Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 716/2021

Nr. 716/2021 3. júní 2021

FJALLSKILASAMÞYKKT
Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

I. KAFLI

Um stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Sveitarfélagið Hornafjörður er eitt fjallskilaumdæmi, sbr. 3. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur á hendi yfirstjórn allra fjallskilamála innan sveitar­félagsins. Bæjarráð annast stjórn og yfirumsjón fjallskila í umboði bæjarstjórnar samkvæmt sam­þykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Hornafjarðar, nr. 591/2013, sbr. viðauka við samþykkt­ina.

Bæjarstjórn skipar fjallskilanefnd sem er bæjarráði til ráðgjafar og gerir tillögur um ákvarðanir um framkvæmd fjallskila hvert ár. Stjórn Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga tilnefnir aðila í fjall­skila­nefnd fyrir 1. maí sama ár og sveitarstjórnarkosningar eiga sér stað. Fjallskilanefnd skal skipuð 5 aðalmönnum þannig að einn aðili komi frá hverri fjallskiladeild, en þó tveir vegna Nesja og Lóns, einn úr hvorri sveit. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti fyrir hvern fulltrúa.

Hlutverk fjallskilanefndar er m.a. að gera tillögur um:

skipulag lögleita og rétta í sýslunni, göngur í afrétti/upprekstrarheimalönd og aðrar þær smalanir sem samþykkt þessi tekur til,
fjallskilaseðil fyrir hverja deild þar sem fram kemur hvernig einstök svæði skuli hreinsuð af fé að hausti og fjallskilum jafnað niður.

Þá skal fjallskilanefnd ákveða eftirleitir og hafa umsjón um hreinsun alls þess lands sem fjárvon er á að hausti. Fjallskilanefnd getur skotið hverju máli til bæjarráðs, svo sem ef ágreiningur kemur upp.

 

2. gr.

Fjallskiladeildir eru sem hér segir:

Fjallskiladeild Lóni.
Fjallskiladeild Nesja og það svæði sem áður var Hafnarhreppur.
Fjallskiladeild Mýra.
Fjallskiladeild Suðursveitar.
Fjallskiladeild Öræfa.

Umdæmi framangreindra fjallskiladeilda miðast við landfræðileg mörk eldri hreppa sem þær eru kenndar við.

 

3. gr.

Bæjarráð skal færa til bókar þær ákvarðanir sem nefndin tekur vegna fjallskila. Með sama hætti skulu fundir fjallskilanefndar færðir til bókar og fundargerðir fjallskilanefndar lagðar fyrir bæjarráð.

 

II. KAFLI

Um bókhald og fjallskilasjóði.

4. gr.

Til að standa straum af þeim kostnaði er af fjallskilum leiðir mun bæjarstjórn stofna sjóð sem fjallskilasjóður nefnist og skal hann þá endurskoðaður á sama hátt og sveitarsjóðsreikningur og fylgja honum. Fjallskilasjóður skal vera deildaskiptur í samræmi við fjallskiladeildir. Fjárreiðum deilda skal halda aðskildum.

Kostnað sem af fjallskilum leiðir og ekki hefur verið jafnað niður á búfjáreigendur sem dags­verkum skal greiða úr fjallskilasjóði.

Tekjur fjallskilasjóðs geta verið:

 1. Niðurjafnað gjald samkvæmt ákvörðun bæjarráðs á allt fjallskilaskylt búfé í fjallskila­deildinni samkvæmt afurðaskýrsluhaldi yfirlesið af Búnaðarsambandi Austur-Skaftfellinga.
 2. Andvirði óskilabúfjár.
 3. Framlag úr sveitarsjóði eftir ákvörðun sveitarstjórnar, sbr. 46. gr. laga nr. 6/1986 um afrétta­­málefni, fjallskil o.fl.
 4. Álagt gjald á landverð jarða að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, sbr. 42. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

 

III. KAFLI

Um fjallskil og leitarlönd.

5. gr.

Land sem fjallskilasamþykkt þessi nær til skiptist í heimalönd upprekstrarheimalönd og afrétti. Landeigandi sér sjálfur um smölun heimalanda á eigin kostnað. Séu vandkvæði á reglubundinni haustsmölun heimalanda er fjallskilastjórn heimilt að fella þau undir skipulagðar haustleitir.

