Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1252/2014

Nr. 1252/2014 12. desember 2014
SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Hornafjarðar nr. 591/2013.

1. gr.

1. mgr. 8. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar heldur reglulega fundi bæjarstjórnar einu sinni í mánuði.

2. gr.

Eftirtaldar breytingar verða á 9. gr. samþykktarinnar:

 

a)

1. mgr. greinarinnar verður svohljóðandi:

  

Bæjarstjóri boðar fundi. Fundarboð bæjarstjórnar skal berast bæjarfulltrúa ekki síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund ásamt dagskrá og fylgigögnum.

 

b)

2. mgr. greinarinnar verður svohljóðandi:

  

Fundarboð nefnda og stjórna skal berast fundarmönnum tveimur sólarhringum fyrir fund ásamt dagskrá og fylgigögnum. Fundarboð með dagskrá er sent á raf­rænan hátt til aðal- og varamanna í bæjarstjórn. Dagskráin, ásamt fylgi­gögnum, skal vera aðgengileg fulltrúunum á rafrænni fundagátt sveitar­félagsins.

3. gr.

Eftirtaldar breytingar verða á 10. gr. samþykktarinnar:

 

a)

2. tölul. 2. mgr. verður svohljóðandi:

  

2. Fundargerðir bæjarráðs.

 

b)

2. mgr. verður svohljóðandi:

  

Bæjarfulltrúum er heimilt að leggja fram fyrirspurnir á bæjarstjórnarfundum. Fyrir­spurnirnar skulu vera skriflegar og berast bæjarstjóra a.m.k. tveim sólar­hringum fyrir bæjarstjórnarfund.

4. gr.

Í stað orðanna „skrifstofu sveitarfélagsins“ í 2. mgr. 21. gr. samþykktarinnar kemur: bæjarstjóra.

5. gr.

Í 1. mgr. 28. gr. samþykktarinnar falla brott orðin „á mánudögum kl. 16.15“.

6. gr.

Í stað orðanna „einum sólarhring“ í 1. málsl. 2. mgr. 29. gr. samþykktarinnar kemur: tveimur sólarhringum.

7. gr.

3. mgr. 32. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Bæjarráð hefur eftirlit með rekstri Eignasjóðs, þjónustumiðstöðvar, gagnaveitu Horna­fjarðar, leiguíbúða og Hornafjarðarveitna.

8. gr.

48. gr. samþykktarinnar ásamt fyrirsögn verður svohljóðandi:

Fastanefndir, aðrar nefndir, stjórnir og ráð sem sveitarfélagið á aðild að.

Bæjarstjórn kýs í eftirtaldar nefndir, ráð og stjórnir og skulu þær starfa út kjörtímabilið:

  1. Bæjarráð. Bæjarstjórn skal á fyrsta fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum kjósa þrjá aðalmenn og þrjá til vara í bæjarráð, sbr. 36. gr. sveitarstjórnarlaga. Aðalmenn í bæjarstjórn eru einir kjörgengir sem aðalmenn í bæjarráð. Kveðið er á um verkefni bæjarráðs í 31. gr. samþykktar þessarar en auk þeirra verkefna sem þar er kveðið á um hefur bæjarráð með höndum stjórn Eignasjóðs.

Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara, nema annað sé tekið fram, í eftir­farandi ráð og nefndir sem kosin eru á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjar­stjórnar. Bæjarstjórn kýs nefndum og stjórnum formann og varaformann.

