Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 711/2012

Nr. 711/2012 13. ágúst 2012
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir Árnessýslu austan vatna.

I. KAFLI

Um afrétti og heimildir fyrir notkun þeirra.

1. gr.

Gildissvið.

Fjallskilasamþykkt þessi tekur til allra afrétta- og fjallskilamála í Árnessýslu austan vatna, þ.e. allra sveitarfélaga austan Ölfusár, Sogs, Þingvallavatns, þjóðgarðsgirðingar og varnarlínu þaðan í Þórisjökul við Hrúðurkarla. Þar með eru taldir þeir bæir í Þingvallasveit er liggja austan Þingvallavatns.

2. gr.

Um afrétti.

Þeir eiga afrétti sem að fornu hafa átt. Er hér fyrst nefndur sá hluti afréttar Þingvalla­sveitar sem liggur austan Þingvallavatns, þjóðgarðsins og sauðfjárvarnargirðingar sem liggur í Þórisjökul við Hrúðurkarla. Afréttur Grímsness afmarkast af Hrafnabjörgum, Hlíðargjá og Gatfelli í Hrúðurkarla sem vesturmörk, en að austan ráða Skefilfjöll í Sköflung um Langafell í Klakk í Langjökli. Afréttur Laugardals afmarkast af Skefilfjöllum í Klakk að vestan og að austan frá Brúarárskörðum um eldborgir í Hagafell í Langjökli. Afréttur Biskupstungna úr Brúarárskörðum að vestan um Eldborgir í Hagafell um Langjökul og síðan að norðan svo langt sem vötn ráða, en að austan úr Hofsjökli um Jökulfall og Hvítá. Afréttur Hrunamanna er að vestan milli Jökulfalls og Hvítár í Hofsjökul og úr jöklinum bein lína um Eystra-Rjúpnafell í Laxárdrög og ræður svo Stóra-Laxá austurmörkum. Afréttur Flóa- og Skeiðamanna afmarkast að vestan af áðurnefndri línu milli hans og Hrunamannaafréttar, en að austan ræður Fossá og síðan drög hennar og lína um Öræfahnjúk og Flóamannaöldu í hæstu gnípu Arnarfells. Afréttur Gnúpverja afmarkast að vestan af sömu línu, en af Þjórsá að austan. Að öðru leyti fara mörk afréttanna eftir landamerkjaskrám og fornri venju. Austasti hluti af afrétti Flóa- og Skeiðamanna er sérstaklega nefndur Skeiðamannaafréttur.

3. gr.

Um ágang af fé sem heima er á sumri.

Eigendum búfjár er skylt að gæta þess að það gangi ekki öðrum til tjóns og hafa það í tryggum girðingum. Nú verður eigandi eða ábúandi jarðar fyrir ágangi af fé sem heima er á sumri og fer inn á afgirt svæði, og getur hann þá snúið sér til sveitarstjórnar með umkvörtun en hún aðvarar hlutaðeiganda. Sinni eigandi ekki slíkri viðvörun, getur sveitarstjórn látið reka féð á afrétt eða heim til hans. Kostnað af slíkum upprekstri má innheimta hjá eiganda á sama hátt og fjallskil og er eindagi sá sami.

4. gr.

Um upprekstrarbann.

Nautpening og hross er óheimilt að reka til afréttar nema til komi samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar og/eða stjórnar afréttarmálafélags. Enginn má reka sauðfé annarra manna inn fyrir afréttargirðinguna án leyfis eiganda nema alrúið sé og markað.

5. gr.

Um gróðurvernd, uppgræðslu og ítölu á afrétti.

Sveitarstjórn og/eða stjórn afréttarmálafélags hafa í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og gróðurverndarnefnd sýslunnar eftirlit með notkun afréttar og beitarþoli. Eftirlitið skal við það miðað að land sé nytjað, svo að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta og að landspjöll séu ekki unnin að óþörfu.

Nú telur landgræðslustjóri þörf á að láta fara fram rannsókn á beitarþoli afréttar og hún leiðir í ljós að hætta sé á gróðurrýrnun eða eyðingu lands sökum ofbeitar eða náttúru­hamfara og skal þá sveitarstjórn og/eða stjórn afréttarmálafélags leita samkomu­lags við landeigendur um úrbætur. Náist ekki samkomulag er skylt að krefjast ítölu í löndin samkvæmt lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Heimilt er sveitarstjórn og/eða stjórn afréttarmálafélags að leggja fram fé til að græða upp eydd og vangróin lönd og til að bæta gróið land. Einnig skal leita álitsgjörðar landgræðslustjóra um að þess sé þörf og fyrirheit gefin um fjárframlög frá Landgræðslu ríkisins.

