Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 720/2023

Nr. 720/2023 22. júní 2023

REGLUR
um almenna heimild til að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu.

I. KAFLI

Skráning og réttindi.

1. gr.

Aðilar sem heimildin nær til.

Lögaðilum sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríki Alþjóða­viðskipta­stofnunarinnar er heimilt að reka fjarskiptanet og/eða veita fjarskiptaþjónustu með eftir­farandi skilyrðum, enda tilkynni þeir Fjarskiptastofu um fyrirhugaða starfsemi sína áður en hún hefst, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022.

 

2. gr.

Lágmarksréttindi sem fylgja almennri heimild.

Fjarskiptafyrirtæki sem hafa almenna heimild eiga rétt á að reka fjarskiptanet eða veita fjarskipta­þjónustu, nota fjarskiptatíðniróf og að leggja fram umsóknir um heimild til að koma upp aðstöðu skv. 34. gr. laga nr. 70/2022. Þau eiga rétt á umfjöllun um umsóknir sínar um nauðsynleg réttindi í samræmi við 34. gr. og um nauðsynlegan afnotarétt af númeraforða í samræmi við 21. gr. lag­anna.

Almenn heimild veitir fjarskiptafyrirtæki rétt til að semja um samtengingu og þar sem það á við að fá aðgang að eða samtengingu við önnur fjarskiptafyrirtæki.

Almenn heimild veitir sömuleiðis rétt til útnefningar til að veita alþjónustu í samræmi við lög nr. 70/2022.

 

3. gr.

Tilkynning um fyrirhugaða starfsemi.

Fjarskiptafyrirtæki skal áður en starfsemi hefst tilkynna Fjarskiptastofu um fyrirhugaða fjar­skipta­þjónustu eða rekstur fjarskiptaneta. Veita skal upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna skrán­ingar á viðkomandi fjarskiptafyrirtæki og starfsemi þess. Tilkynning um fyrirhugaða starfsemi skal inni­halda:

  1. heiti fjarskiptafyrirtækis,
  2. rekstrarform og skráningarnúmer, kennitölu eða sambærilegar upplýsingar,
  3. heimilisfang höfuðstöðva á Evrópska efnahagssvæðinu og útibús/starfsstöðvar, eftir því sem við á,
  4. veffang,
  5. tengilið og samskiptaupplýsingar,
  6. stutta lýsingu á þjónustu sem ætlunin er að veita og fyrirhuguðu framboði á fjarskiptaneti,
  7. ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem þjónusta nær til, og
  8. dagsetninguna þegar áætlað er að starfsemi hefjist.

Fjarskiptafyrirtæki sem aðeins veita fjarskiptaþjónustu milli einstaklinga sem er ótengd númerum eru undanþegin tilkynningarskyldu.

 

4. gr.

Skráning hjá Fjarskiptastofu.

Fjarskiptafyrirtæki sem heimilt er að starfa á grundvelli almennrar heimildar má hefja starfsemi þegar fullnægjandi tilkynning hefur borist Fjarskiptastofu.

Fjarskiptastofa skal halda skrá yfir öll fjarskiptafyrirtæki sem hafa tilkynnt að þau muni starfa á grundvelli almennrar heimildar.

Að beiðni fjarskiptafyrirtækis skal Fjarskiptastofa innan viku frá því að beiðni barst stofnuninni gefa út staðfestingu þess að fyrirtækið hafi tilkynnt sig til skráningar.

 

II. KAFLI

Skilyrði.

5. gr.

Gjöld.

Fjarskiptafyrirtæki sem hafa almenna heimild skulu greiða árlega rekstrargjald sem nemur hlut­falli af bókfærðri veltu í samræmi við ákvæði laga um Fjarskiptastofu nr. 75/2021. Rekstrargjald skal standa straum af kostnaði við eftirlit með starfsemi á sviði fjarskipta og samanlagt taka til kostn­aðar sem hlýst af stjórnun, eftirliti og framkvæmd laga um fjarskipti. Rekstrargjald skal miða við næsta almanaksár á undan ákvörðun gjaldsins. Tekjur skal telja til bókfærðrar veltu á því ári sem þær verða til.

Um önnur gjöld sem fjarskiptafyrirtækjum ber að greiða til Fjarskiptastofu fer samkvæmt 21. gr. laga um Fjarskiptastofu nr. 75/2021 og gjaldskrá stofnunarinnar.

