Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1346/2023

Nr. 1346/2023 6. desember 2023

SIÐAREGLUR
ráðherra.

Inngangur.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt meðfylgjandi siðareglur ráð­herra, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Siðareglurnar veita leiðsögn um það hvers konar framganga hæfir svo veigamiklu embætti en jafnframt gefa þær almenningi færi á að bera hegðun ráðherra saman við skráðar og útgefnar reglur. Þeim er ætlað að stuðla að trausti almennings á stjórn­sýslunni.

Hver og einn ráðherra gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum. Ráðherra getur í vafa­tilvikum leitað ráðgjafar hjá forsætisráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 115/2011.

Þeir sem telja ráðherra hafa brotið gegn siðareglunum geta komið ábendingum um það á fram­færi við umboðsmann Alþingis en hann gætir þess meðal annars að stjórnsýslan fari fram í samræmi við siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnar­ráð Íslands, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Telji einhver að brot á siðareglum hafi jafn­framt falið í sér að hann sjálfur hafi verið beittur rangsleitni er unnt að bera fram kvörtun við umboðsmann Alþingis, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

 

1. gr.

Frumskyldur.

 1. Ráðherra hefur almannahagsmuni ávallt að leiðarljósi í störfum sínum.
 2. Ráðherra hefur í heiðri lýðræðisleg gildi, mannréttindi og meginreglur réttarríkisins.
 3. Ráðherra starfar í anda gagnsæis, sannsögli, ábyrgðar og heilinda.
 4. Ráðherra sinnir starfi sínu af alúð, trúmennsku og heiðarleika. Hann beitir því valdi er fylgir embættinu á grundvelli laga og stjórnarskrár af hófsemi og sanngirni og án tillits til eigin hags­muna.

 

2. gr.

Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar.

 1. Ráðherra notfærir sér ekki stöðu sína í eiginhagsmunaskyni eða í þágu hagsmuna tengdra aðila.
 2. Ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónu­legra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Takist honum ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.
 3. Ráðherra upplýsir um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slík tengsl sem valdið geta hagsmuna­árekstrum.
 4. Ráðherra hefur ekki með höndum störf eða verkefni sem ósamrýmanleg eru embætti hans.
 5. Ráðherra gætir hófs í viðtöku gjafa og þiggur ekki verðmætar gjafir persónulega í krafti embættis síns. Halda skal skrá um gjafir til ráðherra og skal hún birt opinberlega.
 6. Ráðherra beitir sér fyrir því innan ráðuneytis og þeirra stofnana sem undir það heyra að tekið sé á hagsmuna­árekstrum þegar þeir koma upp og hann fær vitneskju þar um. Þá skal hann beita sér fyrir því að starfsfólk sé sér meðvitað um mögulega hagsmuna­árekstra og leiðir til að koma í veg fyrir þá.

 

3. gr.

Meðferð fjármuna.

 1. Ráðherra sýnir ráðdeild við meðferð fjármuna hins opinbera og hvetur starfsfólk ráðu­neytis síns til hins sama.
 2. Ráðherra nýtir ekki opinbera fjármuni eða gæði starfsins í persónulegum eða pólitískum tilgangi nema að svo miklu leyti sem lög og reglur leyfa.
 3. Ráðherra efnir ekki til móttöku fyrir hópa og samtök, sem hefur í för með sér útgjöld, nema slíkt samræmist starfsemi ráðuneytis.

 

4. gr.

Háttsemi og framganga.

 1. Ráðherra sýnir virðingu í samskiptum og leggur sig fram um að framganga hans sé til fyrir­myndar þannig að hún styðji við hugarfar heilinda og ábyrgðar hjá stjórnvöldum og almenn­ingi.
 2. Ráðherra hefur trúverðugleika embættis síns að leiðarljósi í allri framgöngu og virðir mann­réttindi og mannlega reisn í hvívetna.

 

5. gr.

Faglegir stjórnarhættir.

 1. Ráðherra leggur sig fram um að eiga gott samstarf við samráðherra og tryggir viðeigandi sam­ráð við þá um stjórnarmálefni.
 2. Ráðherra viðhefur faglega stjórnarhætti í hvívetna. Hann sér til þess að faglega sé staðið að skipun embættismanna og annars starfsfólks og leitar faglegs mats starfsfólks ráðuneytis síns áður en ákvarðanir eru teknar um einstök mál.
 3. Ráðherra virðir hlutleysi og faglegt sjálfstæði embættismanna og annarra starfsmanna.
 4. Ráðherra gerir skýran greinarmun á flokkspólitísku starfi, svo sem í tengslum við kosn­ingar, og verkefnum ráðuneytis síns hverju sinni. Hann felur starfsmönnum ráðuneyta, öðrum en aðstoð­ar­manni, ekki verkefni sem tengjast hinu fyrrnefnda.
 5. Ráðherra sér til þess að brugðist sé við ábendingum starfsmanna um siðferðilega ámælisvert eða ólögmætt athæfi í ráðuneyti hans eða á starfssviði ráðuneytisins. Hann gætir þess að starfsmenn sem benda á slíkt gjaldi ekki fyrir það.

 

6. gr.

Gagnsæi og upplýsingamiðlun.

 1. Ráðherra viðhefur gagnsæi um störf sín og ráðuneytis síns.
 2. Ráðherra leggur sig fram um að gera upplýsingar aðgengilegar í samræmi við lög og almenn viðmið og hefur frumkvæði að birtingu upplýsinga sem eru í almannaþágu. Hann beitir sér fyrir því að upplýsingum sé miðlað af nákvæmni, heilindum og með skýrum hætti.
 3. Ráðherra hefur frumkvæði að því að leiðrétta, eins fljótt og auðið er, rangar eða villandi upp­lýsingar, sem og hvers kyns misskilning er varðar málefni sem heyrir undir ráðherra.
 4. Ráðherra viðhefur virkt og skipulegt samráð við almenning og hagaðila á forsendum jafnræðis og með almannahagsmuni að leiðarljósi. Hann tryggir gagnsæi um samskipti við hagaðila.

 

7. gr.

Ábyrgð og eftirfylgni.

 1. Ráðherra ber ábyrgð gagnvart Alþingi og almenningi á ákvörðunum sínum og breytni. Honum ber að sýna samstarfsvilja séu störf hans tekin til skoðunar af hálfu Alþingis eða eftirlits­stofnana þess og eins þegar þingmenn óska eftir upplýsingum á grundvelli laga um þingsköp.
 2. Forsætisráðherra tryggir reglubundna fræðslu fyrir ráðherra um siðareglur og stuðlar að virkri samræðu um þær innan ríkisstjórnar.

 

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi siðareglur ráðherra, nr. 646/2022.

 

Forsætisráðuneytinu, 6. desember 2023.

 

Katrín Jakobsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 8. desember 2023