Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 669/2016

Nr. 669/2016 7. júlí 2016

SAMÞYKKT
um fráveitu í Sveitarfélaginu Hornafirði.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Almennt.

Samþykkt þessi gildir um fráveitumál í Sveitarfélaginu Hornafirði og nær til allra fasteigna íbúðarhúsnæðis, sumarbústaða, stofnana og atvinnustarfsemi. Samþykktin nær til allra fráveitna, þar með talið allra mannvirkja sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem rotþróa, annarra hreinsivirkja, set- og sandskilja, fellitanka og olíu- og fitugildra. Jafnframt skulu uppfyllt ákvæði laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerða nr. 798/1999, um fráveitur og skólp, nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga, nr. 799/1999, um meðhöndlun seyru, nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns og nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns.

Bæjarstjórn felur bæjarráði rekstur fráveitumála og framkvæmd samþykktar þessarar.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, hefur heilbrigðisnefnd Austurlands eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar.

Bæjarstjórn heldur skrá yfir hreinsivirki, þ.m.t. rotþrær með siturlögnum og settanka og færir staðsetningu þeirra á skipulagsgögn sveitarfélagsins. Þeir aðilar sem sjá um hirðu og meðhöndlun seyru skulu hafa til þess tilskilin starfsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Jafnframt skal losunar- og hreinsitækni vera í samræmi við fyrirmæli Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

 

2. gr.

Markmið.

Markmið samþykktar þessarar er að:

  1. afmarka skyldur sveitarfélagsins hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir,
  2. tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæski­legum áhrifum á umhverfið,
  3. skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna og
  4. stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna.

 

3. gr.

Skilgreiningar.

Í samþykktinni eru notuð hugtök sem eru skilgreind í lögum nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna og í reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skólp.

 

II. KAFLI

Fráveitur.

4. gr.

Fráveitur.

Fráveita sveitarfélagsins er B-hluta fyrirtæki í eigu Sveitarfélags Hornafjarðar.

Sveitarfélagið ber ábyrgð á rekstri og uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Bæjarráð fer með umsjón, hönnun, framkvæmdir og rekstur fráveitna sveitarfélagsins í umboði bæjarstjórnar. Sveitarfélagið sér um og starfrækir fráveitu á Höfn og í Nesjum. Bæjararsjóður kostar rekstur fráveitna og framkvæmdir við þær. Bæjarstjórn sér um lagningu og viðhald allra fráveitulagna, þ.e. stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga, ákveður framkvæmdir við fráveitur og veitir árlega fé á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs til reksturs og framkvæmda við þær.

Sveitarfélagið getur tekið að sér fráveitur á öðrum svæðum í sveitarfélaginu en tilgreind eru í 2. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, sbr. 6.- 9. mgr. sömu greinar.

Fráveiturnar veita frárennsli fyrir húsaskólp, iðnaðarskólp, ofanvatn, frárennslisvatn, hitaveitu, kælivatn og ræsisvatn um fráveitulagnir frá byggð til viðtakanda.

Ekki er heimilt að losa í fráveitur fitu, olíur, bensín, lyf, lífræn leysiefni, önnur spilliefni, föst efni eða annað sem getur truflað eða skaðað rekstur fráveitukerfisins.

Draga skal úr magni lífræns úrgangs og fasts úrgangs inn á fráveitukerfi eftir föngum, t.d. með því að hafa ristar á niðurföllum, sandskiljur eða slógbrunna.

 

5. gr.

Uppbygging fráveitna.

Í þéttbýli skulu öll hús tengd sameiginlegri fráveitu sem rekin er af Sveitarfélaginu Hornafirði eða aðila sem bæjarstjórn hefur falið reksturinn að hluta eða öllu leyti.

Fyrir stök hús í þéttbýli sem vegna landfræðilegrar stöðu er ekki hægt að tengja inn á sameiginlega fráveitu getur heilbrigðisnefnd veitt leyfi til að setja niður rotþró með siturlögn eða annan hreinsibúnað sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Í dreifbýli þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha skal sveitarstjórn sjá til þess að skólpi sé safnað á kerfisbundinn hátt með safnkerfi, stofnlögnum og sameiginlegu hreinsikerfi.

Þar sem eru húsaþyrpingar með færri húsum en skv. 3. mgr. skal leitast við að samnýta fráveitur til hreinsunar skólps.

Þar sem eru stök hús skal fráveita leidd í stakt hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Fráveita frá salernum í gripahúsum skal leidd í hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, ásamt sigvatni frá haughúsum, skolvatni frá þvottastöðum o.þ.h. Þar sem við á skal leiða fituríkt fráveituvatn um fituskilju, t.d. frá mjólkurhúsum.

Atvinnustarfsemi í dreifbýli sem ekki getur tengst safnkerfi og sameiginlegu hreinsikerfi en losar meira en 50 pe. skal reka eigið hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Í skipulagðri frístundabyggð skal landeigandi eða félag í frístundabyggð koma á fót sameiginlegri fráveitu með hreinsivirki þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha.