 

6. gr.

Skylda til samtengingar.

Fjarskiptafyrirtækjum sem starfrækja almenn fjarskiptanet eða almenna fjarskiptaþjónustu eiga rétt á og ber skylda til að semja um samtengingu almennra fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu, sbr. 36. gr. laga nr. 70/2022.

Fjarskiptastofa getur fyrirskipað samtengingu almennra fjarskiptaneta að eigin frumkvæði ef það er nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni endanotenda.

Fjarskiptafyrirtæki skal senda Fjarskiptastofu afrit af öllum samtengisamningum og samningum um aðgang að fjarskiptanetum eigi síðar en viku frá undirritun samnings.

 

7. gr.

Neyðarsamskipti.

Fjarskiptafyrirtækum sem starfrækja fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet þar sem slík þjónusta er boðin ber að tryggja að uppfylltar séu kröfur XIV. kafla laga nr. 70/2022 um almanna­viðvör­unar­kerfi, neyðarsamskipti og staðsetningu neyðarsímtala.

Fjarskiptafyrirtæki eiga að sjá til þess að allir notendur sem tengdir eru þjónustunni eða netinu geti hringt án endurgjalds í neyðarnúmerið 112 og stuttnúmerin 116000 og 116111. Fjarskipta­fyrirtækjum er skylt að flytja símtal í þessi númer, ásamt viðeigandi fjarskiptaumferðarupplýsingum svo hægt sé að staðsetja þann sem hringir. Símtalsflutningur skal vera óháður fjarskiptanetum, samn­ingum um reikiþjónustu milli fjarskiptafyrirtækja og inneign notanda.

 

8. gr.

Númer og kóðar.

Fjarskiptafyrirtæki er einungis heimilt að nota númer og númeraraðir sem Fjarskiptastofa úthlutar því, í samræmi við VI. kafla laga nr. 70/2022 og reglur sem stofnunin setur.

Fjarskiptafyrirtæki skal úthluta endanotendum númerum úr þeim númeraröðum sem það hefur til úthlutunar en skal þó taka tillit til óska endanotenda varðandi val á númerum.

Fjarskiptafyrirtæki skal verða við öllum eðlilegum beiðnum um að láta í té símaskrár­upplýsingar skv. 3. mgr. 94. gr. laga nr. 70/2022.

 

9. gr.

Umhverfisvernd og sameiginleg afnot.

Fjarskiptafyrirtæki skulu ávallt haga gerð fjarskiptavirkja á þann hátt að þau hafi sem minnst áhrif á umhverfi.

Í þeim tilfellum sem fjarskiptafyrirtæki hefur rétt til að staðsetja fjarskiptavirki á eign sem er í eigu eða undir yfirráðum opinberra aðila, eða getur tekið eign eignarnámi skv. 34. gr. laga nr. 70/2022, getur Fjarskiptastofa í samræmi við 35. gr. sömu laga ákveðið að fjarskiptafyrirtækið skuli veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að aðstöðu sinni á því svæði sem um ræðir ef það er tækni­lega mögulegt.

Fjarskiptastofa getur mælt fyrir um samhýsingu eða samnýtingu á netþáttum eða tengdri aðstöðu í öðrum tilfellum m.a. vegna umhverfissjónarmiða, almannaöryggis eða til að uppfylla mark­mið um skipulag sveitarfélaga.

 

10. gr.

Skylda til dreifingar myndefnis.

Fjarskiptafyrirtæki sem rekur fjarskiptanet, sem notuð eru fyrir hljóð- og myndmiðlun, er skylt að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjölmiðlaveitu um flutning á slíkum útsendingum í samræmi við ákvæði laga um fjölmiðla.

 

11. gr.

Skráning og meðferð upplýsinga.

Ekki skal nota upplýsingar um notendur í öðrum tilgangi en að skrá þá, veita þeim þjónustu og til reikningagerðar nema með upplýstu samþykki viðkomandi eða samkvæmt heimild í lögum. Notandi má afturkalla veitt samþykki hvenær sem er.

Skráning og vinnsla upplýsinga um notendur skal vera í samræmi við ákvæði XII. kafla fjarskipta­laga nr. 70/2022 og laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

12. gr.

Skilmálar, gjaldskrá og neytendavernd.

