Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 703/2009

Nr. 703/2009 13. ágúst 2009
REGLUR
um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands.

1. gr.

Skilgreining hugtaka.

Bankadagur: Virkur afgreiðsludagur viðskiptabanka og sparisjóða frá mánudegi til föstu­dags.

Greiðslukerfi: Formlegt fyrirkomulag þriggja eða fleiri þátttakenda sem byggist á sam­eigin­legum reglum og stöðluðu fyrirkomulagi við framkvæmd greiðslufyrirmæla milli þeirra, enda hafi a.m.k. einn þátttakendanna aðalskrifstofu sína hér á landi, og greiðslu­kerfið fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru og það hefur verið viðurkennt og tilkynnt í samræmi við lög nr. 90/1999 um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum.

Heimild: Heimild þátttakanda til að mæta sveiflum innan dags í neikvæðri stöðu á stór­greiðslu­reikningi, að tilteknu hámarki, fram til þess tíma er reikningurinn er gerður upp og skuldastöðu eytt í lok hvers viðskiptadags.

Heimildarlás: Búnaður sem hindrar framkvæmd greiðslufyrirmæla þátttakanda ef hámarks­heimildarstöðu hans er náð.

Jöfnunarkerfi: Greiðslukerfi sem tekur við beiðnum frá þátttakendum um framkvæmd fyrir­mæla um greiðslur frá einum þátttakanda til annars innan kerfisins. Greiðslukerfið jafnar greiðslur, þ.e. umbreytir mörgum kröfum eða skuldbindingum í eina (nettó)kröfu eða (nettó)skuldbindingu um greiðslu eða greiðsluskyldu þátttakenda.

Jöfnunarreikningur: Reikningur þátttakanda í jöfnunarkerfi sem hann notar við stýringu á jöfnunarstöðu sinni.

Stjórn jöfnunarkerfis: Tilgreindur hópur manna sem ber ábyrgð á starfrækslu jöfnunar­kerfis með formlegum hætti, þ.m.t. að starfræksla jöfnunarkerfis sé í samræmi við reglur þessar. Sé félagsform jöfnunarkerfis hlutafélag eða einkahlutafélag telst félags­stjórn vera stjórn jöfnunarkerfis í skilningi þessara reglna.

Stórgreiðslukerfi: Greiðslukerfi Seðlabanka Íslands sem vinnur úr greiðslufyrirmælum þannig að greiðsla er því aðeins færð út af uppgjörsreikningi greiðanda og inn á upp­gjörs­reikning móttakanda að næg innstæða sé á reikningi greiðanda eða næg heimild sem samið hefur verið um og tryggð er með fullnægjandi hætti. Greiðsluuppgjör fer fram um leið og greiðsla er færð út af uppgjörsreikningi greiðanda og inn á uppgjörsreikning mót­takanda greiðslu (rauntímabrúttóuppgjör).

Stórgreiðslureikningur: Viðskipta- og uppgjörsreikningur þátttakanda í stórgreiðslukerfi.

Uppgjörsreikningur: Stórgreiðslureikningur sem notaður er við uppgjör í greiðslukerfi.

Verðbréfauppgjörskerfi: Kerfi sem staðfestir viðskiptaskilmála vegna verðbréfaviðskipta, reiknar út og ákvarðar réttindi og skyldur vegna viðskiptanna, gerir upp viðskiptin og annast vörslu verðbréfa.

Viðmiðunarverð verðbréfa: Dagslokaverð verðbréfa á síðasta viðskiptadegi fyrir við­miðunar­dag á skipulegum verðbréfamarkaði eða viðurkenndum upplýsingaveitum sem Seðla­bankinn hefur samþykkt.

2. gr.

Þátttakendur.

Seðlabankinn tekur ákvörðun um aðild nýrra þátttakenda að stórgreiðslukerfinu og úti­lokun á þátttöku aðila sem fyrir eru í kerfinu.

Þátttakendur í stórgreiðslukerfinu geta verið stofnanir, sbr. 2. tl. 2. gr. laga nr. 90/1999 um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, og þeir opinberu lánasjóðir sem Seðla­bankinn samþykkir, enda uppfylli þátttakendur að öðru leyti þátttökuskilyrði skv. 3. gr. þessara reglna.

