Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 200/2017

Nr. 200/2017 12. mars 2017

REGLUR
um gjaldeyrismál.

I. KAFLI

Fjármagnshreyfingar á milli landa og gjaldeyrisviðskipti.

1. gr.

Skilgreining á fjármagnshreyfingum á milli landa.

Fjármagnshreyfingar á milli landa merkja yfirfærslu eða flutning á fjármunum á milli landa og flutning á fjármunum á milli innlendra og erlendra aðila, sbr. 1. gr. laga nr. 87/1992. Af 1. málsl. leiðir að flutningur á fjármunum á milli innlendra og erlendra aðila óháð því hvort slík yfirfærsla eða flutningur á sér stað með úttekt af reikningum hjá fjármálafyrirtækjum hér á landi yfir á reikninga hjá fjár­mála­fyrirtækjum erlendis, eða öfugt, með millifærslu á milli tveggja reikninga hjá fjármála­­fyrirtækjum hér á landi og/eða með millifærslu á milli tveggja reikninga hjá fjármálafyrirtækjum erlendis, felur ávallt í sér fjármagnshreyfingu á milli landa. Þá felur yfirfærsla og flutn­ingur á fjármunum til og frá landinu, þar sem fjármunir eru færðir af reikningum hjá fjármála­fyrirtækjum hér á landi yfir á reikninga hjá fjármála­fyrirtækjum erlendis, eða öfugt, ávallt í sér fjármagns­hreyfingu á milli landa og gildir þá einu hvort verið sé að færa fjármuni á milli reikninga í eigu sama aðila eða ekki.

2. gr.

Undanþágur vegna fjármagnshreyfinga á milli landa.

Fjármagnshreyfingar á milli landa skv. 1.–4. og 6. tölul. 1. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál eru undanþegnar takmörkunum 1.–3. mgr. sömu greinar, að undanskildum fjármagnshreyfingum í innlendum gjaldeyri vegna viðskipta með aflandskrónueignir sem falla undir lög um meðferð krónu­eigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Tilkynna skal Seðlabanka Íslands um fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri vegna:

 1. Greiðslu vaxta, verðbóta, samningsbundinna afborgana og fyrirfram- og uppgreiðslu lána­skuldbind­inga.
 2. Greiðslu arðs.
 3. Fjárfestinga í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peninga­markaðs­skjölum, öðrum framseljanlegum fjármálagerningum, peningakröfum og öðrum sambærilegum kröfuréttindum í erlendum gjaldeyri.
 4. Inn- eða útflutnings verðbréfa.
 5. Innleggs á og úttektar af reikningum hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, þ.m.t. með úttekt í reiðufé.
 6. Beinnar fjárfestingar erlendis, þ.m.t. langtímalánveitingar.
 7. Fasteignakaupa innlendra aðila erlendis.

Um efni og framkvæmd tilkynninga skv. 2. mgr. fer eftir 15. gr.

3. gr.

Undanþágur vegna gjaldeyrisviðskipta.

Gjaldeyrisviðskipti skv. 1. og 2. mgr. 13. gr. c laga um gjaldeyrismál, sem eru framkvæmd fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis, eru undanþegin takmörkunum sömu greina. Jafnframt er heimilt að taka út erlendan gjaldeyri í reiðufé af gjaldeyrisreikningum hjá fjármálafyrirtækjum hér á landi.

Gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. sem framkvæmd eru fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis hér á landi skulu tilkynnt til Seðlabanka Íslands. Um efni og framkvæmd tilkynninga fer eftir 15. gr.

4. gr.

Undanþágur vegna fjárfestinga í erlendum gjaldeyri.

Fjárfesting skv. 1. mgr. 13. gr. e laga um gjaldeyrismál er undanþegin takmörkunum sömu greinar.

Söluandvirði fjármálagerninga skv. 1. mgr. 13. gr. e laga um gjaldeyrismál, útgefinna í innlendum gjaldeyri, og uppgjör viðskipta eru undanþegin takmörkunum og skilyrðum 1. málsl. 2. mgr., 3. og 4. mgr. 13. gr. e laga um gjaldeyrismál.

Uppgjör viðskipta með fjármálagerninga skv. 1. mgr. 13. gr. e. laga um gjaldeyrismál, útgefinna í erlendum gjaldeyri, eru undanþegin takmörkunum 4. mgr. sömu greinar.

Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna fyrirframgreiðslu af fjármálagerningum skv. 1. mgr. 13. gr. e laga um gjaldeyrismál eru undanþegnar takmörkunum 5. mgr. sömu greinar.

Fjárfesting skv. 1. mgr. skal tilkynnt Seðlabanka Íslands. Um efni og framkvæmd tilkynningar fer eftir 15. gr.

5. gr.

