Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 318/2006

Nr. 318/2006 25. apríl 2006
REGLUR
um gjaldeyrisjöfnuð.

Með tilvísun til 13. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, svo og 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, hefur bankastjórn Seðlabankans sett eftirfarandi reglur um gjaldeyrisjöfnuð bindiskyldra lánastofnana og annarra sem leyfi hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til bindiskyldra lánastofnana sbr. gildandi reglur um bindiskyldu, nú reglur nr. 879 frá 30. september 2005 og starfa hér á landi. Einnig taka þær til aðila sem leyfi hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti frá Seðlabankanum þar sem áskilið er að leyfishafi hlíti reglum um gjaldeyrisjöfnuð.

2. gr.

Skilgreiningar.

Til gengisbundinna liða í reglum þessum skal telja eigna- og skuldaliði svo og liði utan efnahagsreiknings sem eru í erlendum gjaldmiðli og liði í íslenskum krónum ef þessir liðir eru með gengisviðmiðun.

Til nústöðu í gjaldmiðli skal telja gengisbundna eigna- og skuldaliði í viðkomandi gjaldmiðli þar með talin núviðskipti með uppgjöri innan þriggja viðskiptadaga.

Til framvirkrar stöðu í gjaldmiðli skal telja öll gengisbundin viðskipti með uppgjöri eftir þrjá eða fleiri viðskiptadaga.

Til opinnar gjaldeyrisstöðu stofnunar í einstökum gjaldmiðlum skal telja allar eignir og skuldir og liði utan efnahagsreiknings í viðkomandi gjaldmiðli þar sem stofnunin ber sjálf gjaldeyrisáhættuna.

Heildargjaldeyrisjöfnuður stofnunar er samtala þeirra gjaldmiðla þar sem opin gjaldeyrisstaða stofnunar er jákvæð (nettó gnóttstaða) að frádreginni samtölu þeirra gjaldmiðla þar sem opin gjaldeyrisstaða er neikvæð (nettó skortstaða).

Eigið fé í reglum þessum er eftir því sem við á skilgreint í eiginfjárákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum eða ákvæðum laga nr. 144/1994, um ársreikninga með síðari breytingum. Þó skal telja með eigin fé hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. samtölu ábyrgðayfirlýsinga þeirra sem einstakir sparisjóðir hafa gefið út vegna viðskiptaskuldbindinga Sparisjóðabanka Íslands hf. gagnvart erlendum lánastofnunum.

3. gr.

Útreikningur á opinni gjaldeyrisstöðu.

Eftirfarandi stöður skal taka með í útreikninginn:

  1. Nettó nústöðu, þ.e. allar eignir að frádregnum skuldum að meðtöldum áföllnum ógjaldföllnum vöxtum. Afskriftareikningur útlána skal dreginn frá eignum í þessu sambandi.
  2. Nettó framvirk staða, þ.e. staða stofnunar í framvirkum samningum, stöðluðum framvirkum samningum og gjaldmiðlaskiptasamningum að því marki sem þessir samningar eru ekki með í nettó nústöðu stofnunar. Gjaldmiðlaskiptasamninga skal meðhöndla sem eign í einum gjaldmiðli og sem skuld í öðrum.
  3. Óafturkallanlegar ábyrgðir og svipaðar skuldbindingar ef öruggt er talið að á þær reyni og ólíklegt að þær verði endurkrefjanlegar.
  4. Samanlagt nettó deltavirði af valréttarsamningum um gjaldeyri. Stofnanir sem eiga í viðskiptum með valréttarsamninga skulu reikna deltavirði í samræmi við ákvæði reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 530/2003 um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, með síðari breytingum.
  5. Markaðsvirði annarra valréttarsamninga í erlendum gjaldmiðli.

Stofnanir sem fengið hafa sérstaka heimild Fjármálaeftirlitsins geta auk ofangreindra töluliða tekið tillit til eftirfarandi við mat á gjaldeyrisstöðu sinni:

  1. Framtíðartekna og -gjalda sem enn eru ekki áfallin en eru þegar að fullu baktryggð.
  2. Staða sem stofnunin hefur beinlínis tekið til að baktryggja sig gegn óhagstæðum áhrifum gengisbreytinga gjaldmiðils á eiginfjárhlutfall svo og eignarhlutdeild í dótturfélögum sem dregin hefur verið frá við útreikninga á eigin fé. Slíkar stöður má undanskilja við mat á gjaldeyrisstöðu enda séu þær ótengdar veltubókarviðskiptum eða kerfisbundnar í eðli sínu.

