Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 313/2020

Nr. 313/2020 3. apríl 2020

AUGLÝSING
um framkvæmd námsmats við Háskólann á Akureyri á vormisseri 2020.

Þrátt fyrir ákvæði reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009, reglna um námsmat við Háskólann á Akureyri nr. 921/2018 og annarra reglna háskólans sem í gildi eru um kennslu, fyrirkomu­lag prófa og námsmat gildir eftirfarandi ákvæði um vormisseri háskólaársins 2019-2020:

Deildum er heimilt í nánu samráði við forseta viðkomandi fræðasviðs að ákveða hvernig fram­kvæmd kennslu, prófa og námsmats vegna vormisseris 2020 verður fyrir komið. Skal leitast við að fara eftir gildandi reglum um námsmat eftir því sem unnt er.

Ákvæði námsmatsreglna um að nemendur þurfi að ná lágmarkseinkunn í öllum námsmats­þáttum mun ekki gilda á vormisseri 2020. Vegið meðaltal allra námsmatsþátta gildir þá sem loka­einkunn. Nemendur sem staðist hafa námsmat í námskeiði á vormisseri samkvæmt ákvörðun deildar geta óskað eftir að fá birtri lokaeinkunn breytt í „staðið“ á námsferli.

Gjald vegna skráningar í endurtökupróf verður ekki innheimt á vormisseri 2020.

Deildir skulu leitast við að hafa samráð um breytingarnar við fulltrúa stúdenta eftir því sem kostur er. Markmiðið er að létta álagi af nemendum vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem nú eru uppi og gera nemendum kleift að ljúka námi á vormisseri 2020 þannig að það hindri ekki frekari framgang í námi eða starfi næsta árs.

Auglýsing þessi, sem háskólaráð hefur samþykkt, er birt með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og taka ákvæði hennar þegar gildi.

 

Háskólanum á Akureyri, 3. apríl 2020.

 

Eyjólfur Guðmundsson rektor.


B deild - Útgáfud.: 6. apríl 2020