Fyrir stök hús sem ekki geta tengst sameiginlegri fráveitu skal húseigandi koma fyrir rotþró með siturlögn eða öðrum hreinsivirkjum sem heilbrigðisnefnd samþykkir. Leitast skal við að hafa sameiginlega fráveitu frá skipulögðum hverfum fyrir hvers konar tómstundabúskap og hesthúsahverfi. Fráveita frá salernum skal leidd í hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögnum, ásamt sigvatni frá haughúsum og skolvatni frá þvottastöðvum.

 

6. gr.

Atvinnustarfsemi.

Frá atvinnustarfsemi skal forhreinsa fráveituvatn áður en því er hleypt inn á fráveitukerfi sveitarfélaga eða í viðtaka um eigin lagnakerfi. Atvinnustarfsemi sem ber að hafa starfsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, ber að fara eftir þeim skilyrðum um hámarksmagn mengandi efna sem sleppt er um fráveitu til viðtaka, t.d. um magn lífrænna efna, svifagnir, málma, leiðni, sýrustig o.þ.h. sem fram koma í starfsleyfum þeirra. Rekstraraðilar fyrirtækja bera fulla ábyrgð á að fylgjast með hreinsivirkjum og láta tæma þau og hreinsa reglulega, þannig að tryggt sé að þau yfirfyllist ekki, geti tekið við mengunarslysum og að virkni þeirra sé hámörkuð. Rekstraraðilar bera allan kostnað af rekstri, viðhaldi og þjónustu við hreinsivirki fráveitna. Að öðru leyti gilda almennt eftirfarandi kröfur:

  1. Við skipulag iðnaðarsvæða og atvinnuhúsnæðis er krafa um að fráveita frá gólfum og vinnslusölum sé aðskilin fráveitu frá salernum, þannig að auðvelt sé að koma fyrir hreinsivirkjum fráveitu frá vinnslu, jafnvel þótt starfsemin breytist.
  2. Í hvers konar starfsemi þar sem unnið er með olíur, olía geymd eða tekið á móti úrgangsolíu skal leiða fráveitu frá gólfum og vöskum í vinnslusal sem og fráveitu frá niðurföllum í plönum um olíuskilju. Olíuskiljur skulu hannaðar samkvæmt stöðlum um olíuskiljur nr. IST EN 1825-1:2004 og IST EN 858-2:2003. Miða skal við að hámark olíu í fráveituvatni frá olíuskiljum sé 15 ppm (= 15 mg/l).
  3. Þar sem magn olíu eða starfsemi er mjög lítil er hægt að samþykkja undanþágur frá kröfu um olíuskilju gegn því að niðurföllum sé lokað varanlega.
  4. Í matvælafyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum þar sem unnið er með fitu skal leiða fráveitu frá gólfi og vöskum í vinnslusal sem og fráveitu frá niðurföllum á plönum, ef við á, um fituskilju. Fituskiljur skulu hannaðar þannig að hámarksmagn fitu frá fituskilju sé 100 mg/l þar sem endanlegur viðtaki fráveitunnar flokkast sem síður viðkvæmur, en 50 mg/l þar sem viðtaki flokkast sem viðkvæmur.
  5. Auk efnisþátta sem fram koma í starfsleyfisskilyrðum einstakra fyrirtækja gilda eftirfarandi losunarmörk um frárennsli sem losað er inn á lagnakerfi sveitarfélaga sem eru aðilar að samþykkt þessari eða er losað eftir lögnum í eigu atvinnustarfsemi beint í viðtaka:
Mæliþáttur Síður viðkvæmur viðtaki Viðkvæmur viðtaki
Lífræn efni sem COD, mg/l O2
 1000  125
 BOD mg/l O2    25
 Svifagnir, mg/l  500  35
 Olía, mg/l  15  15
 Fita, mg/l  100  50
 Hitastig að hámarki, °C  35  35
 Sýrustig, pH meðaltal fyrir vinnsludag  6,5-10  6,5-10
 
 

7. gr.

Samveitur.

Húseigendum ber að halda aðskildu menguðu fráveituvatni (s.s. húsaskólpi, iðnaðarskólpi, skólpi frá gripahúsum) og öðru fráveituvatni (s.s. ofanvatni, kælivatni, ræsivatni, frárennslisvatni hitaveitu og því sem fer í regnvatnslögn).

Við skipulag nýrra hverfa skal hanna fráveitukerfi þannig að unnt sé að taka við menguðu fráveituvatni og leiða til skólphreinsistöðvar og öðru fráveituvatni og leiða með regnvatnslögn til viðtaka eftir viðhlítandi hreinsun, eftir því sem við á.

Í eldri hverfum skal leitast við að leggja tvöföld fráveitukerfi skv. 2. mgr. við endurnýjun lagna.

Sveitarfélagið eða aðilar sem þau fela það verkefni eru ábyrg fyrir þjónustu við sameiginlegar fráveitur, þ.e. frá lóðarmörkum. Innan lóðarmarka ber húseigandi eða umsjónamaður húss ábyrgð á lögnum og brunnum.

