Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 380/2023

Nr. 380/2023 11. apríl 2023

STARFSREGLUR
stjórnar Samkeppniseftirlitsins.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

1.1. Starfsreglur þessar gilda um starfsemi stjórnar Samkeppniseftirlitsins og eru settar með vísan til 3. málsl. 3. mgr. 5. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Reglurnar fjalla um fram­kvæmd starfa stjórnar Samkeppniseftirlitsins þar sem lagafyrirmælum sleppir.
1.2. Markmið starfsreglnanna er að útfæra nánar hlutverk og verkefni stjórnar eftirlitsins og fram­kvæmd verkefna hennar - ásamt verkefnum stjórnarformanns og eftir því sem við á forstjóra og ritara stjórnar. Þá er tilgangur starfsreglnanna að tryggja jafnræði í meðferð mála og sjálfstæða og gagnsæja meðhöndlun þeirra.

 

2. gr.

Hlutverk og verkefni stjórnar.

2.1. Stjórn Samkeppniseftirlitsins fer með yfirstjórn þess skv. 2. mgr. 5. gr. samkeppnislaga. Stjórn er hluti af innra skipulagi stofnunarinnar og kemur ekki fram sem sjálfstæður aðili.
2.2. Hlutverk stjórnar Samkeppniseftirlitsins samkvæmt 3. mgr. 5. gr. samkeppnislaga er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri Samkeppniseftirlitsins. Stjórn leitast við að skilgreina árangursmælikvarða í samstarfi við forstjóra sem reglulega er fylgt eftir. Áherslur Samkeppniseftirlitsins skulu endurskoðaðar a.m.k. árlega.
2.3. Meiri háttar efnislegar ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins skal forstjóri bera undir stjórnina til samþykktar eða synjunar sbr. 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. samkeppnislaga.
2.4. Eftirtaldar ákvarðanir teljast meiri háttar:
  a) Íhlutun í málum þar sem um er að ræða ólögmætt samráð skv. 10. og 12. gr. samkeppnis­laga nr. 44/2005 og eftir atvikum 53. gr. EES-samningsins. Hið sama gildir um aðgerðir á grund­velli 16. og 37. gr. samkeppnislaga vegna slíkra brota.
  b) Íhlutun í málum þar sem um er að ræða misnotkun á markaðsráðandi stöðu skv. 11. gr. samkeppnislaga og eftir atvikum 54. gr. EES-samningsins. Hið sama gildir um aðgerðir á grundvelli 16. og 37. gr. samkeppnislaga vegna slíkra brota.
  c) Eftirfarandi ákvarðanir í málum vegna samruna fyrirtækja:
    i. Ógilding eða setning skilyrða vegna samruna skv. 17. gr. c samkeppnislaga.
    ii. Ákvörðun um að hafast ekki að vegna samruna fyrirtækja sem starfa á sama markaði og hafa samanlagt 50% markaðshlutdeild eða meira.
    iii. Aðgerðir til að leysa upp samruna, skv. 17. gr. e samkeppnislaga.
    iv. Brot á banni við að samruni komi til framkvæmda eða brot á skyldu til að tilkynna um samruna, sbr. g- og f-lið 37. gr. samkeppnislaga.
  d) Íhlutun vegna aðstæðna eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni, skv. c-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga (markaðs­rannsókn).
  e) Íhlutun gegn athöfnum opinberra aðila, skv. b-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga.
  f) Íhlutun vegna brota á sáttum eða ákvörðunum sem teknar hafa verið samkvæmt samkeppnis­lögum, sbr. a-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga. Hið sama gildir um viður­lög vegna slíkra brota, sbr. e- og h-lið 37. gr. samkeppnislaga.