Telji sveitarstjórn og/eða stjórn afréttarmálafélags að afréttir þeirra verði fyrir ágangi sauðfjár af nærliggjandi afréttarlandi er þeim rétt að óska eftir rannsókn Landgræðslu ríkisins á tjóninu. Nú næst ekki samkomulag um bætur og á þá tjónþoli rétt á að sýslumaður skipi nefnd þriggja óvilhallra manna til að skera úr málinu.

6. gr.

Um yrkingu afréttar og hlunnindi.

Réttur landeiganda til að nota afréttarland sitt nær aðeins til beitar að sumrinu, en til annarra nytja afréttar og til að ljá öðrum ítölu sína þarf leyfi sveitarstjórnar og/eða stjórnar afréttarmálafélags.

Sveitarstjórn og/eða stjórn afréttarmálafélags sjá um að hlunnindi á afrétti, svo sem veiði, námur og jarðhiti, séu nýtt að eðlilegum hætti, enda gangi leigan sem greidd er fyrir notkun í viðkomandi fjallskilasjóð eða sveitarsjóð.

II. KAFLI

Um upprekstra til afrétta.

7. gr.

Um rekstrartíma.

Eigi má reka fé á afrétt fyrr en sveitarstjórn og/eða stjórn afréttarmálafélags leyfa.

8. gr.

Um reksturinn.

Reka skal hægt og gætilega og æja svo oft sem þörf gerist. Eigi má að óþörfu reka yfir engjar og aldrei æja í slægjulöndum. Eigi má skilja fé eftir í heimalöndum sem um er farið, nema brýn þörf sé til sökum þess að fé sýkist á leiðinni en þá skal láta vita um það og beðið fyrir það á næstu bæjum. Eigi má heldur hleypa óviðkomandi fé saman við rekstra. Fari fé saman við reksturinn og rekstrarmenn geti ekki skilið það frá, skal leita aðstoðar af næstu bæjum, ef í byggð eru, og er öllum skylt að veita rekstrarmönnum slíkt lið ókeypis ef unnt er. Sveitarstjórn ber hverri í sinni sveit, að greiða fyrir rekstrum haust og vor með útvegun áningarstaða og rekstrarleiða.

9. gr.

Um eftirskilið fé í heimalöndum.

Ef rekstrarmenn eða þeir sem flytja fé á bílum eða vögnum skilja fé eftir af rekstrinum í heimalöndum án ráðstöfunar, taka hlutaðeigandi bændur það til gæslu og tilkynna það jafnframt sveitarstjórn sinni. Ráðstafar hún þá fénu. Rétt er að hún láti reka féð á réttan afrétt á kostnað þeirra er féð skildu eftir, ef það hefur verið skilið eftir að nauðsynja­lausu. Liggur sá reikningur undir úrskurð sýslumanns og heimtar hann endur­gjaldið af hluteigendum, svo og ákveður sekt ef þurfa þykir.

III. KAFLI

Um fjallskil.

10. gr.

Um skyldur til fjallskila.

a.

Allir sem jörð hafa til ábúðar eða umráða, og allir sem hafa sauðfé undir höndum, eru skyldugir til að inna af höndum fjallskil eftir fyrirmælum sveitarstjórnar.

b.

Sveitarstjórn eða stjórn afréttarmálafélags reiknar út fjallskilakostnaðinn ár hvert með því að leggja í dagsverk og/eða meta til verðs vinnu þá sem þarf til smölunar afréttar og annan kostnað, fjallskilum tilheyrandi, sem hún telur nauðsynlegan. Fjallskilaseðill skal sendur út með dreifibréfi á öll lögbýli sveitar fyrir fjallferð eða kynntur gjaldþegnum í tæka tíð á einhvern sannanlegan hátt.

Oddvitar skulu hafa tilbúnar skýrslur ár hvert, þar sem skráð er landverð allra jarða í hreppnum eftir gildandi fasteignamati, að frádregnum hlunnindum og ræktun, ásamt tölu vetrarfóðraðs sauðfjár samkvæmt upplýsingum búfjáreftirlitsmanns.

c.

