Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 555/2015

Nr. 555/2015 19. júní 2015

SAMÞYKKT
um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar.

I. KAFLI

Markmið og gildissvið.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðar­kaupstaðar eins og þau eru ákveðin af heilbrigðisnefndum í samræmi við 9. gr. reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn. Skipting vatnsverndarsvæða fer samkvæmt reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, með síðari breytingum. Ákvæði samþykktarinnar um brunn- og grannsvæði gildir ekki um einkavatnsból og vatnsból fyrir staðbundna starf­semi, en önnur ákvæði samþykktarinnar, svo sem er varðar starfsleyfisskyldu fram­kvæmdar og ákvæði er varða varnir gegn mengun vatns gilda um þau eftir því sem við á.

2. gr.

Markmið samþykktarinnar er að tryggja verndun grunnvatns vatnsverndarsvæða höfuð­borgar­svæðisins þannig að gæði neysluvatns á vatnstökustað uppfylli ávallt kröfur sem gerðar eru í gildandi löggjöf. Þannig er stuðlað að hámarkshollustu og gæðum ómeð­höndlaðs neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar með því að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af völdum athafna, starfsemi og umsvifa á vatnsverndarsvæðum vatnsbóla á svæð­inu. Verndun er byggð á afmörkun svæðis, stjórnun, eftirliti, vöktun, samvinnu sveitar­félaga og upplýsingagjöf.

Að markmiðum þessum verður unnið í svæðisskipulagi þar sem ákvarðanir verða teknar um landnotkun til að tryggja sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna um vernd neysluvatns.

3. gr.

Skilgreiningar.

3.1 Aðrennslissvæði: Svæði þar sem vatnsból dregur til sín grunnvatn við vatnsöflun.

3.2 Aðrennslistími: Tími sem það tekur grunnvatn að renna að vatnsbóli.

3.3 Brunnsvæði: Sá hluti vatnsverndarsvæðis sem er í næsta nágrenni vatnsbóls. Lág­marks­fjarlægð frá vatnstöku að ytri mörkum brunnsvæðis er 50 metrar og síðan 200 metra geisli frá miðju vatnsbóls í aðrennslisstefnu grunnvatns. Ef útmörk 50 daga aðrennslis­tíma lenda innan 200 m geislans marka þau lágmarksfjarlægð brunn­svæðis­marka. Við afmörkun brunnsvæða er einnig tekið tillit til jarðfræðilegra greininga og stað­bund­inna aðstæðna svo sem yfirborðsvatnaskila.

3.4 Fjarsvæði: Fjarsvæði tekur við af grannsvæði og nær frá mörkum grannsvæðis allt til enda aðrennslissvæðis vatnsbóls við grunnvatnsskil. Undantekning eru mörk verndar­svæðisins til austurs í átt að Hellisheiði þar sem skilgreint fjarsvæði nær aðeins að ytri mörkum höfuðborgarsvæðisins og Sveitafélagsins Ölfuss. Grunnvatnsskil liggja þar töluvert lengra til austurs.

3.5 Grannsvæði: Grannsvæði tekur við af brunnsvæði á aðrennslissvæði vatnsbóls og liggur eftir aðrennslissvæði að reiknuðum útmörkum 400 daga aðrennslistíma grunnvatns að vatnsbóli miðað við 50 m þykkan vatnsleiðara. Við ákvörðun grannsvæðismarka er einnig tekið tillit til viðkvæmni svæða vegna sprungna, dýpis á grunnvatn, yfirborðsgerðar, lektar og misleitni.

3.6 Grunnvatn: Vatn, kalt eða heitt, sem er neðanjarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi.

3.7 Grunnvatnsskil: Skil í jörð þar sem grunnvatn greinist og rennur til mismunandi átta. Grunnvatnsskil geta verið breytileg eftir árstíðum.

3.8 Írennsli: Vatn sem sígur í jörð og skilar sér til grunnvatns.