  g) Beiting stjórnvaldssekta vegna brota á skyldu til að veita upplýsingar eða afhenda gögn, skv. i-lið 37. gr. samkeppnislaga.
  Bráðabirgðaákvarðanir og ákvarðanir sem ekki fela í sér efnislegar lyktir máls teljast ekki til meiri háttar ákvarðana.
2.5. Þegar til greina kemur að ljúka máli með meiri háttar efnislegri ákvörðun skal málið kynnt stjórn á meðan á málsmeðferð þess stendur í því augnamiði að tryggja vandaða máls­meðferð. Stjórn kallar eftir gögnum málsins eftir því sem ástæða þykir til.
2.6. Stjórn getur einnig óskað eftir því að önnur mál verði kynnt í stjórn ef hún telur tilefni til.
2.7. Áður en reglur á grundvelli samkeppnislaga eru settar skal stjórn fjalla um efni þeirra og eiga þess kost að gera athugasemdir. Reglur sem Samkeppniseftirlitið setur skulu yfirfarnar í samráði við stjórn á þriggja ára fresti.Stjórn samþykkir skipurit fyrir Samkeppniseftirlitið.
2.8. Forstjóri skal leggja rekstraráætlun komandi árs fyrir stjórn til samþykktar og annast samskipti við ráðuneyti og Alþingi vegna fjárveitinga til stofnunarinnar. Rekstraráætlun skal byggja á fjárlaga­heimildum hverju sinni og samþykktum áherslum í starfi stofnunarinnar skv. grein 2.2. Rekstrar­áætlun skal endurskoðuð þegar tilefni er til og eigi sjaldnar en einu sinni á hverju starfsári.
2.9. Drög að ársskýrslu skulu kynnt fyrir stjórn áður en hún er birt.
2.10. Stjórnarmenn skulu kynna sér lög og reglur er gilda um rekstur og starfsemi Samkeppnis­eftirlitsins og hafa skilning á hlutverki og ábyrgð sinni sem stjórnarmenn.
2.11. Í störfum sínum skulu stjórnarmenn:
  a) Verja nægjanlegum tíma til að sinna stjórnarstörfum af kostgæfni.
  b) Óska eftir og kynna sér öll gögn og upplýsingar sem þeir telja sig þurfa til að hafa full­nægjandi skilning á rekstri og starfsemi Samkeppniseftirlitsins.
  c) Stuðla að góðum starfsanda og samvinnu innan stjórnar.
  d) Taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig.
  e) Gæta að trúnaði við og þagnarskyldu gagnvart Samkeppniseftirlitinu.
  f) Koma í veg fyrir að málefni þeirra eða tengdra aðila, hvort heldur persónuleg eða viðskipta­­tengd, leiði til beinna eða óbeinna hagsmunaárekstra á milli þeirra, Samkeppnis­eftirlitsins og/eða þriðju aðila sem tengjast einstökum málum sem til umfjöllunar eru hjá Samkeppnis­eftirlitinu.
2.12. Stjórn leggur reglulega mat á störf sín, verklag og starfshætti. Slíkt mat felur m.a. í sér að stjórn leggi mat á styrkleika og veikleika í störfum og verklagi og hugi að þeim atriðum sem hún telur að betur megi fara.
2.13. Stjórn, í samráði við forstjóra, ákveður hvort halda skuli ársfund Samkeppniseftirlitsins.

 

3. gr.

Skipting starfa innan stjórnar.

3.1. Ráðherra skipar þriggja manna stjórn og þrjá varamenn til fjögurra ára í senn, auk þess að skipa formann stjórnar, sbr. 2. mgr. 5. gr. samkeppnislaga. Á fyrsta fundi eftir skipan stjórnar velur hún fyrsta og annan varaformann stjórnar úr hópi aðalmanna. Hafi annar þeirra setið lengur í stjórn eftirlitsins ræður starfsaldur valinu. Á fundinum velur stjórn einnig ritara stjórnar, sem heimilt er að velja utan hóps stjórnarmanna, s.s. úr hópi starfs­liðs Samkeppnis­eftirlitsins.

 

4. gr.

Hlutverk og verkefni stjórnarformanns.

