Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 173/2011

Nr. 173/2011 10. febrúar 2011
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð.

I. KAFLI

Um stjórn fjallskila.

1. gr.

Eyþing skal annast yfirstjórn allra fjallskilamála á fyrrverandi starfssvæði héraðsnefndar Eyjafjarðar sem var: Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarbær, Eyja­fjarðar­sveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Grýtubakkahreppur. Sveitarfélög þessi eru eitt fjallskilaumdæmi, Eyjafjarðarfjallskilaumdæmi. Hvert sveitarfélag innan fjallskila­umdæmisins er sérstök fjallskiladeild, nema þar sem sveitarfélög eru sameinuð, þar skulu umdæmi fjallskiladeilda haldast óbreytt frá því sem áður gilti og upprekstrar­réttur standa óbreyttur miðað við eldri skipan nema um annað sé samið. Eyþing getur heimilað sameiningu tveggja eða fleiri fjallskiladeilda óski viðkomandi sveitarstjórnir eftir sameiningu að undangengnu fundarsamþykki meirihluta fjallskila­skyldra aðila í hverri eða hvorri fjallskiladeild enda hafi verið boðað til fundarins með dagskrá.

2. gr.

Eyþing hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála í fjallskilaumdæminu en því til ráðgjafar skal vera fjallskila- og markanefnd skipuð þremur mönnum, markaverði fjallskilaumdæmisins og tveimur mönnum skipuðum af Eyþingi úr hópi fjallskilastjóra í Eyjafjarðarfjallskilaumdæmi og tveimur til vara. Nefndin skal skipuð til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Markavörður skal vera formaður nefndar­innar. Nefndin getur fjallað um allt er varðar fjallskil, mörk og markaskrá fjallskila­umdæmisins.

Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd fjallskilamála í hverri fjallskiladeild, sbr. 2. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

3. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að kjósa fjallskilanefnd eða fela annarri nefnd á vegum sveitar­félagsins að annast framkvæmd fjallskilamála í umboði sveitarstjórnar. Í hverri fjallskila­deild skal vera fjallskilastjóri sem hefur yfirumsjón með öllum fjallskilamálum deildar­innar. Þar sem fjallskiladeildir hafa verið sameinaðar, skulu sveitarstjórnir kjósa fjallskila­stjóra sameiginlega.

II. KAFLI

Um bókhald og fjallskilasjóði.

4. gr.

Í hverju sveitarfélagi ber að skrá í sérstaka fjallskilabók eða gerðabók sveitarstjórnar allt það sem máli skiptir um afréttar- og fjallskilamál í sveitarfélaginu. Skrá skal vera til yfir allar afréttir og ógirt heimalönd sem liggja að afréttum innan deildarinnar, merkjum þeirra lýst og tekið fram hvaða jarðir eiga upprekstur á hvern afrétt, svo og hverjir séu afréttareigendur. Þá ber að skrá allar breytingar á afréttum og réttindum yfir þeim. Eyþing getur krafist afrits af fjallskilabókum eða gerðabókum sveitarstjórna og öðru því sem snertir fjallskil.

5. gr.

Til að standa straum af þeim kostnaði, er af fjallskilum leiðir, getur sveitarstjórn stofnað sjóð, sem fjallskilasjóður nefnist og skal hann þá endurskoðaður á sama hátt og sveitarsjóðsreikningur og fylgja honum.

Í sveitarfélögum þar sem ekki er sérstakur fjallskilasjóður skulu tekjur og gjöld vegna þessa málaflokks vera aðgreinanleg í ársreikningum sveitarfélagsins.

Kostnaði sem af fjallskilum leiðir og ekki hefur verið jafnað niður á búfjáreigendur sem dagsverkum, skal greiða úr fjallskilasjóði og/eða sveitarsjóði.

Tekjur fjallskilasjóðs geta verið:

  1. Niðurjafnað gjald samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar á allt fjallskilaskylt búfé í fjallskiladeildinni og skal tala þess vera fengin úr forðagæsluskýrslum.
  2. Andvirði óskilabúfjár.
  3. Bætur fyrir gangnarof skv. 19. gr. þessarar fjallskilasamþykktar.
  4. Tillag úr sveitarsjóði eftir ákvörðun sveitarstjórnar sbr. 46. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
  5. Álagt gjald á landverð jarða sbr. 42. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

III. KAFLI

Um afrétti og notkun þeirra.