3.9 Lekt: Mælieining á vatnsleiðni jarð- og berglaga.

3.10 Misleitni: Notuð í líkanreikningum til þess að gera grein fyrir sprungum og mis­gengjum. Segir til um misleitni í lekt jarðlaga þ.e. ósamfellu í vatnsleiðni. Misleitni í lekt jarð­laga er engin þegar straumstefna grunnvatns er hornrétt á grunnvatnshæðarlínur.

3.11 Skipulagsáætlun: Áætlun um markmið og ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnotkun lands. Þar er gerð grein fyrir því að hvers konar framkvæmdum er stefnt og hvernig þær falla að landnotkun á tilteknu svæði. Forsendum ákvarðana er einnig lýst. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skiptast í þrjá flokka, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Skipulagsáætlun er sett fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdrætti þar sem það á við.

3.12 Útmörk: Ystu reiknuðu mörk á hverjum stað fyrir sig yfir allt reiknitímabilið.

3.13 Öryggissvæði: Öryggissvæði eru utan aðrennslissvæða grunnvatns til vatnsbóla og liggja eftir jöðrum brunn-, grann- og fjarsvæða. Þau eru skilgreind á svæðum þar sem mengun er mögulega talin geta borist af yfirborði með írennsli til grunnvatns og dreifst með grunnvatnsstraumum til vatnsbóla. Gæta þarf viðunandi öryggis við ákvörðun um nýtingu svæðis sem og hönnun og gerð mannvirkja og mengunarvarna. Öryggissvæðum er skipt í tvo flokka eftir eðli svæðisins.

  a) Öryggissvæði vegna grunnvatns: Svæði þar sem talið er að efni sem berast í jörð geti mögulega borist í grunnvatn og þaðan inn á áhrifasvæði vatnstökustaða.
  b) Öryggissvæði vegna yfirborðsvatns: Svæði þar sem talið er að mengun á yfirborði geti mögulega borist inn á áhrifasvæði vatnstökustaða.

4. gr.

Samþykktin tekur til hvers konar athafna eða framkvæmda sem geta haft áhrif á gæði grunn­vatns á vatnstökustað, svo sem ræktunarstarfa, umgengni, nýrra bygginga, breyt­inga, viðhalds og frágangs mannvirkja. Samþykktin nær til umferðar vélknúinna farar­tækja, meðferðar efna sem valdið geta mengun, atvinnurekstrar, húsdýrahalds, land­búnaðar og útivistar. Þá skal mannvirkjagerð á verndarsvæðum vera í samræmi við skipulags­áætlanir og hafa öryggi vatnsverndar og faglegan undirbúning að leiðarljósi.

Samþykktin tekur mið af ákvæðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Skrá yfir vernduð og viðkvæm svæði þar sem tilgreind eru vatnsverndarsvæði, vatna­vistkerfi, svo og vistkerfi sem tengjast þeim að vatnabúskap, ásamt svæðum sem njóta heild­stæðrar verndar samkvæmt lögum eða eru friðlýst vegna sérstöðu vatns, sbr. 25. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, skal vera aðgengileg almenningi á verndar­svæðum vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Sel­tjarnarnes­bæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar og uppfærð reglu­lega.

5. gr.

Um eftirlit með samþykkt þessari fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um holl­ustu­hætti og mengunarvarnir.

Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd skipuleggur eftirlit á brunnsvæðum, grannsvæðum og fjar­svæðum samkvæmt samþykkt þessari og hefur umsjón með að viðbragðsáætlanir vegna meng­unar­óhappa séu gerðar.

6. gr.

Þurfi heilbrigðisnefnd að taka ákvörðun í samræmi við samþykkt þessa, sem kann að varða vatnsvernd vatnsbóls á öðru eftirlitssvæði, skal ákvörðun aðeins tekin að höfðu samráði við heilbrigðisnefnd þess svæðis.

7. gr.

