1. gr.
Af öllum húseignum í Mosfellsbæ sem staðsettar eru á deiliskipulögðum íbúðarsvæðum og á lögbýlum þar sem fráveituvatn húseigna er leitt í rotþrær skal greiða árlegt rotþróargjald samkvæmt gjaldskrá þessari, sem skal varið til þess að standa straum af kostnaði við hreinsun og tæmingu rotþróa í sveitarfélaginu, sbr. 18. gr. samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ, nr.1014/2010.
2. gr.
Fyrir tæmingu hverrar rotþróar, skal greiða árlega kr. 54.567 Sé ekkert mannvirki á lóð, greiðist ekki rotþróargjald. Gjalddagar rotþróargjalds skulu vera þeir sömu og bæjarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu hans.
Óski húseigandi eftir því að rotþró sé tæmd til viðbótar við reglubundna tæmingu, skal hann greiða fyrir slíka tæmingu samkvæmt reikningi losunaraðila.
3. gr.
Rotþróargjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar og ber hann ábyrgð á greiðslu gjaldsins.
Rotþróargjaldið má taka lögtaki í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Nýtur rotþróargjaldið lögveðsréttar með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði, sbr. 23. gr. í samþykkt um fráveitu Mosfellsbæjar.
4. gr.
Við álagningu árlegs rotþróargjalds getur bæjarstjórn samþykkt að nýta heimild í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, um niðurfellingu eða lækkun til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.
5. gr.
Gjaldskrá þessi sem samþykkt var af bæjarstjórn Mosfellsbæjar á 840. fundi 6. desember 2023 með vísan til samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ nr. 1014/2010, staðfestist hér með skv. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Gjaldskráin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá um sama efni nr. 1706/2022.
Mosfellsbæ, 6. desember 2023.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
|