6. gr.

Land sem fjallskilaframkvæmd tekur til getur skipst í afrétti og ógirt heimalönd eftir því sem við á. Þar sem almenningar (óbyggðir) þurfa hreinsunar við, tekur fjallskila­framkvæmd til þeirra, eftir því sem þörf krefur og nánar er fyrir mælt í samþykkt þessari og lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

7. gr.

Eigendum og/eða ábúendum jarða er heimilt að nota ógirt heimaland og afrétt, sem liggur undir einstaka jörð til upprekstrar eigin búfjár. Enginn má hins vegar leyfa öðrum afnot ógirtra heimalanda sinna eða afrétta til upprekstrar nema það sé heimilað af sveitarstjórn. Um upprekstrarrétt á afréttarland, sem liggur undir einstaka jörð eða stofnun, fer eftir fornri venju eða samningum.

Ábúendum eða eigendum jarða sem og öðrum landeigendum, er skylt að hafa girðingar sem aðskilja tún, engi og bithaga frá upprekstrarheimalandi, fjárheldar hverjum á sínu landi og bera kostnað af því. Girðingar þessar skulu vera í fjárheldu ástandi þann tíma sem sveitarstjórn krefst. Sinni landeigandi ekki þessari kröfu lætur sveitarstjórn gera við girðinguna á kostnað landeiganda. Ef ábúendur jarða er næst liggja afrétti verða fyrir ágangi afréttarfénaðar geta þeir óskað eftir girðingu er varni áganginum, sbr. 32. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Kostnaði við girðingu skal skipt skv. ákvæðum girðingalaga nr. 135/2001 og er þá bæði átt við stofnkostnað og viðhalds­kostnað. Sá er tekur búfé í hagagöngu ber sömu ábyrgð á því og væri það hans eigin, hvað varðar fjallskil, ágang og usla í annarra landi.

Liggi heimalönd fjallskiladeilda saman og hagkvæmt þykir að nota þau til upprekstrar í sameiningu geta hlutaðeigandi sveitarstjórnir gert samþykkt um notkun þeirra á sama hátt og ætti ein fjallskiladeild í hlut. Upprekstrarheimalönd ber að skoða sem afrétt, að því er snertir löggöngur að hausti, aðrar en eftirleitir.

8. gr.

Upprekstrarrétt á afrétt sveitarfélags, eða annars upprekstrarfélags, eiga allir búfjár­eigendur, sem landnot hafa í sveitarfélagi eða á félagssvæði. Um afréttargjald til eigenda afréttarlands fer eftir samningi eða, ef samkomulag næst ekki, eftir ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar. Þó getur sá aðili, sem eigi vill una ákvörðun sveitarstjórnar, krafist mats dómkvaddra manna, sbr. 8. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Ákvörðun um afréttargjald, hvort heldur ákveðin er með samningi eða eftir mati, gildir aldrei fyrir lengri tíma en 6 ár í senn.

9. gr.

Hve margt afréttarpenings má reka á hverja afrétt eða ógirt heimaland fer eftir III. kafla laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

IV. KAFLI

Rekstur til afrétta.

10. gr.

Vorsmölun skal aðeins gerð ef ósk bænda liggur fyrir um hana og þá eftir nánari fyrirmælum sveitarstjórnar.

11. gr.

Sveitarstjórn getur ákveðið hvenær búfé má reka til afréttar. Frá 15. júní til 1. september eru smalanir eða annað það er ónæði veldur afréttarpeningi óheimilar, nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Geti búfjáreigandi ekki fengið upprekstrarleyfi ber honum að leita aðstoðar sveitarstjórnar.

