Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 6/2020

Nr. 6/2020 6. janúar 2020

GJALDSKRÁ
Sjúkratrygginga Íslands fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem ekki hefur verið samið um.

1. gr.

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða kostnað vegna þjónustu sjúkraþjálfara samkvæmt gjald­skrá þessari, sbr. reglugerð nr. 1364/2019 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starf­andi sjúkraþjálfara sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

 

2. gr.

Endurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands miðast við gjaldskrá sem tilgreind er í 3. gr. Almennt ein­ingar­verð skal vera 57,44 kr., en fyrir þá sjúkraþjálfara sem hafa lokið því sem samsvarar 30 ETC einingum í viðurkenndu framhaldsnámi í sjúkraþjálfun sem samþykkt hefur verið af SÍ skal ein­ingar­­verð vera 58,88 kr., fyrir sjúkraþjálfara sem lokið hafa því sem samsvarar 60 ETC einingum í viður­­kenndu framhaldsnámi í sjúkraþjálfun sem samþykkt hefur verið af SÍ skal einingarverð vera 60,31 kr. og hjá þeim sjúkraþjálfurum sem fengið hafa rétt til að kalla sig sérfræðinga í sjúkra­­þjálfun sam­kvæmt reglugerð nr. 1127/2012 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraþjálfara og skil­yrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi skal einingarverð vera 63,18 kr.

Kostnaðarhluti sjúklings skal reiknaður út frá almennu einingarverði, sbr. 1. mgr. Ef verð þjónustu er lægra en skv. gjaldskrá þessari skal endurgreiðslan miðuð við verð þjónustunnar.

 

3. gr.

Endurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands miðast við eftirfarandi gjaldskrá:

  1.   Viðbót vegna skoðunar sjúklings, einu sinni fyrir hvern sjúkling, þ.m.t. sjúkling sem nýtur heima­meðferðar. Gjaldliðurinn gildir þó ekki í hópþjálfun. Nái meðferðarlota yfir langt tímabil greiða Sjúkratryggingar Íslands þennan lið að hámarki þrisvar á ári eða í síðari skiptin í tengslum við rökstudda umsókn um meðferðarskipti umfram 15 á einu ári eða í tengslum við langtíma­meðferð, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1364/2019. Ef sjúklingur hefur verið í stuttri meðferð­ar­lotu þar sem greitt hefur verið skoðunargjald en kemur að nýju til meðferðar vegna annars sjúkdóms (með beiðni um nýja meðferð) greiða SÍ skoðunargjald, þó aldrei oftar en þrisvar á ári. Ef fleiri en tveir sjúkraþjálfarar frá sömu stofu/hjá sama fyrirtæki meðhöndla sama sjúkling er að hámarki greitt fyrir þrjár skoðanir á meðferðartímabilinu 127,5 ein.
  2.   Einföld meðferð (gildir einnig fyrir börn yngri en 12 ára, sjá að öðru leyti skilgreiningu hér að neðan) 81,5 ein.
  3.   Almenn meðferð (sjá skilgreiningu hér að neðan) 118,0 ein.
  4.   Þung meðferð (sjá skilgreiningu hér að neðan) 173,5 ein.
  5.   Þung meðferð með álagi (sjá skilgreiningu hér að neðan) 201,5 ein.
  6.   Meðferð barna yngri en 12 ára, sbr. þó lið 2 173,5 ein.
  7.   Einföld heimameðferð (sjá skilgreiningu hér að neðan) 136,5 ein.
  8.   Almenn heimameðferð (sjá skilgreiningu hér að neðan) 201,5 ein.
  9.   Hópmeðferð I, a.m.k. 45 mín. (sjá skilgreiningu hér að neðan) 81,5 ein.
  10.   Hópmeðferð II, a.m.k. 45 mín. (sjá skilgreiningu hér að neðan) 54,5 ein.
  11.   Meðferð barna í grunnskóla, a.m.k. 45 mín. (sjá skilgreiningu hér að neðan) 201,5 ein.
  12.   Útvegun hjálpartækja fyrir verulega fatlaða einstaklinga í langtíma­meðferð 180 til 240 mín. (sjá skilgreiningu hér að neðan) 404,5 ein.
  13.   Umsókn um stoðtæki og ferlihjálpartæki fyrir börn 151,5 ein.

