Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 634/2012

Nr. 634/2012 2. júlí 2012
SAMÞYKKT
um húsdýrahald og almennt gæludýrahald í Hafnarfirði.

Markmið.

1. gr.

Markmið bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar með samþykkt þessari er að tryggja öryggi, hollustuhætti, góða umgengni og fullnægjandi mengunarvarnir vegna húsdýrahalds og almenns gæludýrahalds í Hafnarfirði. Um dýrahald í atvinnuskyni skal farið að ákvæðum reglugerða nr. 941/2002 um hollustuhætti, nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og nr. 1077/2004 um dýrahald í atvinnuskyni.

Skilgreiningar.

2. gr.

Gæludýr er hvert það lifandi dýr sem haldið er inni á heimilum til afþreyingar.

Með hollustuháttum er vísað til hollustuverndar og mengunarvarna sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Með húsdýrahaldi í samþykkt þessari er átt við spendýr eða fugla sem eru til gagns, tómstundaiðju eða félagsskapar og haldin eru í sérstökum húsum og á lóðum eða svæðum sem til þess eru ætluð.

Með vörsluskyldu er vísað til að dýr séu höfð í fullnægjandi húsum, gerðum eða innan girðinga eða í umsjón einstaklings sem hefur fulla stjórn á dýrinu.

Með öryggi er átt við að húsnæði, aðrar vistarverur, gerði, girðingar, umhverfi þeirra og öryggisþættir þeim tengdir séu traust og dýraheld.

Húsdýrahald.

3. gr.

Húsdýrahald, s.s. geita-, hrossa-, nautgripa-, sauðfjár- og svínahald, í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar sætir þeim takmörkunum sem koma fram í samþykkt þessari.

4. gr.

Öll lausaganga húsdýra í landi Hafnarfjarðarkaupstaðar er óheimil og skal við vörslu þeirra gæta fyllsta öryggis þar með talið öryggis fyrir umferð ökutækja eða gangandi fólks.

5. gr.

Umráðamaður húsdýra ber þann kostnað sem hlýst af handsömun, fóðrun og hýsingu þeirra skv. gjaldskrá heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis sem staðfest er af bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir 7/1998.

6. gr.

Heimilt er að innheimta árlegt leyfisgjald af húsdýraeigendum vegna almenns eftirlits sbr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gjaldtakan skal ákveðin í gjaldskrá heilbrigðiseftirlits sem staðfest er af bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar. og birt í B-deild Stjórnartíðinda.

7. gr.

Full vörsluskylda og ábyrgð er í höndum eigenda/umráðamanna húsdýra. Við flutning, rekstur og aðra útivist húsdýra skal gæta fyllsta öryggis.

8. gr.

Sauðfjárhald í Hafnarfirði er einungis heimilt þeim sem bæjarstjórn hefur veitt leyfi til þess. Leyfishafi skal vera lögráða. Bæjarstjórn er heimilt að takmarka fjölda sauðfjár einstakra eigenda sem tekur mið af húsakosti og beitilandi.

Áður en leyfi er veitt skal gengið úr skugga um að húsakostur sé fullnægjandi og hafi hlotið tilskilið leyfi byggingar- og skipulagsyfirvalda.

Leyfi er veitt til tveggja ára í senn. Sækja skal um leyfi með skriflegri umsókn til bæjarstjórnar.

9. gr.

Sauðfé skal flytja til sumarbeitar í beitarhólf í Krýsuvík, sem er fyrir sauðfé frá Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ og Sveitarfélaginu Álftanesi, samanber samning sveitarfélaganna þriggja og Landgræðslu ríkisins, dags. 22. mars 1999.

10. gr.

Hrossahald er einungis leyft í skipulögðum hesthúsahverfum sem hafa hlotið samþykki bæjarstjórnar. Hrossafjöldi fer eftir skipulagi hesthúsahverfa.

Vörsluskylda er allt árið og er hrossahald að öllu leyti á ábyrgð eigenda/umráðamanna hrossanna.

11. gr.

Bæjarstjórn getur veitt tímabundna heimild til að halda önnur húsdýr en sauðfé og hross að fenginni umsögn heilbrigðiseftirlits, skipulags- og byggingarsviðs og framkvæmdasviðs. Leyfishafi skal vera lögráða. Sækja skal um leyfi með skriflegri umsókn til bæjarstjórnar.

12. gr.

Vörsluskylda er allt árið og ber eigandi að öllu leyti ábyrgð á húsdýrum sínum. Húsdýraeigendum er skylt að tryggja húsdýr með frjálsri ábyrgðartryggingu gagnvart tjóni þriðja aðila. Vörsluskylda í beitarhólfi sbr. 9. gr. fer samkvæmt reglum um beitarhólfið.

Gæludýrahald.

13. gr.

Bæjarstjórn hefur sett samþykkt um hundahald og samþykkt um kattahald. Um gæludýrahald að öðru leyti en fram kemur í þeim samþykktum og samþykkt þessari gilda almenn ákvæði reglugerðar nr. 941/2001 um hollustuhætti.

14. gr.

Alifuglahald, s.s. dúfna-, anda-, gæsa- og hænsnahald, er einungis heimilt þeim sem bæjarstjórn hefur veitt leyfi til þess. Leyfishafi skal vera lögráða. Bæjarstjórn er heimilt að takmarka fjölda dýra og setja skilyrði varðandi hollustuhætti og mengunarvarnir.

15. gr.

Ekki þarf að sækja um heimild til að halda einstaka smá spendýr s.s. kanínur eða skrautfugla inni á heimili enda verði gætt eðlilegra hollustuhátta og tillitssemi við nágranna.

Eftirlit.

16. gr.

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis fer með eftirlit með framkvæmd samþykktarinnar fyrir hönd bæjarstjórnar skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, og lögum nr. 55/2003 um meðferð úrgangs.

17. gr.

Eftirlit skal vera reglubundið og tilfallandi þegar aðstæður krefjast, svo sem vegna eftirfylgni, kvartana óhappa eða slysa.

Sleppi húsdýr eða gæludýr frá eiganda sínum eða umsjónarmanni skal viðkomandi gera tafarlausar ráðstafanir til að handsama dýrið.

Heilbrigðiseftirlitið handsamar dýr sem ganga laus. Skylt er eigendum að sækja dýr sín og greiða áfallinn kostnað og tjón, þar með talinn kostnað við handsömun. Ef eigandi hefur ekki hirt um að sækja dýr sitt eða greiða áfallinn kostnað innan 7 daga er heimilt að svipta viðkomandi húsdýraeiganda leyfi til húsdýrahalds í Hafnarfirði þegar það á við, ráðstafa dýrinu til annars aðila eða láta aflífa það. Þegar um er að ræða hunda og ketti gilda þau ákvæði sem fram koma í samþykktum um hundahald í Hafnarfirði og um kattahald í Hafnarfirði.

18. gr.

Heilbrigðisnefnd skal halda skrá um húsdýraeigendur og fjölda leyfisskyldra húsdýra og skilar þeim upplýsingum til framkvæmdasviðs Hafnarfjarðarkaupstaðar 1. nóvember ár hvert.

19. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum eða fangelsi, ef miklar sakir eru. Með mál vegna brota á samþykkt þessari skal farið að hætti sakamála, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1998. Heimilt er að svipta húsdýraeiganda leyfi til húsdýrahalds vegna brota á samþykkt þessari.

20. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 2. júlí 2012.

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Íris Bjargmundsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 17. júlí 2012