Við útreikning á opinni gjaldeyrisstöðu í einstökum gjaldmiðlum er skylt að skipta upp samsettum mynteiningum eftir vægi hverrar myntar í viðkomandi mynteiningu.

4. gr.

Gjaldeyrisjöfnuður.

Gjaldeyrisjöfnuður stofnunar skal ávallt vera innan eftirfarandi marka:

  1. Opin gjaldeyrisstaða stofnunar í einstökum erlendum myntum skal hvorki vera jákvæð né neikvæð um meira en nemur 20% af eigin fé stofnunar (móðurfélags) samkvæmt síðasta birta uppgjöri.
  2. Heildargjaldeyrisjöfnuður stofnunar skal hvorki vera jákvæður né neikvæður umfram 30% af eigin fé stofnunar samkvæmt síðasta birta uppgjöri.
  3. Seðlabankinn getur veitt stofnun, sem reglur þessar taka til, heimild til að hafa sérstakan jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð utan við heildargjaldeyrisjöfnuð, sbr. 2) tl., til varnar gengisáhrifum á eiginfjárhlutfall, enda leggi hún fram greinargerð þar sem fram koma forsendur og útreikningar til ákvörðunar á stærð hans og sýni hann sérstaklega í skýrslum til Seðlabankans.

Fari gjaldeyrisjöfnuður umfram þau mörk sem hér eru tilgreind skulu stofnanir þegar grípa til aðgerða til að laga hann, og skal hann vera innan tilskilinna marka eigi síðar en innan þriggja viðskiptadaga. Takist aðila ekki með aðgerðum sínum að laga gjaldeyrisjöfnuð sinn innan greindra tímamarka er Seðlabankanum heimilt að reikna dagsektir skv. 1. mgr. 2. gr. reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú nr. 389 frá 29. maí 2002, á þá fjárhæð sem gjaldeyrisjöfnuður er umfram tilskilda fjárhæð. Um ákvörðun dagsekta, kæruheimild og innheimtu gilda eftir því sem við geta átt ákvæði 6., 7. og 8. gr. ofangreindra reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta. Bankanum er heimilt að skuldfæra reiknaðar dagsektir á viðskiptareikning hlutaðeigandi lánastofnunnar eða fyrirtækis í bankanum að liðnum a.m.k. sjö dögum frá því að ákvörðun um dagsektir var kynnt aðila sbr. 3. mgr. 6. gr. nefndra reglna.

5. gr.

Skýrsluskil.

Aðilar þeir er reglur þessar ná til skulu skila Seðlabankanum mánaðarlega skýrslum um gjaldeyrisjöfnuð á því formi sem bankinn ákveður. Skal slíkum skýrslum skilað innan 10 viðskiptadaga frá lokum hvers mánaðar. Aðilar að millibankamarkaðnum með gjaldeyri skulu þó skila daglega skýrslum sbr. gildandi reglur þar að lútandi um gjaldeyrismarkað, nú 5. gr. reglna um gjaldeyrismarkað nr. 913/2002, með síðari breytingum.

Seðlabankanum er heimilt að beita dagsektum við vanrækslu á skýrsluskilum skv. 1. mgr. á grundvelli 2. mgr. 2. gr. ofangreindra reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta. Um ákvörðun dagsekta, kæruheimild og innheimtu gilda tilvitnuð ákvæði sömu reglna eftir því sem við getur átt, sbr. 2. mgr. 4. gr. hér að framan.

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka gildi hinn 1. maí 2006. Jafnframt falla úr gildi reglur um gjaldeyrisjöfnuð lánastofnana og þeirra er leyfi hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti nr. 387 frá 29. maí 2002.

Reykjavík, 25. apríl 2006.

Seðlabanki Íslands,

 

Eiríkur Guðnason

Jón Sigurðsson

 

bankastjóri.

bankastjóri.

B deild - Útgáfud.: 26. apríl 2006