Fjarskiptafyrirtæki skulu birta og hafa aðgengilega á vef sínum viðskiptaskilmála og gjaldskrá fyrir alla þjónustu sína. Neytendum alþjónustu skal gert kleift að fylgjast með og stjórna útgjöldum vegna hennar. Fjarskiptafyrirtæki skulu sjá til þess að neytandi geti fylgst með og stjórnað notkun sinni þegar um ræðir netaðgangs- eða símaþjónustu sem gjaldfærð er samkvæmt tímagjaldi eða neyslu­magni. Þá skal fjarskiptafyrirtæki senda neytanda tilkynningu áður en inniföldu tíma- eða neyslumagni þjónustuleiðar er náð.

Fjarskiptafyrirtæki skulu verða við öllum lögmætum beiðnum um áskrift að þjónustu sinni. Ekki skal neita endanotanda um þjónustu nema lögmætar ástæður séu fyrir hendi.

Áður en neytandi er bundinn af samningi eða tilboði skulu fjarskiptafyrirtæki vera búin að veita honum á skýran og sannanlegan hátt upplýsingar í samræmi við ákvæði II. og III. kafla laga um neyt­endasamninga, nr. 16/2016, og samantekt yfir meginefni samnings, sbr. 1. mgr. 69. gr. fjar­skipta­laga.

Fjarskiptastofa getur krafist breytinga á þjónustusamningi ef talið er að ákvæði hans samræmist ekki lögum og reglum.

Auk skilyrða almennrar heimildar skulu fjarskiptafyrirtæki sem reka fjarskiptanet sjá til þess að reglur um neytendavernd samkvæmt fjarskiptalögum séu uppfylltar.

 

13. gr.

Upplýsingaskylda.

Fjarskiptafyrirtæki skal gæta að því að uppfylltar séu skyldur um gagnsæi og upplýsingagjöf sam­kvæmt fjarskiptalögum sem miða að því að tryggja tengingu enda á milli í almennum fjarskipta­­netum.

Fjarskiptafyrirtæki skulu verða við öllum kröfum Fjarskiptastofu um upplýsingar vegna eftirlits og athuganir mála í samræmi við 15. gr. laga nr. 70/2022. Upplýsingarnar skal veita á því formi sem stofnunin óskar og innan þeirra tímamarka sem hún setur.

 

14. gr.

Hlerun og gagnaöflun.

Fjarskiptafyrirtæki skulu tryggja að þar til bærum yfirvöldum sé kleift að hlera símtöl og afla annarra gagna í samræmi við ákvæði laga.

 

15. gr.

Fjarskipti á hættutímum.

Fjarskiptafyrirtæki skulu fara að fyrirmælum ráðherra um að stöðva eða takmarka fjarskipti er kunna að trufla öryggisfjarskipti eða þau varða við þjóðaröryggi eða almannaöryggi, viðvarandi eða tilfallandi alvarlega ógn. Á sama hátt getur ráðherra mælt fyrir um að fjarskiptafyrirtæki leggi til fjarskiptavirki og fjarskiptaþjónustu í þágu björgunaraðgerða eða setji upp ný fjarskiptavirki.

Við yfirvofandi eða yfirstandandi þjónusturof á fjarskiptum sem nær til stórs landsvæðis eða til umtalsverðs fjölda notenda, þannig að neyðarástand geti eða hafi skapast, getur ráðherra mælt fyrir um aðgerðir til að viðhalda rekstrarsamfellu þjónustunnar uns komist hefur verið hjá neyðar­ástand­inu. Ef fjarskiptafyrirtæki óskar eftir endurgjaldi kostnaðar vegna slíkra aðgerða þá greiðist slíkt úr ríkis­sjóði samkvæmt mati Fjarskiptastofu.

 

16. gr.

Takmarkanir á ólöglegu efni.

Fjarskiptafyrirtæki sem reka fjarskiptanet skulu virða takmarkanir með tilliti til sendingar á ólög­legu efni, í samræmi við ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, sem og tak­markanir með tilliti til sendinga á skaðlegu efni, í samræmi við ákvæði laga um fjölmiðla.

 

17. gr.

Rafsegulgeislun.

Fjarskiptafyrirtæki skulu gera ráðstafanir til verndar lýðheilsu gegn rafsegulgeislun af völdum fjarskiptaneta. Leitast skal við að staðsetja fjarskiptavirki þar sem almenningur verður fyrir sem minnstum áhrifum af slíkri geislun.