Seðlabankinn getur samþykkt erlend fjármálafyrirtæki sem hafa staðfestu og starfsleyfi í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu sem þátttakendur í stórgreiðslukerfinu enda sé fyrir­tækið háð sambærilegu fjármálaeftirliti sem lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjár­mála­starfsemi kveða á um í heimaríkinu.

Um réttindi og skyldur annarra þátttakenda, þ.e. milligönguaðila, uppgjörsaðila, óbeinna þátttakenda og greiðslujöfnunarstöðva, fer eftir lögum nr. 90/1999 og 2. og 3. gr. þessara reglna eftir því sem við á.

Séu þátttakendur í stórgreiðslukerfinu ekki í öðrum viðskiptum við Seðlabanka Íslands, getur Seðlabankinn ákveðið hvort stórgreiðslureikningur slíkra aðila skuli vera vaxtalaus eða bera vexti sem bankinn ákveður sérstaklega.

Nú uppfyllir þátttakandi ekki lengur skilyrði skv. 2. og 3. gr. og getur Seðlabankinn þá synjað honum, án fyrirvara eða tilkynningar, um frekari þátttöku í stórgreiðslukerfinu. Sama á við ef þátttakandi brýtur reglur þessar eða ógnar stöðugleika kerfins.

Við sérstakar aðstæður getur Seðlabankinn sett þátttakanda sem ekki uppfyllir þátt­töku­skilyrði 2. og 3. gr. eða hefur brotið reglur þessar eða ógnað stöðugleika stór­greiðslu­kerfis, sérstök skilyrði fyrir áframhaldandi tímabundinni þátttöku í stór­greiðslu­kerfi. Valdi áframhaldandi þátttaka í stórgreiðslukerfi truflunum, skapar hættu eða ógnar stöðugleika á einhvern hátt er Seðlabankanum heimilt að útiloka þátttakanda frá áframhaldandi þátttöku án fyrirvara eða tilkynningar.

3. gr.

Þátttökuskilyrði.

Auk skilyrða skv. 2. gr. skulu þátttakendur uppfylla eftirtalin skilyrði fyrir þátttöku í stór­greiðslukerfinu:

 1. lúti opinberu eftirliti fjármálaeftirlitsyfirvalds á Evrópska efnahagssvæðinu,
 2. hafi gilt starfsleyfi viðkomandi eftirlitsstofnunar og uppfylli kröfur stofnunarinnar m.a. að því er varðar eiginfjárhlutfall og lausafjárhlutfall,
 3. hafi yfir að ráða nauðsynlegum tæknibúnaði vegna þátttökunnar,
 4. hafi yfir að ráða nauðsynlegri stjórnunarlegri getu og tækniþekkingu starfsmanna vegna þátttökunnar,
 5. hafi yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við þátttöku í kerfinu,
 6. hafi samið um og lagt fram fullnægjandi uppgjörstryggingar í Seðlabanka Íslands,
 7. hafi greitt eða samið um greiðslu eðlilegs þátttökugjalds.

Ákvæði 1., 2. og 6. liðar 1. mgr. eiga ekki við um Seðlabankann.

4. gr.

Fjárhæð greiðslna (stórgreiðslumörk).

Greiðslufyrirmæli að fjárhæð 10 milljónir króna eða hærri fjárhæð (stórgreiðslumörk) falla undir stórgreiðslukerfið. Greiðslufyrirmæli undir stórgreiðslumörkum falla undir jöfnunar­kerfi. Seðlabankinn getur heimilað þátttakendum að nota stórgreiðslukerfið vegna greiðslufyrirmæla undir stórgreiðslumörkum. Færslur vegna uppgjörs í jöfnunar­kerfi og verðbréfauppgjörskerfi falla undir stórgreiðslukerfið án tillits til fjár­hæða.

Á meðan stórgreiðslukerfið er lokað getur Seðlabankinn í samráði við stjórn jöfnunar­kerfis kveðið á um lægri stórgreiðslumörk en 10 milljónir króna.

Óheimilt er að skipta niður greiðslufyrirmælum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þau falli undir stórgreiðslukerfið.

5. gr.

Viðurkenning á stórgreiðslukerfinu.

Um viðurkenningu á stórgreiðslukerfinu fer eftir lögum nr. 90/1999 um öryggi greiðslu­fyrirmæla í greiðslukerfum.

6. gr.

Starfrækslutími stórgreiðslukerfis.

Stórgreiðslukerfið skal starfrækt frá kl. 9.00 til kl. 17.00 á almennum bankadögum.