Framkvæmdastjórar heilbrigðiseftirlitssvæða á höfuðborgarsvæðinu mynda sameiginlega framkvæmdastjórn og skipta með sér verkum á tveggja ára fresti. Hlutverk fram­kvæmda­stjórnar er að tryggja upplýsingaflæði á milli heilbrigðisnefnda og samræma vinnu­brögð við leyfisveitingar innan vatnsverndarsvæða. Stjórnin skal tryggja samræmt eftirlit á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins samkvæmt samþykkt þessari, hafa umsjón með að viðbragðsáætlanir fyrir vatnsverndarsvæðið vegna mengunaróhappa séu gerðar og koma fram sem fulltrúi heilbrigðisnefndanna eftir því sem við á vegna vatns­verndar yfir lögsögumörk. Framkvæmdastjórnin gerir árlega skýrslu um störf sín. Hún hefur jafn­framt reglubundið samráð við forsvarsmenn vatnsveitna um framkvæmd sam­þykktar þessarar.

II. KAFLI

Mengunarvarnir og öryggisreglur á verndarsvæðum.

A. Brunnsvæði.

8. gr.

Brunnsvæði skal algjörlega friðað fyrir óviðkomandi umferð, framkvæmdum og starfsemi annarri en þeirri, sem nauðsynleg er vegna vatnsveitunnar. Vatnsból og mannvirki skulu afmörkuð með girðingu eða öryggi tryggðu á jafngildan hátt.

9. gr.

Vatnsveitur afla starfsleyfis hjá heilbrigðisnefnd. Vatnstaka og dreifing er á ábyrgð við­komandi vatnsveitu.

10. gr.

Afla þarf leyfis heilbrigðisnefndar til verklegra framkvæmda og skal við þær framkvæmdir farið eftir ákvæðum samþykktarinnar. Heilbrigðisnefnd skal setja sértæk starfsleyfisskilyrði eftir því sem við á. Ef um er að ræða nauðsynlegar framkvæmdir vegna vatnsveitu umfram hefðbundna vinnu við hana skal framkvæmdaaðili leggja fram áhættumat vegna hættu á mengun grunnvatns áður en framkvæmdir hefjast.

11. gr.

Geymsla á olíu eða efnavörum er óheimil innan brunnsvæðis nema í skamman tíma og skal sérstaklega getið um slíkt í tímabundnu starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

12. gr.

Salerni og þvottaaðstaða á brunnsvæði er háð leyfi heilbrigðisnefndar. Skólpi frá slíkri aðstöðu skal veitt í safntank sem tæmdur skal reglulega. Utan um tank og leiðslur skal vera viðurkennd lekavörn með góðri aðstöðu til vöktunar. Ennfremur skal flutningsaðili sem annast tæmingar hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

13. gr.

Um girðingar, mannvirki, búnað, framkvæmd vinnu, meðferð varasamra efna, við­bragðs­áætlanir vegna mengunaróhappa og umhirðu og frágang mannvirkja skal fjallað nánar í starfsleyfi viðkomandi vatnsveitu og í innra eftirliti.

14. gr.

Tæki sem knúin eru jarðefnaeldsneyti skulu hafa staðist lekaskoðun.

B. Grannsvæði.

15. gr.

Á grannsvæði eru framkvæmdir og starfsemi sem ógnað geta öryggi vatnsöflunar bönnuð. Önnur landnot eru einkum til útivistar enda falli þau not að forsendum vatnsverndar.

16. gr.

Óheimilt er að skipuleggja íbúðarbyggð, frístundabyggð eða atvinnustarfsemi á grann­svæðinu sem ekki fellur að 15. gr. Óheimilt er að leyfa nýjar byggingar, sumarbústaði eða þess háttar á svæðinu.

Vegir og samgöngur.

17. gr.

Við hönnun og uppbyggingu nýrri og eldri vega á grannsvæðum skal umferðaröryggi og mengunarvarnir lagt til grundvallar. Þar sem hætta er á útafakstri og á veghlutum þar sem grunnvatnsrennsli er til vatnsbóla skal tryggja fullnægjandi mótvægisaðgerðir.

