Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 382/2022

Nr. 382/2022 16. mars 2022

REGLUR
Múlaþings um stuðningsfjölskyldur.

Reglur þessar fjalla um þjónustu stuðningsfjölskyldna og eru settar með vísan til 15. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

 

1. gr.

Réttur til þjónustu og inntak hennar.

Fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna eftir því sem þörf krefur samkvæmt 15. gr. laga nr. 38/2018.

Verkefni stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og auka möguleika barnsins á félagslegri þátttöku. Slíkri umsjá fylgir ekki krafa um sérstaka þjálfun eða hæfingu umfram þá daglegu þjálfun sem felst í almennum kröfum sem lúta að barnauppeldi.

Þörf barns fyrir stuðningsfjölskyldu er alltaf metin í samráði við foreldra þess. Leitast skal við að veita barninu þjónustu inni á heimili þess eftir því sem kostur er. Við matið er horft til aldurs barns, eðlis og umfangs fötlunar, mats á stuðningsþörf sem og annarrar þjónustu sem veitt er og félagslegra aðstæðna. Taka ber tillit til óska foreldra við val á stuðningsfjölskyldu eins og unnt er og að öll sam­skipti séu eins greið og kostur er, þar á meðal að íslenskt táknmál sé notað þar sem við á og í samræmi við lög þar að lútandi.

Þjónusta stuðningsfjölskyldu miðast við sólarhringsþjónustu og getur þjónustan mest verið 15 sólarhringar í mánuði.

Sé talin þörf fyrir þjónustu í meira en 15 sólarhringa á mánuði í sex mánuði samfleytt skal unnin einstaklingsbundin þjónustuáætlun um aukna aðstoð á heimili barnsins. Þurfi barn annars konar þjón­ustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldu þess samhliða stuðningsfjölskyldu í meira en 15 sólar­hringa á mánuði í sex mánuði samfleytt skal vísa málefni þess til sérfræðingateymis til ráðgjafar skv. 20. gr. laga nr. 38/2018.

Ekki er heimilt að fela stuðningsfjölskyldu umsjón fleiri en tveggja barna í senn nema um systkini sé að ræða.

Þjónusta veitt á grundvelli þessara reglna felur aldrei í sér að stuðningsfjölskylda fái forsjá barns.

 

2. gr.

Hverjir eiga kost á þjónustu.

Þjónustan stendur til boða fyrir fjölskyldur fatlaðra barna sem eiga lögheimili í Múlaþingi. Þjónustan nær einnig til sömu aðila sem eiga lögheimili í Vopnafjarðarhreppi og Fljótsdalshreppi í samræmi við þjónustusamning Múlaþings við sveitarfélögin. Heimilt er að framlengja samninga um stuðningsfjölskyldu við fatlaða einstaklinga sem eru 18 ára og eldri á grundvelli mats á þörf meðan leitað er að annarri viðeigandi þjónustu.

 

3. gr.

Meðferð umsókna.

Ákvörðun um að veita þjónustu skal taka svo fljótt sem kostur er. Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær þjónustan verði veitt. Ef fyrirséð er að þjónusta sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þau úrræði sem hann hefur á biðtíma og aðra þjónustu sem er í boði. Þá skal veita honum aðra viðeigandi þjónustu á meðan beðið er eftir að þjónustan sem samþykkt hefur verið hefjist.

 

4. gr.

Val á stuðningsfjölskyldu.

Fjölskyldusvið Múlaþings ber ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þessarar þjónustu á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2018. Í ábyrgðinni felst meðal annars veiting leyfis til stuðningsfjölskyldna, að ákvörðun um val á stuðningsfjölskyldu sé í samræmi við skýrar faglegar kröfur og að stuðnings­fjölskylda uppfylli hverju sinni þau skilyrði sem ákvörðun byggist á.

Val á stuðningsfjölskyldu getur verið með tvennum hætti. Annars vegar að leyfi sé veitt stuðn­ings­fjölskyldu á grundvelli umsóknar þar að lútandi og hins vegar að tekin sé ákvörðun hverju sinni um að ganga til samninga við tiltekna fjölskyldu um að veita þessa þjónustu.

 

5. gr.