Uppgjör í jöfnunarkerfi skal fara fram í stórgreiðslukerfi Seðlabankans um leið og stór­greiðslu­kerfinu hefur verið lokað kl. 17.00 á almennum bankadögum. Seðlabankinn getur heimilað fleiri en eitt uppgjör í jöfnunarkerfi innan hvers bankadags. Ákvarðanir um fjölda uppgjöra og tímasetningu þeirra eru birtar á vefsíðu Seðlabankans. Seðlabankinn getur lokað stórgreiðslukerfinu við sérstakar aðstæður.

Eftirfarandi á við um notkun stórgreiðslukerfisins utan almenns starfrækslutíma þess:

 1. Frá kl. 17.00 til kl. 17.45 á almennum bankadögum geta þátttakendur notað stór­greiðslu­kerfið til þess að ganga innbyrðis frá greiðsluuppgjöri og eyða skulda­stöðu í stórgreiðslukerfinu. Á þessum tíma skal stórgreiðslukerfið vera lokað fyrir afgreiðslu greiðslufyrirmæla er varða viðskiptamenn þátttakenda.
 2. Við sérstakar aðstæður getur Seðlabankinn opnað stórgreiðslukerfið utan almenns starfrækslutíma þess.
 3. Seðlabankinn ákveður starfrækslutíma stórgreiðslukerfisins á gamlársdag og öðrum dögum þegar bankakerfið er starfrækt hluta úr degi.

7. gr.

Greiðslufyrirmæli.

Greiðslufyrirmæli í stórgreiðslukerfinu teljast þau fyrirmæli þátttakanda, sem hafa verið móttekin í kerfinu og staðfest, að tilgreindum móttakanda séu afhentir fjármunir með því að leggja með reikningsfærslu tiltekna fjárhæð inn á reikning lánastofnunar, seðlabanka eða uppgjörsaðila, eða skuldbinda hann eða leysa hann undan skyldu til að inna af hendi greiðslu eins og það hugtak er skilgreint skv. almennum lögskýringum.

Í stórgreiðslukerfið skal skrá og varðveita þar nafn, heimilisfang og reikning greiðanda.

8. gr.

Beiðni um framkvæmd greiðslufyrirmæla.

Beiðni um framkvæmd greiðslufyrirmæla skal berast til stórgreiðslukerfisins í gegnum raf­ræna tengingu þátttakenda við kerfið.

9. gr.

Tímamark greiðslufyrirmæla.

Greiðslufyrirmæli teljast komin til stórgreiðslukerfisins þegar staðfest er með sannanlegum hætti frá kerfinu að endanlegt uppgjör hafi farið fram á viðkomandi greiðslu­fyrirmælum. Halda skal nákvæma tímaskrá yfir endanlegt uppgjör.

10. gr.

Réttaráhrif staðfestingar á móttöku greiðslufyrirmæla.

Eftir að móttaka greiðslufyrirmæla hefur verið staðfest skv. 9. gr. teljast fyrirmælin bind­andi gagnvart þriðja manni og er afturköllun þeirra óheimil eftir það tímamark.

Um réttaráhrif gjaldþrotaskipta og slita á búi þátttakanda fer samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, lögum nr. 90/1999 um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslu­kerfum og lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

11. gr.

Samningur um heimild og uppgjörstryggingar.

Þátttakandi skal gera skriflegan samning við Seðlabankann um heimild í stór­greiðslu­kerfinu sem nægir þátttakandanum til að mæta sveiflum innan dags í nei­kvæðri stöðu á stórgreiðslureikningi sínum fram til þess tíma er reikningurinn er gerður upp og skuldastöðu eytt í lok hvers viðskiptadags. Seðlabankinn gerir tillögu um fjár­hæð heimildarinnar með hliðsjón af sveiflum í stöðu viðkomandi þátttakanda síðast­liðna 12 mánuði. Skal þess gætt að viðkomandi þátttakandi hafi ávallt svigrúm til að mæta óvæntum sveiflum í greiðslustöðu.

Þátttakandi skal leggja fram nægar tryggingar fyrir uppgjöri á greiðslustöðu í stór­greiðslu­kerfinu sem Seðlabankinn metur og samþykkir. Skriflegur samningur skal gerður þar að lútandi við Seðlabankann. Fjárhæð tryggingar að teknu tilliti til frádrags skal eigi vera lægri en fjárhæð heimildar viðkomandi þátttakanda.