Verði ágangur búfjár úr einu heimalandi í annað getur sá er fyrir verður leitað til sveitar­stjórnar um aðstoð. Sveitarstjórn ber þá að láta smala ágangsfénaði og reka þangað sem hann á að vera á kostnað eiganda, sbr. 33. gr. laga nr. 6/1986 um afrétta­málefni, fjallskil o.fl. Búfé sem sérstaklega er áleitið við girðingar, matjurtagarða og skrúðgarða skal eigandi sækja þegar tilkynnt er um það og setja í örugga vörslu. Um fram­kvæmdina fer eftir ákvæðum 34. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

12. gr.

Hver eigandi eða umráðamaður upprekstrarlands skal gefa upp hverjir noti það og fyrir hve margt búfé þegar sveitarstjórn óskar eftir.

V. KAFLI

Um fjallskil að hausti.

13. gr.

Haustgöngur sauðfjár skulu vera tvennar. Þeim fyrri skal lokið eigi síðar en 20. september og þeim síðari ekki síðar en 26. september. Við tímasetningu gangna skal haft samráð milli samliggjandi fjallskiladeilda og þess ávallt gætt að að minnsta kosti aðrar hvorar göngurnar séu gengnar samhliða, enda séu engar náttúrulegar aðstæður eða girðingar sem hamli samgangi búfjár. Heimilt er sveitarstjórnum að víkja frá ofangreindum tímaramma en það skal þó ávallt gert í samráði við nágrannasveitarfélög.

Eftir fyrri göngur er fjáreigendum óheimilt að sleppa sauðfé á afrétt eða í ógirt heimalönd, nema með leyfi sveitarstjórnar. Samhliða seinni göngum skulu landeigendur afgirtra heimalanda smala þau lönd og gera full skil á því fé sem þar er. Einnig er sveitarstjórn heimilt að fyrirskipa smölun heimalanda samhliða fyrri göngum.Í fjallskila­deildum sem eiga land að öðrum fjallskilaumdæmum skal leitast við að hafa samráð um gangnadaga við viðkomandi aðila.

Að göngum loknum ber að gera eftirleit á afréttum og í ógirtum heimalöndum eftir því sem sveitarstjórn ákveður.

14. gr.

Eigi síðar en 15. júlí ár hvert skal auglýsa dagsetningu gangna komandi hausts. Fjallskilastjóri skal raða gangnadagsverkum og öðrum áætluðum fjallskilakostnaði niður á fjáreigendur í fjallskiladeildinni og aðra þá er nota þar upprekstrarland á því ári. Skal tilkynning um gangnaskyldu manna send út í síðasta lagi 10 dögum fyrir gangnadag. Raða skal dagsverkum niður eftir tölu fjallskilaskylds búfjár, sem fengin er úr forðagæsluskýrslum. Leggja skal jafnmargt búfé í dagsverk hjá öllum búfjáreigendum, sem nýta sameiginlegan afrétt og/eða gangnasvæði, hvort sem þeir eiga margt eða fátt. Sveitarstjórn er þó heimilt að víkja frá þessari reglu og ákveða nánar hvernig sú breyting skuli gerð, enda sé hún innan ramma laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Heimilt er einnig að leggja allt að einn þriðja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða skv. fasteignamati, en ekki má leggja á verð ræktaðs lands og hlunninda. Ef heimild þessi er notuð skal vera sama álagningarhlutfall á landverð allra jarða innan viðkomandi sveitarfélags.

Falli sveitarfélag eða hluti þess úr byggð, þannig að enginn búfjáreigandi sleppir á heilu gangnasvæðin, skal leggja fjallskil á það land eins og önnur eignarlönd í fjallskila­deildinni. Það sem þá stendur útaf til að fullmanna gangnasvæðið skal fjár­magnað af viðkomandi sveitarsjóði, sbr. ákvæði. 41. og 46. gr. laga nr. 6/1986 um afrétta­málefni, fjallskil o.fl.

Tilnefna skal réttarstjóra við allar heimilaðar réttir í hverri fjallskiladeild og úrtíningsmenn eftir þörfum í réttir innan og utan fjallskiladeildar. Þá skal setja gangnaforingja fyrir öll gangnasvæði fjallskiladeildarinnar. Enginn getur skorast undan að vera gangnaforingi nema hann sé ófær til þess sakir elli eða heilsuleysis.