Gagnaöflun.

Áður en leyfi er veitt eða ákvörðun tekin þarf að afla eftirfarandi gagna frá verðandi stuðnings­fjölskyldu:

  1. Búsetuvottorðs.
  2. Læknisvottorðs.
  3. Samþykkis allra heimilismanna eldri en 15 ára fyrir því að sveitarfélag eða lögaðili um þjónustusvæði afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem fram kemur hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, sem og 211. eða 218. gr. almennra hegningar­laga, sbr. 26. gr. laga nr. 38/2018.
  4. Samþykkis forráðamanna stuðningsfjölskyldu fyrir því að heimilt sé að leita upplýsinga um stuðningsfjölskyldu og aðbúnað á heimili hennar frá öðrum aðilum, svo sem vinnuveit­endum, félagsþjónustu annarra sveitarfélaga og/eða heilbrigðisfulltrúa.
  5. Staðfestingar byggingafulltrúa um að eldvarnir á heimilinu séu fullnægjandi.
  6. Staðfests yfirlits um starf með börnum.
  7. Upplýsinga um önnur leyfi eða verkefni annaðhvort fyrir fötluð börn eða samkvæmt barna­verndar­lögum.

Áður en leyfi er veitt eða ákvörðun tekin skal meta aðstæður á heimili stuðningsfjölskyldu og taka saman greinargerð að loknu mati. Umsækjanda skal kynnt efni greinargerðarinnar og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Sé heimili stuðningsfjölskyldu staðsett utan Múlaþings eða þjón­ustusvæðis Múlaþings fer úttekt fram á grundvelli umboðs sem fjölskyldusvið Múlaþings veitir starfs­manni félagsþjónustu þar sem stuðningsfjölskyldan á lögheimili.

Í greinargerð komi fram upplýsingar um ástæður umsóknar, stutt lýsing á heimilisaðstæðum og aðbúnaði, eiginleikar og fjölskylduaðstæður umsækjenda, viðhorf til þess að gerast stuðnings­fjöl­skylda og eiga samskipti við starfsfólk félagsþjónustu, reynsla af umönnun barna og þekking á umönnun fatlaðra barna. Í greinargerð komi jafnframt fram samantekt á niðurstöðum framlagðra gagna skv. 4. gr. reglna þessara.

Við leyfisveitingu skal það tekið skýrt fram í leyfisbréfi að forsvarsmenn stuðningsfjölskyldu skuli tafarlaust tilkynna um allar breytingar á atriðum sem máli geta skipt við framkvæmd þjónust­unnar. Við endurnýjun leyfis er metið hvort leggja beri fram ný gögn eins og um nýja umsókn sé að ræða. Þó skulu ætíð liggja fyrir upplýsingar úr sakaskrá og skýrar upplýsingar um atriði sem kunna að hafa breyst ef liðin eru meira en þrjú ár frá því að slíkar upplýsingar voru veittar, auk þess sem fulltrúi félagsþjónustu skal hafa heimsótt heimilið á því tímabili.

 

6. gr.

Form samnings og samningsfjárhæðir.

Um dvöl barns hjá stuðningsfjölskyldu skal alltaf gerður sérstakur samningur óháð því hvort val fjölskyldu fer fram á grundvelli umsóknar eða ákvörðunar hverju sinni. Samningur er einnig gerður ef stuðningsfjölskylda er vegna fatlaðs einstaklings 18 ára og eldri eða ef úrræðið er notað sem stuðnings­fjölskylda við fatlaða foreldra.

Samningsfjárhæð er samkvæmt gjaldskrá fjölskyldusviðs Múlaþings um þjónustu stuðnings­fjölskyldna.

Miðað er við að þjónusta hefjist þegar barn er komið á heimili stuðningsfjölskyldu eða stuðn­ingsfjölskylda á heimili barnsins ef því er að skipta. Ferðir barns við upphaf og lok dvalar teljast ekki til þjónustu stuðningsfjölskyldu nema sérstaklega sé um það samið. Forráðamenn barnsins bera ábyrgð á ferðum þess til og frá stuðningsfjölskyldu nema um annað sé samið sérstaklega.