Þátttakanda er óheimilt að fara út fyrir umsamda heimild.

Um uppgjörstryggingar vegna heimilda í stórgreiðslukerfinu fer skv. lögum nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Seðlabankinn gefur út leiðbeinandi reglur um mat á hæfi verðbréfa til tryggingar fyrir heimildum og verðmat þeirra, sem birtar eru á vefsíðu bankans.

12. gr.

Breyting á heimild á lokunartíma stórgreiðslukerfis.

Á meðan jöfnunarkerfi er opið og stórgreiðslukerfið lokað getur Seðlabankinn heimilað að hluti af tryggingum þátttakanda vegna stórgreiðslukerfisins sé nýttur í þágu jöfnunar­kerfis. Ráðstöfun af þessu tagi skal miða að því að draga úr líkum á að heimildar­lás læsist í jöfnunarkerfi þegar stórgreiðslukerfið er lokað. Sé hluti trygginga stór­greiðslu­kerfis nýttur með þessum hætti skerðast heimildarstöður samsvarandi í stór­greiðslu­kerfinu þar til tryggingar hafa verið fluttar yfir að nýju.

13. gr.

Breyting á fjárhæð heimildar.

Seðlabankinn endurmetur fjárhæð heimildar hvers þátttakanda í febrúar og ágúst ár hvert með hliðsjón af sveiflum í stöðu viðkomandi þátttakanda síðastliðna 12 mánuði. Seðla­bankinn getur krafist tíðara endurmats heimildar.

Við endurmat heimildar skal þess gætt að viðkomandi þátttakandi hafi ávallt svigrúm til að mæta óvæntum sveiflum í greiðslustöðu. Hafi þátttakandi ítrekað fullnýtt heimild sína er honum skylt að hækka hana eða semja við Seðlabankann um greiðslu vaxta (töku dagláns) af þeirri fjárhæð sem er umfram heimild innan dags.

Þátttakandi getur óskað eftir breytingu á heimild gegn því skilyrði að tryggingar skv. 15. gr. verði í samræmi við hina breyttu fjárhæð heimildarinnar.

14. gr.

Höfnun beiðni um framkvæmd greiðslufyrirmæla.

Berist stórgreiðslukerfinu beiðni um uppgjör greiðslufyrirmæla sem myndu, ef þau yrðu gerð upp, leiða til þess að viðkomandi þátttakandi færi út fyrir heimild sína, er skylt að hafna slíkri beiðni í greiðslukerfinu og tilkynna það viðkomandi þátttakanda.

15. gr.

Hæf verðbréf til tryggingar fyrir heimildum.

Eftirfarandi verðbréf gefin út í íslenskum krónum og innlán eru hæf til tryggingar fyrir heimildum í stórgreiðslukerfi:

 1. Verðbréf gefin út af ríkissjóði Íslands.
 2. Íbúðabréf gefin út af Íbúðalánasjóði.
 3. Innstæðubréf gefin út af Seðlabanka Íslands.
 4. Bundin innlán þátttakenda í Seðlabanka Íslands.

16. gr.

Skilyrði fyrir tryggingarhæfi verðbréfa.

Verðbréf sett til tryggingar skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Útgefið markaðsvirði flokks í íslenskum krónum sé yfir 3 ma.kr. og staðfest að það magn hafi selst.
 2. Verðbréfin hafi viðskiptavaka á skipulegum verðbréfamarkaði eða viðurkenndum upplýsingaveitum sem Seðlabankinn samþykkir.
 3. Verðbréfin skulu vera rafrænt skráð í verðbréfamiðstöð sem Seðlabankinn viðurkennir.

17. gr.

Takmarkanir á tryggingarhæfi verðbréfa.

Þátttakandi ábyrgist að verðbréf lögð fram til tryggingar séu veðbanda- og kvaðalaus.

Ekki er heimilt að leggja fram víkjandi skuldabréf til tryggingar.

Verðbréf skulu valin þannig að ekki sé um að ræða verðbréf með lokagjalddaga fyrir lok samningstíma. Séu verðbréf dregin út eða falli í gjalddaga, á gildistíma heimildar þátttakanda í greiðslukerfi eða óski seljandi eftir því að fá þau afhent, skal hann leggja fram ný hæf verðbréf. Skal þá matsverð þeirra vera a.m.k. jafnhátt og matsverð hinna útdregnu eða gjaldföllnu verðbréfa.