15. gr.

Noti búfjáreigandi upprekstrarland fyrir búfé sitt utan sinnar heimafjallskiladeildar, ber honum að gera fjallskil eftir þeim búfjárfjölda er hann hefur þar sleppt og samkvæmt þeim reglum er þar gilda.

16. gr.

Hverjum þeim sem ber að inna af hendi fjallskil er skylt að gera þau á þann hátt, sem sveitar­stjórn leggur á hann.

Heimilt er þó í hverri fjallskiladeild að veita þeim, sem hafa fé sitt í sauðheldum girð­ingum sumarlangt, undanþágu frá fjallskilum að hluta eða öllu leyti.

17. gr.

Verði ágangur búfjár frá einu sveitarfélagi í annað sbr. 2. mgr. 47. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. eða frá einu fjallskilaumdæmi í annað getur sá, er fyrir verulegum ágangi verður, krafið hinn aðilann um gjald fyrir eða að hann sendi menn í göngur, eftir því sem hæfilegt þykir miðað við gangnakostnað og usla í högum. Viðkomandi sveitarstjórnum er skylt að semja sín á milli um hæfilega gjaldtöku í tilvikum sem þessum og/eða setja sér reglur um fyrirkomulag. Náist ekki samkomulag skal krafist mats dómkvaddra manna, sbr. 8. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

18. gr.

Sveitarstjórnir skipta fjallskiladeildum í gangnasvæði og ákveða hvernig göngum skuli hagað, og hvað gangnamenn séu margir í hverjum göngum, einnig í hvaða rétt sé réttað af hverju gangnasvæði. Þessi atriði skal skrá í fjallskilabók eða gerðabók sveitarstjórnar.

19. gr.

Gangnaforingjar skulu vera sjálfir í göngum, nema gild forföll hamli, ber þeim þá að setja í staðinn fullgilda menn að mati fjallskilastjóra. Gangnaforingi sker úr um það hverjir séu fullgildir gangnamenn. Ber þeim að raða mönnum í göngur eftir getu þeirra og kunnugleika, en forðast að óvanir gangnamenn fari á þau svæði þar sem þeim getur verið hætta búin.

Gangnaforingjum ber skylda til að tilkynna fjallskilastjóra um gangnarof. Sá sem ekki mætir eða sendir fullgildan gangnamann í göngur á þeim stað og tíma, er honum hefur verið gert að skila gangnadagsverki, telst hafa framið gangnarof. Skal hann þá greiða fyrir gangnarof í sveitar- eða fjallskilasjóð, sem svarar einu og hálfu dagsverki eins og það er metið á hverjum tíma, eftir ákvörðun sveitarstjórnar.

20. gr.

Sveitarstjórnum er skylt að sjá um að gangnamenn sem sérstaklega eru ráðnir á þeirra vegum séu slysatryggðir meðan á smölun og skilum stendur. Kostnaður sem af því leiðir greiðist úr fjallskilasjóði eða sveitarsjóði.

21. gr.

Gangnaforingjar skulu sjá um að fjallsöfn séu rekin tafarlaust til rétta eða í aðhald þar sem ekki er réttað samdægurs. Telst það gangnarof ef gangnamaður yfirgefur safnið fyrr, þó að smölun sé lokið.

22. gr.

Reynist fé enn á afréttum eftir að haustgöngum er lokið, skal fjallskilastjóri sjá um, að eftir því sé leitað svo fljótt sem kostur er.

23. gr.

Nú liggja öræfi, þar sem fjárvon kann að vera, að afréttum eða öðrum sumar­göngu­löndum og skulu þá sveitarstjórnir hlutast til um að þau séu leituð að minnsta kosti einu sinni á hausti. Fé sem finnst í öræfaleitum má sveitarstjórn láta lóga.

24. gr.

Hver landeigandi er skyldur að hirða kindur sem sjást í hans landi eftir að fjallskilum er lokið, sbr. 53. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Sé það innansveitarfé ber honum að tilkynna eigendum um það. Um utansveitarfé ber að tilkynna til fjallskilastjóra.

25. gr.

