Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 422/2022

Nr. 422/2022 6. apríl 2022

REGLUR
um gerðabækur kjörstjórna og innsigli við kosningar.

I. KAFLI

Almennt ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um form, efni og löggildingu gerðabóka og um hvað kjörstjórnum er skylt að bóka í gerðabók við kosningar til Alþingis, sveitarstjórna, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur. Reglur þessar gilda einnig um gerð, merkingar og notkun embættisinnsigla við sömu kosningar.

 

 

II. KAFLI

Gerðabækur, fundargerðir og bókanir kjörstjórna.

2. gr.

Löggilding gerðabóka landskjörstjórnar, yfirkjörstjórna og umdæmiskjörstjórna.

Landskjörstjórn löggildir gerðabækur landskjörstjórnar, yfirkjörstjórna kjördæma, umdæmis­kjörstjórna og yfirkjörstjórna sveitarfélaga.

Gerðabækur sem notaðar hafa verið við kosningar fyrir gildistöku þessara reglna, skulu halda gildi sínu.

 

3. gr.

Gerðabækur hverfiskjörstjórna og undirkjörstjórna.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags lætur hverfiskjörstjórnum og undirkjörstjórnum í té gerðabækur og löggildir þær en heimilt skal yfirkjörstjórn að ákveða að hverfiskjörstjórnir eða undirkjörstjórnir noti sérstök eyðublöð eða laus blöð í stað sérstakrar gerðabókar.

 

4. gr.

Fundargerðir.

Landskjörstjórn, yfirkjörstjórnir og umdæmiskjörstjórnir skulu halda fundargerðir sem skulu ritaðar eða færðar í gerðabók. Í fundargerð skal eftirfarandi koma fram:

  1. Fundartími og fundarstaður.
  2. Nafn fundarritara.
  3. Nöfn viðstaddra fulltrúa kjörstjórnar, varamanna þeirra, áheyrnarfulltrúa og annarra þeirra sem fund sitja.
  4. Dagskrármál sem tekin eru fyrir á fundi og niðurstaða þeirra.
  5. Upplýsingar sem kjörstjórn óskar eftir að bókuð sé í fundargerð.
  6. Bókanir fulltrúa, áheyrnarfulltrúa eða annarra þeirra sem rétt eiga að lögum til bókunar.
  7. Lok fundar.

Fundargerðir skulu staðfestar og undirritaðar með eigin hendi af fulltrúum viðkomandi kjörstjórnar í lok fundar. Sé fundargerð færð í tölvu er heimilt að undirrita fundargerð með fullgildri rafrænni undirritun.

Fundargerðir sem færðar eru í tölvu eða á lausum blöðum skulu færðar inn í gerðabók kjörstjórnar eftir að þær hafa verið undirritaðar.

 

5. gr.

Bókanir landskjörstjórnar.

Landskjörstjórn skal bóka um eftirfarandi í gerðabók:

  1. Ákvarðanir um mörk kjördæma, skv. 8. gr. kosningalaga.
  2. Breytingu á fjölda kjördæmissæta, skv. 10. gr. kosningalaga.
  3. Ákvarðanir um undanþágur, skv. 35. gr. kosningalaga.
  4. Tilhögun móttöku á framboðum, skv. 1. mgr. 36. gr. og 50. gr. kosningalaga.
  5. Móttöku framboða, skv. 1. mgr. 36. gr. og 50. gr. kosningalaga.
  6. Ákvarðanir um gildi framboðslista fyrir kosningar til Alþingis, skv. 45. gr. kosningalaga.
  7. Ákvarðanir um gildi framboða til forsetakjörs, skv. 2. mgr. 50. gr. kosningalaga.
  8. Umboðsmenn framboðslista og frambjóðenda, boðun, samskipti, upplýsingagjöf og annað það sem skiptir máli, sbr. X. kafla kosningalaga.
  9. Ákvarðanir um gerð og útlit kjörfundargagna og utankjörfundargagna, skv. II. – III. kafla reglugerðar um kjörgögn.
  10. Afgreiðslu og útsendingu kjörseðla.
  11. Tilkynningu um niðurstöðu talningar við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur, skv. 107. gr. kosningalaga.
  12. Úthlutun þingsæta, skv. XVI. kafla kosningalaga.
  13. Tilkynningar og ákvarðanir vegna þjóðaratkvæðagreiðslna og forsetakjörs, skv. XVIII. kafla kosningalaga.
  14. Aðrar ákvarðanir, afgreiðslur eða upplýsingar sem varða framkvæmd kosninga samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða eðli máls.

 

6. gr.