18. gr.

Nýja vegi skal ekki leggja á grannsvæði nema mikilvægar ástæður séu fyrir hendi. Þá skal að jafnaði ekki leggja bundnu slitlagi, en sé það gert skal nota steinsteypu eða malbik. Við allar framkvæmdir þar sem notaðar eru bifreiðar, vinnuvélar eða önnur tæki sem nota olíu af einhverju tagi, skal gætt fullnægjandi mengunarvarna. Notkun hálkuhamlandi eða rykbindandi efna er háð samþykki heilbrigðisnefndar.

19. gr.

Vegagerð og viðhald vega á svæðinu er háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar sem setur nánari skilyrði um mengunarvarnir vegna framkvæmdanna. Leyfið skal ná til efna sem nota á í vegstæði og til gerðar slitlags sem skal vera steinsteypa eða malbik. Það skal ennfremur ná til mengunarvarna svo sem olíunotkunar og lekaskoðana á tækjum, til tímasetningar fram­kvæmda, staðsetningar vinnubúða og annarra atriða er málið kann að varða.

20. gr.

Óheimilt er að nýta akvegi á grannsvæðum til akstursíþrótta. Þeir eru ætlaðir til reksturs vatnsveitna, vegna öryggismála, þ.e. til aðkomu lögreglu, sjúkraliðs, slökkviliðs og björg­unar­sveita og til nýtingar svæðisins til almennrar útivistar á forsendum vatnsverndar.

21. gr.

Vegum og slóðum á grannsvæði sem hvorki er viðhaldið né standast kröfur vegna öryggisþátta m.t.t. mengunarhættu skal veghaldari loka fyrir almennri umferð en sé enginn veghaldari til staðar ber sveitarstjórn að loka fyrir umferð. Áningastaðir í og við Heiðmörk skulu hafðir sem fjærst brunnsvæðum.

22. gr.

Utanvegaakstur er óheimill á grannsvæðum nema vegna bráðra öryggismála, sbr. 20. gr., eða þess er getið sérstaklega í tímabundnum starfsleyfum vegna verklegra framkvæmda þegar hjá öðru verður ekki komist.

23. gr.

Þar sem almennir vegir liggja inn á eða að grannsvæði vatnsbóla skal eigandi vegarins láta koma fyrir skilti með nauðsynlegum upplýsingum fyrir vegfarendur um viðkvæmni svæðis­ins fyrir mengun.

Starfsemi, ræktunarstörf og framkvæmdir.

24. gr.

Á grannsvæði er óheimilt að hefja nýjan eða auka núverandi atvinnurekstur. Heil­brigðis­nefnd er þó heimilt að víkja frá þessu ákvæði þegar tryggt er að engin hætta sé á mengun grunnvatns af völdum starfseminnar.

25. gr.

Rekstraraðili áformaðra framkvæmda verður að sýna fram á að starfseminni verði ekki fundinn annar staður vegna eðlis hennar og að engin hætta sé á mengun. Mannvirkjagerð vegna slíkrar starfsemi þarf starfsleyfi heilbrigðisnefndar, að undangengnu áhættumati, áður en framkvæmdir hefjast. Heilbrigðisnefnd er heimilt að veita tímabundin starfsleyfi vegna rannsókna er tengjast nýtingu svæðisins.

26. gr.

Ræktun og uppgræðsla á grannsvæðum er háð leyfi heilbrigðisnefndar. Þegar sótt er um slíkt leyfi skal leggja fram áætlun um framkvæmdina. Heilbrigðisnefnd setur þau skilyrði fyrir leyfinu sem hún telur eiga við hverju sinni og skal leyfið bundið við tiltekið svæði, árafjölda og framkvæmdaraðila. Í leyfinu skal tekið fram magn og meðferð áburðar og á hvaða tíma ársins dreifing sé heimil. Notkun tilbúins áburðar er eingöngu heimil í undan­tekn­ingar­tilvikum.