Verði fjár vart í ógöngum er þeim er það sér, skylt að tilkynna það fjallskilastjóra. Skal hann þá leitast við að fá færa menn til að bjarga fénu. Sé björgun óframkvæmanleg eða of hættuleg að dómi björgunarmanns, eða aðstæður það örðugar að tvöfalt verð fjárins hrökkvi ekki fyrir björgunarkostnaði, er skylt að skjóta féð sé það unnt. Takist björgun kinda úr slíkum ógöngum, greiðir eigandi kindar hálft verð hennar fyrir björgun, en sveitarsjóður þar sem eigandi er heimilisfastur hinn hluta kostnaðar, sbr. 57. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

VI. KAFLI

Um réttir og réttahald.

26. gr.

Sveitarstjórn ber að sjá um, að til sé á hverjum réttarstað hæfilega stór rétt og nægilegt dilkarými við hverja rétt, svo og að réttinni sé vel við haldið, sbr. 49. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Réttir í fjallskiladeildum skulu vera:

Sveitarfélög og deildir:

Aðalréttir:

Aukaréttir:


Grýtubakkahreppur


Gljúfurárrétt


Svalbarðsstrandarhreppur


Dálksstaðarétt


Geldingsárrétt


Eyjafjarðarsveit


Þverárrétt


Munkaþverárrétt,

Rifkelsstaðarétt

Möðruvallarétt

Vatnsendarétt,

(fyrir sauðfé)

Gullbrekkurétt,

Melgerðismelarétt

Vallarétt,

(fyrir hross)

Litla-Dalsrétt,

Ystagerðisrétt

Hraungerðisrétt


Akureyri


Glerárrétt


Hörgársveit

- Glæsibæjardeild

Þórustaðarétt

- Öxnadalsdeild

Þverárrétt

Gloppurétt

- Skriðudeild

Staðarbakkarétt

Þorvaldsdalsrétt

- Arnarnesdeild

Reistarárrétt


Dalvíkurbyggð

- Árskógsdeild

Árskógsrétt

- Svarfaðardalsdeild

Tungurétt

- Dalvíkurdeild

Dalvíkurrétt


Fjallabyggð

- Ólafsfjarðardeild

Reykjarétt

Kálfsárrétt

- Siglufjarðardeild

Siglufjarðarrétt

Héðinsfjarðarrétt

Sveitarstjórn má leyfa að fjallsöfn séu rekin í heimaréttir til sundurdráttar, en setur þá ákveðin fyrirmæli um hvernig skuli með úrtíning farið.

Tilfærsla á rétt, bygging nýrrar, svo og niðurfelling réttar skal tilkynnt til Eyþings og skráð í fjallskilabók eða gerðabók sveitarstjórnar.

27. gr.

Hver aukarétt og/eða heimarétt heyrir undir aðalrétt sömu fjallskiladeildar. Úrtíningsfé úr aukaréttum og heimaréttum skal rekið eða flutt til aðalréttar af mönnum sem sveitarstjórn hefur til þess kvatt. Einnig getur sveitarstjórn ákveðið að dregið skuli upp í hverri rétt. Vegna hættu á dreifingu sauðfjársjúkdóma getur sveitarstjórn bannað flutning milli rétta. Enginn má reka eða flytja fé frá rétt fyrr en úrtíningur hefur verið að fullu sundur dreginn, nema réttarstjóri leyfi.

28. gr.

Sundurdráttur í réttum skal hafinn svo fljótt sem unnt er. Draga skal eftir markaskrám eftir því sem þörf krefur. Sveitarstjórn tilnefnir tvo markskoðunarmenn sem ásamt fjallskilastjóra skera úr um vafamörk. Með ómerkinga og annan óskilapening skal farið samkvæmt VIII. kafla laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

VII. KAFLI

Um mörk og markaskrá.

29. gr.

Markaskrá skal gefin út í Eyjafjarðarfjallskilaumdæmi eigi sjaldnar en 8. hvert ár sbr. 66. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. og reglugerð nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.

30. gr.

