Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 488/2018

Nr. 488/2018 15. maí 2018

REGLUR
um verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna Seðlabanka Íslands.

1. gr.

Tilgangur.

Tilgangur reglnanna er að tryggja að verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna Seðlabanka Íslands séu í samræmi við lög og reglur sem gilda á verðbréfamarkaði og ákvæði 1. og 2. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001.

2. gr.

Gildissvið.

Reglurnar taka til seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra, allra annarra starfsmanna Seðla­banka Íslands og sérfræðinga sem skipaðir eru af ráðherra í peningastefnunefnd, í reglum þessum nefndir starfsmenn.

Reglurnar gilda um öll viðskipti starfsmanna með gjaldeyri og fjármálagerninga samanber skil­greiningu hugtaksins fjármálagerningur í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og upplýsinga­skyldu um slík viðskipti. Reglurnar taka til viðskipta starfsmanna með fjármálagerninga sem skráðir hafa verið eða óskað hefur verið eftir að verði skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði. Þeim ber einnig að beita eftir því sem við á um viðskipti með óskráða fjármálagerninga og trúnaðar­upplýsingar um þá eða útgefendur þeirra.

Með hugtakinu trúnaðarupplýsingar er átt við innherjaupplýsingar í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og upplýsingar sem falla undir 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og starfsmenn komast að eða verða áskynja um, með hvaða hætti sem vera kann, og sem varða hagi viðskiptamanna Seðlabankans og málefni bankans sjálfs. Undir trúnaðarupplýsingar falla jafnframt önnur atriði sem starfsmenn fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, svo sem tölfræðilegar upplýsingar um lögaðila og einstaklinga og upplýsingar sem varða ríkissjóð Íslands, beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eða gengi gjaldmiðla, sem ekki hafa verið gerðar opinberar.

3. gr.

Yfirumsjón með framkvæmd reglnanna.

Aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands hefur yfirumsjón með framkvæmd reglnanna og gegnir hlutverki regluvarðar.

Regluvörður skal halda skrá yfir verðbréfa- og gjaldeyriseign starfsmanna, sbr. 1. mgr. 7. gr., og tilkynnt viðskipti þar sem fram kemur hvaða fjármálagerninga og gjaldeyrisviðskipti var um að ræða, fjárhæð nafnverðs og gengi og á hvaða tíma viðskipti áttu að eiga sér stað.

Regluvörður skal sjá til þess að reglurnar séu kynntar starfsmönnum með fullnægjandi hætti a.m.k. einu sinni á ári. Regluvörður skal eigi sjaldnar en árlega gera seðlabankastjóra grein fyrir fram­kvæmd reglnanna.

4. gr.

Meðferð innherja- og trúnaðarupplýsinga.

Á starfsmanni sem hyggst eiga viðskipti með fjármálagerning eða gjaldeyri hvílir rannsóknarskylda, þ.e. sjálfstæð skylda hans til þess að ganga úr skugga um að hann hvorki búi yfir innherja­upplýsingum né öðrum trúnaðarupplýsingum um fjármálagerninginn og útgefanda hans eða gengi gjaldmiðils.

Starfsmönnum sem búa yfir eða hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum er óheimilt að nýta sér þær, beint eða óbeint, við öflun eða ráðstöfun fjármálsgernings. Þetta þýðir að starfsmönnum er óheimilt að kaupa, selja eða hvetja til kaupa eða sölu fjármálagerninga eða gjaldeyris, hvort sem er fyrir eigin reikning eða þriðja manns, þegar þeir búa yfir trúnaðarupplýsingum, sbr. 3. mgr. 2. gr.

5. gr.

Viðskipti með fjármálagerninga.

Starfsmönnum er óheimilt að eiga viðskipti með hlutabréf, skuldabréf og fjármálagerninga tengda þeim, sem útgefin eru af aðilum sem falla undir 6. og 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands en til þessara aðila teljast viðskiptabankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar og aðrar lánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu.