27. gr.

Á svæðinu skal aðeins geyma áburð til skamms tíma í senn og skal gætt mengunarvarna sem eru fullnægjandi að mati heilbrigðisnefndar.

28. gr.

Notkun plöntuverndarvara, útrýmingarefna og annarra varasamra efna er óheimil nema í smáum stíl til einkanota.

29. gr.

Ef fram kemur rökstuddur grunur um óæskileg áhrif ræktunar og uppgræðslu á grunnvatn er heilbrigðisnefnd heimilt að takmarka eða banna frekari ræktun.

Salerni og rotþrær.

30. gr.

Afla skal leyfis heilbrigðisnefndar fyrir náðhúsum, salernum, fráveitum og rotþróm. Í leyfi nefndarinnar skal kveðið á um gerð, viðhald, hreinsun og eftirlit með búnaðinum. Þar sem rotþró með viðeigandi siturlögn er ekki nægjanleg mengunarvörn að mati heilbrigðisnefndar skal koma fyrir safntanki á fráveitulögn eða hafa þurrsalerni. Förgun á seyru og úrgangi úr þurrsalernum eða náðhúsum er óheimil á svæðinu.

31. gr.

Rekstraraðili áningastaða á grannsvæði í og við Heiðmörk skal koma fyrir og reka salernis­aðstöðu sem tengja skal viðurkenndri rotþró með siturlagnakerfi. Nýjum áninga­stöðum skal fundinn staður í meira en 1 km fjarlægð frá næsta vatnstökustað. Eldri áninga­staðir sem eru í minni fjarlægð skulu annaðhvort aflagðir eða hafa snyrtiaðstöðu sem tengd er við samþykktan safntank.

Geymsla varasamra efna.

32. gr.

Geymsla á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum er óheimil nema það sé tiltekið í tíma­bundnu starfsleyfi heilbrigðisnefndar. Sama gildir um olíuáfyllingar á tæki og tanka. Flutn­ings­aðili slíkra efna skal hafa fullnægjandi viðbragðsáætlun og leyfi heilbrigðisnefndar til flutn­ing­anna.

33. gr.

Óheimilt er að nota olíu til húshitunar eða annarrar notkunar þegar rafmagn eða gas getur komið í staðinn.

34. gr.

Við viðhald bygginga, girðinga, raflína o.þ.h. skal gætt sérstakrar varúðar við notkun vara­samra efna, svo sem fúavarnarefna, olíuefna og annarra sambærilegra efna.

Sorp, aukaafurðir dýra og annar úrgangur.

35. gr.

Óheimilt er að flytja dýraskít, slóg eða annan úrgang inn á svæðið til geymslu eða förgunar. Sorp og annan úrgang sem þar verður til skal geyma samkvæmt viðurkenndum aðferðum og ber að flytja hann út af svæðinu til endurnýtingar eða förgunar eftir því sem við á. Venjulegan garðaúrgang og lífrænan heimilisúrgang er heimilt að jarðgera og nota þar sem hann verður til. Hlíta skal fyrirmælum heilbrigðisnefndar um búnað og framkvæmd jarð­gerðar. Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta hreinsa upp, á kostnað hlutaðeigandi aðila, efni og önnur óhreinindi, sem farið hafa niður og minnsti grunur leikur á að geti valdið grunn­vatns­mengun.

Búfjárhald.

36. gr.

Óheimilt er að auka eða hefja nýtt búfjárhald á grannsvæðum. Búfjárhald skal uppfylla ákvæði samþykktar viðkomandi sveitarfélags um búfjárhald. Samþykki heilbrigðisnefndar skal liggja fyrir á staðsetningu, gerð og fyrirkomulagi fráveitu, taðþróa og haughúsa. Búfjár­áburð, sem verður til á svæðinu og er ekki nýttur jafnóðum í samræmi við ákvæði 35. gr., skal flytja reglulega út af svæðinu. Þeir sem stunda búfjárhald á grannsvæðum skulu leggja fram áætlun um á hvern hátt mykju, taði, skít og skemmdu heyi er fargað og stað­festingu á afdrifum ef förgun er á annars vegum. Dýrahræ skulu flutt út af svæðinu og fargað á viðurkenndan hátt. Við búfjárhald skal gætt góðrar umgengni.