Liggi viðmiðunarverð verðbréfa ekki fyrir á skipulegum verðbréfamarkaði eða hjá viður­kenndum upplýsingaveitum sem Seðlabankinn samþykkir, er ekki hægt að nota við­komandi verðbréf sem fjárhagslega tryggingarráðstöfun nema til komi sérstök ákvörðun Seðla­bankans.

Seðlabankinn metur tryggingarhæfi viðkomandi verðbréfa í hverju tilviki fyrir sig. Seðla­bankinn áskilur sér rétt til að hafna verðbréfum sem lögð eru fram til fjárhagslegrar tryggingarráðstöfunar leiki vafi á að uppfyllt séu skilyrði um tryggingarhæfi þeirra.

18. gr.

Verðmat tryggingarhæfra verðbréfa.

Við mat á verðmæti verðbréfa lögð fram til tryggingar fyrir heimildum í stórgreiðslukerfi Seðlabankans skal reikna frádrag frá viðmiðunarverði. Ekkert frádrag reiknast þó af innstæðubréfum Seðlabankans. Frádrag verðbréfa er birt á vefsíðu Seðlabankans í skilmálum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir við Seðlabanka Íslands.

Seðlabankinn getur ef nauðsyn krefur, t.d. vegna markaðsaðstæðna reiknað frekara frá­drag en fram kemur í skilmálum bankans.

Seðlabankanum er heimilt að hafna framkvæmd greiðslufyrirmæla í stórgreiðslukerfi náist ekki samkomulag um verðmat trygginga.

Seðlabankinn gefur út skilmála um mat á hæfi verðbréfa til tryggingar fyrir heimildum og verðmat þeirra sem birtar eru á vefsíðu bankans.

19. gr.

Viðbótartryggingar.

Seðlabankinn endurmetur reglulega verðmæti trygginga. Þar sem markaðsvirði verð­bréfa getur lækkað fyrirvaralaust getur slíkt endurmat leitt til þess að Seðlabankinn krefjist viðbótartrygginga. Kveði reglur og skilmálar settir samkvæmt þeim, á um að verð­mæti tryggingar skuli ávallt vera yfir ákveðnu lágmarki, og lækki verðmæti trygginga niður fyrir hið tilgreinda lágmark, skal þátttakandi leggja fram viðbótar­tryggingu þannig að tilgreindu lágmarki verði náð á ný.

Telji Seðlabankinn þörf á viðbótartryggingu sbr. 1. mgr. skal viðkomandi þátttakandi leggja fram fullnægjandi tryggingar innan 2ja bankadaga frá því að slík krafa er sett fram. Í undantekningartilvikum er Seðlabankanum heimilt að setja skemmri frest eða krefjast trygginga samdægurs leiði breytingar á markaðsaðstæðum til slíks. Seðla­bankinn getur lækkað tímabundið hámarksheimildarstöðu viðkomandi þátttakanda um samsvarandi fjárhæð þar til viðbótartryggingartöku er lokið.

20. gr.

Vörslur verðbréfa.

Verðbréf sem lögð eru fram til tryggingar skulu skráð hjá verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi skv. lögum nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Heimilt er að leggja fram verðbréf rafrænt skráð í erlendri verðbréfamiðstöð sem Seðlabankinn viðurkennir.

Verðbréf sem skráð eru í íslenskri verðbréfamiðstöð skulu vistuð á VS reikningi við­komandi þátttakanda í Seðlabankanum og skal sá reikningur jafnframt veðsettur Seðla­bankanum samkvæmt sérstakri yfirlýsingu þar að lútandi.

Séu verðbréf skráð í erlendri verðbréfamiðstöð skulu þau vistuð hjá vörsluaðila (reiknings­stofnun) sem Seðlabankinn viðurkennir.

Um skráningu trygginga fer skv. IV. kafla laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

21. gr.

Heimild til ráðstöfunar við uppgjörsvanefnd.

Við vanefnd þátttakanda á uppgjörsskuldbindingum í greiðslukerfum getur Seðlabankinn gengið að öllum tryggingum þátttakanda sem hann hefur sett til tryggingar uppgjörs óháð því hvort krafan varðar uppgjör í jöfnunar- eða stórgreiðslukerfi.

Seðlabankinn getur innleyst verðbréf sem sett hafa verið sem fjárhagsleg trygging og/eða nýtt reiðufé á tryggingareikningi og ráðstafað, án fyrirvara eða tilkynningar, til að ljúka uppgjöri og eyða skuldastöðu í kerfinu.

