Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 243/2020

Nr. 243/2020 23. mars 2020

AUGLÝSING
um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

1. gr.

Ákvörðun og markmið.

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við ríkisstjórnina, að setja á tímabundna takmörkun á samkomum eftir því sem hér greinir.

Markmið takmörkunarinnar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

2. gr.

Gildissvið.

Takmörkun á samkomum tekur gildi 24. mars 2020 kl. 00:01 og gildir til 12. apríl 2020 kl. 23:59.

Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.

Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

3. gr.

Fjöldatakmörkun.

Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar auglýsingar. Með fjöldasamkomum er átt við þegar 20 einstaklingar eða fleiri koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Er þá m.a. vísað til:

a. Ráðstefna, málþinga, funda o.þ.h.

b. Skemmtana, svo sem tónleika, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einkasamkvæma.

c. Kirkjuathafna hvers konar, svo sem vegna útfara, giftinga og ferminga, og annarra trúarsamkoma.

d. Annarra sambærilegra viðburða með 20 einstaklingum eða fleiri.

Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 20 einstaklingar inni í sama rými, svo sem á veitingastöðum, kaffihúsum, í mötuneytum og verslunum öðrum en matvöruverslunum og lyfjabúðum. Þessar takmarkanir eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilega starfsemi.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er matvöruverslunum og lyfjabúðum heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu að því gefnu að uppfyllt sé skilyrði 4. gr. Þá er matvöruverslunum sem eru yfir 1.000 m2 að stærð heimilt að hleypa til viðbótar einum viðskiptavin inn fyrir hverja 10 m2 umfram 1.000 m2, þó að hámarki 200 viðskiptavinum í allt.

4. gr.

Nálægðartakmörkun.

Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, m.a. þeirri sem talin er upp í 3. gr., skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

5. gr.

Lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu.

Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað á gildstíma auglýsingar þessarar. Þá skulu aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00 alla daga vikunnar.

Starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil á gildistíma auglýsingar þessarar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, t.d. skíðalyftur.

6. gr.

Þrif og sótthreinsun almenningsrýma.

Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti.

Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, m.a. við afgreiðslukassa í verslunum.

7. gr.

Takmörkun gildissviðs.

Auglýsing þessi tekur ekki til þess skólastarfs sem heimilað er í sérstakri auglýsingu um takmörkun skólastarfs. Þó skal fylgja 4. gr. eftir því sem við á og mögulegt er, einkum gagnvart eldri börnum.

Auglýsing þessi tekur ekki til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu sem ekki getur beðið.

Auglýsingin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til loftfara og skipa.

8. gr.

Undanþágur.

Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi starfsemi, svo sem raforku, fjarskipta, samgangna, heilbrigðisstarfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkviliða.

Allar undanþágur sem veittar hafa verið vegna sóttkvíar falla úr gildi og þarf að endurnýja, séu þær nauðsynlegar.

9. gr.

Gildistaka og brottfall eldri auglýsingar.

Auglýsing þessi tekur gildi eftir því sem mælt er fyrir um í 2. gr.

Á sama tíma fellur úr gildi auglýsing nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 23. mars 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

 

Ásta Valdimarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 23. mars 2020