Útivist.

37. gr.

Við skipulag útivistar og umferðar skal þess gætt að mengunarhætta verði sem minnst. Umráðaaðili útivistarsvæðis skal sjá um að komið verði fyrir ílátum fyrir rusl þar sem það á við og að fram fari reglubundin tæming þeirra. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að fram fari reglubundin hreinsun á og við stíga og áningastaði.

Meðferð skotvopna.

38. gr.

Almenn meðferð skotvopna er bönnuð á grannsvæðum.

C. Fjarsvæði.

39. gr.

Fjarsvæði er aðalákomusvæði fyrir þá grunnvatnsstrauma sem liggja að núverandi vatns­bólum og framtíðarvatnsbólum. Öll landnot verða að falla að forsendum vatnsverndar.

Vegir og samgöngur.

40. gr.

Við hönnun og uppbyggingu nýrri og eldri vega á fjarsvæðum skal umferðaröryggi og mengunarvarnir lagt til grundvallar. Þar sem hætta er á útafakstri og á veghlutum þar sem grunnvatnsrennsli er til vatnsbóla skal tryggja fullnægjandi mótvægisaðgerðir.

41. gr.

Áður en vegir eru gerðir eða lagðir bundnu slitlagi skal afla starfsleyfis heilbrigðisnefndar fyrir framkvæmdinni. Leyfið skal ná til efna, sem nota á í vegstæði og til gerðar slitlags sem skal vera steinsteypa eða malbik, til mengunarvarna svo sem olíunotkunar og lekaskoðana á tækjum, til tímasetningar framkvæmda, staðsetningar vinnubúða og annarra atriða er málið kann að varða.

42. gr.

Óheimilt er að nýta akvegi á fjarsvæðum til akstursíþrótta.

43. gr.

Þar sem almennir vegir liggja inn á fjarsvæði vatnsbóla skal eigandi vegar láta koma fyrir skilti með nauðsynlegum upplýsingum fyrir vegfarendur um viðkvæmni svæðisins fyrir mengun.

Starfsemi, ræktunarstörf og framkvæmdir.

44. gr.

Allar framkvæmdir og mannvirkjagerð á fjarsvæðum skulu vera í samræmi við skipu­lags­áætlanir. Rekstraraðili áformaðrar framkvæmdar verður að sýna fram á að starf­sem­inni verði ekki fundinn annar staður vegna eðlis hennar eða að framkvæmdin styðji við þá starfsemi sem fyrir er á svæðinu og að engin hætta sé á mengun grunnvatns vegna fram­kvæmdar eða reksturs. Mannvirkjagerð vegna slíkrar starfsemi þarf starfsleyfi heil­brigðis­nefndar áður en framkvæmdir hefjast.

45. gr.

Á fjarsvæði er óheimilt að staðsetja mengandi starfsemi án samþykktar heilbrigðisnefndar og skal starfsleyfi ekki veitt nema að tryggt sé að grunnvatn mengist ekki, starfsemin sé í samræmi við skipulagsáætlanir og önnur ákvæði samþykktar þessarar.

46. gr.

Akstursíþróttasvæði, skotvellir og sambærileg starfsemi er óheimil á fjarsvæðum.

47. gr.

Aðilar sem hug hafa á framkvæmdum eða rekstri á svæðinu skulu áður en sótt er um starfs­leyfi til framkvæmda skila til heilbrigðisnefndar áhættumati er nær bæði til fram­kvæmda og reksturs.

48. gr.