Undanþágur vegna lántaka og lánveitinga.

Lántökur og lánveitingar í innlendum og erlendum gjaldeyri milli innlendra og erlendra aðila eru undanþegnar takmörkunum skv. 1.–3. mgr. 13. gr. g laga um gjaldeyrismál, sbr. 2. mgr., að undan­skildum lánveitingum innlendra aðila til erlendra aðila í erlendum gjaldeyri með greiðslu á banka­reikning hjá fjármálafyrirtæki hér landi og ráðstafað er, beint eða óbeint, til:

 1. Fjárfestinga í skuldabréfum eða víxlum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa.
 2. Ráðstöfunar í innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnun hér á landi og sem bera 3,00% ársvexti eða hærri.
 3. Fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum sjóða, sem fjárfesta í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða eiga innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnunum hér á landi ef samanlagt hlutfall reiðufjár og innlána, sem bera 3,00% ársvexti eða hærri, í eigna­samsetn­ingu sjóða er 10% eða hærra.
 4. Fjárfestinga í eigin fé fyrirtækis, sem fjárfest eða ráðstafað er beint eða óbeint með þeim hætti sem lýst er í a.–c. lið.

Að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands á að lánveiting sé ekki veitt í þeim tilgangi sem lýst er í a.–d. lið 1. mgr. eru slíkar lánveitingar undanþegnar takmörkunum. 1.–3. mgr. 13. gr. g laga um gjaldeyrismál.

Endurgreiðslur lána í innlendum og erlendum gjaldeyri milli innlendra og erlendra aðila eru undan­þegnar takmörkunum skv. 4.–5. mgr. 13. gr. g laga um gjaldeyrismál, að undanskildum endur­greiðslum vegna lánveitinga innlendra aðila til erlendra aðila í erlendum gjaldeyri sem ráð­stafað er beint eða óbeint í þeim tilgangi sem lýst er í a.–d. lið 1. mgr.

Um efni og framkvæmd beiðna um staðfestingu skv. 2. mgr. fer eftir 14. gr.

6. gr.

Undanþágur vegna útgáfu ábyrgða.

Þrátt fyrir takmarkanir 13. gr. h laga um gjaldeyrismál er heimilt að ganga í eða takast á hendur ábyrgð á greiðslum til erlendra aðila.

7. gr.

Undanþágur vegna afleiðuviðskipta.

Afleiðuviðskipti við fjármálafyrirtæki hér á landi sem hafa þann tilgang að vera áhættuvarnir, þar sem innlendur gjaldeyrir er í samningi gagnvart erlendum gjaldeyri, eru undanþegin takmörkunum 1. mgr. 13. gr. i laga um gjaldeyrismál að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands að um áhættu­varnir sé að ræða, að því gefnu að gjaldeyrisójöfnuður sé til staðar yfir tímalengd þess afleiðu­samnings sem gerður er. Varnir skv. 1. málsl. skulu endurspegla gjaldeyrisójöfnuð og samn­ingum skal breytt til samræmis ef forsendur fyrir gerð þeirra breytast, s.s. sala undirliggjandi eigna eða uppgjör skulda fyrir gjalddaga. Seðlabankinn getur afturkallað staðfestingu skv. 1. málsl. ef hann telur að forsendur til áhættuvarna séu ekki lengur til staðar.

Með afleiðuviðskiptum skv. 1. mgr. er átt við viðskipti með fjármálagerninga skv. d.–h. lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti.

Afleiðuviðskipti skv. 1. mgr. eru háð því skilyrði að samningar verði ekki framseldir beint eða óbeint til þriðja aðila fyrir lokagjalddaga.

Fjármálafyrirtæki hér á landi skal tilkynna Seðlabanka Íslands fyrir lok fyrsta virka dags hvers alman­aks­mánaðar um útistandandi samninga vegna afleiðuviðskipta skv. 1. mgr. við sína viðskipta­vini.

Um efni og framkvæmd beiðna um staðfestingu skv. 1. mgr. fer eftir 1.–3. mgr. 13. gr.

Um efni og framkvæmd tilkynninga skv. 4. mgr. fer eftir 4. mgr. 13. gr.

8. gr.

Undanþágur vegna greiðslu vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana.

Gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna greiðslu á vöxtum, verðbótum, arði og samningsbundnum afborgunum eru heimilar, óháð takmörkunum og skilyrðum 1.–9. mgr. 13. gr. j laga um gjaldeyrismál.

9. gr.

Nýfjárfesting.