Fjarskiptafyrirtæki skulu fara eftir fyrirmælum og reglum sem stjórnvöld kunna að setja varð­andi rafsegulgeislun þ.m.t. að fylgt sé ákveðnum stöðlum og viðmiðunarmörkum Alþjóða geisla­varna­ráðsins (ICNIRP).

Ef í ljós kemur að rafsegulgeislun frá fjarskiptavirkjum er yfir viðmiðunarmörkum í reglum eða viðeigandi stöðlum skal fjarskiptafyrirtæki bæta úr því ástandi án tafar eða að öðrum kosti hætta notkun viðkomandi fjarskiptavirkis. Ef samanlögð rafsegulgeislun frá fjarskiptavirkjum sem staðsett eru nálægt hvort öðru fer yfir viðmiðunarmörk, án þess að nokkur einstakur búnaður fari yfir mörkin, skal það fyrirtæki sem síðast setti upp búnað bæta úr ástandinu eða hætta notkun búnaðar.

 

18. gr.

Öryggi fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu.

Fjarskiptafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu og/eða reka almenn fjarskiptanet og upplýsingakerfi sem við þau tengjast skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir sem styðja sem best við kröfur um öryggi almennra fjarskiptaneta, áfallaþol og samfellda örugga virkni fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu.

Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja að fjarskiptavirki í umráðum þess valdi ekki skaðlegum trufl­unum á öðrum löglegum kerfum.

Fjarskiptafyrirtæki ber að tilkynna Fjarskiptastofu um þær truflanir sem því eru kunnar hvort sem þær eru af völdum þess kerfis eða á því.

Fjarskiptastofa getur gert kröfur um úrbætur á fjarskiptavirkjum í því skyni að girða fyrir vanda vegna truflana. Fjarskiptafyrirtæki skal fyrir eigin reikning hlíta fyrirmælum Fjarskiptastofu um að bæta úr truflanavanda sem stafar af fjarskiptakerfum þess.

Fjarskiptastofa getur látið innsigla fjarskiptavirki og rafföng eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra ef hætta er á að þau valdi skaðlegum truflunum á fjarskiptum eða ef hætta er á að öryggi fjar­skipta sé ógnað, sbr. 29. gr. laga nr. 70/2022.

Vanræki eigandi að framfylgja fyrirmælum um úrbætur getur Fjarskiptastofa látið vinna verkið á kostnað eiganda. Krafa um kostnað vegna þessa er aðfararhæf skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.

 

19. gr.

Leynd og vernd fjarskipta.

Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja að leyndar sé gætt í fjarskiptum í samræmi við viðkomandi lög­gjöf.

Fjarskiptafyrirtæki skal kynna starfsmönnum sínum þær reglur sem gilda um leynd og vernd fjar­skipta.

Fjarskiptafyrirtæki sem veitir almenna fjarskiptaþjónustu eða rekur almenn fjarskiptanet ber eftir fremsta megni að verja upplýsingar sem fara um fjarskiptanet gegn því að þær glatist, skemmist eða breytist fyrir slysni eða að óviðkomandi fái aðgang að þeim. Ef hætta er á að öryggi eða leynd upp­lýsinga á fjarskiptanetum verði rofin eða til rofs hefur komið skal fjarskiptafyrirtæki grípa til við­eigandi ráðstafana eins fljótt og mögulegt er, þ.m.t. tilkynna til Fjarskiptastofu um hættuna og ef við á skal upplýsa viðkomandi notendur um hættuna, sbr. 80. og 81. gr. laga nr. 70/2022.

 

20. gr.

Notkun tíðna.

Almennt gildir að uppsetning eða notkun hvers konar sendibúnaðar fyrir þráðlaus fjarskipti sem er leyfisskyldur, samkvæmt lögum og reglum, er háður sérstöku leyfi sem Fjarskiptastofa veitir að fenginni umsókn frá fjarskiptafyrirtækinu. Í umsóknum skal tilgreina allar breytur fyrir viðkomandi sendibúnað þ.m.t. staðsetningu, tegund og hæð loftnets, sendistyrk og ráðgerða notkun. Fjarskipta­­fyrirtæki skal einungis nota þær tíðnir sem það hefur fengið úthlutað hjá Fjarskiptastofu.

