Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 377/2019

Nr. 377/2019 5. apríl 2019

REGLUR
um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig landslagsarkitekt (landslagshönnuð).

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) hafa komið sér saman um að miða við eftirfarandi reglur við mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig lands­lags­arkitekt (landslagshönnuð), sbr. 1.-3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfs­heita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

1. gr.

Sækja skal um leyfi til að kalla sig landslagsarkitekt (landslagshönnuð) til ráðuneytisins. Ráðuneytið sendir umsóknir um leyfi til að kalla sig landslagsarkitekt (landslagshönnuð) til umsagnar FÍLA.

Umsækjandi skal leggja fram prófskírteini og skírteinisviðauka (yfirlit yfir námsferil og einkunnir). FÍLA áskilur sér rétt til að óska eftir frekari gögnum til staðfestingar á menntun umsækjanda, sbr. 4. gr. hér að neðan. Sönnunarbyrði þar að lútandi hvílir á umsækjanda.

2. gr.

Stjórn FÍLA fjallar um allar umsóknir sem félaginu berast og sendir ráðuneytinu umsögn sína. Stjórnin skal leitast við að svara erindum frá ráðuneytinu eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að erindi, ásamt fullnægjandi fylgigögnum, berast. Séu fylgigögn ófullnægjandi skal FÍLA upplýsa ráðuneytið um að umsókn sé ábótavant innan þriggja vikna og greina frá hvaða gögn vanti.

3. gr.

Stjórn FÍLA leggur hlutlaust mat á umsóknir sem henni berast og heldur trúnaði um gögn umsækjanda. Mat stjórnar byggist á kröfum félagsins til menntunar umsækjanda samkvæmt 4. gr. Stjórnin leitar umsagnar menntanefndar FÍLA þegar um vafaatriði er að ræða.

4. gr.

Stjórn félagsins byggir mat sitt á eftirfarandi kröfum til menntunar umsækjenda:

Prófgráðu skal lokið við háskóla sem býður upp á nám í landslagsarkitektúr sem er viðurkennt af alþjóðasamtökum landslagsarkitekta (IFLA) eða landssamtökum landslagsarkitekta í viðkomandi landi sem eru aðilar að IFLA. Prófgráðan skal að námslengd og samsetningu vera sambærileg meistaraprófi í landslagsarkitektúr og fullnægja eftirfarandi lágmarkskröfum:

  a) Undirstöðugreinar í landslagsarkitektúr samsvari minnst 180 ECTS stigum (BA/BS náms­gráða).
  b) Meistarapróf í landslagsarkitektúr samsvari minnst 120 ECTS stigum (MA/MSc náms­gráða).

Heildarlengd námsins skal að jafnaði vera 5 ár, eða sem samsvarar 300 ECTS stigum.

Félagið viðurkennir sjálfkrafa prófgráður frá háskólum sem eru viðurkenndir af IFLA Europe og sem lýkur með fullnaðarprófgráðu í viðurkenndu námi í landslagsarkitektúr. Ef umsækjandi hefur lokið námi utan Evrópu miðar FÍLA við reglur IFLA World við mat á umsóknum.

Félagið mun leggja sérstakt mat á nám við háskóla sem ekki hafa hlotið viðurkenningu ofan­greindra samtaka og mun hafa til hliðsjónar reglur IFLA Europe og Bologna samþykktar frá 1999 um samhæfingu náms.

Í þeim tilfellum sem nemandi flyst á milli skólastofnana á námsferlinum þá gildir lokapróf til fulln­aðar­náms frá skóla, sem viðurkenndur hefur verið af lögbærum stjórnvöldum.

5. gr.

Stjórn FÍLA tilkynnir ráðuneytinu um afgreiðslu einstakra umsókna.

Ef umsækjandi uppfyllir skilyrði í 4. gr. skal stjórnin mæla með því við ráðuneytið að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig landslagsarkitekt (landslagshönnuð).

Ef umsögn stjórnar er neikvæð og umsækjandi telst ekki uppfylla skilyrði í 4. gr., ber stjórn félags­ins að mæla gegn því að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig landslagsarkitekt (lands­lags­hönnuð). Stjórn FÍLA skal rökstyðja þá niðurstöðu.

6. gr.

Reglur þessar voru samþykktar af stjórn Félags íslenskra landslagsarkitekta þann 5. mars 2019.

7. gr.

Reglur þessar, sem settar eru á grundvelli 3. gr. laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfs­heita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum, öðlast gildi við birt­ingu í Stjórnartíðindum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 5. apríl 2019.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Hreinn Hrafnkelsson.


B deild - Útgáfud.: 26. apríl 2019