Þrátt fyrir ákvæði reglna um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri nr. 921/2018 gildir eftirfarandi bókun háskólaráðs um námsmat á haustmisseri 2020:
Í ljósi takmarkana á skólastarfi vegna farsóttar er ljóst að breyta þarf fyrirkomulagi prófa sem áætluð voru á prófstöðum á haustmisseri 2020, á hér einnig við um próf sem áætluð eru á símatsdögum. Önnur próf en próf sem eru hluti af samkeppnisprófum eða þar sem fjöldatakmarkanir eru verða ekki haldin á prófstöðum vegna námsmats hausmisseris 2020. Í einstaka tilfellum geta forsetar veitt undanþágu frá þessari reglu. Fyrirkomulag lokaprófa skal liggja fyrir í síðasta lagi 2. nóvember næstkomandi. Umsjónarkennarar námskeiða ákveða tilhögun námsmats í samráði við stjórnendur á fræðasviði og verða nauðsynlegar breytingar á námsmati gerðar að höfðu samráði við fulltrúa stúdenta eftir því sem kostur er. Skal leitast við að fara eftir gildandi reglum um námsmat eftir því sem unnt er. Ef gerðar eru breytingar á fyrirkomulagi eða framkvæmd prófs eða öðru námsmati skal námsmat í endurtökupróftíð vera sambærilegt og í reglulegri próftíð.
Nemendur sem staðist hafa námsmat í námskeiði á haustmisseri 2020 geta óskað eftir að fá birtri lokaeinkunn breytt í „staðið“ á námsferli.
Gjald vegna skráningar í endurtökupróf verður ekki innheimt á haustmisseri 2020.
Samkeppnispróf verða haldin á próftökustöðum og nemendum skipt upp í hópa í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda um takmarkanir á skólastarfi vegna farsóttar. Ef allir nemendur geta ekki tekið próf á sama tíma vegna fjöldatakmarkana er heimilt að dreifa próftöku yfir daginn.
Ákvarðanir um framkvæmd prófa og námsmats eru teknar í samræmi við leiðbeiningar stjórnvalda hverju sinni og er þessi ákvörðun kynnt með það að markmiði að eyða óvissu um framkvæmd prófa á haustmisseri til þess að létta álagi af nemendum vegna aðstæðna í samfélaginu vegna COVID-19 og gera nemendum kleift að ljúka námi á haustmisseri 2020.
Auglýsing þessi, sem háskólaráð hefur samþykkt, er birt með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og taka ákvæði hennar þegar gildi.
Háskólanum á Akureyri, 26. október 2020.
Eyjólfur Guðmundsson rektor.
|