22. gr.

Tæknilegur búnaður og eftirlitskerfi með áhættu.

Þátttakendur skulu hafa yfir að ráða þeim tæknilega búnaði sem Seðlabankinn skilgreinir á hverjum tíma.

Þátttakendur skulu á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við notkun stórgreiðslukerfisins og annarra greiðslu- og verðbréfauppgjörskerfa sem þeir eru þátttakendur í.

23. gr.

Vöktun og viðbrögð vegna greiðslustöðu.

Hver þátttakandi skal hafa yfir að ráða tæknibúnaði er auðveldar vöktun greiðslustöðu.

Hverjum þátttakanda er skylt að fylgjast með greiðslustöðu sinni í stórgreiðslukerfinu í því skyni að koma tímanlega í veg fyrir að beiðni um framkvæmd greiðslufyrirmæla sé hafnað.

Þátttakanda ber að grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að hámarki heimildar sé náð.

24. gr.

Viðbúnaðaráætlun þátttakanda.

Hver þátttakandi skal þróa viðbúnaðaráætlun þar sem gerð er grein fyrir eigin við­brögðum við áföllum í starfsemi stórgreiðslukerfisins.

25. gr.

Viðbúnaðaráætlun Seðlabanka Íslands.

Seðlabankinn skal þróa viðbúnaðaráætlun þar sem gerð er grein fyrir viðbrögðum við áföllum í starfsemi stórgreiðslukerfisins.

26. gr.

Kynning á starfsemi stórgreiðslukerfisins.

Þátttakandi skal sjá til þess að starfsmenn hans hljóti nægilega fræðslu og þjálfun í notkun stórgreiðslukerfisins.

27. gr.

Gjaldskrá.

Seðlabankinn ákveður gjaldskrá vegna rekstrar og starfsemi stórgreiðslukerfisins. Færslu­gjöld skulu greidd af þeim þátttakanda sem stofnar til greiðslufyrirmæla í greiðslu­kerfinu (greiðanda). Gjaldskráin skal vera gagnsæ og aðgengileg á vefsíðu Seðla­banka Íslands.

28. gr.

Eftirlit.

Seðlabankinn hefur yfirsýn (e. oversight) með starfsemi stórgreiðslukerfisins að því er varðar öryggi þess, skilvirkni og hagkvæmni. Fjármálaeftirlitið annast eftirlit (e. supervision) með framkvæmd einstakra þátttakenda á reglum þessum.

29. gr.

Upplýsingagjöf.

Þátttakendur skulu veita Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu allar umbeðnar upp­lýsingar varðandi framkvæmd þessara reglna og tilkynna þeim um öll mikilsverð til­vik sem kunna að raska eða hafa raskað starfsemi kerfisins.

Þátttakendur skulu miðla upplýsingum um þátttöku sína í stórgreiðslukerfinu til þeirra sem þess óska og hafa lögmætra hagsmuna að gæta.

Seðlabankinn auglýsir í Lögbirtingablaði hverjir eru þátttakendur í stórgreiðslukerfinu. Auglýsa skal að nýju ef breytingar verða á þátttöku.

30. gr.

Verklagsreglur og skilmálar.

Seðlabankinn getur sett verklagsreglur og skilmála og birt á viðeigandi hátt, t.d. á vef­síðu sinni, þar sem nánar er kveðið á um:

 1. Starfsemi kerfisins, þátttökuskilyrði, útilokun þátttöku, kröfur um tæknibúnað, framkvæmd greiðslufyrirmæla og viðbúnaðaráætlun.
 2. Frádrag verðbréfa, sbr. 18. gr.
 3. Mat á hæfi verðbréfa til tryggingar fyrir heimildum og verðmat þeirra, sbr. 18. gr.
 4. Samskipti við fjármálafyrirtæki.

31. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru skv. heimild í 38. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 36/2001 um Seðla­banka Íslands, taka gildi 17. ágúst 2009. Á sama tíma falla úr gildi reglur um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands nr. 312 frá 11. apríl 2007 og nr. 953 frá 15. október 2008.

Reykjavík, 13. ágúst 2009.

Seðlabanki Íslands,

Svein Harald Øygard
seðlabankastjóri.

Tryggvi Pálsson
framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 14. ágúst 2009