Oddvitar í afréttarmálafélagi Skeiða og Flóa skulu einnig leggja fram á aðalfundi félagsins skýrslu um tölu vetrarfóðraðs fjár, ásamt vottorði sveitarstjórnar um tölu þess fjár sem hver einstakur bóndi hefur, öðrum að meinalausu, í heimahögum.

d.

Af heildarfjallskilakostnaði skal að hámarki 2/3 fjallskilakostnaðarins jafnað niður á fjallskilaskyldan búpening, sem er allt vetrarfóðrað sauðfé. Einnig á hross sem á afrétti ganga með leyfi sveitarstjórnar og/eða afréttarmálafélags. Að hámarki 1/3 af kostnaði skal lagður á landverð jarða sbr. c-lið, er greiðist af ábúanda eða umráðanda sé um eyðijörð að ræða.

Ef sveitarstjórn telur sannað að sauðfjáreigandi reki ekki fé á afrétt, má hún undanþiggja fé hans fjallskilum allt af 1/3 á fjallskilaskyldan búpening. Bundið skal það þeim skilyrðum að féð valdi ekki öðrum jarðeigendum tjóni, sbr. 3. gr.

e.

Hver sá sem fjallskilaskyldur er samkvæmt d-lið er skyldur til að taka þátt í fjallskilum eftir því og á þann hátt sem sveitarstjórn skipar fyrir um, hvort sem um fjallferðir, vinnuframlög eða peningagreiðslur er að ræða. Er hver húsráðandi skyldur til að inna fjallskil af hendi fyrir heimamenn. En heimilt er honum að bera upp við sveitarstjórn aðfinningar um hvernig fjallskilum er jafnað niður á aðra eða hann sjálfan, eða einhverjum hafi ranglega verið sleppt. Skal slík kæra koma bréflega til oddvita innan fjögurra vikna frá fjallskilafundi. Sveitarstjórn leggur síðan úrskurð á kæruna. Úrskurði sveitarstjórnar um fallskilakæruna má skjóta til héraðsnefndar og skal gera það skriflega innan ársloka. Héraðsnefnd leggur síðan á næsta fundi fullnaðarúrskurð á málið.

Hafi fjallskil ekki verið greidd fyrir 1. nóvember, falla á þau dráttarvextir á sama hátt og útsvör. Fjallskilagjöld eru aðfararhæf.

Enginn sá sem fjallskil eru lögð á getur komist hjá að inna þau af hendi fyrir eindaga, þótt hann hafi kært yfir þeim og lagt það mál undir úrskurð.

Ef héraðsnefndin lækkar fjallskilin skal endurgjalda gjaldþegni það er hann hafði greitt fram yfir þá upphæð er sveitarstjórnin gerði honum að greiða.

11. gr.

Um afréttarmálafélag Flóa og Skeiða.

1.

Aðilar að félaginu eru: Sveitarfélagið Árborg, Flóahreppur og Skeiða- og Gnúpverja­hreppur.

2.

Sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna kjósa átta fulltrúa til setu á afréttar­mála­fundum, sem hér segir: Sveitarfélagið Árborg kýs tvo, Flóahreppur kýs fjóra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur tvo.

3.

Félagið heldur tvo afréttarmálafundi ár hvert, þann fyrri ekki síðar en 1. maí ár hvert. Verkefni þess fundar eru m.a.:

a)

skýrsla stjórnar og reikningar liðins árs,

b)

fjárhagsáætlun yfirstandandi árs skal lögð fram til afgreiðslu. Með henni skal fylgja tillaga til álagningar fjallskila, dagkaup fjallmanna og þóknun til stjórnar og fulltrúa á fjallskilafundi,

c)

kosnir skulu þrír menn í stjórn. Stjórnin skiptir með sér verkum, þrír menn í varastjórn og skulu þeir taka sæti í forföllum aðalmanna í röð eftir atkvæða­fjölda og síðan skal kjósa skoðunarmann reikninga og vara­skoðunar­mann. Síðari fundurinn skal haldinn í ágústmánuði og er verkefni hans að raða í leitir og ákveða tilhögun smölunar og rétta, sbr. 27. gr. samþykktar þessarar.

4.