Með upprekstrarheimalöndum er vísað til ógirtra eignarlanda jarða, þ.m.t. óskipt lönd fleiri jarða, sem við fjallskilaframkvæmd fer um eins og vegna afrétta, sbr. 12. gr. laga nr. 6/1986 og nánar er gerð grein fyrir í samþykkt þessari. Í sveitarfélaginu eru jafnframt þjóðlendur sem geta verið í afréttareign tiltekinna jarða.

Allar jarðir eiga heimalönd en til þeirra teljast girt eða ógirt landsvæði á láglendi næst húsum, ræktarland og önnur svæði innan girðinga. Bæjarráð getur ákveðið að ógirt eignarland jarða, þ.m.t. óskipt land jarða, eða þjóðlenda í afréttareign tiltekinna jarða, verði við fjallskilaframkvæmd skil­greind sem heimaland jarðar svo sem ef fyrirkomulag fjallskila hefur miðast við það án vand­kvæða. Við slíka ákvörðun getur verið tekið mið af óskum ábúenda eða landeigenda á viðkomandi svæði.

Bæjarráð skal láta vinna kort sem sýnir skiptingu lands innan fjallskiladeilda í annars vegar heimalönd og upprekstrarheimalönd, þ.e. lönd utan heimalanda, þar sem fjallskilum og kostnaði af þeim er jafnað út. Jafnframt skal gerð grein fyrir afréttum.

 

6. gr.

Bæjarráð getur ákveðið hvenær má reka til afréttar/upprekstrarheimalands. Frá 15. júní til 20. ágúst eru smalanir eða annað það er ónæði veldur búfénaði á upprekstrarheimalöndum/afréttum óheimilt nema með leyfi bæjarráðs. Óheimilt er að sleppa annarra bænda fé í heima­lönd/upprekstrar­­heimalönd nema með leyfi landeiganda.

 

7. gr.

Enginn má nota annað beitiland en það er hann á upprekstur í nema með leyfi bæjarráðs. Eig­endum jarðar er óheimilt að ráðstafa beitarafnotum til fjáreigenda sem búa í annarri fjallskila­deild án samþykkis bæjarráðs. Þess skal ávallt gætt að taka ekki meiri fénað í hagagöngu en umráða­­landið ber með góðu móti. Sá er tekur fénað í hagagöngu ber sömu ábyrgð á honum og væri hann hans eigin hvað varðar fjallskil, ágang og usla í annarra landi.

 

8. gr.

Nú er beitiland eða upprekstrarheimaland, sameiginlegt leitarsvæði með afrétti og ætlar eigandi að leigja það öðrum til sumarbeitar. Er hann þá skyldur að tilkynna það fyrir 10. júní ár hvert til bæjarráðs, og jafnframt skýra frá fyrir hve margt fé landið er ætlað og hverjir notendur séu. Þó er honum óheimilt að taka annað fé eða fleiri fénað í landið en samþykki er veitt fyrir.

 

IV. KAFLI

Um fjallskil.

9. gr.

Skylt er að gera fjallskil af öllu sauðfé hvort sem það gengur í heimalandi eða í öðrum sumar­högum. Heimilt er sveitarstjórn að leggja á fjallskilagjald vegna kostnaðar sem fellur til við fjallskil, skv. heimild í 42. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.

 

10. gr.

Fjallskil og kostnað vegna þeirra, utan heimalanda, skal meta til peningaverðs og jafna niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búfjár samkvæmt afurðaskýrslum að vori. Hafi búfé verið flutt til beitar út fyrir fjallskiladeild kemur sá fjárfjöldi þó til frádráttar. Fé sem hefur verið flutt til beitar frá annarri fjallskiladeild skal teljast með við jöfnun fjallskila. Fjallskil skulu innt af hendi með vinnu enda sé hún metin til peningaverðs ella greidd í peningum.

 

11. gr.

Heimilt er í hverri fjallskiladeild að leggja á allt að 5% af landverði jarða, jafnt þó í eyði séu, að frá­dregnu verði ræktaðs lands og hlunninda vegna fjallskilakostnaðar ef talið er nauðsynlegt til að standa straum af útgjöldum vegna fjallskila t.d. ef erfiðlega gengur að manna í göngur. Þó skal álagning á landverð jarða aldrei vera meira en 50% af kostnaði við fjallskil hverrar fjallskiladeildar reiknað út frá fjölda dagsverka á gangnasvæðum þar sem dagsverkum er úthlutað. Ef heimild þessi er notuð skal vera sama álagningarhlutfall á landverð allra jarða innan hverrar fjallskiladeildar óháð búfjáreign á hverri jörð. Þá gildir um eigendur/ábúendur hverrar jarðar, bæði fjárlausa og fjáreig­endur, að þeim er heimilt að vinna af sér álagningu á landverð með framlagi vinnu þannig að álagt gjald er námundað upp að hálfu eða heilu dagsverki. Tilkynning um að óska eftir því að vinna af sér álagn­ingu fjallskilagjalds skal berast bæjarráði fyrir 1. ágúst ár hvert.

