1. gr.
Almenn heimild.
Af öllum nýbyggingum svo og stækkunum eldri húsa, hvort sem er á eignarlóðum eða leigulóðum á flugvallarsvæði A skal greiða gatnagerðargjald til Isavia ohf. samkvæmt samþykkt þessari. Um gatnagerðargjald fer að öðru leyti eftir lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006.
2. gr.
Ráðstöfun gatnagerðargjalds.
Gatnagerðargjaldi skal verja til gatnagerðar og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja á flugvallarsvæði A.
3. gr.
Gjaldstofn.
Stofn til álagningar gatnagerðargjalds er fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð, sbr. eftirfarandi:
- Við úthlutun lóðar eða sölu byggingarréttar á lóð skal leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirra bygginga sem heimilt er að reisa á viðkomandi lóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi.
- Verði ekki lagt á gatnagerðargjald skv. a-lið, eða ef veitt er byggingarleyfi fyrir stærri byggingu en álagning skv. a-lið var upphaflega miðuð við, skal við útgáfu byggingarleyfis leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til.
Gatnagerðargjald skal innheimt vegna stækkunar byggingar sem nemur fermetrafjölda stækkunar.
Gatnagerðargjald skal innheimt ef reist er ný og stærri bygging í stað annarrar á sömu lóð sem stækkuninni nemur. Gildir þessi regla um byggingar sem samþykkt er byggingarleyfi fyrir allt að fimm árum eftir að leyfi er gefið fyrir niðurrifi byggingar. Að öðrum kosti skal greiða fullt gatnagerðargjald.
4. gr.
Grunnur gatnagerðargjalds.
Af hverjum fermetra húss sem heimilt er að reisa á viðkomandi lóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi við úthlutun greiðist eins og hér greinir:
Gatnagerðargjald er 7,5% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar.
Fjárhæð gatnagerðargjalds breytist 1. dag hvers mánaðar í samræmi við framangreint.
5. gr.
Greiðsluskilmálar.
Gatnagerðargjald skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. fellur í gjalddaga við úthlutun lóðar eða sölu byggingarréttar. Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga.
Gatnagerðargjald skv. b-lið 1. mgr. 3. gr. og 2. og 3. mgr. 3. gr. fellur í gjalddaga við útgáfu byggingarleyfis. Eindagi er hinn sami og gjalddagi.
6. gr.
Innheimta vangreidds gatnagerðargjalds.
Gatnagerðargjald ber dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga.
Gatnagerðargjald, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, er tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði í tvö ár frá gjalddaga. Gatnagerðargjald er aðfararhæft án undangengins dóms eða stjórnvaldsúrskurðar.
Isavia ohf. er heimilt að afturkalla lóðarúthlutun ef lóðarhafi greiðir ekki gatnagerðargjald á tilskildum tíma, enda sé kveðið á um það í úthlutunar- eða byggingarskilmálum.
Isavia ohf. skal með 30 daga fyrirvara senda lóðarhafa með sannanlegum hætti viðvörun um hina fyrirhuguðu afturköllun áður en lóðarúthlutun er afturkölluð.
7. gr.
Endurgreiðsla gatnagerðargjalds.
Um endurgreiðslu gatnagerðargjalds fer eftir 9. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006. Isavia ohf. ber að endurgreiða gatnagerðargjald innan 90 daga ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð er skilað.
Sama gildir um gatnagerðargjald sem lagt hefur verið á í tengslum við samþykkt byggingarleyfis en í þeim tilvikum skal endurgreiða gatnagerðargjaldið innan 90 daga frá því að byggingarleyfishafi hefur sannanlega krafist greiðslu. Við greiðsludrátt reiknast dráttarvextir á fjárhæðina samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga.
8. gr.
Lagaheimild.
Samþykkt þessi er gerð samkvæmt 12. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006, sbr. lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. nr. 76/2008 og lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar nr. 153/2009 og öðlast þegar gildi.
Reykjavík, 1. febrúar 2018.
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia ohf.
|