Frekari skilgreiningar:

Skoðun sjúklings.

Í henni felst m.a. klínísk skoðun og skráning sjúkrasögu, uppsetning meðferðaráætlunar, ráðgjöf og mat á þörf og færni sjúklings. Enn fremur felst í henni undirbúningur og frágangur sjúkraskýrslu, útfyll­ing eyðublaða, ritun skýrslna, viðræður og símtöl við lækna og aðra sérfræðinga.

Meðferð.

Meðferð getur verið fólgin í einum eða fleiri eftirgreindra liða:

  1. Færniþjálfun, æfingum og vöðvateygjum.
  2. Togi og liðlosun.
  3. Hita og kælingu.
  4. Meðferð í vatni.
  5. Nuddi.
  6. Rafmagnsmeðferð.
  7. Ráðgjöf og fræðslu.
  8. Prófunum.
  9. Sogæðanuddi.
  10. Nálastungum.
  11. Hnykkmeðferð.

Heimameðferð getur verið fólgin í liðum 1-11 að frátöldum lið 4.

Hópmeðferð getur verið fólgin í liðum 1, 4 og 7.

Einföld meðferð.

Með einfaldri meðferð er átt við eina tegund meðferðarforms þar sem leitast er við að beita gagn­reyndri vitneskju á aðferðum innan sjúkraþjálfunar. Gildir einnig fyrir börn yngri en 12 ára.

Æfingar í sal.

Ef eingöngu er um að ræða æfingar í sal undir leiðsögn sjúkraþjálfara flokkast þær sem einföld meðferð enda sé ekki nauðsyn á stöðugu eftirliti. Þegar þjálfun og endurhæfing sjúklings fer fram í æfingarsal með áherslu á færniþjálfun, undir leiðsögn sjúkraþjálfara, getur hún flokkast sem almenn meðferð. Sjálfsæfingar í sal án leiðsagnar sjúkraþjálfara, falla ekki undir gjaldskrána.

Almenn meðferð.

Með almennri meðferð er átt við blandaða meðferð þar sem leitast er við að beita gagnreyndri vit­neskju á áhrifum mismunandi meðferða innan sjúkraþjálfunar. Unnið skal skv. 3. gr. gjaldskrár þessarar.

Þung meðferð.

Með þungri meðferð er átt við meðferð sjúklinga með útbreidd eða flókin vandamál sem eru mun umfangsmeiri en í almennri meðferð. Þetta á við um einstaklinga sem eru með miklar og útbreiddar hreyfiskerðingar og eru verulega háðir aðstoð við hreyfingar og flestar athafnir í daglegu lífi. Til dæmis mikið andlega eða líkamlega fatlaða einstaklinga, einstaklinga með fjöláverka sem valda verulegri hreyfi- og færniskerðingu og þá sem orðið hafa fyrir skaða á miðtaugakerfi sem veldur útbreiddri hreyfi- og færniskerðingu.

Þung meðferð með álagi.

Með þungri meðferð með álagi er átt við meðferð fjölfatlaðra einstaklinga með útbreidd eða flókin vandamál sem eru mun umfangsmeiri en í þungri meðferð. Þetta á við um mikið líkamlega fatlaða einstaklinga sem eru algjörlega háðir aðstoð við hreyfingar og allar athafnir í daglegu lífi. Gert er ráð fyrir að meðferð sé mun tímaríkari en almenn meðferð og krefst að jafnaði aðkomu eins til tveggja aðstoðarmanna auk sjúkraþjálfara. Aðgengi þarf að vera gott og breiðir bekkir.

Leita þarf samþykkis SÍ fyrirfram fyrir þungri meðferð með álagi.

Almenn heimameðferð.

