Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 891/2019

Nr. 891/2019 23. september 2019

REGLUGERÐ
um vöktun á kampýlóbakter í alifuglum og alifuglakjöti.

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Markmiðið með þessari reglugerð er að tryggja að gripið sé til réttra og skilvirkra ráðstafana til að greina og verjast kampýlóbakter bakteríum á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar alifugla­kjöts, í því skyni að draga úr algengi þeirra og þeirri hættu sem þær geta stefnt matvæla­öryggi og lýðheilsu í, sbr. reglugerð nr. 1011/2011, um varnir gegn salmonellu og öðrum tilteknum smit­völdum mannsmitanlegra dýrasjúkdóma sem berast með matvælum.

Með þessari reglugerð eru settar nákvæmar reglur um vöktun á kampýlóbakter, sbr. reglugerð nr. 1048/2011, um vöktun súna og súnuvalda.

Reglugerð þessi tekur til vöktunar á kampýlóbakter í frumframleiðslu alifuglakjöts, við slátrun alifugla og við dreifingu alifuglakjöts á markaði.

2. gr.

Skilgreiningar.

Alifuglar: Aldir fuglar, þ.m.t. fuglar sem ekki eru taldir til húsdýra en eru aldir sem húsdýr.

Eldishópur: Allir alifuglar við sama heilbrigðisástand sem haldnir eru í sama húsnæði eða innan sömu girð­ingar og mynda eina faraldsfræðilega einingu. Ef um er að ræða alifugla sem hafðir eru í húsi eru taldir með allir fuglar sem deila sama loftrými.

Frysting: Meðhöndlun afurða þar sem hitastig matvæla skal vera stöðugt -18°C eða lægra í að minnsta kosti tvær vikur.

Hitameðhöndlun: Hitameðferð þar sem kjarnhiti hefur náð 72°C í að minnsta kosti 15 sekúndur eða önnur sambærileg meðferð að mati Matvælastofnunar. Hitameðhöndlun telst fullnægjandi þegar ekki finnst kampýlóbakter í 10 g eftir hitameðhöndlun.

Meðhöndlun: Frysting eða hitameðhöndlun.

Sláturhópur: Eldishópur eða hluti af eldishópi sem slátrað er á sama degi.

3. gr.

Opinbert eftirlit.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerðin tekur til.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með framkvæmd og eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt, í samræmi við 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli.

Matvælastofnun gefur út landsáætlun um varnir og viðbrögð vegna kampýlóbakter í alifugla­rækt og afurðum alifugla, samkvæmt reglugerð nr. 1048/2011, um vöktun súna og súnuvalda.

4. gr.

Vöktun á kampýlóbakter fyrir dreifingu á alifuglakjöti.

Ófrystar eða óhitameðhöndlaðar sláturafurðir alifugla á markaði skulu vera af alifuglum þar sem staðfest hefur verið með sýnatöku í eldishópi á eldistímanum eða sláturhópi við slátrun, að ekki hafi greinst kampýlóbakter í viðkomandi hópi. Eldissýni sem notað er til grundvallar má ekki vera eldra en fimm daga gamalt fyrir slátrun. Að öðrum kosti skulu liggja fyrir rannsóknarniðurstöður úr við­kom­andi afurðum þar sem staðfest hefur verið að ekki hafi greinst kampýlóbakter í viðkomandi framleiðslulotu.

Rannsóknarniðurstöður skulu liggja fyrir áður en sláturafurðum er dreift á markaði.

5. gr.

Túlkun niðurstaðna.

Eldishópur telst greindur með kampýlóbakter ef kampýlóbakter spp. greinist í safnsýni. Ef í slátur­sýni hópsins greinist ekki kampýlóbakter spp. telst hópurinn ekki greindur með kampýló­bakter.

Sláturhópur telst greindur með kampýlóbakter ef kampýlóbakter spp. greinist yfir greiningar­mörkum (>10 cfu/g) í safnsýni.

Framleiðslulota telst greind með kampýlóbakter ef kampýlóbakter spp. greinist í safnsýni.

6. gr.

Vöktun á smitmagni kampýlóbakter við slátrun.

Taka skal hálsaskinnssýni úr sláturhópum kjúklinga og kalkúna og bregðast við niðurstöðum skv. fyrirmælum Matvælastofnunar eins og þau koma fram í landsáætlun Matvælastofnunar um varnir og viðbrögð vegna kampýlóbakter í alifuglarækt og afurðum alifugla skv. 3. gr.

7. gr.

Skyldur matvælafyrirtækja.

Matvælafyrirtæki skulu framkvæma sýnatökur vegna vöktunar á kampýlóbakter sem vísað er til í 4. og 6. gr. í samræmi við I. viðauka. Matvælafyrirtæki skulu geta framvísað niðurstöðum rann­sókna sýna í a.m.k. 5 ár.

Matvælafyrirtæki bera allan kostnað við sýnatöku og rannsókn sýna.

Matvælafyrirtæki skulu upplýsa Matvælastofnun um niðurstöður rannsókna á sýnum samkvæmt C-lið I. viðauka.

8. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 6. mgr. 8. gr. a og 29. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sem og 31. gr. a laga nr. 93/1995, um matvæli, og með hliðsjón af reglugerð nr. 1048/2011, um vöktun súna (sjúkdóma sem smitast á milli manna og dýra) og súnuvalda og reglu­gerð nr. 1011/2011, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2160/2003, um varnir gegn salmonellu og öðrum tilteknum smitvöldum mannsmitanlegra dýrasjúkdóma sem berast með matvælum. Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2020.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 23. september 2019.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristján Skarphéðinsson.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 14. október 2019