Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 410/2012

Nr. 410/2012 3. maí 2012
SIÐAREGLUR
fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands.

Inngangur.

Í því skyni að efla fagleg vinnubrögð, og auka traust á stjórnsýslunni staðfestir forsætis­ráðherra siðareglur starfsfólks Stjórnarráðs Íslands sem hér fara á eftir, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Við undirbúning reglnanna hefur verið haft samráð við starfsmenn ráðuneytanna, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og samhæf­ingar­nefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna.

Hver starfsmaður gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum. Stjórnendur í ráðuneytum skulu ennfremur sjá til þess að starfsfólki sé kunnugt um reglurnar og að þær séu eðlilegur þáttur í starfi ráðuneytanna.

Í vafatilvikum sem upp kunna að koma má leita ráðgjafar hjá samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna, sbr. b-lið 3. mgr. 25. gr. laga nr. 115/2011. Ennfremur má koma ábendingum á framfæri við umboðsmann Alþingis en hann gætir þess meðal annars að stjórnsýslan fari fram í samræmi við þessar siðareglur sem settar eru á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Telji einhver að brot á siðareglum hafi jafnframt falið í sér að hann sjálfur hafi verið beittur rangsleitni er unnt að bera fram kvörtun við umboðsmann Alþingis, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Siðareglur þessar verður að skoða í samhengi við almennar siðareglur starfsmanna ríkisins, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og aðrar siðareglur sem kunna að eiga við, sbr. heimild í 3. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011 til að útfæra siðareglur nánar í hverju ráðuneyti. Ennfremur eiga siða­reglurnar að endurspegla tiltekin grunngildi í opinberum störfum eins og heilindi, óhlut­drægni og skilvirkni.

1. gr.

Vinnubrögð og samskipti á vinnustað.

 1. Samvinna, gagnkvæm virðing og lýðræðislegir stjórnarhættir einkenna starfs­umhverfi í Stjórnarráðinu.
 2. Starfsfólk Stjórnarráðsins gætir að mörkum stjórnmála og stjórnsýslu.
 3. Starfsfólk vandar vinnubrögð og alla meðferð upplýsinga og skjala og gætir nauðsynlegs trúnaðar.
 4. Starfsfólk byggir ráðgjöf sína og ákvarðanir á bestu fáanlegum upplýsingum miðað við aðstæður. Faglegs mats sérfróðra aðila er aflað eftir því sem við á.
 5. Starfsfólk hefur forystu um úrlausn mála þegar það á við.
 6. Starfsfólk sýnir ráðdeild við meðferð fjármuna ríkisins og stuðlar að því sama meðal samstarfsmanna. Ekki er stofnað til útgjalda fyrir hönd ráðuneytis nema tilefni þeirra samræmist starfsemi þess.

2. gr.

Háttsemi og framkoma.

 1. Starfsfólk Stjórnarráðsins dregur skýr mörk á milli einkalífs og opinberra skyldu­starfa. Við notkun tölvupósts er tekið mið af þessari meginreglu.
 2. Starfsfólk notfærir sér ekki stöðu sína eða upplýsingar fengnar í starfi í eigin­hagsmuna­skyni.
 3. Starfsfólk rýrir ekki trúverðugleika ráðuneytis síns með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við mannhelgi og mannréttindi, svo sem með kaupum á vændi.
 4. Starfsfólk þiggur ekki persónulega verðmætar gjafir vegna starfs síns.
 5. Í samskiptum utan vinnu, þ. á m. við notkun félagsmiðla, virðir starfsfólk trúnað við samstarfsfólk og gagnvart vinnustað.

3. gr.

Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar.

 1. Starfsfólk Stjórnarráðsins gætir þess að vina-, hagsmuna- og skyldleikatengsl hafi ekki áhrif á störf þess.
 2. Skapist hætta á að slík tengsl valdi hagsmunaárekstrum upplýsir starfsfólk næsta yfirmann. Báðir aðilar gæta þess að slík upplýsingagjöf sé skráð í málaskrá.
 3. Í samskiptum við hagsmunahópa hefur starfsfólk í huga að skyldur stjórn­sýsl­unnar eru fyrst og fremst við almenning. Starfsfólk gætir jafnræðis þegar komið er til móts við óskir hagsmunahópa.

4. gr.

Samskipti við fjölmiðla, almenning og eftirlitsaðila.

 1. Starfsfólk Stjórnarráðsins sýnir þeim sem til þeirra leita kurteisi og sinnir erindum greiðlega innan eðlilegra tímamarka.
 2. Upplýsingar eru veittar greiðlega og með kerfisbundnum hætti.
 3. Mistök eða misskilningur, sem varðar ákvarðanir, meðferð mála eða samskipti við almenning, er leiðréttur eins fljótt og mögulegt er.
 4. Starfsfólk er vakandi fyrir málefnum sem eðlilegt er að upplýsa fjölmiðla eða almenning um og bendir yfirmanni á slíkt, eftir því sem við á.
 5. Starfsfólk leitast við að eiga greið og opin samskipti við frjáls félagasamtök, fagfélög og hagsmunahópa.
 6. Starfsfólk á skilvirkt samstarf við Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.

5. gr.

Ábyrgð og eftirfylgni.

 1. Hver starfsmaður Stjórnarráðsins er, í samræmi við stöðu sína og hlutverk, ábyrgur fyrir athöfnum sínum og gjörðum, sem skulu vera almenningi til heilla og í samræmi við stjórnarskrá og landslög.
 2. Yfirmenn kynna starfsmönnum reglur sem um starfið gilda, eru á varðbergi gagnvart aðstæðum sem auka líkur á að ekki sé farið eftir reglum, bregðast við þegar þörf krefur og ganga á undan með góðu fordæmi.
 3. Verði starfsmaður áskynja um siðferðislega ámælisvert eða ólögmætt athæfi á vinnustað skal hann koma ábendingu þar um til næsta yfirmanns, sem ekki á sjálfur hagsmuna að gæta, eða annarra viðeigandi aðila.
 4. Starfsfólk geldur ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji það á sér brotið.

Forsætisráðuneytinu, 3. maí 2012.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 4. maí 2012