 

8. gr.

Minni hreinsivirki.

Rotþrær skulu uppfylla kröfur og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um stærð og siturlagnir og vera samþykktar af heilbrigðisnefnd.

Hreinsivirki önnur en rotþrær, sem geta hreinsað fráveituvatn jafn vel eða betur en rotþrær og siturlagnir, skulu samþykktar af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, eftir því sem við á.

Við stök hús skulu hreinsivirki, rotþrær og siturlagnir staðsett innan lóða a.m.k. 10 m frá húsi og a.m.k. 10 m frá lóðamörkum.

Þar sem fleiri hús eða húsaþyrpingar eru tengd inn á rotþrær og siturlagnir eða önnur hreinsivirki skal staðsetning háð leyfi í deiliskipulagi.

Aðgengi stórra bíla til tæminga á hreinsivirkjum og rotþróm skal vera gott.

Rotþrær og siturlagnir og önnur hreinsivirki skal sýna á afstöðuteikningum og á lagnateikningum húsa.

Í rotþró og önnur stök hreinsivirki skal leiða skólp, baðvatn og þvottavatn úr öllum niðurföllum innanhúss. Ekki skal leiða afrennsli frá ofnum eða afbræðslukerfum, heitum pottum, þakvatn eða annað yfirborðsvatn í rotþró og önnur stök hreinsivirki. Heimilt er að leiða sturtuvatn gegnum síur í aftasta hólf rotþróar.

Sveitarfélagið skal halda skrá yfir öll stök hreinsivirki í sveitarfélaginu, svo sem rotþrær og siturlagnir þeirra, og sjá um reglubundna tæmingu þeirra eftir þörfum að mati heilbrigðisnefndar.

Komi til bilana eða stíflna milli tæminga bera eigendur viðkomandi hreinsivirkja ábyrgð á að láta tæma þrærnar og gera við á eigin kostnað.

Eingöngu þeir sem hafa starfsleyfi samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, mega tæma rotþrær og önnur hreinsivirki og meðhöndla seyru.

 

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

9. gr.

Gjaldtaka.

Sveitarfélagið skal innheimta gjald vegna tengingar og lagningar frárennslislagna frá lóðamörkum húseigna við fráveitukerfi sveitarfélagsins. Gjaldið skal ákveðið í gjaldskrá sem bæjarrstjórn setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og birtir í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Af þeim fasteignum sem liggja við vegi, götur eða opin svæði og tengjast fráveitulögnum sveitarfélagsins skal árlega greiða fráveitugjald og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu sveitarfélagsins.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa, samkvæmt lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna.

Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar ef um eignarlóð er að ræða en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá sem bæjarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og ákvæði 25. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Fráveitugjald hvers árs skal innheimt á sama hátt og fasteignaskattur til bæjarsjóðs.

Fyrir hreinsun og tæmingu á rotþróm og öðrum stökum hreinsivirkjum skal húseigandi greiða árlegt rotþróargjald sem standa skal undir kostnaði við verkið. Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá sem bæjarstjórn setur og lætur birta í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Rotþróargjald hvers árs skal innheimt á sama hátt og fasteignaskattur til bæjarsjóðs.

Heimilt er að innheimta aukagjald af þeim húseignum þar sem um óvenju mikinn kostnað er að ræða við hreinsun og tæmingu eða þegar um sérstaka rotþró eða hreinsivirki við útihús er að ræða. Gjald þetta má þó aldrei vera hærra en svo að nemi sannanlegum kostnaði við verkið.

Bæjarstjórn er heimilt að nýta sér 7. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 17. gr. laga nr. 9/2009 um sérstök aukagjöld. Aukagjald þetta má þó aldrei vera hærra en svo að það nemi sannanlegum kostnaði við verkið. Einnig er bæjarstjórn heimilt að nýta sér heimild 7. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um niðurfellingu eða lækkun gjalda hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum.

 

10. gr.

Kvartanir og kæruleiðir.

Hafi húseigendur kvartanir fram að færa vegna tæmingar hreinsivirkja eða ófullnægjandi fráveitukerfis skal koma slíkri kvörtun á framfæri við heilbrigðisnefnd Austurlands.

Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt samþykkt þessari til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sbr. VII. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi heimildarlaga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

 

11. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunar­vanir, sbr. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og skv. 10. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, til þess að öðlast þegar gildi. Á sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 758/2008, um fráveitur í Sveitarfélaginu Hornafirði.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Fyrirtæki með gild starfsleyfi, þegar samþykkt þessi tekur gildi, sem hafa enn ekki komið sér upp fituskilju á fráveitu, sbr. 4. tölulið 6. gr., hafa til þess frest til 31. mars 2018.

Upplýsingar um rotþrær og önnur stök hreinsivirki í sveitarfélaginu þarf að skrá og taka upp þjónustu við þau eigi síðar en 1. apríl 2018.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 7. júlí 2016.

 F. h. r.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Laufey Helga Guðmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 22. júlí 2016