Stjórnin fer með málefni félagsins milli afréttarmálafunda. Hún ræður fjallkónga í leitum, sbr. 12. gr. samþykktar þessarar. Hún er tengiliður við Landgræðslu ríkisins varðandi landgræðsluáætlun í tengslum við gæðastýringu í sauðfjárrækt og ákveður í samráði við hana hvenær má hefja upprekstur vor hvert.

12. gr.

Um fjallkónga.

Sveitarstjórnir og/eða stjórn afréttarmálafélags ráða fjallkónga eða umsjónarmenn leitanna, einn eða fleiri, eftir því sem hagar á hverjum stað, og getur enginn sem til þess er fær skorast undan slíkum starfa. Fjallkóngar fara eftir fyrirskipunum sveitarstjórna, það er þær ná, en í afrétti hafa þeir öll ráð og umsjón á hendi um allt er að leitunum lýtur. Þeir skipa í leitir og stjórna leitum og rekstri fjárins til rétta. Þeir hafa og, með ráði sveitarstjórna, umsjón við réttarhöldin í aðalréttum. Ef menn sýkjast í fjallleitum, ef slys verða, ef óvenjulegar hættur koma fyrir eða einhvern vanda ber að höndum, ráða fjallkóngar hvað til bragðs skuli taka, með ráði þeirra fjallmanna sem þeir treysta best. En eigi bera fjallkóngar ábyrgð á ráðstöfunum sínum nema varði við lög. Rétt er að fjallkóngar fái þóknun úr sveitarsjóði eða fjallskilasjóði. Sveitarstjórnir eða fjallkóngar ráða aðra umsjónarmenn við fjallsöfn, eftir því sem á stendur, og hafa þeir sömu skyldur og völd sem fjallkóngar, það sem verkahringur þeirra nær. Ef fjallkóngur eða leitarforingi fatlast svo í leit að hann getur ekki tilnefnt mann í sinn stað, þá kjósa leitarmenn annan. Ef ágreiningur verður þá ræður afl atkvæða og er sá rétt kjörinn sem fær flest atkvæði.

13. gr.

Um fjallmenn.

Sérhver maður sem sendur er í fjallleitir þarf að vera með fullri heilsu og verkgreind og vel útbúin að öllu leyti. Á fjallskilafundinum eða fyrir fjallferð skulu allir þeir, sem menn eiga að leggja til fjallleita, segja til um hvern mann þeir láti fara. Segir þá fjallkóngur til ef sá maður þykir eigi gildur, en sveitarstjórn sker úr ef á greinir. Vilji hlutaðeigandi ekki láta duglegri mann, ef kostur er á að fá hann, þá kaupir sveitarstjórn fjallmann á hans kostnað.

14. gr.

Um skyldur fjallmanna.

Skylt er hverjum fjallmanni að vera þar í leit, sem fjallkóngur skipar honum, sé hann til þess fær, og smala vandlega svæði það er hann skal leita. Skylt er fjallmönnum að sýna fjallkóngi sínum og öðrum þeim sem yfir þá eru skipaðir, tregðulausa hlýðni í öllu því er þeir geta. Geri þeir sig seka í óhlýðni eða einhverju ósæmilegu framferði, þá getur fjallkóngur, með ráði fjallmanna sinna, gert þá ræka. Er þá svo á að líta sem hlut­að­eigandi bóndi hafi engin fjallskil gert. Komi þetta fyrir borgi sá, er slíkan mann hefur sent, fjallskilin fullu verði.

IV. KAFLI

Um fjallleitir.

15. gr.

Um skyldu til fjallleita.

Skylt er hverju sveitarfélagi að láta fara fram tvær leitir á afrétti sínum á hverju hausti: Fjallsafn og eftirsafn.

Nú leikur grunur á að fé sé eftir á afrétti að eftirsafni loknu og getur þá sveitarstjórn eða stjórn afréttarmálafélags látið fara fram eftirleit á kostnað hlutaðeigandi fjallskilasjóðs.

16. gr.

Um tilhögun á fjallleitum.

Ekki má breyta til um leitir nema hlutaðeigandi sveitarstjórn eða afréttarmálafélagi, sbr. 11. gr., þyki ástæða til, en þó mega þær breytingar eigi koma í bága við samþykkt þessa né við hagsmuni annarra sveitarfélaga. Svo skal leitum hagað, þar sem því verður við komið, að sem minnstar misgöngur verði afrétta á milli.

17. gr.

Um leitartímann.