4.1. Formaður stjórnar hefur forgöngu um að stjórn gegni hlutverki sínu með skilvirkum og skipu­lögðum hætti.
4.2. Helstu hlutverk stjórnarformanns eru að:
  a) Hafa forgöngu um gerð starfsáætlunar stjórnar.
  b) Boða til stjórnarfunda.
  c) Útbúa fundardagskrá í samstarfi við forstjóra og ritara stjórnar fyrir hvern stjórnar­fund.
  d) Sjá til þess að verkefni stjórnar, m.a. skv. starfsáætlun hennar, séu tekin til umfjöll­unar eftir því sem við á og tilefni gefst til.
  e) Stýra stjórnarfundum og tryggja að nægur tími sé gefinn til umræðna og ákvarðanatöku, sérstaklega hvað varðar stærri og flóknari mál.
  f) Stuðla að virkri þátttöku allra stjórnarmanna í umræðu og ákvarðanatöku.
  g) Hafa forgöngu um að stjórn starfi samkvæmt starfsreglum sínum, starfsáætlun hennar og góðum stjórnarháttum, ásamt reglulegri endurskoðun þar á.
  h) Sjá til þess að nýir stjórnarmenn fái nauðsynlegar upplýsingar og leiðsögn í starfs­háttum stjórnar og málefnum Samkeppniseftirlitsins, m.a. um hlutverk þess, stefnu, markmið og starfsemi.
  i) Fylgjast með framvindu ákvarðana stjórnar innan Samkeppniseftirlitsins.
  j) Hafa yfirsýn yfir verkefni stjórnar er varða innra eftirlit og innri endurskoðun.
  k) Vera talsmaður stjórnar út á við.

 

5. gr.

Ráðning og hlutverk forstjóra.

5.1. Stjórn Samkeppniseftirlitsins ræður forstjóra stofnunarinnar til fimm ára og ber hann ábyrgð gagnvart stjórn. Ráðningartíma forstjóra má framlengja um önnur fimm ár, sbr lög nr. 103/2020. Kjör forstjóra eru ákveðin í samræmi við fyrirmæli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, um ákvörðun launa forstöðumanna ríkisstofnana.
5.2. Aðstoðarforstjóri er staðgengill forstjóra. Forstjóri skal tilkynna stjórn um hver gegna skuli starfi aðstoðarforstjóra og skal sú skipan bókuð í fundargerð stjórnar.
5.3. Við ráðningu forstjóra er gerður skriflegur ráðningarsamningur.
5.4. Stjórn setur forstjóra starfslýsingu sem hann skal staðfesta. Starfslýsing forstjóra skal endur­skoðuð reglulega.
5.5. Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, kemur fram fyrir hennar hönd og tekur ákvarðanir fyrir hönd hennar um annað en það sem stjórnin tekur ákvarðanir um samkvæmt lögum og reglum þessum. Þá ber forstjóri meiri háttar efnislegar ákvarðanir undir stjórn til samþykktar eða synjunar og annast upplýsingagjöf til stjórnar skv. ákvæði 2.3, sbr. ákvæði 2.4.
5.6. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar.
5.7. Forstjóri er ábyrgur fyrir meðferð mála, en í því felst m.a. að taka ákvörðun um rannsóknir, stýra samskiptum við aðila máls og leiða mál til lykta, e.a. með því að bera ákvarðanir undir stjórn til samþykktar eða synjunar.
5.8. Forstjóri annast samskipti við stjórn er varða eftirlitsskyldur hennar, innra eftirlit og innri endurskoðun.

 

6. gr.

Fyrirkomulag stjórnarfunda.