Ef fjarskiptanet er eingöngu starfrækt á opnu tíðnisviði (t.d. 2,4 GHz) er ekki þörf á útgáfu sér­staks leyfisbréfs fyrir tíðnir eða sendibúnað. Allur búnaður slíks fjarskiptanets skal vera í sam­ræmi við tilmæli CEPT REC T/R 70-03 (Annex 3).

 

21. gr.

Búnaður fjarskiptaneta.

Tækjabúnaður fjarskiptaneta skal vera í samræmi við tæknistaðla sem gilda á Evrópska efna­hags­svæðinu. Fjarskiptastofa getur í sérstökum tilvikum mælt fyrir um notkun annarra staðla, svo og til­mæla frá Alþjóðafjarskiptasambandinu. Búnaður fjarskiptaneta og fyrir þráðlaus fjarskipti skal einnig vera í samræmi við grunnkröfur VII. kafla laga nr. 70/2022 varðandi fjarskiptabúnað.

Tæknilegir eiginleikar í nettengipunktum skulu ávallt vera í samræmi við staðla. Fjarskipta­fyrirtæki sem reka almenn fjarskiptanet skulu birta opinberlega upplýsingar um tæknilega eiginleika í nettengi­punktum.

 

22. gr.

Aðskilnaður sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi.

Fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu halda fjarskipta­­starfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi líkt og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Þá skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi, sbr. 10. gr. laga nr. 70/2022.

 

23. gr.

Álagning annarra skilyrða og kvaða.

Fjarskiptastofu er heimilt að leggja sérstakar kvaðir á fyrirtæki sem reka fjarskiptanet eða fjar­skipta­­þjónustu, í samræmi við VII. og IX. kafla laga nr. 70/2022 varðandi aðgang og samteng­ingu og í samræmi við X. kafla sömu laga varðandi alþjónustu.

Fjarskiptastofa getur sett fyrirtækjum sérstök skilyrði, skv. 22. gr. laga nr. 70/2022, fyrir notkun númera og fyrir notkun tíðna sem háð er einstakri úthlutun.

 

III. KAFLI

Almenn ákvæði.

24. gr.

Breytingar á réttindum.

Þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna breytinga á löggjöf, er Fjarskiptastofu heimilt að breyta skilyrðum almennra heimilda. Breytingar skulu kynntar hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, með hæfilegum fyrirvara sem þó skal ekki vera styttri en 30 dagar. Ef gildistími réttinda til notkunar á tíðnum eða númerum er framlengdur er Fjarskiptastofu heimilt að gera breytingar á skilyrðum réttindanna eða bæta við skilyrðum.

Fjarskiptafyrirtæki sem hafa réttindi til að nota tíðnir og númer skulu að beiðni Fjarskiptastofu veita stofnuninni upplýsingar samkvæmt lögum um Fjarskiptastofu sem nauðsynlegar eru til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir skilyrðum almennrar heimildar.

 

25. gr.

Fyrirmæli og afturköllun réttinda.

Fjarskiptafyrirtæki sem hafa réttindi til að nota tíðnir og númer er skylt að veita Fjarskiptastofu upplýsingar samkvæmt lögum um stofnunina sem nauðsynlegar eru til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir skilyrðum almennrar heimildar eða álagðra kvaða skv. VIII.–X. kafla. laga nr. 70/2022.

Ef það er mat Fjarskiptastofu að fjarskiptafyrirtæki fari ekki að skilmálum almennrar heimildar, skilyrðum sem tengjast réttindum skal hún tilkynna fjarskiptafyrirtækinu um þessa niðurstöðu og gefa því tækifæri til þess að koma skoðun sinni á framfæri eða bæta úr annmörkum innan þess tíma sem stofnunin kveður á um í tilkynningu sinni.

Brjóti fjarskiptafyrirtæki gegn skilyrðum almennra heimilda getur það varðað afturköllun réttinda tímabundið eða að fullu, rekstrarstöðvun eða viðurlögum samkvæmt ákvæðum XV. kafla laga nr. 70/2022, um fjarskipti.

 

26. gr.

Lög.

Um rekstur fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu gilda að öðru leyti lög nr. 70/2022 um fjarskipti og lög nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu, ásamt reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eftir því sem við á.

 

27. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 70/2022, öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglnanna falla úr gildi reglur um almenna heimild til að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu nr. 345/2005.

 

Fjarskiptastofu, 22. júní 2023.

 

Hrafnkell V. Gíslason.

Arnar Stefánsson.


B deild - Útgáfud.: 6. júlí 2023