Starfsmönnum er heimilt að eiga viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðum samkvæmt lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, sbr. þó 2. mgr. 4. gr.

Starfsmönnum er heimilt að selja fjármálagerninga sbr. 1. mgr. sem aflað hefur verið áður en viðkomandi kom til starfa hjá Seðlabankanum. Sama gildir hafi fjármálagerningurinn komið til eignar viðkomandi sem arfur eða við hjúskapar- eða sambúðarslit.

Starfsmönnum ber að gera regluverði grein fyrir fyrirhuguðum viðskiptum með fjármálagerninga. Regluvörður skal hafa hæfilegt ráðrúm til þess að kanna hvort trúnaðarupplýsingar séu til staðar sem vakið geta spurningar eftir á um réttmæti viðskiptanna. Reynist svo vera skal regluvörður gera athugasemd við fyrirhuguð viðskipti og leggja fyrir hlutaðeigandi að hann fresti þeim. Þegar viðskipti hafa farið fram skal tilkynna þau til regluvarðar. Fyrirhugi regluvörður eða staðgengill hans að eiga viðskipti með fjármálagerning eða gjaldeyri skulu þeir gera seðlabankastjóra fyrirfram grein fyrir viðskiptum sínum og tekur hann afstöðu til þeirra. Regluvörður skal tilkynna seðlabankastjóra um viðskipti þegar þau hafa farið fram.

Starfsmenn skulu að jafnaði eiga fjármálagerninga sem þeir kaupa í 3 mánuði að lágmarki fari markaðsverð ekki niður fyrir upphaflegt kaupverð.

Starfsmönnum er óheimilt að eiga hlut í eða taka þátt í fjárfestingarfélögum eða öðrum hliðstæðum félagsskap, sem hefur þann tilgang að þátttakendur standi sameiginlega að kaupum á verðbréfum.

6. gr.

Viðskipti með gjaldeyri.

Reglur þessar gilda um gjaldeyrisviðskipti starfsmanna eftir því sem við getur átt, þó ekki um kaup á gjaldeyri til greiðslu fyrir erlenda fasteign til eigin nota, vörur eða þjónustu eða vegna ferðalaga til útlanda eða sölu gjaldeyris vegna hins sama eða vegna greiðslu skulda í erlendum gjaldmiðli.

Starfsmenn skulu tilkynna regluverði fyrirfram um viðskipti með gjaldeyri sem nema hærri fjárhæð en 3 milljónum króna.

7. gr.

Upplýsingaskylda starfsmanna.

Seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, sérfræðingar í peningastefnunefnd er ráðherra skipar, framkvæmdastjórar og staðgenglar þeirra skulu gera regluverði skriflega grein fyrir allri verðbréfa­eign sinni, maka og ófjárráða barna, stjúpbarna og fósturbarna. Hið sama gildir um eign í erlendum gjaldeyri yfir 5.000.000 kr. Með sama hætti skulu starfsmenn sem búa yfir trúnaðar­upplýsingum varðandi gjaldeyrismarkað, sitja reglulega fundi peningastefnunefndar, taka þátt í undirbúningi ákvarðana um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum, sbr. 24. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, eða búa yfir trúnaðarupplýsingum sem varða hagi fjármála­fyrirtækja sem falla undir 6. og 7. gr. laga nr. 36/2001 gera regluverði skriflega grein fyrir verðbréfa- og gjaldeyriseign. Framkvæmdastjórar þeirra sviða sem viðkomandi starfsmenn tilheyra skulu ákveða og tilkynna regluverði hvaða starfsmenn falla undir upplýsingaskylduna.

Sömu starfsmenn og um getur í 1. mgr. skulu upplýsa regluvörð ef maki eða sambúðarmaki starfar hjá aðila sem fellur undir 6. og 7. gr. laga nr. 36/2001.

Seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, framkvæmdastjórar og staðgenglar þeirra og starfs­menn sem búa yfir trúnaðarupplýsingum sem varða hagi fjármálafyrirtækja sbr. 1. mgr. skulu gera reglu­verði skriflega grein fyrir eftirfarandi skuldbindingum, og ávöxtun sparifjár hjá aðilum sem falla undir 6. og 7. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands:

  1. Ótryggðum skuldum umfram 10.000.000 kr. og tryggðum skuldum umfram 50.000.000 kr. auk tímalengdar skulda.
  2. Greiðsluerfiðleikum vegna allra skuldbindinga. Með greiðsluerfiðleikum er átt við vanskila­innheimtu og/eða löginnheimtu eða aðra erfiðleika sem gefa til kynna að starfs­maður sé háður sérstakri fyrirgreiðslu viðkomandi aðila.
  3. Samningum um eignastýringu án tillits til fjárhæða.

Gera skal grein fyrir breytingum á atriðum sem falla undir 1. og 3. tölul. 3. mgr. eigi síðar en viku eftir að viðskipti fóru fram eða samningar voru gerðir. Veita skal upplýsingar skv. 2. tölul. 3. mgr. þegar starfsmanni verður kunnugt um stöðu mála. Starfsmaður skal í fyrsta sinn veita upplýsingar skv. 1. og 3. mgr. við ráðningu og staðfesta þær síðan árlega ef engin breyting hefur orðið.

Starfsmenn tilgreindir í 3. mgr., skulu eftir því sem þeim er kunnugt um upplýsa regluvörð um sambærileg atvik eða aðstæður er varða maka eða sambúðarmaka og ófjárráða börn og þegar aðstæður eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Þegar svo stendur á skal miða við að fjárhæðamörk skv. 3. mgr. taki til samanlagðra eigna hjóna, sambúðarfólks og ófjárráða barna þeirra.

Regluvörður og staðgengill hans skulu með samsvarandi hætti gera seðlabankastjóra grein fyrir viðskiptum sínum og atvikum og aðstæðum samkvæmt 1., 2., 3., 4. og 5. mgr.

8. gr.

Yfirlýsing.

Starfsmenn skulu rita undir yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér efni þessara reglna og önnur ákvæði laga, reglugerða og reglna sem varða trúnaðarskyldu þeirra í starfi.

9. gr.

Ábyrgð og viðurlög.

Starfsmenn bera alfarið ábyrgð á að reglum þessum sé fylgt í viðskiptum þeirra með verðbréf og gjaldeyri.

Starfsmenn skulu ekki stofna til viðskipta sem gætu með réttu gefið tilefni til tortryggni að því er varðar meðferð og notkun upplýsinga sem þeir hafa aðgang að í störfum sínum eða geta skaðað trúverðugleika Seðlabankans. Starfsmönnum ber jafnframt að leitast við að tryggja að viðskipti maka, sambúðarmaka, ófjárráða barna og annarra aðila sem eru þeim fjárhagslega tengdir veki ekki spurningar um trúverðugleika viðskiptanna.

Brot á reglum þessum skulu tilkynnt regluverði eða bankastjóra.

Brot á reglum þessum geta varðað áminningu eða brottrekstri.

10. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 38. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, taka gildi 1. júní 2018. Jafnframt falla þá úr gildi reglur Seðlabanka Íslands um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna nr. 831 frá 28. nóvember 2002.

Bráðabirgðaákvæði.

Innan fimmtán virkra daga frá gildistöku reglnanna og með vísan til 2. mgr. 3. gr. skulu starfsmenn sem tilgreindir eru í 7. gr. tilkynna regluverði um tilkynningarskylda eign sína, skuldbindingar og önnur atriði sem tilgreind eru í 7. gr.

Reykjavík, 15. maí 2018.

Seðlabanki Íslands,

  Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.
Sigríður Logadóttir
aðallögfræðingur.

B deild - Útgáfud.: 17. maí 2018