 

12. gr.

Öllum þeim sem skyldir eru að gera fjallskil, þar með töldum eigendum fjárlausra jarða, skal birtur fjallskilaseðill viðkomandi fjallskiladeildar. Seðillinn skal jafnan tilbúinn þann 30. júní ár hvert. Þar skal taka fram hvaða fjallskil hver og einn eigi að inna af hendi, tilgreindir leitarstjórar á svæði utan heimalanda og afrétti/upprekstrarheimalönd og réttarstjórar í skilaréttum, á hvaða svæði hver skuli leita, hverjir eigi að sækja fé í útréttir ef við á, hvenær heimalönd skulu smöluð og hvað annað er að fjallskilum lýtur og við getur átt að taka þar upp til að stuðla að góðri framkvæmd fjall­skila.

 

13. gr.

Sinni aðili ekki smölunarskyldu sinni samkvæmt 12. gr. samþykktar þessarar getur bæjarráð látið smala landið á hans kostnað.

 

14. gr.

Fé af heimalöndum skal rekið til réttar á heimalandi jarðar eða nærliggjandi jarðar. Þar sem um göngur á ógirtum eignarlöndum jarða fer eins og um afrétti, sbr. 12. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., og fjallskilum og kostnaði við þau er jafnað út, skal fé rekið til réttar á heimlandi nær­liggjandi jarðar eða að færanlegum réttum eftir því sem venja er til.

Þar sem slíku verður ekki komið við fer um byggingu réttar eftir 50.-51. gr. laganna. Heimilt er sveitar­stjórn að jafna sérstaklega niður á fjallskilaskylda aðila gjaldi í fjallskilasjóð vegna réttar­bygg­ingar, sbr. 42. gr. og 46. gr.

Við fjallskil heimalanda skal umráðamaður lands tilkynna eigendum afbæjarfjár sem fyrst um að fé hans sé í rétt eða öðru aðhaldi. Það skal jafnan gert samdægurs en í síðasta lagi fyrir hádegi næsta dag á eftir skv. 53. gr. laganna.

 

15. gr.

Aðal haustleitir skulu vera tvær. Skal fyrri lokið eigi síðar en fyrir 38. viku og hinni síðari eigi síðar en fyrir 41. viku, sbr. nánari ákvörðun í fjallskilaseðli.

Leitardagar og leitarsvæði skulu vera eftirfarandi:

 1. Öræfasveit.
  Heimaland jarða skal smalað til réttar eins og venja er til. Fyrstu göngur skulu hafa farið fram eigi síðar en 3. sunnudag í september og aðrar göngur eigi síðar en 1. sunnudag í október. Nánari ákvörðun smaladaga skal fara fram samkvæmt fjallskilaseðli. Umráða­mönnum heimalanda skal heimilt að smala heimalönd fyrr en fjallskilaseðill tilgreinir þannig að metið sé til fyrri og/eða síðari göngu en það ber að tilkynna fjallskilanefnd.

 2. Suðursveit.
  Heimaland jarða skal smalað til réttar eins og venja er til. Fyrstu göngur skulu hafa farið fram eigi síðar en 3. sunnudag í september og aðrar göngur eigi síðar en 1. sunnudag í október. Nánari ákvörðun smaladaga skal fara fram samkvæmt fjallskilaseðli. Umráða­mönnum heimalanda skal heimilt að smala heimalönd fyrr en fjallskilaseðill tilgreinir þannig að metið sé til fyrri og/eða síðari göngu en það ber að tilkynna fjallskilanefnd.

 3. Mýrar.
  Heimaland jarða skal smalað til réttar eins og venja er til. Fyrstu göngur skulu hafa farið fram eigi síðar en 3. sunnudag í september og aðrar göngur eigi síðar en 1. sunnudag í október. Nánari ákvörðun smaladaga skal fara fram samkvæmt fjallskilaseðli. Umráða­mönnum heimalanda skal heimilt að smala heimalönd fyrr en fjallskilaseðill tilgreinir þannig að metið sé til fyrri og/eða síðari göngu en það ber að tilkynna fjallskilanefnd.

