Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 41/2017

Nr. 41/2017 14. júní 2017

LÖG
um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum (bílastæðagjöld).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

    Í stað 2. mgr. 83. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Sveitarstjórn er heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum hennar, þ.m.t. á þjóðlendum innan marka sveitarfélagsins. Reglur um notkun stöðureita á landi í umráðum sveitarstjórnar þurfa samþykki lögreglustjóra. Reglur um notkun stöðureita á þjóð­lendum skulu samþykktar af ráðherra er fer með málefni þjóðlendna.

    Sveitarstjórn innheimtir gjald skv. 2. mgr. á stöðureitum á landi í umráðum hennar og á þjóð­lendum innan marka sveitarfélagsins. Samþykki ráðherra er fer með málefni þjóðlendna þarf fyrir gjaldtöku innan þeirra.

    Að fengnu samþykki ráðherra er fer með málefni ríkisjarða og lands í eigu ríkisins er ráðherra heimilt að setja reglugerð um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum ríkisins, öðru en þjóðlendum og náttúruverndarsvæðum.

    Ráðherra innheimtir gjald skv. 4. mgr. eða felur öðrum að sjá um innheimtuna með samningi.

    Fjárhæð gjalds samkvæmt þessari grein miðast við að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureita, svo sem salernisaðstöðu, og gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki. Gjaldskrá skal birta notendum á aðgengilegan hátt.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:

  1. Í stað „2. mgr. 83. gr.“ í f-lið 1. mgr. kemur: 2. og 4. mgr. 83. gr. 
  2. 2. mgr. orðast svo:
        Gjaldið skal lagt á með skriflegri tilkynningu sem fest skal við ökutækið, afhent ökumanni eða send með sannanlegum hætti til eiganda eða umráðamanns ökutækis.
  3. Í stað orðanna „varið til að gera og reka bifreiðastæði og bifreiðageymslur til almenn­ings­nota“ í 3. mgr. kemur: varið til að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita og bifreiðageymslna til almenningsnota, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðu­reita, svo sem salernisaðstöðu, gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngu­mannvirki.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 14. júní 2017.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Jón Gunnarsson.


A deild - Útgáfud.: 16. júní 2017