Hverjum búfjáreiganda er skylt að hafa glöggt mark á búfé sínu, sbr. 63. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Búfjármörk eru örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Lömb skulu eyrnamörkuð eins fljótt og tök eru á, sleppi þau á fjall eða fæðist þar skulu þau mörkuð svo fljótt sem til þeirra næst.

Heimilt er að brennimerkja númer lögbýlis eða eiganda, sýslutákn og númer fjallskila­deildar á horn. Við sönnun á eign á búfé er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark.

31. gr.

Í markaskrá skal vera skrá yfir sýslutákn og númer fjallskiladeilda, sem eru eftirfarandi í samræmi við núverandi eða eldri sveitarfélagaskipan:

Öngulsstaðadeild

E01

Svarfaðardalsdeild

E09

Saurbæjardeild

E02

Dalvíkurdeild

E10

Hrafnagilsdeild

E03

Grýtubakkadeild

Þ12

Glæsibæjardeild

E04

Svalbarðsstrandardeild

Þ13

Öxnadalsdeild

E05

Akureyrardeild

Ak

Skriðudeild

E06

Grímseyjardeild

Grý

Arnarnesdeild

E07

Ólafsfjarðardeild

Ól

Árskógsdeild

E08

Siglufjarðardeild

Sigl

Þá skal vera í markaskránni bæjarnafnaskrá og/eða einstaklingsskrá markeigenda utan lögbýla. Bæjarnúmer lögbýla skulu halda sér þótt ekki séu í ábúð.

32. gr.

Um fjármörk, merkingar á búfé og útgáfu markaskrár fer að öðru leyti eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár nr. 200/1998 og reglugerð um merkingu búfjár nr. 289/2005.

VIII. KAFLI

Um hross og geldneyti.

33. gr.

Upprekstri stórgripa (hrossa og geldneyta) í afrétt, skal haga í samræmi við ákvarðanir sveitarstjórnar og samkvæmt ákvæðum 11. gr. þessarar samþykktar.

34. gr.

Gangi stórgripir úr afrétti í heimalönd, geta þeir sem fyrir áganginum verða, gert sveitarstjórn aðvart. Skal hún þá skipa fyrir um smölun ágangspenings og rekstur til afréttar eða skilaréttar sbr. 31. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Heimilt er að innheimta kostnað vegna ágangspenings hjá eiganda þess.

35. gr.

Á vetrum ber eigendum og umráðamönnum stórgripa skylda til að sjá um að þeir gangi ekki í heimalönd annarra og eru þeir ábyrgir fyrir tjóni og kostnaði er af því kann að leiða, eftir mati tveggja manna er sýslumaður tilnefnir.

36. gr.

Sveitarstjórnir geta látið smala öllum stórgripum af afréttum og heimalöndum til rétta fyrir lok októbermánaðar, ef þörf er á. Skulu þeir dregnir þar í sundur. Enginn má hleypa út úr dilk fyrr en réttarstjóri leyfir. Með óskilagripi sem þá koma fyrir, skal fara samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

IX. KAFLI

Ýmis ákvæði.

37. gr.

Sýslumaður sker úr ágreiningi milli sveitarstjórna út af fjallskilamálum. Þá heyra undir úrskurð hans allar kærur og kröfur á hendur sveitarstjórnum, er snerta fjallskilamál. Ennfremur geta einstakir aðilar lagt slík ágreiningsmál undir úrskurð sýslumanns.

38. gr.

Brot gegn ákvæðum þessarar fjallskilasamþykktar geta varðað sektum og skal fara með mál út af þeim að hætti opinberra mála.

39. gr.

Fjallskilasamþykkt þessa hefur nefnd á vegum Eyþings samið skv. I. kafla laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Aðalfundur Eyþings árið 2010 hefur tekið hana til afgreiðslu og samþykkt. Fjallskilasamþykkt þessi sem sett er með heimild í lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., öðlast þegar gildi. Með staðfestingu hennar er úr gildi felld Fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög á svæði héraðsnefndar Eyjafjarðar nr. 439/2002.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 10. febrúar 2011.

F. h. r.

Kristinn Hugason.

Arnór Snæbjörnsson.

B deild - Útgáfud.: 24. febrúar 2011