  1. Kjörstjórn. Bæjarstjórn kýs á fyrsta fundi sínum þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara í yfirkjörstjórn til fjögurra ára vegna kosninga til Alþingis, sbr. 10. gr. laga nr. 24/2000, og bæjarstjórna, sbr. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Heimilt er að kjósa undirkjörstjórn fyrir hverja kjördeild, þrjá aðalmenn og þrjá til vara.
  2. Fræðslu- og tómstundanefnd fer með skóla-, íþrótta- og tómstundamál, samkvæmt lögum og reglugerðum þar um, ásamt öðrum þeim verkefnum sem nefndinni eru falin með erindisbréfi.
  3. Atvinnumálanefnd fer með ferðamál, atvinnumál og málefni landbúnaðarins samkvæmt lögum og reglugerðum þar um ásamt öðrum þeim verkefnum sem nefndinni eru falin með erindisbréfi.
  4. Menningarmálanefnd fer með málefni safna- og menningarmála, samkvæmt lögum og reglugerðum þar um ásamt öðrum þeim verkefnum sem nefndinni eru falin með erindisbréfi.
  5. Ungmennaráð fjallar um málefni ungmenna samkvæmt sérstökum samþykktum sem þarfnast staðfestingar bæjarstjórnar.
  6. Félagsmálanefnd fer með verkefni sveitarfélagsins á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, barnaverndarmál, málefni fatlaðra og fer með stjórn félagslegra íbúða samkvæmt lögum og reglugerðum og samningum þar um ásamt öðrum þeim verkefnum sem nefndinni eru falin með erindisbréfi.
  7. Umhverfisnefnd fer með málefni náttúru og umhverfis samkvæmt lögum og reglugerðum þar um ásamt öðrum þeim verkefnum sem nefndinni eru falin með erindisbréfi.
  8. Skipulagsnefnd fer með byggingar- og skipulagsmál, samkvæmt lögum og reglugerðum þar um ásamt öðrum þeim verkefnum sem nefndinni eru falin með erindisbréfi.
  9. Hafnarstjórn fer með hafnamál samkvæmt lögum og reglugerðum þar um ásamt öðrum þeim verkefnum sem stjórninni eru falin með erindisbréfi.
  10. Almannavarnanefnd Hornafjarðar starfar samkvæmt lögum um almannavarnir og sinnir þeim verkefnum sem henni eru falin með erindisbréfi. Nefndin skal skipuð fulltrúa lögreglustjóra, tveimur fulltrúum bæjarstjórnar, fulltrúa heilbrigðis­stofnunar og fulltrúa Björgunarfélags Hornafjarðar.
  11. Stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands fer með heilbrigðismál og málefni aldraðra samkvæmt lögum, reglugerðum og þjónustusamningi um heilbrigðis­þjónustu ásamt öðrum þeim verkefnum sem nefndinni eru falin með erindis­bréfi.

Stjórnir og samstarfsráð.
Hér er um að ræða stjórnir stofnana með sjálfstæðan fjárhag og tilnefningar í sam­starfs­ráð sem hafa endanlegt ákvörðunarvald í málefnum sínum, þ.e. þurfa ekki stað­festingu bæjarstjórnar til að koma málum í framkvæmd innan ákveðins fjárhagslegs ramma. Kjörtímabil þeirra er samkvæmt samþykktum um stjórn viðkomandi stofnunar.

  1. Stjórn Náttúrustofu Suðausturlands. Bæjarstjórn kýs tvo fulltrúa og tvo til vara í stjórn Náttúrustofu Suðausturlands ses. samkvæmt samþykktum félagsins.
  2. Heilbrigðisnefnd Austurlands samkvæmt samþykktum nefndarinnar á hverjum tíma.

Tilnefningar og kosningar.
Fulltrúar eru kosnir á ársþing og ársfundi stofnana sem sveitarfélagið á aðild að. Kosning skal fara fram á fyrsta og/eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og síðan í júní ár hvert vegna þeirra tilnefninga sem gilda í eitt ár.

  1. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt lögum um Samband íslenskra sveitarfélaga kýs bæjarstjórn aðal- og varafulltrúa á landsþing sam­bands­ins. Fulltrúar sveitarfélagsins eru kosnir á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar og er kjörtímabil þeirra hið sama og sveitarstjórnar.
  2. Fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Bæjarstjórn kýs einn aðal­fulltrúa og einn til vara í fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Fulltrúi sveitar­félagsins er kosinn á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjar­stjórnar og er kjörtímabil hans hið sama og bæjarstjórnar.
  3. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga. Bæjarstjórn kýs aðalfulltrúa og jafnmarga til vara á aðalfund SASS samkvæmt samþykktum þess hverju sinni. Fulltrúar sveitar­félagsins eru kosnir á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjör­tíma­bil þeirra hið sama og bæjarstjórnar.

Verkefnabundnar nefndir.
Bæjarstjórn getur kosið nefndir til að vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda stendur til loka kjörtímabils eða þar til verkefni hennar er lokið. Bæjarstjórn getur þó afturkallað umboð slíkra nefnda hvenær sem er. Bæjarstjórn útbýr erindisbréf fyrir nefndirnar þar sem hlutverk og staða þeirra er skilgreind.

9. gr.

51. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn ræður lykilstjórnendur hjá Sveitarfélaginu Hornafirði að fenginni umsögn viðkomandi fagnefndar og veitir þeim lausn frá starfi.

10. gr.

Samþykkt þessi sem bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur sett skv. ákvæðum 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 12. desember 2014.

F. h. r.
Hermann Sæmundsson.

Stefanía Traustadóttir.

B deild - Útgáfud.: 8. janúar 2015