Í leitir skal farið svo snemma að leitarmenn, að öllu stórforfallalausu, verði komnir í aðalréttir og skilaréttir á þeim tíma, þá er þær á að halda. Farið skal til leita á afrétti Laugardals, Grímsness og Þingvallasveitar austan vatna á öðrum föstudegi í september.

18. gr.

Um leitarsvæði.

Þá staði skal leita sem að fornu hafa verið, en þó má leita víðar ef hlutaðeigandi sveitarstjórnir telja þess þörf, og er enda skylt ef víðar er von kindastöðva.

19. gr.

Um samsmölun Gnúpverja, Skeiða- og Flóamanna.

Landið fyrir innan Fjórðungssand og Norðurleitina, milli Dalsár og Kisu, smala Skeiða- og Flóamenn sameiginlega með Gnúpverjum. Tölu fjallmanna á þessu svæði ákveður afréttarmálafélag, sbr. 11. gr., í samráði við Gnúpverja, enda kosti þeir hana að jöfnum hlutum. Á þessu svæði stjórna Gnúpverjar leitum. Eftirsafn á fyrrnefndu svæði sjá Gnúpverjar um.

20. gr.

Um meðferð á annkrömuðu fé.

Þá er veikt fé eða annkramað finnst í fjallleitum, skulu þeir er fjallkóngur ákveður, koma því lifandi til byggða, ef unnt er. Að öðrum kosti skal farga því þegar í stað og dysja. Sé minnsti grunur um smitsjúkdóma í fé, skal ekki flytja það með öðru fé, og kalla skal dýralækni til eins fljótt og kostur er.

21. gr.

Um mörkun dilka á afréttum og í heimalöndum.

Hver sá sem fjallskil innir af höndum, hvort heldur við smölun afrétta eða heimalanda, skal leitast við að handsama svo fljótt sem verða má, ómerkinga sem vart kann að verða og auðkenna þá ef þeir fylgja móður.

22. gr.

Um björgun fjár.

Nú verður vart fjár í ógöngum, og er þeim þá skylt er sér, að tilkynna það oddvita viðkomandi sveitarfélaga og/eða formanni afréttarmálafélags. Skal hann þá leitast við að fá færa menn til að bjarga fénu, ef fært þykir. Sé björgun óframkvæmanleg eða of hættuleg að dómi björgunarmanna, er skylt að skjóta féð sé það unnt.

23. gr.

Um leitarmannahús.

Svo skulu vera mörg hús til skýlis fjallmönnum á afrétti hverjum og svo útbúin, sem vanir fjallmenn og aðrir kunnugir menn álíta nauðsynleg. Sveitarstjórnir og/eða stjórn afréttarmálafélags annast um byggingu og viðhald húsa og skal sá kostnaður sem af því leiðir tekinn úr fjallskilasjóði eða leitað verði til sveitarsjóða þeirra sveitarfélaga sem afréttinn eiga. Hver sem um hús gengur skal loka því tryggilega er hann fer þaðan. Ef það verður sannað á einhvern að hann hafi gegnið hirðuleysislega um hús, eða skemmt það á einhvern hátt, án brýnna nauðsynja, skal sá hinn sami bæta það að fullu.

V. KAFLI

Um réttir og réttarhöld.

24. gr.

Um skiptingu á réttum.

Sveitarstjórnir sjái um byggingu og viðhald aðalrétta og skilarétta og eru eigendur þeirra.

Réttir (lögréttir) eru aðalréttir og skilaréttir. Aðalréttir eru þær sem rekin eru til fjallsöfn úr fyrstu leit. Skilaréttir eru þær sem rekin eru til eftirsöfn eða fjársöfn úr fleiri hreppum og þær sem rekin eru til fjársöfn í hverri sveit.

25. gr.

Aðalréttir og skilaréttir.

Aðalréttir eru: Fyrir Þingvallasveit austan vatna og girðinga, Grímsnes og Laugardal: Kringlumýrarrétt. Fyrir Grímsnes: Klausturhólaréttir. Fyrir Laugardal: Laugarvatnssrétt. Fyrir Biskupstungur: Tungnaréttir. Fyrir Hrunamenn: Hrunaréttir. Fyrir Gnúpverja: Skaftholtsréttir. Fyrir Skeið og Flóa: Reykjaréttir.

Sveitarstjórn og/eða afréttarmálafélagi er heimilt að ákveða aðra staði en fram koma í 29. gr. fyrir skilaréttir.

26. gr.