Bókanir yfirkjörstjórna kjördæma.

Yfirkjörstjórnir kjördæma skulu bóka um eftirfarandi í gerðabók:

  1. Umboðsmenn framboðslista og frambjóðenda, boðun, samskipti, upplýsingagjöf og annað það sem skiptir máli, sbr. X. kafla kosningalaga.
  2. Móttöku kjörgagna frá landskjörstjórn.
  3. Afgreiðslu og útsendingu kjörfundargagna til yfirkjörstjórna sveitarfélaga ásamt skráningu á innsiglum þeirra.
  4. Ónotaða kjörseðla í vörslum yfirkjörstjórnar og tilhögun vörslu.
  5. Kjörsókn í kjördæminu.
  6. Móttöku utankjörfundaratkvæða, skv. 92. gr. kosningalaga.
  7. Móttöku atkvæðakassa frá yfirkjörstjórnum sveitarfélaga við flokkun atkvæða skv. 2. mgr. 99. gr. kosningalaga.
  8. Hverjum er falið að flytja kjörgögn milli staða.
  9. Flokkun atkvæða fyrir lok kjörfundar skv. 2. mgr. 99. gr. kosningalaga, þ.m.t. hvenær flokkun hefst, hvenær rými þar sem flokkun fer fram er lokað og af hverjum, viðstaddir fulltrúar yfirkjörstjórnar og umboðsmenn og hvenær rými er opnað.
  10. Lok kjörfundar og upphaf talningar.
  11. Hvaða umboðsmenn og kosningaeftirlitsmenn séu viðstaddir talningu.
  12. Móttöku atkvæðakassa og kjörgagna frá yfirkjörstjórnum sveitarfélaga eftir lok kjörfundar.
  13. Úrskurði um gildi atkvæða eða hvort utankjörfundaratkvæði eigi að taka til greina, skv. 94. og 105. gr. kosningalaga.
  14. Niðurstöður talningar og hvenær tölur eru lesnar í heyranda hljóði.
  15. Lokaniðurstöðu talningar og hvenær hún liggur fyrir.
  16. Við kosningar til Alþingis, tilkynningu um niðurstöðu talningar, skv. 107. gr. kosningalaga.
  17. Lok talningar og frágang kjörgagna.
  18. Vörslu kjörgagna eftir frágang ásamt skráningu á innsiglum.
  19. Skýrsluskil til landskjörstjórnar, skv. 106. gr. og 120. gr. kosningalaga.
  20. Eyðingu kjörgagna að loknum kosningum.
  21. Aðrar ákvarðanir, afgreiðslur eða upplýsingar sem varða undirbúning og framkvæmd kosninga samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða eðli máls.

 

7. gr.

Bókanir yfirkjörstjórna sveitarfélaga.

Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga skulu bóka um eftirfarandi í gerðabók:

  1. Móttöku kjörfundargagna frá yfirkjörstjórn kjördæmis.
  2. Afgreiðslu og útsendingu kjörfundargagna til hverfis- eða undirkjörstjórna ásamt skráningu á innsiglum þeirra.
  3. Ónotaða kjörseðla í vörslum yfirkjörstjórnar og tilhögun vörslu.
  4. Afgreiðslu og sendingarmáta atkvæðakassa til yfirkjörstjórnar við flokkun atkvæða skv. 2. mgr. 99. gr. kosningalaga.
  5. Móttöku atkvæðakassa og kjörgagna frá hverfis- og undirkjörstjórnum (ef við á) og frágang, afgreiðslu og sendingu sömu gagna til yfirkjörstjórnar kjördæmis eftir lok kjörfundar.
  6. Hverjum er falið að flytja kjörgögn milli staða.
  7. Sérstaklega skal bóka um ágreiningsatkvæði, atkvæði sem ónýtast og óvistuð atkvæði sem send eru yfirkjörstjórn.
  8. Aðrar ákvarðanir, afgreiðslur eða upplýsingar sem varða undirbúning og framkvæmd kosninga samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða eðli máls.