Reglur þessar hafa ekki áhrif á skyldur aðila vegna fjárfestinga sem gerðar eru fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í skilningi 13. gr. m laga um gjaldeyrismál. Tilkynna ber um slíkar fjárfestingar innan þriggja vikna frá því að nýju innstreymi erlends gjaldeyris er skipt í innlendan gjaldeyri, sbr. 4. mgr. 13. gr. m og endurfjárfestingar skv. 7. mgr. sömu greinar. Fjármunir sem losna við sölu á nýfjárfestingu skulu þó ekki háðir staðfestingu Seðlabanka Íslands, en tilkynna skal um söluna til Seðlabankans.

Um efni og framkvæmd tilkynninga skv. 1. mgr. fer eftir 15. gr.

10. gr.

Undanþága frá skilaskyldu.

Innlendir aðilar eru undanþegnir skilaskyldu skv. 13. gr. l laga um gjaldeyrismál.

11. gr.

Undanþága vegna greiðslna fyrir útflutning vöru og þjónustu.

Greiðslur vegna útflutnings vöru og þjónustu skulu undanþegnar skilyrði 1. mgr. ákvæðis til bráða­birgða II laga um gjaldeyrismál.

12. gr.

Annað.

Reglur þessar hafa ekki áhrif á reglur um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjald­eyris, með síðari breytingum, eða reglur um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum tak­mörk­unum, með síðari breytingum.

II. KAFLI

Beiðnir um staðfestingu og tilkynningar.

13. gr.

Beiðni um staðfestingu og tilkynning vegna afleiðuviðskipta.

Beiðni um staðfestingu Seðlabanka Íslands á afleiðuviðskiptum skv. 7. gr. til áhættuvarna skal innihalda eftirfarandi upplýsingar og gögn:

 1. Afleiðuviðskipti til áhættuvarna á grundvelli áætlunar um vöru- og þjónustuviðskipti:
  1. Ársreikninga félagsins síðustu tveggja ára.
  2. Áætlun um gjaldeyrisójöfnuð vegna vöru- og þjónustuviðskipta, sundurliðaða eftir mánuðum í innlendan og erlendan gjaldeyri, með hliðsjón af gjaldeyrisójöfnuði síðasta árs.
  3. Lýsingu á þeim afleiðusamningum sem fyrirhugað er að gera til að verja, n.tt. upp­lýsingar um form, fjárhæðir og tímalengd viðskipta.
 2. Afleiðuviðskipti til að leiðrétta gjaldeyrisójöfnuð miðað við grunnmynt vegna vaxtaberandi skulda eða eigna innlendra aðila:
  1. Nýjasta ársreikning félagsins.
  2. Upplýsingar um þann gjaldeyrisójöfnuð sem til stendur að verja.
  3. Lýsingu á þeim afleiðusamningum sem fyrirhugað er að gera til að verja gjald­eyris­ójöfnuð, n.tt. upplýsingar um form, fjárhæðir og tímalengd viðskipta.
 3. Afleiðuviðskipti til að verja nýfjárfestingu skv. 13. gr. m laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál fyrir gengisáhættu:
  1. Upplýsingar um eignir sem fyrirhugað er að verja.
  2. Lýsing á þeim afleiðusamningum sem fyrirhugað er að gera til að verja nýfjárfestinguna, n.tt. upplýsingar um form, fjárhæðir og tímalengd viðskipta.
 4. Framvirk kaup eða sala á erlendum gjaldeyri til að verja vænt greiðsluflæði vegna fjárfestingar:
  1. Upplýsingar sem staðfesta að um fjárfestingu sé að ræða.
  2. Upplýsingar um vænt greiðsluflæði sem fyrirhugað er að verja.
  3. Lýsingu á þeim afleiðusamningum sem fyrirhugað er að gera til að verja greiðslu­flæði, n.tt. upplýsingar um form, fjárhæðir og tímalengd viðskipta.
 5. Afleiðuviðskipti sem hafa þann tilgang að vera áhættuvarnir, annarra en skv. 1.–4. tölul.:
  1. Upplýsingar um þann gjaldeyrisójöfnuð eða áhættu sem til stendur að verja.
  2. Lýsingu á þeim afleiðusamningum sem fyrirhugað er að gera til að verja gjald­eyris­ójöfnuð eða áhættu, n.tt. upplýsingar um form, fjárhæðir og tímalengd við­skipta.

Afhenda skal Seðlabankanum öll þau frekari gögn og upplýsingar sem Seðlabankinn kann að óska eftir til að geta staðfest að um afleiðuviðskipti til áhættuvarna sé að ræða.

Beiðni um staðfestingu skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. og gögn skulu berast rafrænt til Seðlabanka Íslands á netfangið [email protected].

Tilkynning fjármálafyrirtækja hér á landi til Seðlabanka Íslands um útistandandi samninga vegna afleiðuviðskipta skv. 4. mgr. 7. gr. skal send rafrænt til Seðlabanka Íslands samkvæmt leið­bein­ingum Seðlabankans um nánari framkvæmd reglna þessara, sbr. 18. gr., sem birtar eru á vef­síðu bankans.

