Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 106/2018

Nr. 106/2018 17. janúar 2018

REGLUR
um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. reglnanna:

Á eftir 3. mgr. 5. töluliðar bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:

 1. Deildum er heimilt að innrita doktorsnema í hlutanám og er þá miðað við 50% nám. Skal námsáætlun miðast við 50% framvindu og lengist hámarksnámstími í samræmi við það. Skráning í og úr hlutanámi getur farið fram hvenær sem er á námstíma, að fengnu sam­þykki doktorsnefndar og fastanefndar deildar eða fræðasviðs. Skrásetningargjald er hið sama hvort sem nemandi er skráður í fullt nám eða hlutanám.
 2. 3. og 4. málsl. 3. mgr. 11. töluliðar orðast svo: Doktorsnefnd fundar með doktorsnema um stöðu og framvindu verkefnisins eftir því sem þurfa þykir, en þó að jafnaði ekki sjaldnar en einu sinni á ári í tengslum við skil á árlegri framvinduskýrslu. Doktorsnefndin ber jafnframt ábyrgð á framkvæmd ítarlegs mats á þekkingu doktorsnemans einu sinni á námstímanum (t.d. vörn á rannsóknaráætlun eða mat um miðbik náms (mid-term evaluation)), á þeim fræðasviðum þar sem gert er ráð fyrir slíku mati og í samræmi við reglur hverrar deildar.
 3. Á eftir 18. tölulið bætast við tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. M.Phil.-gráða.
   Komið getur í ljós á námstíma til doktorsprófs að nemandi muni ekki ljúka doktors­námi af persónulegum ástæðum, breytingum á fjármögnun verkefnis, óvið­unandi framvindu í verkefni eða af öðrum ástæðum sem nemandi og/eða doktors­nefnd meta þannig að koma muni í veg fyrir að hægt sé að ljúka verkefninu á tilsettum tíma. Doktorsnefnd getur þá mælt með því við fastanefnd deildar eða fræða­sviðs að doktorsnámi verði hætt og nemanda gefist kostur á að brautskrást með próf­gráðuna M.Phil., samkvæmt skilgreindri námsleið til M.Phil.-prófs í við­kom­andi deild. Samþykki fastanefnd tillögu doktorsnefndar hefur nemandi 12 mánuði frá ákvörðun fastanefndar til að ljúka ritgerð/verkefni sem að mati skipaðs próf­dómara stenst kröfur sem gerðar eru til M.Phil.-gráðu. Standist nemandi ekki kröfur innan tilskilinna tímamarka telst námi hætt án prófgráðu. Nemandi getur kært ákvörðun fastanefndar um breytingu á prófgráðu til deildarforseta skv. 50. gr. þessara reglna.
  2. Doktorsnafnbót eftir andlát.
   Í sérstökum tilfellum er deild heimilt að veita doktorsnafnbót eftir andlát doktors­nema. Fyrir þarf að liggja fullbúin ritgerð eða lokadrög ritgerðar sem utanað­komandi sérfræðingar geta metið hvort teljist tæk til varnar.

2. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar í samræmi við lög nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 17. janúar 2018.

Jón Atli Benediktsson.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 31. janúar 2018