Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 995/2015

Nr. 995/2015 20. október 2015

SAMÞYKKT
um búfjárhald í Vesturbyggð.

1. gr.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórnun og eftirlit með búfjárhaldi í lögsagnar­umdæmi Vesturbyggðar. Bæjarstjórn, í samráði við atvinnu- og menningarráð Vesturbyggðar, fer með framkvæmd þessarar samþykktar.

2. gr.

Með búfjárhaldi í samþykkt þessari er átt við nautgripa-, hrossa-, sauðfjár-, svína-, kanínu-, loð­dýra-, geita- og alifuglahald, sbr. 2. gr. laga um búfjárhald o.fl. nr. 38/2013.

Búfjárhald utan lögbýla er óheimilt án leyfis bæjarstjórnar Vesturbyggðar.

3. gr.

Utan lögbýla er eigi heimilt að halda fleiri en 15 kindur eða 2 hross. Um heimild til að halda annað búfé, eða fjölga því samkvæmt ofanrituðu, þarf að semja sérstaklega. Þeir sem við gildistöku þessarar samþykktar, eiga eða hafa í umsjón sinni búfé sem fellur undir ákvæði hennar skulu til­kynna búfjárhaldið til bæjarstjórnar Vesturbyggðar innan tveggja mánaða frá gildistöku samþykktar­innar.

4. gr.

Sá sem hyggst sækja um leyfi til búfjárhalds skv. 2. gr. skal senda skriflega umsókn til bæjar­stjórnar Vesturbyggðar. Í umsókninni skal tilgreina tegund búfjár, fjölda þess, húsakost og annað er máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu.

Óheimilt er að halda búfé, nema hafa fyrir það hús sem samræmist reglugerðum um aðbúnað búfjár. Sama gildir um allt umhverfi húsanna.

Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland og fóður fyrir allt sitt búfé og hann skal tryggja góða meðferð þess.

Gangi búfé úti á vetrarbeit skal eigandi eða umráðamaður þess ábyrgjast nægilegt fóður, viðunandi skjól og örugga vörslu.

Allt búfé skal einstaklingsmerkt eigendum sínum samkvæmt lögum og reglum.

Telji bæjarstjórn að umsækjandi uppfylli þau skilyrði, sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum, veitir hún leyfið. Leyfið er gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Leyfið er háð samþykkt þessari og er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert. Ef leyfishafi brýtur ítrekað gegn lögum um búfjárhald o.fl. nr. 38/2013 eða samþykkt þessari, má svipta hann leyfi til búfjárhalds með þriggja mánaða fyrirvara.

5. gr.

Lausaganga búfjár er óheimil í þéttbýli innan Vesturbyggðar. Þéttbýlissvæðin eru Patreksfjörður og Bíldudalur, sbr. meðfylgjandi uppdrætti sem sýna afmörkun svæðanna, fylgiskjal 1 og 2.

Lausaganga stórgripa er bönnuð, sbr. reglugerð um girðingar nr. 748/2002 og reglugerð um vörslu búfjár nr. 59/2000. Öllum umráðamönnum stórgripa í sveitarfélaginu á lögbýlum og utan þeirra er skylt að hafa þá í vörslu innan gripaheldra girðinga. Þó skal veitt undanþága frá ákvæðinu þannig að lausaganga stórgripa er heimil frá 10. júní til 10. september ár hvert.

6. gr.

Vesturbyggð skuldbindur sig, í samvinnu við aðra landeigendur, að vörslulínur um þéttbýlissvæði séu fjárheildar skv. reglugerð um girðingar nr. 748/2002, og að haldið sé uppi reglubundnu eftirliti með girðingum þessum til hausts, þó með skilyrðum girðingarlaga nr. 135/2001 um rétt til kostn­aðar­skiptingar landeigenda m.m. sem eiga land að umræddum vörslulínum. Vesturbyggð hefur umsjón með að búfé sem fram kann að koma innan þéttbýlissvæða í sveitarfélaginu sé handsamað og skráð. Eiganda skal tilkynnt um gripi sína og gert að sækja þá.

Við ítrekuð brot eða hafi eigandi ekki hirt um að sækja gripi sína innan tíu daga, er heimilt að sekta fyrir áföllnum kostnaði, ef um graðpening er ræða, og/eða svipta viðkomandi, ef um er að ræða eiganda búfjár utan lögbýlis, leyfi til búfjárhalds. Um ráðstöfun gripa fer eftir lögum um búfjárhald o.fl. nr. 38/2013.

7. gr.

Við framkvæmd fjallskila að hausti gilda ekki ákvæði í þessari samþykkt heldur einungis ákvæði laga um afréttamálefni og fjallskil í Vestur-Barðastrandarsýslu.

8. gr.

Matvælastofnun fer með eftirlit með búfjárhaldi í Vesturbyggð samkvæmt lögum um velferð dýra nr. 55/2013.

9. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum. Með mál út af brotum skal farið að hætti laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga um búfjárhald o.fl. nr. 38/2013.

10. gr.

Samþykkt þessi, sem samþykkt er af bæjarstjórn Vesturbyggðar eftir tvær umræður, staðfestist hér með skv. 4. gr. laga um búfjárhald o.fl. nr. 38/2013, með síðari breytingum. Samþykktin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt um búfjárhald í Vesturbyggð nr. 538/2011 frá 17. maí 2011.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 20. október 2015.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)

 


B deild - Útgáfud.: 3. nóvember 2015