Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 811/2020

Nr. 811/2020 20. ágúst 2020

AUGLÝSING
um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

1. gr.

Ákvörðun og markmið.

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að feng­inni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra, að takmarka skóla­starf tímabundið eftir því sem hér greinir.

Markmið með með auglýsingu þessari er að tryggja að sem minnst röskun verði á skólastarfi vegna COVID-19 sjúkdómsins með ýtrustu sóttvarnarsjónarmið að leiðarljósi.

 

2. gr.

Gildissvið.

Takmörkun á skólastarfi tekur gildi 21. ágúst 2020 kl. 00.00 og gildir til 29. september 2020 kl. 23.59.

Um fjöldatakmörkun í skólastarfi fer eftir gildandi auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Reglur um fjöldatakmörk og nálægðartakmörk taka ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkun skólastarfs eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.

Takmörkun á skólastarfi tekur til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og háskóla, hvort sem um er að ræða opinbera eða einkarekna skóla. Þá tekur ákvörðunin jafnframt til annarra menntastofnana, svo sem frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs og gilda um það sömu reglur og um viðkomandi skólastig í samráði við sóttvarnayfirvöld. 

 

3. gr.

Leikskólar.

Leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skóla­byggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að starfsfólk sem á erindi inn í skólabyggingar gæti að minnst 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli án þess að andlitsgrímur séu notaðar. Að öðru leyti eru ekki takmarkanir á samkomum barna á leikskólaaldri.

Viðvera foreldra sem dvelja inni á leikskóla vegna aðlögunar skal skipulögð þannig að þeir þurfi ekki að nota hreinlætis- eða mataraðstöðu í byggingunni og skulu þeir gæta að minnst 1 metra nálægðar­takmörkun jafnt sín á milli og gagnvart starfsfólki. Aðeins eitt foreldri fylgi barni í aðlögun.

Stjórnendum leikskóla er heimilt að krefja foreldra að nota andlitsgrímur í aðlögun. 

Aðrir en starfsmenn og foreldrar sem koma inn á leikskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu gæta að 2 metra nálægðartakmörkun.

Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

 

4. gr.

Grunnskólar.

Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að starfsfólk sem á erindi inn í skólabyggingar gæti að 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli án þess að andlitsgrímur séu notaðar. Að öðru leyti eru ekki takmarkanir á samkomum barna á grunnskólaaldri.

Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs.

Aðrir en starfsmenn og foreldrar sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu gæta að 2 metra nálægðartakmörkun.

Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

 

5. gr.

Framhaldsskólar.

Í öllum byggingum framhaldsskóla er skólastarf heimilt að því tilskildu að nemendur og starfs­fólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nándar­reglunni, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi, skal nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef. Við þær aðstæður skal leitast við að bæði kennari og nemendur beri grímu.

Skipuleggja skal staðnám í framhaldsskólum þannig að hver nemandi umgangist sem fæsta ein­stak­linga. Dreifa skal nemendum á fasta innganga í skólabyggingu eftir því sem kostur er og skulu gangar vera ferðarými. Fastir hópar og bekkir skulu forðast svo sem framast er unnt blöndun við aðra nemendur.

Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu skulu ekki fara fram í skólabyggingum, svo sem málþing.

Við íþróttakennslu eru snertingar heimilar milli nemenda á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 1 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan æfingasvæðis og keppnissvæðis.

Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum framhaldsskóla skulu sótthreinsaðir milli nemenda­hópa. Jafn­framt skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag og þar skal jafn­framt lögð áhersla á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

 

6. gr.

Háskólar.

Í öllum byggingum háskóla er skólastarf heimilt að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nándar­reglunni, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi, skal nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef. Við þær aðstæður skal leitast við að bæði kennari og nemendur beri grímu.

Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu skulu ekki fara fram í skólabyggingum, svo sem mál­þing. 

Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum skulu sótthreinsaðir milli nemendahópa.

Í háskólum skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag og þar skal jafnframt lögð áhersla á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

 

7. gr.

Undanþágur.

Heilbrigðisráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana. Heilbrigðisráðherra getur óskað eftir umsögn­um frá sóttvarnalækni og mennta- og menningarmálaráðherra um beiðni um undanþágu.

 

8. gr.

Gildistaka.

Auglýsing þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, tekur gildi eftir því sem mælt er fyrir um í 2. gr.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 20. ágúst 2020.

 

F. h. r.

Ásta Valdimarsdóttir.

Ásthildur Knútsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 21. ágúst 2020