6.1. Stjórn fundar að jafnaði mánaðarlega eða oftar þegar ástæða er til og í samræmi við reglur þessar.
6.2. Stjórn semur starfsáætlun vegna reglulegra funda á starfsári hennar, þar sem tilgreindar eru dag- og tímasetningar reglulegra funda. Í starfsáætlun skal helstu verkefnum stjórnar raðað á dagskrá eftir því sem við á. Verði því við komið skulu frávik frá samþykktri starfs­áætlun útskýrð þegar dagskrá er send stjórn.
6.3. Á reglulegum stjórnarfundum skulu eftirfarandi mál að jafnaði tekin fyrir:
  a) Fundargerð síðasta fundar.
  b) Samantekt forstjóra um starfsemi Samkeppniseftirlitsins og mál sem til meðferðar eru hjá eftirlitinu.
  c) Önnur upplýsingagjöf forstjóra til stjórnar samkvæmt starfslýsingu hans.
6.4. Að öðru leyti fer um verkefni stjórnar og fundi samkvæmt starfsáætlun hennar, sbr. ákvæði 6.2.
6.5. Nú telur formaður ekki stætt á því vegna sérstakra aðstæðna að bíða þess að haldinn verði reglulegur stjórnarfundur og getur hann þá tekið ákvörðun um að stjórn haldi símafund eða að málefnið verði kynnt og tekið fyrir af stjórn skriflega, rafrænt eða símleiðis. Ákvarðanir sem þannig eru teknar skulu lagðar fyrir næsta fund til staðfestingar í fundargerð.
6.6. Formanni ber að kalla saman fund ef stjórnarmaður eða forstjóri krefst þess.
6.7. Stjórnarmenn skulu tilkynna forföll eins fljótt og kostur er. Ef forföll eru boðuð skal for­maður taka ákvörðun um hvort fundur verði engu að síður haldinn, enda haldi stjórn álykt­unar­hæfi sínu skv. ákvæði 7.1., en ella skal fundi frestað.
6.8. Varamenn sitja stjórnarfundi og taka þátt í umræðum en hafa ekki tillögurétt né rétt til greiðslu atkvæða nema þeir taki sæti í forföllum aðalmanna skv. ákvæði 6.9.
6.9. Varamaður tekur sæti fyrir tiltekinn stjórnarmann og ræður röð stjórnarmanna og vara­manna í skipunarbréfi ráðherra því fyrir hvern varamaður tekur sæti. Sé viðkomandi vara­maður ekki tiltækur skal boða annan í hans stað, í starfsaldursröð. Fyrsti varaformaður gegnir hlutverki formanns í forföllum formanns nema hann sé einnig forfallaður en þá gegnir annar vara­formaður hlutverki formanns. Nú eru allir aðalmenn forfallaðir og gegnir þá vara­maður formanns hlutverki formanns stjórnar.
6.10. Fundir skulu haldnir á skrifstofu Samkeppniseftirlitsins. Í sérstökum tilvikum má halda fund annars staðar telji formaður efni fundarins eða aðrar ástæður gefa tilefni til. Stjórnar­mönnum er heimilt að taka þátt í stjórnarstörfum símleiðis eða með fjarfundar­búnaði og skal þess þá getið í fundargerð.
6.11. Dagskrá fundar skal tilkynnt með minnst 4 virkra daga fyrirvara. Komi upp aðkallandi aðstæður er þó heimilt að boða fund með styttri fyrirvara. Stjórnarmenn skulu snúa sér til stjórnarformanns með mál sem þeir óska að verði tekið á dagskrá stjórnarfundar. Í dagskrá funda skulu koma fram þau mál sem tekin verða til umfjöllunar og áætlaður skal tími á hvern dagskrárlið.
6.12. Skrifleg fundargögn sem varða fyrirhugaða ákvörðun stjórnar skulu send stjórnarmönnum að jafnaði 4 virkum dögum fyrir fund eða gerð aðgengileg með rafrænum hætti, nema formaður ákveði annað í sérstökum tilvikum. Varði mál meiri háttar efnislega ákvörðun skv. ákvæði 2.4 skulu gögn hins vegar kynnt með a.m.k. 6 virkra daga fyrirvara verði því við komið.
6.13. Leggja skal skriflega fyrir stjórn mál til ákvörðunar og mál borið undir stjórn til samþykktar eða synjunar.
6.14. Mál skal almennt ekki borið upp til ákvörðunar á stjórnarfundi nema því aðeins að stjórnar­menn hafi fengið gögn málsins eða fullnægjandi upplýsingar um það fyrir fundinn og haft tíma til að kynna sér efni þess.
6.15. Stjórnarmaður getur óskað eftir frestun á afgreiðslu máls og skal máli þá frestað til næsta reglu­lega fundar, nema veigamiklir hagsmunir mæli gegn slíkri frestun.
6.16. Forstjóri á sæti á fundum stjórnar og hefur þar umræðu- og tillögurétt.
6.17. Stjórn skal halda a.m.k. einn fund árlega án forstjóra og/eða starfsmanna, þar sem m.a. skal farið yfir árangur af störfum forstjóra og starfslýsingu hans. Meginatriði í mati stjórnar eru kynnt forstjóra og e.a. gerðar breytingar á starfslýsingu hans.
6.18. Á a.m.k. einum fundi stjórnar árlega skal fjallað sérstaklega um innra eftirlit og innri endur­skoðun í stofnuninni og farið yfir verkefni stjórnar og forstjóra á þessu sviði.
6.19. Stjórn og forstjóri geta sameiginlega kallað til aðra starfsmenn Samkeppniseftirlitsins á fund til þátttöku í einstökum dagskrárliðum og skal þá bóka í fundargerð hvenær þeir koma inn á fund og hvenær þeir víkja af fundi.