14. gr.

Beiðni um staðfestingu vegna lánveitinga innlendra aðila
til erlendra aðila í erlendum gjaldeyri.

Beiðni um staðfestingu Seðlabanka Íslands á lánveitingum innlendra aðila til erlendra aðila í erlend­um gjaldeyri skv. 5. gr. skal innihalda eftirfarandi upplýsingar og gögn:

 1. Upplýsingar um lánveitanda (nafn, kennitala og heimilisfang).
 2. Upplýsingar um lántaka (nafn, kennitala og heimilisfang).
 3. Upplýsingar um tilefni og ráðstöfun lánveitingar.
 4. Fjárhæð lánveitingar.
 5. Vaxtaprósentu.

Afhenda skal Seðlabanka Íslands öll þau frekari gögn og upplýsingar sem Seðlabankinn kann að óska eftir til að geta staðfest að lánveiting hafi ekki verið veitt í þeim tilgangi sem lýst er í a.–d. lið 1. mgr. 5. gr.

Beiðni um staðfestingu skv. 1. mgr. og gögn skulu berast rafrænt til Seðlabanka Íslands á netfangið [email protected].

15. gr.

Tilkynning um fjármagnshreyfingu á milli landa,
gjaldeyrisviðskipti og fjárfestingu.

Tilkynning til Seðlabanka Íslands um fjármagnshreyfingu á milli landa skv. 1.–7. tölul. 2. mgr. 2. gr., gjaldeyrisviðskipti skv. 3. gr. og fjárfestingar skv. 4. gr. skal send af hálfu þess fjár­mála­fyrirtækis sem hefur milligöngu um fjármagnshreyfinguna, gjaldeyrisviðskiptin eða fjár­fest­inguna, innan fimm virkra daga frá því að greiðsla á sér stað. Ef greiðsla á sér stað án aðkomu innlends fjármálafyrirtækis skal greiðandi sjálfur annast tilkynningu til Seðlabankans.

Tilkynning og gögn skv. 1. mgr. skulu berast rafrænt til Seðlabanka Íslands samkvæmt leið­beiningum Seðlabankans um nánari framkvæmd reglna þessara, sbr. 18. gr., sem birtar eru á vef­síðu bankans. Fjármálafyrirtæki sem hefur milligöngu um fjármagnshreyfingu getur, að höfðu samráði við Seðlabankann, uppfyllt tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. með sjálfvirkum hætti.

16. gr.

Nýfjárfesting.

Tilkynning um nýfjárfestingu og endurfjárfestingu hennar fer eftir 4. og 7. mgr. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál.

Tilkynning vegna sölu á nýfjárfestingu skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál skal send á netfangið [email protected].

17. gr.

Tilkynning skv. 2. mgr. 14. gr. laga um gjaldeyrismál.

Þrátt fyrir skilyrði 2. mgr. 14. gr. laga um gjaldeyrismál um skyldu innlendra lögaðila til að tilkynna Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa á grundvelli ákvæðisins innan þriggja vikna, er innlendum lögaðilum heimilt að senda Seðlabanka Íslands mánaðarlega samantekt um framangreind viðskipti. Slík samantekt skal berast Seðlabankanum eigi síðar en mánuði frá stofnun yngstu skuldbindingar.

Tilkynning skv. 2. mgr. 14. gr. laga um gjaldeyrismál, sbr. 1. mgr., skal berast rafrænt til Seðla­banka Íslands samkvæmt leiðbeiningum Seðlabankans um nánari framkvæmd reglna þessara, sbr. 18. gr., sem birtar eru á vefsíðu bankans.

III. KAFLI

Leiðbeiningar, viðurlög og gildistaka.

18. gr.

Leiðbeiningar.

Seðlabankinn setur leiðbeiningar um nánari framkvæmd reglna þessara og birtir á heimasíðu sinni.

19. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessara reglna varða stjórnvaldssektum og refsingum skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 15. gr. h, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b laga nr. 87/1992, með síðari breytingum.

20. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 13. gr. b, 5. mgr. 13. gr. c, 9. mgr. 13. gr. j, 15. mgr. 13. gr. n, 4. og 5. mgr. 13. gr. o, 3. mgr. 13. gr. p og 1. og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 87/1992, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1266/2016, um gjaldeyrismál.

Reykjavík, 12. mars 2017.

Seðlabanki Íslands,

 Már Guðmundsson Guðmundur Sigbergsson,
 seðlabankastjóri. starfandi frkvstj. gjaldeyriseftirlits.

B deild - Útgáfud.: 13. mars 2017