Um viðhald á réttum.

Viðhald lögrétta skal kostað af sjóðum viðkomandi sveitarfélaga. Til þess að réttir séu í góðu ástandi heyrir, að þær séu nægilega rúmgóðar og löglegar, veggir vel stæðilegir og nægilega háir, og að ekki standi vatn í þeim, þótt rigningar gangi, sér í lagi ekki í almenningsréttinni, svo og að þar sé í nánd nothæft vatnsból. Dilkar séu einnig í sama standi. Grind sé í almenningsdyrum og hurð á öllum dilkdyrum. Við hverjar aðalréttir og skilaréttir skulu utansveitarmenn, þeir er eiga þar fjárvon, eiga dilka, rúmgóða og vel úr garði gerða. Skemmdir á réttum varða bótum og sektum. Sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra úthluta dilkum í réttum.

27. gr.

Um réttatímann.

Aðalréttir skulu fara fram að fjallsafni loknu sem hér segir:

Fyrir Þingvallasveit austan vatna og girðinga, Laugardal og Grímsnes: Kringlu­mýrar­rétt annan sunnudag í september.
Fyrir Grímsnes: Klausturhólaréttir annan miðvikudag í september.
Fyrir Laugardal: Laugarvatnsrétt annan sunnudag í september.
Fyrir Biskupstungur: Tungnaréttir á laugardegi á tímabilinu 11. – 17. september.
Fyrir Hrunamannahrepp: Hrunaréttir á föstudegi á tímabilinu 10. – 16. september.
Fyrir Gnúpverja: Skaftholtsréttir á föstudegi á tímabilinu 10. – 16. september.
Fyrir Flóa og Skeið: Reykjaréttir á laugardegi á tímabilinu 11. – 17. september.

Skilaréttir skulu fara fram að eftirsafni loknu, fyrir Gnúpverja, Skeiða- og Flóamenn að morgni sunnudags hálfum mánuði eftir aðalréttir, í Biskupstungum og Hrunamannahreppi daginn eftir.

Sveitarstjórn og/eða afréttarmálafélagi er heimilt að breyta skilaréttardegi ef þannig stendur á.

Sveitarstjórnum og fjallskilanefndum er heimilt að ákveða eftirsafn og skilaréttardaga á afrétti Grímsnesinga, Laugdæla og Þingvellinga.

Stjórn afréttarmálafélags og sveitarstjórnum er heimilt að taka fé frá afréttargirðingu fyrir tilsettan leitartíma, ef nauðsyn krefur.

28. gr.

Um smölun til rétta.

Smala skal vandlega heimalönd allra jarða fyrir skilarétt og koma óskilafé til rétta. Smölun fer fram daginn fyrir skilarétt.

29. gr.

Um réttun afréttarfjár og byggðasafna.

Undir eins og fé kemur af afrétti skal rétta því:

 1. Aðalsafni af afréttum Þingvellinga austan vatna og girðinga í Kringlumýrarrétt fyrst, en síðan í Klausturhólaréttum, sbr. 27. gr.
 2. Aðalsafni af afrétti Laugdæla í Laugarvatnsrétt.
 3. Aðalsafni af afrétti Biskupstungna í Tungnaréttum.
 4. Aðalsafni af afrétti Hrunamannahrepps í Hrunaréttum.
 5. Aðalsafni af afrétti Gnúpverja í Skaftholtsréttum, heimilt er að rétta safni úr austur­leit Skeiða- og Flóamanna. Þó má réttun austurleitarsafnsins ekki taka lengri tíma en tvær klukkustundir.
 6. Aðalsafni af afrétti Skeiða- og Flóamanna í Reykjaréttum.
 7. Eftirsmölun af afrétti Þingvellinga austan vatna í Mjóanesi.
 8. Eftirsmölun af Lyngdalsheiði, ásamt óskilum í heimasmölun í Klausturhólarétt.
 9. Eftirsmölun af afrétti Biskupstungna, ásamt óskilum í heimasmölun í Tungna­réttum.
 10. Eftirsmölun af afrétti Hrunamannahrepps, ásamt óskilum í heimasmölun í Hruna­réttum.
 11. Eftirsmölun af afrétti Gnúpverja, Skeiða- og Flóamanna, ásamt óskilum í heima­smölun í Skaftholtsréttum.

Á sama hátt skal rétta því fé, er sótt kynni að vera til afréttar fyrr en á venjulegum tíma, sbr. 27. gr.