 

7. gr.

Ályktunarhæfi og umboð.

7.1. Stjórn er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Það sama á við ef notast er við fjarfundarbúnað eða fundurinn haldinn utan húsnæðis Samkeppniseftirlitsins.
7.2. Gæta skal þess að allir stjórnarmenn hafi fengið tækifæri til að kynna sér mál sem stjórnin þarf að taka formlega afstöðu til.
7.3. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum eða reglum. Ákvörðun fellur á jöfnum atkvæðum.

 

8. gr.

Hæfi stjórnarmanna.

8.1. Um sérstakt hæfi stjórnarmanna til meðferðar mála fer samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 7. gr. samkeppnislaga og 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
8.2. Stjórnarmenn skulu í hvívetna gæta að hæfi sínu til umfjöllunar um einstök mál. Stjórnar­mönnum og forstjóra ber ávallt að upplýsa um slík atvik og önnur er gætu valdið vanhæfi þeirra um leið og þau verða viðkomandi ljós. Telji forstjóri eða formaður stjórnar að stjórnar­maður sé vanhæfur til þess að taka þátt í umfjöllun máls er þeim heimilt að krefjast þess að hann víki sæti áður en efni málsins er kynnt.
8.3. Stjórnarmenn og forstjóri skulu upplýsa um hagsmunatengsl sín og tengdra aðila við upphaf starfa sem og allar breytingar sem verða á högum þeirra á starfstíma þeirra. Með hagsmuna­tengslum er átt við upplýsingar sem varða stjórnarmann, forstjóra og aðila þeim tengda eftir því sem við á, og varða:
  a) Tengsl við stjórnendur fyrirtækja sem geta komið til athugunar hjá Samkeppnis­eftirlitinu.
  b) Eignarhluti í fyrirtæki sem getur komið til athugunar hjá Samkeppniseftirlitinu.
  c) Fyrri aðkomu að málum sem geta komið til athugunar hjá Samkeppniseftirlitinu.
  d) Önnur störf á vettvangi stjórnvalda, s.s. ráðuneyta.
  e) Önnur trúnaðarstörf, t.a.m. stjórnarseta.
  f) Önnur möguleg hagsmunatengsl.
8.4. Forstjóri skal sjá til þess að skrá um hagsmunatengsl stjórnarmanna og forstjóra skv. ákvæði 8.3. sé haldin og uppfærð reglulega. Skal skráin aðgengileg stjórnarmönnum, forstjóra og reglu­verði.
8.5. Þegar tilefni er til skal taka til umræðu hvort önnur störf eða hagsmunatengsl stjórnar­manna eða varamanna í stjórn geti dregið úr hlutlægni eða sjálfstæði stofnunar­innar almennt og hvort þörf sé viðbragða vegna þess.
8.6. Þegar dagskrá stjórnarfundar liggur fyrir skal forstjóri í samráði við formann stjórnar ganga úr skugga um sérstakt hæfi stjórnarmanna og/eða forstjóra til þátttöku í meðferð máls.
8.7. Ef ágreiningur er uppi um sérstakt hæfi stjórnarmanns til þátttöku í meðferð máls, skal for­stjóri, í samráði við formann, afla upplýsinga um hæfi viðkomandi og gefa honum færi á að koma að frekari upplýsingum og athugasemdum. Að því loknu tekur stjórn ákvörðun um sérstakt hæfi stjórnarmanns.
8.8. Liggi fyrir að stjórnarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls, eru gögn í viðkomandi máli ekki send honum og skal hann jafnframt víkja af fundi við meðferð stjórnar á málinu.
8.9. Þegar stjórnarmaður er vanhæfur til meðferðar máls skal varamaður taka sæti hans skv. ákvæði 6.9.
8.10. Verði forstjóri vanhæfur til meðferðar máls skal stjórn ákveða hvernig með skuli fara.