 

Við sveitarstjórnarkosningar skal yfirkjörstjórn sveitarfélags bóka um eftirfarandi í gerðabók:

  1. Tilhögun móttöku á framboðum í sveitarfélaginu, skv. 1. mgr. 36. gr. kosningalaga.
  2. Móttöku framboða, skv. 1. mgr. 36. gr. kosningalaga.
  3. Ákvarðanir um gildi framboðslista við kosningar í sveitarfélaginu, skv. 46. gr. kosningalaga.
  4. Úrskurði um kjörgengi frambjóðenda, skv. 48. gr. kosningalaga.
  5. Umboðsmenn framboðslista og frambjóðenda, boðun, samskipti, upplýsingagjöf og annað það sem skiptir máli, sbr. X. kafla kosningalaga.
  6. Ákvarðanir um gerð og útlit kjörfundargagna við kosningar í sveitarfélaginu skv. IV. kafla reglugerðar um kjörgögn.
  7. Móttöku utankjörfundaratkvæða, skv. 92. gr. kosningalaga.
  8. Móttöku atkvæðakassa frá hverfis- eða undirkjörstjórnum við flokkun atkvæða skv. 2. mgr. 99. gr.
  9. Flokkun atkvæða fyrir lok kjörfundar skv. 2. mgr. 99. gr. kosningalaga, þ.m.t. hvenær flokkun hefst, hvenær rými þar sem flokkun fer fram er lokað og af hverjum, viðstaddir fulltrúar yfirkjörstjórnar og umboðsmenn og hvenær rými er opnað.
  10. Kjörsókn í sveitarfélaginu.
  11. Lok kjörfundar og upphaf talningar.
  12. Hvaða umboðsmenn og kosningaeftirlitsmenn séu viðstaddir talningu.
  13. Móttöku atkvæðakassa og kjörgagna frá hverfis- eða undirkjörstjórnum eftir lok kjörfundar.
  14. Úrskurði um gildi atkvæða eða hvort utankjörfundaratkvæði eigi að taka til greina, skv. 94. og 105. gr. kosningalaga.
  15. Niðurstöður talningar og hvenær tölur eru lesnar í heyranda hljóði.
  16. Lokaniðurstöðu talningar og hvenær hún liggur fyrir.
  17. Lok talningar og frágang kjörgagna.
  18. Vörslu kjörgagna eftir frágang ásamt skráningu á innsiglum.
  19. Tilkynningar um niðurstöðu talningar, skv. 107. gr. kosningalaga.
  20. Tilkynningar til nýrra sveitarstjórnarfulltrúa og varamanna um kosningu þeirra, skv. 119. gr. kosningalaga.
  21. Eyðingu kjörgagna að loknum kosningum.
  22. Aðrar ákvarðanir, afgreiðslur eða upplýsingar sem varða undirbúning og framkvæmd kosninga samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða eðli máls.

 

8. gr.

Bókanir hverfis– og undirkjörstjórna sveitarfélaga.

Hverfis- og undirkjörstjórnir skulu bóka um eftirfarandi í gerðabók:

  1. Upphaf og lok kjörfundar.
  2. Komu umboðsmanna eða kosningaeftirlitsmanna á kjörstaðinn.
  3. Móttöku utankjörfundargagna.
  4. Afhendingu atkvæðakassa og kjörgagna til yfirkjörstjórnar.
  5. Frágang kjörgagna eftir lok kjörfundar.
  6. Annað það sem mælt er fyrir um í kosningalögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum, eða samkvæmt fyrirmælum yfirkjörstjórnar sveitarfélags.

 

III. KAFLI

Innsigli.

9. gr.

Gerð innsigla.

Landskjörstjórn lætur kjörstjórnum og kjörstjórum í té innsigli til að nota við kosningar. Atkvæðakassar, atkvæðaílát og atkvæðaumslög skulu innsigluð samkvæmt fyrirmælum reglna þessara þannig að þess sjáist merki séu þau opnuð.

Innsiglislímborði skal þannig gerður að þess sjáist merki ef innsigli er rofið eða átt er við það. Á innsiglislímborða skal vera raðtölunúmer og honum skal fylgja límborði með sama raðtölunúmeri sem kjörstjórn eða kjörstjóri bókar um og límir í gerðabók. Á innsiglislímborða skal vera nægilegt svæði fyrir dagsetningu, heiti kjörstjórnar eða kjörstjóra og nafn þess sem það skráir.

 

10. gr.

Skyldur kjörstjóra til að innsigla.

Kjörstjóri, ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn, skal innsigla atkvæðakassa fyrir atkvæðisbréf kjósanda sem greiðir atkvæði utan kjörfundar í því umdæmi þar sem hann er á kjörskrá.

Kjörstjórar skulu innsigla atkvæðakassa sem þeir nota til atkvæðagreiðslu á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum og í heimahúsum. Að lokinni slíkri atkvæðagreiðslu er kjörstjóra heimilt að rjúfa innsigli atkvæðakassa og setja atkvæðisbréf í atkvæðakassa viðkomandi sveitarfélags. Heimilt er umboðsmönnum að vera viðstaddir þessa flokkun atkvæðisbréfa.

