Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Leiðréttingar:

Leiðrétt 4. október 2024:
HTML-texti: Rétt slóð í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 þar sem hún kemur fyrir í lögunum er: https://www.efta.int/eea-lex/32022r0858


Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 56/2024

Nr. 56/2024 11. júní 2024

LÖG
um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að koma á tilraunaumgjörð um útgáfu fjármálagerninga á grundvelli dreifðrar færsluskrártækni og sértækra leyfa til rekstrar innviða sem taka þá til viðskipta eða annast uppgjör slíkra viðskipta, án þess að slegið sé af kröfum um vernd fjárfesta, fjármála­stöðugleika og heilleika markaðarins.

 

2. gr.

Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 frá 30. maí 2022 um tilrauna­regluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni og um breytingu á reglu­gerðum (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og tilskipun 2014/65/ESB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 92 frá 20. desember 2023, bls. 160–192, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 185/2023 frá 5. júlí 2023, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambandsins nr. 26 frá 21. mars 2024, bls. 12–13, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við EES-samninginn, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.

    Þegar vísað er til laga þessara í lögunum er jafnframt átt við reglugerð ESB samkvæmt þessari grein.

 

3. gr.

Skýring hugtaka.

    Eftirfarandi hugtök í reglugerð (ESB) 2022/858 hafa svofellda merkingu:

  1. Aðilar sem tilgreindir eru í 3. mgr. 53. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Aðilar eða þátttakendur skv. 3. mgr. 94. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
  2. Fjármálagerningur samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Fjármálagerningur í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  3. Hlutdeildarskírteini í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem falla undir iv. lið a-liðar 4. mgr. 25. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Hlutdeildarskírteini skv. d-lið 1. tölul. 5. mgr. 45. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
  4. Kröfur tilskipunar 2014/65/ESB: Kröfur laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  5. Markaðstorg fjármálagerninga samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Markaðstorg fjármála­gerninga í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  6. Ráðstafanir til verndar gegn ógjaldfærni samkvæmt tilskipun 98/26/EB: Ráðstafanir til verndar gegn ógjaldfærni samkvæmt lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999.
  7. Rekstraraðili markaðar samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Rekstraraðili markaðar í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  8. Skipulegur markaður samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Skipulegur markaður í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  9. Starfsleyfi samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Starfsleyfi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
  10. Tilnefning og tilkynning í samræmi við tilskipun 98/26/EB: Viðurkenning og tilkynning samkvæmt lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.
  11. Tími sem tilgreindur er í 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Tímamörk skv. 2. mgr. 7. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
  12. Upplýsingar sem krafist er skv. 7. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Allar nauðsynlegar upp­lýsingar skv. 7. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
  13. Verðbréfafyrirtæki samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Verðbréfafyrirtæki í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga.

 

4. gr.

Eftirlit og upplýsingagjöf.

    Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald hér á landi í skilningi laga þessara og fer Fjármálaeftirlitið með þau verkefni sem því eru falin.

    Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og Eftirlitsstofnun EFTA annast eftirlit samkvæmt lögum þessum í samræmi við EES-samninginn, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

    Um eftirlitsheimildir og framkvæmd eftirlits með starfsemi á grundvelli laga þessara fer enn fremur, eftir því sem við á, samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga og lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

    Um álitsumleitan og upplýsingagjöf til Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar og, ef við á, annarra viðeigandi yfirvalda fer skv. 8.–11. gr. reglugerðar (ESB) 2022/858.

 

5. gr.

Veiting sértækra leyfa og undanþágna.

    Fjármálaeftirlitið veitir og afturkallar sértæk leyfi og undanþágur til að reka innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni á grundvelli laga þessara, sbr. einnig lög um markaði fyrir fjármálagerninga og lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignar­skráningu fjármálagerninga.

 

6. gr.

Úrbætur.

    Komi í ljós að ákvæðum laga þessara, eða stjórnvaldsfyrirmæla settra með stoð í þeim, sé ekki fylgt getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

 

7. gr.

Stjórnvaldsfyrirmæli.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um nánari framkvæmd eftirfarandi ákvæða reglugerðar (ESB) 2022/858:

  1. 6. mgr. 3. gr. um viðmiðunarmörk.
  2. C-liðar 1. mgr. 4. gr. og c-liðar 1. mgr. 5. gr. um mótvægisaðgerðir.
  3. 4. mgr. 8. gr., 4. mgr. 9. gr. og 4. mgr. 10. gr. um stöðluð eyðublöð, snið og sniðmát vegna umsókna.

 

 8. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 5. júlí 2024

 

9. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Lög um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021:
    1. Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
          Um fjármálagerninga sem eru gefnir út, skráðir, yfirfærðir og geymdir með dreifðri færsluskrártækni og rekstur markaðstorga fjármálagerninga og viðskipta- og uppgjörskerfa sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni gilda jafnframt lög um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.
    2. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012(MiFIR), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambandsins nr. 20 frá 26. mars 2020, bls. 1–65, með breytingum samkvæmt:
      1. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1033 um breytingu á reglu­gerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga, reglugerð (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik og reglugerð (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 20 frá 26. mars 2020, bls. 66–72,
      2. 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 um tilrauna­regluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færslu­skrár­tækni og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og tilskipun 2014/65/ESB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnar­tíðindi Evrópusambandsins nr. 92 frá 20. desember 2023, bls. 160–192.
    3. Á eftir orðinu „Fjármálagerningur“ í 17. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: þ.m.t. slíkir gerningar sem gefnir eru út með dreifðri færsluskrártækni.
  2. Lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020:
    1. Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um fjármálagerninga sem eru gefnir út, skráðir, yfirfærðir og geymdir með dreifðri færsluskrártækni og rekstur uppgjörskerfa og viðskipta- og uppgjörskerfa sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni gilda jafnframt lög um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.
    2. Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist: með breytingum skv. 17. gr. reglugerðar Evrópu­þingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 um tilraunaregluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og tilskipun 2014/65/ESB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 92 frá 20. desember 2023, bls. 160–192.
  3. Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998: 11. tölul. 1. mgr. 2. gr. lag­anna orðast svo: rekstraraðila DFT-markaðsinnviða samkvæmt lögum um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

 

Gjört í Reykjavík, 11. júní 2024.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 20. júní 2024