 

9. gr.

Fundargerðir og fundargerðabók.

9.1 Ritari stjórnar ritar fundargerð um það sem gerist á stjórnarfundum og um ákvarðanir stjórnar.
9.2. Í fundargerðabók skal skrá eftirfarandi:
  a) Hvar og hvenær fundurinn er haldinn.
  b) Nafn Samkeppniseftirlitsins.
  c) Númer stjórnarfundar.
  d) Hverjir sitja fundinn og hver stýri honum.
  e) Að til fundarins hafi verið boðað með lögmætum hætti.
  f) Dagskrá fundarins.
  g) Hvort einstök mál eru til upplýsingar, umræðu eða ákvörðunar.
  h) Hvaða gögn fylgja hverjum dagskrárlið.
  i) Hvaða gögnum var dreift fyrir fundinn og hvaða gögnum var dreift á fundinum.
  j) Ef stjórnarmaður, forstjóri eða annar víkur af fundi við umræðu eða ákvörðun dag­skrár­liðar og hvort viðkomandi hafði aðgang að gögnum vegna umræðu eða ákvörðu­nar.
  k) Umfjöllunarefni á fundum og hvaða ákvarðanir hafa verið teknar og eftir því sem við á helstu forsendur sem liggja fyrir ákvörðun.
  l) Samantekt í lok fundargerðar um ákvarðanir sem samþykktar voru á fundinum.
  m) Hver ritað hafi fundargerðina.
9.3. Stjórnarmenn og forstjóri eiga rétt á að fá sérálit sín skráð í fundargerð.
9.4. Fundargerð skal undirrituð af stjórnarmönnum, forstjóra og fundarritara. Stjórnarmenn sem ekki voru viðstaddir þann stjórnarfund sem fundargerð tekur til skulu staðfesta að þeir hafi kynnt sér fundargerðina með undirritun sinni. Undirritun getur verið skrifleg eða rafræn. Rétt undirrituð fundargerð telst full sönnun þess sem gerst hefur á stjórnarfundum.
9.5. Drög að fundargerð skulu send stjórnarmönnum og forstjóra innan tveggja virkra daga frá stjórnarfundi og þeim gefið færi á að gera athugasemdir við drögin.
9.6. Ritari annast varðveislu fundargerða og fylgigagna með tryggum hætti.
9.7. Varamenn skulu hafa aðgang að fundargerðum þeirra funda sem þeir sitja. Varamenn geta óskað eftir fundargerðum þeirra funda sem þeir sátu ekki ef þurfa þykir en þá þarf að gæta að hæfi viðkomandi varamanns.

