Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 606/2018

Nr. 606/2018 17. maí 2018

REGLUR
um fjárhagslega neyðaraðstoð við íslenska ríkisborgara vegna heimferðar þeirra til Íslands.

1. gr.

Hverjir eiga rétt á aðstoð.

Aðstoð vegna heimferðar er eingöngu veitt íslenskum ríkisborgurum sem lögheimili eiga á Íslandi en staddir eru erlendis. Ef umsækjandi er staddur á einhverju hinna Norðurlandanna þá gilda reglur þessar ef það fæst staðfest að dvalarríkið greiði ekki kostnað við heimferð samkvæmt Norðurlandasamningi um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu.

Aðstoðin er eingöngu veitt í sérstökum tilvikum þegar fyrirsjáanlegt er og fullkannað að umsækjandi geti ekki nema með aðstoð íslenskra stjórnvalda ferðast heim til Íslands.

Velferðarráðuneytið veitir aðstoðina fyrir milligöngu borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofa Íslands.

2. gr.

Aðstoð sem veitt er.

Í aðstoð til heimferðar samkvæmt reglunum felst skipulagning ferðar, útvegun farseðils og greiðsla ferðakostnaðar til Íslands eða til þriðja ríkis þar sem viðkomandi getur bjargað sér á eigin vegum. Aðstoð er veitt til heimferðar á lægsta fargjaldi á almennu farrými í áætlunarflugi.

Í undantekningarvikum er heimilt að:

  a) Kaupa fargjald á dýrara farrými, sé sýnt fram á að heilsufar eða líðan umsækjanda krefjist slíks eða ef slíkt er hagstæðara.
  b) Greiða gisti- og fæðiskostnað umsækjanda á meðan leyst er úr máli hans eða beðið eftir ferð til Íslands.
  c) Greiða ferðakostnað fylgdarmanns umsækjanda.

Reglum þessum verður ekki beitt í eftirfarandi tilvikum:

  a) Til greiðslu skulda eða fjárhagslegra skuldbindinga umsækjanda í dvalarríki.
  b) Til greiðslu sekta umsækjanda vegna ólöglegrar dvalar í dvalarríki.
  c) Ef umsækjandi hefur verið úrskurðaður í farbann eða honum er samkvæmt ákvörðun stjórnvalda óheimilt að yfirgefa dvalarríkið t.a.m. sökum þess að hann er á reynslulausn úr fangelsi.
  d) Ef umsækjandi hefur þegar greitt eða fjármagnað heimferð.

3. gr.

Sjúklingar.

Ef aðstoðarbeiðni grundvallast á heilsufarsástæðum umsækjanda skal læknisvottorð fylgja umsókn.

Njóti umsækjandi heilbrigðisþjónustu í því ríki sem hann dvelur skal aðstoð eingöngu veitt ef heilbrigðisþjónustan telst óviðunandi að mati íslenskra stjórnvalda.

Áður en umsókn sjúklings er endanlega afgreidd skal liggja fyrir staðfesting læknis, sem sinnt hefur honum, um ferðafærni. Ef þörf þykir getur velferðarráðuneytið látið lækni á Íslandi meta fyrirliggjandi vottorð um ferðafærni áður en umsókn er endanlega afgreidd.

Reglur þessar taka ekki til:

  a) Sjúkrakostnaðar sem til fellur vegna sjúkdóma eða slysa.
  b) Heimferðar sjúklings ef læknisfræðilegar ástæður krefjast þess að sjúklingur ferðist til Íslands í sjúkraflugi eða í fylgd heilbrigðisstarfsmanns.

4. gr.

Upphaf máls.

Umsækjandi skal leita til sendiráðs eða ræðismanns í dvalarríki og óska eftir aðstoð. Umsækjandi getur veitt öðrum umboð til að sækja um aðstoð fyrir sína hönd. Málsmeðferð er skv. reglum þessum og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

 5. gr.

Þörf á aðstoð.

Áður en umsókn er tekin til afgreiðslu skal kanna til þrautar aðra möguleika umsækjanda til greiðslu kostnaðar vegna eigin heimferðar.

Sendiráð afli frekari gagna og upplýsinga um aðstæður umsækjanda að fengnu samþykki hans. Ef börn eru í fylgd með umsækjanda skal sérstaklega gerð grein fyrir aldri þeirra og aðstæðum í umsókn. Við meðferð umsóknar og ákvörðunartöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eða talsmann hans ef við á.

Umsókn sendist utanríkisráðuneytinu sem metur hvort skilyrði til aðstoðar, samkvæmt reglum þessum, séu uppfyllt. Utanríkisráðuneytið áframsendir því næst velferðarráðuneytinu umsóknin ásamt kostnaðaráætlun.

6. gr.

Afgreiðsla umsóknar.

Velferðarráðuneytið tekur umsókn til afgreiðslu og tilkynnir utanríkisráðuneytinu skriflega ákvörðun sína. Sé umsókn samþykkt skal tilgreina kostnaðarliði og fjárhæðir sem samþykki tekur til, sem og gildistíma þess.

Ef sannreynt er við afgreiðslu umsóknar að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt séu rangar eða villandi skal stöðva afgreiðslu umsóknar.

Utanríkisráðuneytið skal kynna umsækjanda eða umboðsmanni hans ákvörðun velferðarráðuneytis eins fljótt og unnt er. Ef umsókn er synjað skal það gert með samhliða rökstuðningi. Ákvarðanir velferðarráðuneytisins eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

7. gr.

Skipulagning ferðar.

Utanríkisráðuneytið sér um skipulagningu ferðar og farmiðakaup í samræmi við samþykki velferðarráðuneytisins og í samráði við umsækjanda eða talsmann hans ef við á.

8. gr.

Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar.

Velferðarráðuneytið endurgreiðir utanríkisráðuneytinu útlagðan kostnað samkvæmt reikningi eftir heimferð umsækjanda. Afrit af skriflegu samþykki velferðarráðuneytisins og sundurliðun ferðakostnaðar skal fylgja hverjum reikningi.

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar skv. heimild í 66. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið, og öðlast þær þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 17. maí 2018.

Ásmundur Einar Daðason
félags- og jafnréttismálaráðherra.

Ellý Alda Þorsteinsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 12. júní 2018