Með heimameðferð er átt við blandaða meðferð veitta sjúklingi í heimahúsi sem er þannig líkam­lega á sig kominn að hann kemst ekki í meðferð á sjúkraþjálfunarstofu. Leitast er við að beita gagn­­reyndri vitneskju á áhrifum mismunandi meðferða innan sjúkraþjálfunar. Unnið skal skv. 3. gr. gjald­­skrár þessarar.

Einföld heimameðferð.

Á við í eftirfarandi tilvikum:

Þegar heimameðferð er veitt með einni tegund meðferðarforms.
Ef ástand sjúklings, hverju sinni, leyfir ekki almenna heimameðferð.
Greining og mat á meðferðarþörf við upphaf heimameðferðar. Ekki er heimilt að taka viðbót vegna skoðunar með þessum lið.
Þegar fleiri en einum einstaklingi er sinnt í sama húsi. Í slíkum tilvikum er heimilt að nota almenna heimameðferð vegna fyrsta sjúklings en einfalda heimameðferð vegna viðbótar ein­staklinga.

Að öðru leyti gildir sama skilgreining og fyrir almenna heimameðferð.

Hópmeðferð I.

Með hópmeðferð I er átt við að tveir til fjórir einstaklingar, með svipuð vandamál eða sömu sjúkdómsgreiningu séu í þjálfun samtímis og skal sjúkraþjálfari vera með þeim allan tímann.

Hópmeðferð II.

Með hópmeðferð II er átt við að fimm eða fleiri einstaklingar, með svipuð vandamál eða sömu sjúk­dóms­greiningu, en þó aldrei fleiri en tíu, séu í þjálfun samtímis og skal sjúkraþjálfari vera með þeim allan tímann.

Meðferð barna í grunnskóla.

Með meðferð barna í grunnskóla er átt við meðferð hreyfihamlaðra barna sem eru háð göngu­hjálpar­tækjum eða hjólastólum við að komast á milli staða og þurfa á þjálfun að halda oftar en einu sinni í viku.

Leita þarf samþykkis SÍ fyrir fram fyrir meðferð barna í grunnskóla. Sjúkraþjálfari sendir umsókn til SÍ þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir nauðsyn þess að barnið fái þjálfun í grunn­skóla. Einungis er samþykkt eitt skipti í viku vegna þjálfunar í grunnskóla, því til viðbótar er nauð­synlegt að barnið fái þjálfun á stofu sjúkraþjálfara.

Gengið er út frá því að hvorki sjúkratryggingar né sjúkraþjálfari beri kostnað af aðstöðu eða rými til þjálfunar innan grunnskólans.

Útvegun hjálpartækja.

Með útvegun hjálpartækja er átt við vinnu við mælingu, mátun og aðlögun vegna sérsmíðaðra hjálpartækja (sérmót) fyrir verulega fatlaða einstaklinga (samþykki Hjálpartækjamiðstöðvar SÍ fyrir sérsmíði þarf að liggja fyrir). Gert er ráð fyrir að þessi gjaldaliður innifeli komu stoðtækjafræðings til viðkomandi sjúkraþjálfara í 3 til 4 skipti.

Umsókn um stoðtæki og ferlihjálpartæki.

Með umsókn um stoðtæki og ferlihjálpartæki er átt við vinnu við umsókn til Hjálpartækja­miðstöðvar SÍ með mælingu, mátun og aðlögun vegna spelkna, gervilima, bæklunarskóa og ferli­hjálpartækja fyrir fötluð börn og fjölfatlaða einstaklinga.

 

4. gr.

Gjaldskrá þessi, sem sett er með stoð í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og reglugerð nr. 1364/2019, um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkra­þjálfara sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, öðlast gildi 12. janúar 2020 og er gildistími sá sami og kveðið er á um í 12. gr. reglugerðar nr. 1364/2019.

 

Sjúkratryggingum Íslands, 6. janúar 2020.

 

María Heimisdóttir.

Katrín E. Hjörleifsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 10. janúar 2020