 

10. gr.

Innra eftirlit og innri endurskoðun.

10.1. Stjórn hefur umsjón með innra eftirliti með starfsemi Samkeppniseftirlitsins, sbr. ákvæði 2.2. Stjórn kannar reglulega innra eftirlit og metur hvort það tryggir viðeigandi árangur. Fyrir hvert ár er starfsáætlun stjórnar, sbr. ákvæði 6.2., mótuð með það að leiðarljósi að stjórn hafi góða yfirsýn yfir innra eftirlit stofnunarinnar. Stjórn er heimilt að kalla eftir upplýsingum um og fjalla um alla þætti í starfsemi stofnunarinnar.
10.2. Stjórn ber ábyrgð á og fjallar um innri endurskoðun stofnunarinnar. Við mótun innri endur­skoðunar er höfð hliðsjón af verklagi innri endurskoðunar hjá sambærilegum stofnunum.

 

11. gr.

Upplýsingagjöf.

11.1. Allir stjórnarmenn hafa jafnan rétt til upplýsinga um Samkeppniseftirlitið og skal veittur aðgangur að öllum þeim upplýsingum sem veittar eru stjórn eða einstökum stjórnar­mönnum, hvort sem um er að ræða gögn vegna stjórnarfunda eða einstakra fyrir­spurna stjórnar­manna. Varamenn eiga sama rétt vegna mála sem þeir taka þátt í með­ferð á í forföllum aðalmanna. Ávallt þarf að gæta að hæfi stjórnarmanns og varamanns í tengslum við slíka beiðni.
11.2. Stjórnarmenn geta sent efnislegar fyrirspurnir til forstjóra á milli stjórnarfunda um einstök mál sem varða rekstur og starfsemi Samkeppniseftirlitsins. Slíkar fyrirspurnir skulu gerðar með tölvu­pósti sem aðrir stjórnarmenn fá afrit af (cc.). Svör við fyrirspurnum skulu kynnt stjórninni allri á sama tíma.
11.3. Stjórnarmenn skulu ekki afla upplýsinga með því að hafa samband við starfsmenn Samkeppnis­eftirlitsins, nema sérstaklega standi á, s.s. varðandi launagreiðslur til þeirra.

 

12. gr.

Þagnarskylda.

12.1. Á stjórnarmönnum hvílir þagnarskylda um málefni Samkeppniseftirlitsins, hagi starfsmanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem stjórnarmenn og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, sbr. 34. gr. samkeppnislaga.
12.2. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
12.3. Stjórnarmaður skal varðveita öll gögn með tryggilegum hætti sem hann fær afhent sem stjórnar­maður.
12.4. Stjórnarmenn skulu almennt ekki tjá sig við fjölmiðla eða snúa sér til almennings varðandi málefni Samkeppniseftirlitsins.

 

13. gr.

Varsla og meðferð starfsreglna.

13.1. Frumrit starfsreglna þessara, með áorðnum breytingum ef við á, skal ritari stjórnar varðv­eita með tryggilegum hætti með fundargerðum Samkeppniseftirlitsins og fylgigögnum fundar­gerða.
13.2. Þeir sem eiga sæti í stjórn við setningu starfsreglna þessara skulu undirrita frumrit þeirra. Ef stjórn samþykkir breytingar á starfsreglunum skulu stjórnarmenn undirrita frumrit af reglunum svo breyttum. Nýjum stjórnarmönnum skulu kynntar starfsreglurnar og skulu þeir undirrita frumrit þeirra því til staðfestu.

 

14. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, sem settar eru með stoð í 3. mgr. 5. gr. samkeppnislaga, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1226/2020.

 

Reykjavík, 11. apríl 2023.

 

Sveinn Agnarsson
formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins.

Katrín Helga Hallgrímsdóttir
stjórnarmaður.
Hafsteinn Þór Hauksson
stjórnarmaður.

B deild - Útgáfud.: 18. apríl 2023