 4. Nes, og fyrrum Hafnarhreppur.
  Heimaland jarða skal smalað til réttar eins og venja er til. Fyrstu göngur skulu hafa farið fram eigi síðar en 3. sunnudag í september og aðrar göngur eigi síðar en 1. sunnudag í október. Nánari ákvörðun smaladaga skal fara fram samkvæmt fjallskilaseðli. Umráða­mönnum heimalanda skal heimilt að smala heimalönd fyrr en fjallskilaseðill tilgreinir þannig að metið sé til fyrri og/eða síðari göngu en það ber að tilkynna fjallskilanefnd.

 5. Lón.
  Heimaland jarða skal smalað til réttar eins og venja er til. Fyrstu göngur skulu hafa farið fram eigi síðar en 3. sunnudag í september og aðrar göngur eigi síðar en 1. sunnudag í októ­ber. Nánari ákvörðun smaladaga skal fara fram samkvæmt fjallskilaseðli. Umráða­mönnum heimalanda skal heimilt að smala heimalönd fyrr en fjallskilaseðill tilgreinir þannig að metið sé til fyrri og/eða síðari göngu en það ber að tilkynna fjallskilanefnd.

Nánari skilgreining á skiptingu lands í heimalönd, upprekstrarheimalönd og afrétti í hverri fjall­skila­deild, kemur fram á korti skv. 5. mgr. 5. gr. samþykktar þessarar sem er birt á heima­síðunni www.map.is/hofn. Verði ný svæði flokkuð sem upprekstrarheimalönd, skal ákvörðun um leitar­daga og til hvaða réttar skuli rekið, gerð í fjallskilaseðli.

 

16. gr.

Bæjarráði er heimilt að boða til þriðju gangna ef sérstök ástæða þykir til.

Bæjarráð getur breytt leitartíma og réttardögum, frá því sem ákveðið hefur verið í fjallskilaseðli, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þá getur leitarstjóri frestað gangnadegi ef veður hamlar því að leitir geta farið fram með árangursríkum hætti. Leitarstjóri skal þá tilkynna öllum þeim er inna áttu af hendi dagsverk á leitarsvæði og bæjarráði um frestunina.

Eftirleitir fara fram samkvæmt ákvörðun bæjarráðs hverju sinni.

 

17. gr.

Sérhverjum umráðamanni lands ber að sjá til þess að búfé sem finnst í heimalandi hans að loknum skilaréttum berist eiganda. Bæjarráð getur látið smala landið á kostnað umráðamanns sinni hann því ekki.

Finnist búfé í ógirtum sumarhögum eftir að skipulögðum haustleitum er lokið á að handsama það eða tilkynna bæjarráði, sem skal þá í samráði við eiganda beitarlands, og fjáreigenda (ef kunnur er), sjá um að því sé náð svo fljótt sem kostur er og tilkynna réttum eiganda. Takist björgun fjár er heimilt að krefja eiganda fjárins um kostnað vegna þess, þó ekki meira en nemur tvöföldu andvirði fjárins. Náist fé ekki lifandi skal eigandi fjárins bera kostnað vegna tilraunar en fjallskilasjóður ef fé verður ekki auðkennt.

 

18. gr.

Við niðurjöfnun fjallskila skal skipa leitarstjóra á svæðum sem dagsverkum er úthlutað. Hann skal jafnframt vera réttarstjóri. Leitarstjórar skulu gæta þess að allir þeir sem eiga að leggja til menn í leitir sendi svo marga fullgilda leitarmenn sem kveðið er á um á fjallskilaseðli. Leitarstjóri skal stjórna hverri leit og er leitarmönnum skylt að hlýða honum.

Ef einhver sendir mann í leit sem leitarstjóri telur óhæfan skal vísa honum heim aftur og er þá sá er slíkan mann sendir skyldur að borga eins og hann hafi engan sent og sekt að auki sem nemur hálfu mati verksins, sbr. 44. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

 

19. gr.

Vanræki menn álögð fjallskil skal bæjarráð kaupa mann í staðinn sé þess kostur, og sá er fjallskilin átti að inna af hendi skal greiða dagsverkið til fjallskilasjóðs, sbr. 44. gr. laga nr. 6/1986 um afrétta­­málefni, fjallskil o.fl. Fáist ekki maður til að vinna verkið skal að auki greiða sekt allt að helmingi af matsverði fjallskilanna.