30. gr.

Um dráttarskyldu í réttum.

Skylt er hverjum fjáreiganda, eða þeim sem á fjárvon í réttum, að hafa þar nægilega marga menn til að draga fé sitt, bæði í aðalréttum og skilaréttum, og hirða þar að loknum réttum það fé er þeir eiga.

31. gr.

Um lögreglu í réttum.

Allir sem til þess eru kvaddir að sjá um að draga og hirða fé í réttum, skulu vinna að því verki trúlega og kappsamlega, en ekki mega þeir draga meðan inn er rekið. Allir sem í réttir koma skulu hegða sér þar siðsamlega á allan hátt og engar óspektir gera, svo og varast að tefja þá sem þar eiga að starfa að því að hirða féð, nema brýna nauðsyn beri til.

Fjallkóngar í aðalréttum og sveitarstjórnir og/eða þeir aðilar sem sérstaklega hafa slíkt á hendi, skulu sjá um að allt er lýtur að hirðingu fjárins fari fram með reglu, en önnur umsjón hvílir á lögreglu og sveitarstjórnum.

32. gr.

Um óskilafé í réttum.

Óskilafé úr öllum réttum láta hlutaðeigandi réttarstjórnendur slátra í sláturhúsi, þegar að loknum réttum.

33. gr.

Um ómarkað sauðfé í réttum.

Ómerkinga alla er koma af afréttum eða sem koma fyrir í byggð, skal reka til allra lögrétta. Þar skal vera til sérstök rétt til þess að draga þá í. Gera skal þar með umsjón réttarstjórnenda tilraunir til þess að lambamæður helgi sér ómarkaða dilka. Þeim ómerkingum, eldri sem yngri, sem enginn getur helgað sér eða sannað eignarétt sinn á með óbrigðulum einkennum, skal slátra í sláturhúsi að loknum réttum og rennur andvirðið í fjallskilasjóð, nema öðruvísi sé um samið. Um kalineyrt fé fer sem annað óskilafé, og sömuleiðis um ómerkinga er koma fyrir eftir veturnætur.

34. gr.

Um stóðréttir.

Ef þurfa þykir skal skilarétt á hrossum haldin í hverju sveitarfélagi eigi síðar en í fyrstu viku í nóvember, eftir að fram hefur farið smölun á þeim, er búendur skulu leysa vel af hendi. Hver einstakur eigandi ber ábyrgð á að hross hans séu hirt í stóðrétt.

VI. KAFLI

Um búfjármörk og marklýsingar á óskilafénaði.

35. gr.

Um búfjármörk.

Búfjármörk eru: eyrnamörk, brennimörk, frostmerki, plötumerki í eyra og örmerki.

Sá sem tekur upp mark eða flytur inn í sveit með mark, sem er náið öðrum í sama sveitar­félagi, skal breyta marki sínu ef þess er óskað. Erfðamark og mark sem áður hefur verið notað í viðkomandi sveitarfélagi er rétthærra en nýupptekið mark að öðru jöfnu.

Allir búfjáreigendur skulu hafa merki á fé sínu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða.

36. gr.

Um ómarkað fé og illa markað.

Eigi þarf að lýsa ómerkingum þeim sem fyrir koma eftir aðalréttir og skilaréttir, né heldur því fé sem er svo kalineyrt eða brunnið á eyrum, soramarkað eða að öðru leyti svo illa markað, að markglöggir menn geta ekki gert úr markinu, og skal því slátrað sem óskilafé. En gefi eigandi sig fram og geti glögglega sannað eign sína, fær hann hana eða andvirði hennar, að kostnaði frádregnum. Sama gildir um ómörkuð eða illa mörkuð hross sem sauðfé.

Nú kemur fyrir kind eða hross með réttu marki ákveðins manns, en sá hinn sami veit sig ekki eiganda að, skal þá með fara sem óskilafé.

37. gr.

Um meðferð á óskilahrossum.

Hross sem eigandi finnst ekki að skulu jafnan talin í óskilum á hvað tíma árs sem er.

Vakta skal þau í viku og fara síðan með sem annað óskilafé. Sýslumaður auglýsir óskila­hross og selur sem óskilafénað á opinberu uppboði með 4 vikna innlausnarfresti, ef enginn finnst eigandinn. Eigandi greiðir allan áfallinn kostnað, svo sem uppboðs-, fóður- og beitarkostnað. Eigendur geta vitjað andvirðis seldra óskilahrossa innan árs frá söludegi, en að öðrum kosti færist það viðkomandi fjallskilasjóði til tekna.

