Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1663/2024

Nr. 1663/2024 20. desember 2024

REGLUGERÐ
um innheimtu og skil forvarnagjalds.

1. gr.

Álagning.

Forvarnagjald skal leggja árlega á allar húseignir sem brunatryggja skal samkvæmt lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994.

 

2. gr.

Gjaldstofn.

Forvarnagjald nemur 0,08‰ af brunabótamati húseignar samkvæmt lögum um brunatryggingar.

 

3. gr.

Innheimta.

Vátryggingafélög sem brunatryggja húseignir innheimta forvarnagjald skv. 4. gr. laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, nr. 84/2023. Gjaldið skal innheimt með iðgjöldum til Náttúru­hamfaratryggingar Íslands, skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 55/1992, og því skilað í ríkissjóð. Ef húseign er brunatryggð hjá vátryggingafélagi með starfsleyfi erlendis skal gjaldinu skilað til Fjársýslu ríkisins.

 

4. gr.

Uppgjör og gjalddagi.

Skylda til greiðslu forvarnagjalds hefst við upphaf gildistíma á grundvelli vátryggingaskírteinis brunatryggingar.

Uppgjörstímabil forvarnagjalds frá vátryggingafélögum í ríkissjóð er einn almanaksmánuður. Gjalddagi áfallinna forvarnagjalda til Fjársýslu ríkisins er fimmtándi dagur þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.

Fjársýslu ríkisins er heimilt að draga forvarnagjöld sem ekki innheimtast frá greiðslu forvarna­gjalda á næsta gjalddaga eftir að ljóst er að innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur. Innheimtist forvarnagjöld síðar skal standa skil á þeim á næsta gjalddaga, sbr. 2. mgr.

Greiði vátryggingafélag ekki forvarnagjald á gjalddaga skal félagið greiða dráttarvexti af gjald­fallinni fjár­hæð í samræmi við ákvæði vaxtalaga.

 

5. gr.

Skilamáti í ríkissjóð.

Greiðslu forvarnagjalds skal fylgja skilagrein á því formi sem Fjársýsla ríkisins ákveður.

 

6. gr.

Upplýsingagjöf vátryggingafélaga til Fjársýslu ríkisins.

Vátryggingafélög skulu veita Fjársýslu ríkisins sundurliðaðar upplýsingar um þá vátryggingar­samninga sem forvarnagjald er innheimt vegna. Upplýsingarnar skal veita á því formi sem stofnunin ákveður.

 

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 4. gr. laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanes­skaga, nr. 84/2023. Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2025.

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 20. desember 2024.

 

F. h. r.

Gunnlaugur Helgason.

Elísabet Júlíusdóttir.


B deild - Útgáfud.: 30. desember 2024