstarfssamningur um umsýslu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar milli sveitarfélags og umsýsluaðila.

Trúnaðarbrestur í samstarfi og gjaldþrot eða greiðslustöðvun umsýsluaðila/notanda teljast ávallt til verulegra vanefnda af hálfu umsýsluaðila/notanda og réttmæt ástæða fyrirvaralausrar riftunar.

Í þeim tilvikum sem einstaklingssamningi um notendastýrða persónulega aðstoð er rift stöðvast greiðslur frá Hafnarfjarðarkaupstað þegar í stað.

Fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðar er heimilt að krefja umsýsluaðila/notanda um endurgreiðslu fjármagns sem honum hefur verið úthlutað eða hluta af því, sé sýnt fram á að eitthvert eftirtalinna tilvika eigi við:

 1. Fjármagnið að hluta til eða í heild hefur ekki verið nýtt til að koma til móts við skil­greindar þarfir notanda fyrir stuðning samkvæmt áætlun.
 2. Ákvæðum samningsins hefur ekki verið fylgt.

Í þeim tilvikum sem einstaklingssamningi um notendastýrða persónulega aðstoð er rift ber Hafnarfjarðarkaupstað að tryggja að lögbundin þjónusta við notanda hefjist tafarlaust og sjá til þess að lok samnings valdi notanda eins lítilli röskun og mögulegt er.

 

18. gr.

Uppsögn á samningi.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samningsaðila einstaklingssamnings um notendastýrða persónu­lega aðstoð og samkomulags um vinnustundir er þrír mánuðir. Uppsagnarfrestur hefst fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var sannanlega tilkynnt gagnaðila með formlegum hætti svo unnt sé að skipuleggja þjónustu við notanda frá fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðar, ef við á. Við andlát notanda ber Hafnarfjarðarkaupstað að greiða umsamda samningsfjárhæð í allt að þrjá mánuði.

Sé einstaklingssamningi um notendastýrða persónulega aðstoð sagt upp fellur samkomulag um vinnustundir jafnframt úr gildi og eftir atvikum samstarfssamningur um umsýslu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar milli sveitarfélags og umsýsluaðila.

 

VII. KAFLI

Málsmeðferð.

19. gr.

Könnun á aðstæðum.

Kanna skal aðstæður notanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn um þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar hefur borist. Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar skal taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.

 

20. gr.

Samvinna við umsækjanda.

Öflun gagna og upplýsinga er unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarðanatöku skal hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er en að öðrum kosti persónulegan talsmann, umboðsmann hans eða réttindagæslumann fatlaðs fólks, eftir því sem við á. Umboðsmaður eða persónulegur talsmaður skal framvísa skriflegu umboði.

 

21. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda/notanda eða annarra í starfi sínu er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi.

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það er í samræmi við lög og stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.

 

22. gr.

Leiðbeiningar til umsækjanda.

Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar bjóða umsækjanda ráðgjöf og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Þá skal starfsmaður einnig upplýsa umsækjanda/notanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

 

23. gr.

Rangar eða villandi upplýsingar.

Samningur um þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegar aðstoðar sem gerður er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hálfu notanda fellur þá þegar úr gildi og getur fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar endurkrafið notanda um þá fjárhæð sem úthlutað hefur verið samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar skal þó sjá til þess að ekki verði rof á þjónustu við notanda.

Ef sannreynt er við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi/notandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar á meðan umsækjanda/notanda er gefið tækifæri á að leiðrétta eða bæta úr annmörkum.

 

24. gr.

Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum.

Starfsfólk fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar tekur ákvarðanir samkvæmt reglum þessum í umboði  fjölskylduráðs Hafnarfjarðar.

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar hefur heimild til að veita undanþágu frá reglum þessum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir og umsækjandi/notandi fer fram á það með sérstakri beiðni til ráðsins innan fjögurra vikna frá því notanda barst vitneskja um ákvörðun. Slík undanþága nær þó einungis til niðurstöðu heildstæðs mats á stuðningsþörf, fjölda vinnustunda eða samningsfjárhæðar. Aðstoð í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar getur þó hafist á grundvelli ákvörðunar fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðar um fjölda vinnustunda þó að mál sé til meðferðar hjá fjölskylduráði Hafnarfjarðar.

 

25. gr.

Kynning á ákvörðun um veitingu þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Kynna skal niðurstöðu umsóknar um þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir notanda með skriflegum hætti svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal notandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, reglugerðar um notendastýrða persónulega aðstoð, nr. 1250/2018, og reglna Hafnarfjarðarbæjar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk.

 

26. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Umsækjandi/notandi getur skotið ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun fjölskyldu- og barnamála­sviðs Hafnarfjarðar var tilkynnt.

 

27. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með stoð í 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, og 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um notendastýrða persónulega aðstoð, nr. 1250/2018, og kveða þær á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita. Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Samþykkt af fjölskylduráði Hafnarfjarðar 5. júní og í bæjarstjórn 24. júní 2020.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Umsýsluaðili, eða notandi fari hann sjálfur með umsýslu, skulu afla sér starfsleyfis fyrir 1. ágúst 2020 vegna þeirra samninga sem eru í gildi vegna ársins 2020. Að öðrum kosti fellur gildandi samningur um þjónustu í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar niður frá þeim tíma.

 

Hafnarfjarðarkaupstað, 13. júlí 2020. 

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs.


B deild - Útgáfud.: 15. júlí 2020