38. gr.

Um haustsmalanir.

Fyrir 1. nóvember ár hvert skal almenn smölun fara fram í öllum sveitarfélögum og eigendur látnir vita um óskilafénað sem þeir skulu nálgast innan sólarhrings.

39. gr.

Um leifar andvirðis óskilafjár.

Andvirði óskilafjár, sem enginn getur helgað sér innan hins ákveðna tíma og eigi hefur gengið í marklýsingarkostnað, rennur í fjallskilasjóði hlutaðeigandi sveitarfélaga nema í Flóa og á Skeiðum. Þar skal óskipt andvirði óskilafjár, er á því svæði kemur fyrir, renna í sjóð Afréttarmálafélags Flóa og Skeiða.

VII. KAFLI

Um skil og meðferð á fénaði.

40. gr.

Um skil á fénaði.

Hverjum bónda og umráðamanni jarðar ber að hreinsa vel heimalönd sín af öllum óskilum við hverja almenningssmölun og halda öllu fé annarra sem best til skila. Bregðist fyrirskipuð smölun hjá einhverjum, án þess að lögmæt forföll komi til, varðar það sektum. Verði einhver ber að því að smala illa heimalönd sín við almenningssmölun, hefur sveitarstjórn vald til að setja tilsjónarmann við smölun hans, eða þá að láta framkvæma hana, hvort tveggja á hans kostnað. Öll vísvitandi vanskil á fénaði varða sektum, nema þau séu svo vaxin að þyngri refsing liggi við.

41. gr.

Um meðferð á fénaði.

Þess skal jafnan vandlega gæta hvenær sem fé er smalað eða rekið á milli rétta eða geymt, að fara svo vel með féð sem framast er unnt, eigi handleika það eða kvola meira en þörf gerist, eigi láta það standa inni í svelti nema sem skemmst, eigi láta verða of þröngt um það, né fara svo með það á annan hátt sem getur hrjáð það fram yfir þörf. Allar slíkar óþarfa pyntingar ber að meta sem illa meðferð á skepnum.

42. gr.

Um óþrif í fénaði.

Ef vart verður við einhver ískyggileg óþrif eða veikindi í fénaði, skal þegar taka það frá öðrum fénaði og tafarlaust tilkynna það dýralækni, ef hætta þykir á ferðum.

VII. KAFLI

Almenn ákvæði.

43. gr.

Um úrskurðarvald.

Í öllum þeim atriðum sem eigi er minnst á í samþykkt þessari, en eru samkyns eða skyld að efni, skulu sveitarstjórnir ráða því er snertir þeirra eigin sveitarfélög, þó svo það komi ekki í bága við landslög eða samþykkt þessa, né skerði skýlausan rétt annarra sveitarfélaga. Bera skuli sveitarstjórnir þau atriði er að þessu lúta, og þær hafa ástæðu að ætla að almenning varði, undir sveitunga sína, og ber þeim að taka sem mest tillit til óska almennings ef þær eru á rökum byggðar, en skera verða sveitarstjórnir úr sjálfar ef á greinir.

Héraðsnefnd ræður í þeim atriðum er hagsmunir tveggja sveitarfélag eða fleiri koma í bága hver við önnur. Þá getur hún veitt leyfi til að hér að lútandi mál, sem að lögum skal bera undir hana, séu lögð í gerð.

44. gr.

Um viðurlög.

Brot gegn ákvæðum samþykktar þessarar varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sektarféð rennur í sveitarsjóð eða fjallskilasjóð þess sveitar­félags eða fjallskilafélags sem brot er framið í. Ef brotið er framið á afrétti, skal líta svo á sem brotið sé í þeirri sveit eða sveitum sem afréttinn eiga.

45. gr.

Gildistaka.

Fjallskilasamþykkt þessi, sem héraðsnefnd Árnessýslu hefur samið og samþykkt, stað­festist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er úr gildi numin fjallskilasamþykkt nr. 408/1996 fyrir Árnessýslu austan vatna.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 13. ágúst 2012.

F. h. r.

Óskar Páll Óskarsson.

Hrafn Hlynsson.

B deild - Útgáfud.: 22. ágúst 2012