Ræktun og uppgræðsla á fjarsvæðum er háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar. Það skal ná til staðsetningar ræktunarsvæða og umfangs. Heimila má notkun tilbúins áburðar í undan­tekn­ingar­tilvikum. Á svæðinu skal aðeins geyma áburð til skamms tíma í senn og skal gætt meng­unar­varna sem eru fullnægjandi að mati heilbrigðisnefndar.

49. gr.

Notkun plöntuverndarvara, útrýmingarefna og annarra varasamra efna er einungis heimil til heimilisnota.

Geymsla varasamra efna.

50. gr.

Geymsla á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum er óheimil nema það sé tiltekið í starfsleyfi heilbrigðisnefndar. Sama gildir um olíuáfyllingar á tæki og tanka. Flutningsaðili slíkra efna skal hafa fullnægjandi viðbragðsáætlun og leyfi heilbrigðisnefndar til flutn­ing­anna.

51. gr.

Óheimilt er að nota olíu til húshitunar eða annarrar notkunar þegar rafmagn eða gas getur komið í staðinn.

52. gr.

Við viðhald bygginga, girðinga, raflína o.þ.h. skal gætt sérstakrar varúðar við notkun vara­samra efna, svo sem olíu, fúavarnarefna og annarra sambærilegra efna.

Búfjárhald.

53. gr.

Óheimilt er að auka eða hefja nýtt búfjárhald á svæðinu. Búfjárhald á fjarsvæðum skal uppfylla ákvæði samþykktar viðkomandi sveitarfélags um búfjárhald. Samþykki heil­brigðis­nefndar skal liggja fyrir á staðsetningu, gerð og fyrirkomulagi fráveitu taðþróa og haug­húsa. Við búfjárhald skal gætt góðrar umgengni.

Salerni og rotþrær.

54. gr.

Afla skal leyfis heilbrigðisnefndar fyrir náðhúsum, salernum, fráveitum og rotþróm. Förgun á seyru og úrgangi úr þurrsalernum eða náðhúsum er óheimil á svæðinu.

55. gr.

Ef efasemdir eru um nægjanlega afkastagetu eða virkni hreinsibúnaðar við fráveitu getur heilbrigðisnefnd kallað eftir úttekt rekstraraðila eða eftir öðrum fráveitulausnum.

D. Öryggissvæði.

56. gr.

Skipulag byggðar, þ.m.t. íbúðarbyggðar, framkvæmdir og starfsemi innan öryggissvæða skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Starfsemi sem getur haft í för með sér mengun er óheimil. Heilbrigðisnefnd er heimilt að víkja frá ákvæði þessu ef metið er að lítil hætta sé á jarðvegs- eða grunnvatnsmengun og sýnt hefur verið fram á fyllstu mengunarvarnir. Aðilar sem hug hafa á framkvæmdum eða rekstri á svæðinu skulu áður en sótt er um starfs­leyfi til framkvæmda skila inn til heilbrigðisnefndar áhættumati er nær bæði til fram­kvæmda og reksturs.

Vegir og samgöngur.

57. gr.

Áður en vegir eru gerðir, endurnýjaðir eða lagðir bundnu slitlagi skal afla starfsleyfis heil­brigðisnefndar fyrir framkvæmdinni.

58. gr.

Óheimilt er að nýta akvegi á öryggisvæðum til akstursíþrótta.

Starfsemi, ræktunarstörf og framkvæmdir.

59. gr.

Allar framkvæmdir og mannvirkjagerð á öryggissvæðum skulu vera í samræmi við skipu­lags­áætlanir. Mannvirkjagerð þarf starfsleyfi heilbrigðisnefndar áður en framkvæmdir hefjast. Heilbrigðisnefnd er heimilt að veita tímabundin starfsleyfi vegna rannsókna er tengjast nýtingu svæðisins.

60. gr.

Á svæðinu skal aðeins geyma áburð til skamms tíma í senn og skal gætt mengunarvarna sem eru fullnægjandi að mati heilbrigðisnefndar.