Nú þykir einhverjum niðurjöfnun fjallskila eigi rétt og vill fá leiðréttingu á henni. Þá ber honum eigi að síður að inna álögð fjallskil af hendi en getur sent skriflega kæru til bæjarstjórnar fyrir október­lok næstu á eftir og beðið hana leiðréttingar.

 

V. KAFLI

Um réttir og réttarstörf.

20. gr.

Landeigendum er skylt að leggja til land undir skilaréttir og safngirðingar. Gerður skal skrif­legur samningur við landeiganda. Landeiganda skulu metnar bætur fyrir jarðrask við nýbyggingu réttar eða endurbætur og á hann einnig rétt á árlegu uslagjaldi fyrir átroðning vegna réttarhalds.

Í sveitarfélaginu eru skilaréttir í Laxárdal í Nesjum, Hvammi í Lóni, Borgarhafnarrétt í Suður­sveit og á Hnappavöllum í Öræfum.

 

21. gr.

Réttarstjóri skal sjá um að réttarstörf fari vel og skipulega fram og skulu allir sem vinna við réttarhaldið hlíta fyrirmælum hans í hvívetna.

 

22. gr.

Ómerkinga skal láta í sérstakan dilk og hleypa þangað ám sem líkur eru á að lamb vanti undir. Kindur sem ekki er hægt að greina mark eða merki á skal farið með sem ómerkinga. Gæta þarf þess að áður en óskilafé er lógað þá skuli því lýst svo eigendur geti helgað sér það og mögulegt að greiða út verð hverrar kindar ef eigandi finnst, sbr. 59. gr. um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Andvirði þeirra kinda sem enginn sannar eignarrétt sinn á, þ.m.t. ómerkinga sem ekki verður greint hver er eigandi að, rennur í fjallskilasjóð. Leitast skal við að auðkenna ómerkinga og mæður sem finnast í leitum ef tök eru á.

 

VI. KAFLI

Um mörk og markaskrár.

23. gr.

Búfé skal draga eftir mörkum og er búfjáreiganda skylt að hafa glöggt mark á búfé sínu. Búfjár­mörk eru: örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Mark helgar markeig­anda eignar­rétt nema sannist að annar eigi. Enginn má draga sér búpening sem eigi ber hans rétta mark. Við sönnun eignar er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrna­mark.

Um fjármörk, merkingar á búfé og útgáfu markaskrár fer að öðru leyti eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerk­ingum búfjár nr. 200/1998 og reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár.

 

24. gr.

Bæjarstjórn ræður markavörð til að hafa umsjón með upptöku nýrra marka og að búa markaskrá til prentunar. Markeiganda er skylt að tilkynna mark sitt til prentunar í markaskrá sýslunnar.

Markavörður skal innheimta gjald fyrir hvert mark, þ.m.t. brennimark, af markeigenda sem nemur kostnaði við útgáfu markaskrár, þ.m.t. þóknun vegna starfa markavarðar.

 

VII. KAFLI

Um ágang búfjár o.fl.

25. gr.

Verði mikil brögð að ágangi búfjár úr sumarhögum í heimaland getur sá er fyrir verður gert bæjarráði viðvart. Ef um verulegan eða óeðlilegan ágang er að ræða er bæjarráði heimilt að fyrir­skipa smölun ágangspenings á viðkomandi svæði og færa hann til réttar. Þar er eigendum skylt að hirða fénað sinn.

Búfé sem er sérlega áleitið við gripheldar og fullgildar girðingar, sbr. reglugerð um girðingar, nr. 748/2002, að mati úttektarmanns er eiganda skylt að sækja þegar honum hefur verið tilkynnt um áganginn og koma því í örugga vörslu.

 

26. gr.

Sé ágangspeningur settur inn í rétt eða hús skal tryggt að hann sé ekki í svelti og gætt sé ákvæða laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Ef innsettur fénaður ferst eða slasast greiðir sá er inn setur bætur til eigenda. Bætur skulu miðast við opinbert skattmat bústofns.

 

27. gr.

Með mál sem varða ítölu og verndun beitilands skal farið eins og sagt er í III. kafla laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum.

 

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

28. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt 70. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Mál sem rísa út af brotum á samþykkt þessari skal fara fram með samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

 

29. gr.

Samþykkt þessi er samin að tilstuðlan bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar stað­festist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breyt­ingum, til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi fjallskilasamþykkt fyrir Austur-Skaftafellssýslu, nr. 601/1999.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 3. júní 2021.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ása Þórhildur Þórðardóttir.

Elísabet Anna Jónsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 18. júní 2021