I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi fjallar um tengiliði og málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021.
2. gr.
Markmið.
Meginmarkmið tengiliða og málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna er að stuðla að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Tengiliðir og málstjórar skulu:
- Fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu.
- Bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.
- Hafa samráð við aðra þjónustuveitendur með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra.
Tengiliðir og málstjórar hafa hagsmuni barns að leiðarljósi.
3. gr.
Samstarf við foreldra og/eða barn.
Tengiliðir og málstjórar þjónustu í þágu farsældar barna starfa á grundvelli beiðni foreldra og/eða barns. Þeir rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn.
II. KAFLI
Tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns.
4. gr.
Val á tengiliðum.
Í hverjum leik-, grunn- og framhaldsskóla og á hverri heilsugæslustöð skal í það minnsta einn starfsmaður fara með hlutverk tengiliðar. Þess skal gætt að starfsmaðurinn hafi svigrúm frá öðrum verkefnum til að sinna hlutverkinu.
Sá sem stýrir viðkomandi skóla eða heilsugæslustöð skal tilkynna Barna- og fjölskyldustofu um það hver og/eða hverjir gegna hlutverki tengiliðar.
Félagsþjónusta sveitarfélaga skal hafa tengiliði tiltæka eftirþörfum, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
5. gr.
Hlutverk tengiliðar.
Hlutverk tengiliðar er að:
- Veita foreldrum og börnum, og eftir atvikum þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna, upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.
- Gera frummat á þörfum barns eða aðstoða við að tryggja aðgang að slíku mati.
- Skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns ef þess gerist þörf.
- Koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra þjónustu í þágu farsældar barns ef ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma.
- Taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.
Áður en tengiliður byrjar að veita þjónustu skv. 1. mgr. skal liggja fyrir beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu, sbr. 3. gr.
6. gr.
Almennt hæfi tengiliðar.
Þeir sem fara með hlutverk tengiliðar skulu uppfylla eitt af eftirtöldum skilyrðum:
- Hafa grunnmenntun á háskólastigi og leyfi landlæknis til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar, sbr. lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012,
- hafa rétt til að nota starfsheitið kennari, sbr. lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019,
- hafa háskólamenntun sem tengist starfi með börnum og fjölskyldum eða
- hafa öðlast þekkingu og reynslu af starfi með börnum og fjölskyldum sem jafna má til hæfni skv. 1. til 3. tölul.
Tengiliður skal hafa viðeigandi þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barna. Hann skal sækja viðeigandi fræðslu til Barna- og fjölskyldustofu.
III. KAFLI
Málstjóri þjónustu í þágu farsældar barns.
7. gr.
Val á málstjóra.
Sérhver félagsþjónusta sveitarfélags skal hafa yfir að ráða málstjóra í þágu farsældar barns.
Félagsþjónusta sveitarfélaga skal tilkynna Barna- og fjölskyldustofu um það hver og/eða hverjir gegna hlutverki málstjóra. Ef sveitarfélag hefur nýtt heimild í 2. mgr. 20. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna til að velja málstjóra utan félagsþjónustu sveitarfélagsins skal tilkynna Barna- og fjölskyldustofu um það.
8. gr.
Hlutverk málstjóra.
Hlutverk málstjóra er að:
- Veita foreldrum og börnum ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.
- Gera mat og/eða greiningu á þörfum barns eða aðstoða við að tryggja aðgang að slíku mati og/eða greiningu eftir atvikum með því að samræma og samhæfa framkvæmd.
- Bera ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar og að stýra stuðningsteymi, þar með talið að fylgja eftir reglubundinni samvinnu meðan áætlun varir og að stuðningsáætlun verði endurmetin og endurnýjuð eftir þörfum.
- Fylgja því eftir að þjónusta sé veitt í samræmi við stuðningsáætlun.
- Veita þeim sem sitja í stuðningsteymi ráðgjöf og upplýsingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur.
Áður en málstjóri byrjar að veita þjónustu skv. 1. mgr. skal liggja fyrir beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu, sbr. 3. gr.
9. gr.
Almennt hæfi málstjóra.
Málstjóri þjónustu í þágu farsældar barns skal hafa háskólamenntun á sviði félags-, heilbrigðis- eða menntavísinda og næga fagþekkingu til að veita einstaklingsbundna ráðgjöf.
Málstjóri skal hafa þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barna.
IV. KAFLI
Aðrar hæfisreglur og skyldur tengiliða og málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna.
10. gr.
Sérstakt hæfi.
Tengiliðir og málstjórar mega ekki vera tengdir barni eða foreldrum þess með þeim hætti sem mundi leiða til vanhæfis samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga.
11. gr.
Þagnarskylda.
Tengiliðir og málstjórar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga um upplýsingar sem þeir hafa orðið áskynja um vegna verkefna skv. reglugerð þessari.
V. KAFLI
Lokaákvæði.
12. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett skv. 5. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, og tekur þegar gildi.
Mennta- og barnamálaráðuneytinu, 11. október 2022.
Ásmundur Einar Daðason.
|