61. gr.

Notkun plöntuverndarvara, útrýmingarefna og annarra varasamra efna er einungis heimil til heimilisnota.

Geymsla varasamra efna.

62. gr.

Geymsla á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum er óheimil nema það sé tiltekið í starfs­leyfi heilbrigðisnefndar. Sama gildir um olíuáfyllingar á tæki og tanka. Flutningsaðili slíkra efna skal hafa fullnægjandi viðbragðsáætlun og leyfi heilbrigðisnefndar til flutn­ing­anna.

63. gr.

Óheimilt er að nota olíu til húshitunar eða annarrar notkunar þegar rafmagn eða gas getur komið í staðinn.

64. gr.

Við viðhald bygginga, girðinga, raflína o.þ.h. skal gætt sérstakrar varúðar við notkun vara­samra efna, svo sem olíu, fúavarnarefna og annarra sambærilegra efna.

Búfjárhald.

65. gr.

Búfjárhald á öryggissvæðum skal uppfylla ákvæði samþykktar viðkomandi sveitarfélags um búfjárhald. Samþykki heilbrigðisnefndar skal liggja fyrir á staðsetningu, gerð og fyrir­komu­lagi fráveitu taðþróa og haughúsa. Við búfjárhald skal gætt góðrar umgengni.

Salerni og rotþrær.

66. gr.

Afla skal leyfis heilbrigðisnefndar fyrir náðhúsum, salernum, fráveitum og rotþróm. Förgun á seyru og úrgangi úr þurrsalernum eða náðhúsum er óheimil á svæðinu.

67. gr.

Ef efasemdir eru um nægjanlega afkastagetu eða virkni hreinsibúnaðar við fráveitu getur heilbrigðisnefnd kallað eftir úttekt rekstraraðila eða eftir öðrum fráveitulausnum.

III. KAFLI

Almenn ákvæði.

Gróðureldar.

68. gr.

Brugðist skal við verði vart gróðurelda, þeir slökktir og dreifing lágmörkuð. Við skipulag landnýtingar skal tekið mið af eldvörnum.

Eldsvoðar.

69. gr.

Við slökkvistörf vegna bruna í húsum, farartækjum og öðrum vélbúnaði skal tekið mið af mengunarhættu sem fylgir slíku slökkvistarfi og tryggja að ekki hljótist af gróðureldar.

Bygging háspennulína.

70. gr.

Leita þarf samþykkis heilbrigðisnefnda við staðsetningu lagnaleiða og annarra þátta er varða slíkar framkvæmdir. Bygging háspennulína innan vatnsverndarsvæða höfuð­borgar­svæðis­ins er starfsleyfisskyld starfsemi. Leyfið skal ná til allra verkþátta svo sem verklags, mengunarvarna og tímasetningar framkvæmda.

Niðurrif háspennulína.

71. gr.

Niðurrif háspennulína innan vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins er starfsleyfisskyld starfsemi. Leyfið skal ná til allra verkþátta svo sem verklags, mengunarvarna og tíma­setn­ingar framkvæmda.

Bláfjallafólkvangur.

72. gr.

Óheimilt er að veita leyfi fyrir nýjum framkvæmdum og rekstri innan vatnsverndarsvæðisins í Bláfjallafólkvangi fyrr en fullnægjandi mótvægisaðgerðir hafa farið fram, til að lágmarka mengunarhættu vegna umferðar, að mati heilbrigðisnefndar.

IV. KAFLI

Gildistaka.

73. gr.

Samþykkt þessi sem samin er af heilbrigðisnefndum á höfuðborgarsvæðinu og samþykkt af sveitarstjórnum Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að að öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 636/1997 um verndarsvæði vatnsbóla innan lög­sagnar­umdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogs, Garða­bæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 19. júní 2015.

Sigrún Magnúsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.


B deild - Útgáfud.: 25. júní 2015