Innsigla skal atkvæðakassa fyrir flutning þeirra til yfirkjörstjórnar kjördæmis eða yfirkjörstjórnar sveitarfélags. Kjörstjórum er heimilt að nota innsigli við aðrar aðstæður þar sem þeir telja rétt að innsigli sé notað. Skal þá um það bóka í gerðabók.

 

11. gr.

Skyldur kjörstjórna til að innsigla.

Innsigla skal ónotaða kjörseðla áður en þeir eru sendir til kjörstjórna. Séu ónotaðir kjörseðlar afhentir í órofinni vörslu þ.e. afhentir af fulltrúa einnar kjörstjórnar í hendur fulltrúa annarrar kjörstjórnar, er heimilt að afhenda kjörseðla í óinnsigluðum umbúðum.

Varðveita skal ónotaða kjörseðla sem ekki hafa verið afhentir kjörstjórnum með tryggilegum hætti, svo sem í innsigluðu íláti eða fyrir luktum dyrum sem skulu innsiglaðar.

Að lokinni flokkun yfirkjörstjórna á atkvæðisbréfum í réttar kjördeildir skv. 4. mgr. 92. gr. kosningalaga, eða ef hlé er gert á flokkun, skal innsigla ílát eða herbergi, þar sem atkvæðisbréfin eru varðveitt.

Í upphafi kjörfundar skal kjörstjórn ganga úr skugga um að atkvæðakassar hverrar kjördeildar séu tómir og þeir innsiglaðir. Við skipti á atkvæðakössum á kjörfundi skal innsigla raufar atkvæðakassa sem fara til talningar og gæta þess að nýir atkvæðakassar séu tómir og innsiglaðir.

Þegar kjörfundi hefur verið slitið skal hver undirkjörstjórn ganga frá kjörgögnum til afhendingar yfirkjörstjórnar sem annast talningu atkvæða. Innsigla skal:

  1. Raufar atkvæðakassa.
  2. Atkvæðaumslög með ónýtum kjörseðlum.
  3. Atkvæðaumslög með utankjörfundaratkvæðum sem vafi er um hvort taka eigi til greina.
  4. Atkvæðaumslög með óvistuðum atkvæðum.
  5. Atkvæðaílát eða atkvæðaumslög með ónotuðum kjörseðlum.

Eftir að kjörstjórn hefur þannig gengið frá kjörgögnum mega hin innsigluðu kjörgögn og innsigli kjörstjórnar ekki vera í vörslu sama manns.

Ef yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn atkvæðakassa óinnsiglaðan að viðstöddum umboðsmönnum.

Að talningu lokinni skal innsigla:

  1. Notaða kjörseðla og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér.
  2. Ónotaða kjörseðla.
  3. Atkvæðaumslög með ágreiningsseðlum.
  4. Kjörskrár.

Sé hlé gert á fundi yfirkjörstjórnar eða fundi hennar frestað á meðan talning stendur yfir skal innsigla notaða og ónotaða kjörseðla ásamt öðrum kjörgögnum svo sem í innsigluðu íláti eða fyrir luktum dyrum sem skulu innsiglaðar.

Kjörstjórnum er heimilt að nota innsigli við aðrar aðstæður þar sem þeir telja rétt að innsigli sé notað. Skal þá um það bóka í gerðabók.

 

12. gr.

Réttur umboðsmanna.

Umboðsmönnum er heimilt að setja innsigli sín á þá atkvæðakassa og kjörgögn sem kjörstjórn innsiglar samkvæmt kosningalögum og reglum þessum. Sama gildir um rétt umboðsmanna hvað varðar störf kjörstjóra.

Innsigli framboða skulu ekki vera merkt stjórnmálasamtökum eða framboðum.

Innsigli umboðsmanna skulu ekki skarast við innsigli kjörstjóra eða kjörstjórna.

 

IV. KAFLI

Lokaákvæði.

13. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglur þessar er settar skv. 6. mgr. 14. gr., 2. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 79. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og taka þegar gildi. Ráðherra staðfestir reglur II. kafla í samræmi við 2. mgr. 20. gr. kosningalaga.

 

Landskjörstjórn, 6. apríl 2022.

Kristín Edwald.

  Ólafía Ingólfsdóttir. Hulda Katrín Stefánsdóttir.
     
  Magnús Karel Hannesson.  Ebba Schram.

Ástríður Jóhannesdóttir
framkvæmdastjóri.

Staðfesti reglur II. kafla í samræmi við 2. mgr. 20. gr. kosningalaga nr. 112/2021:

Jón Gunnarsson.


B deild - Útgáfud.: 8. apríl 2022