Samningsfjárhæð skal taka mið af þeim fjölda sólarhringa sem barnið dvelst hjá fjölskyldunni sem og umönnunarþörf.

Úttekt á framkvæmd þjónustunnar skal eiga sér stað á samningstímabili og eigi sjaldnar en á tólf mánaða fresti. Samningur getur framlengst sjálfkrafa en í honum skulu vera gagnkvæm uppsagnar­ákvæði. Ef þjónustan er veitt á grundvelli leyfis, sbr. 4. tölulið 5. gr. reglna þessara, skal tiltekið í samningi að hann falli úr gildi um leið og leyfið. Með sama hætti skal tekið fram að samningi megi rifta ef forsendur ákvörðunar eða leyfis bresta.

Í samningi eða skilmálum leyfis skal koma fram að stuðningsfjölskyldu sé óheimilt að taka við greiðslum eða gjöfum frá þeim sem njóta þjónustunnar.

 

7. gr.

Form á greiðslum.

Stuðningsfjölskylda gerir verksamning við sveitarfélagið og er þá um verktakagreiðslur að ræða. Þá ber að hafa hliðsjón af tryggingamálum og öðrum hliðstæðum atriðum, sbr. 8. gr. Þegar um verk­samning er að ræða getur stuðningsfjölskylda enn fremur dregið frá skattskyldum greiðslum tiltekinn kostnað samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.

 

8. gr.

Tryggingar og tengd atriði.

Í skilmálum leyfis er unnt að kveða á um hvaða tryggingar stuðningsfjölskylda skuli hafa. Byggist þjónustan á verksamningi skal hverju sinni kveðið á um tryggingamál. Með sama hætti er fjallað um eldvarnir og önnur slík atriði sem þurfa að vera í lagi á hverjum tíma.

 

9. gr.

Upplýsingamiðlun og eftirlit.

Fjölskyldusvið Múlaþings ber ábyrgð á því að stuðningsfjölskylda fái viðeigandi upplýsingar um allt það sem er mikilvægt fyrir velferð barnsins, þar á meðal heilsufar þess, hvort barn sé með ofnæmi eða óþol, mögulega lyfjainntöku og aðrar sérþarfir.

Stuðningsfjölskylda ber ábyrgð á því að upplýsa sveitarfélag barnsins og forráðamenn þess um allt það sem upp kemur meðan á dvöl stendur og gæti haft áhrif á líðan barnsins. Almennt ætti stuðningsfjölskylda að gefa munnlegar upplýsingar eftir hverja dvöl. Óski foreldri barns eftir skrif­legri staðfestingu á einhverjum atriðum skal orðið við því.

Upplýsingagjöf milli aðila getur verið útfærð með þríhliða samkomulagi sveitarfélags, stuðn­ings­fjölskyldu og forráðamanna barnsins. Með sama hætti skal kveða á um þagnarskyldu, þ.e. að stuðn­ings­fjölskylda undirgangist þagnarheit varðandi upplýsingar um barnið og fjölskylduhagi þess. Forráðamenn barns skulu einnig undirgangast þagnarheit varðandi hagi stuðningsfjölskyldu. Þagnar­skylda helst eftir að dvöl lýkur eða þegar samningur rennur sitt skeið á enda.

Í þríhliða samkomulagi sveitarfélagsins, stuðningsfjölskyldu og forráðamanna barns má einnig fjalla um önnur atriði sem ekki teljast til heimilishalds eða dvalar, svo sem afþreyingu. Jafnframt getur slíkt samkomulag kveðið á um reglulega fundi félagsþjónustunnar með báðum fjölskyldum.

Úttekt á framkvæmd þjónustunnar skal eiga sér stað á samningstímabili og eigi sjaldnar en á tólf mánaða fresti. Veiti stuðningsfjölskylda jafnframt aðstoð á grundvelli barnaverndarlaga, þannig að einkaheimili hennar falli undir 91. gr. þeirra laga, koma bæði félagsþjónusta og barna­verndar­yfirvöld að eftirliti.

 

10. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka þegar gildi.

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 9. mars 2022.

 

Múlaþingi, 16. mars 2022.

 

Björn Ingimarsson sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 31. mars 2022